19.12.1951
Sameinað þing: 26. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (675)

1. mál, fjárlög fyrir árið 1952

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Það er komið svo, að flestir þm. eru flúnir, enda liðið langt fram á nótt; fundur stóð til kl. 3 s.l. nótt, og nefndarfundir og þingfundir hafa staðið síðan kl. 8 í morgun, og nú er þegar liðið á 3. tímann. En ég kemst ekki hjá því að reyna á þolinmæði hæstv. forseta og svara nokkru af því, sem hér hefur verið borið sumpart á ríkisstj. og sumpart á fjvn. í sambandi við þessar umr., sem staðið hafa siðan kl. 4 í dag og ég hef mest af tímanum orðið að hlusta á.

Ég skal þá fyrst leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem hefur verið útbýtt frá meiri hl. fjvn. síðan ég flutti mína framsöguræðu hér í gær. Það er fyrst brtt. á þskj. 519. Þar leggur n. til, að hækkaður verði tekju- og eignarskattur um 4 milljónir og verðtollur verði hækkaður um 12 milljónir, stimpilgjald um 1 millj., tóbakseinkasalan um 2.5 millj., og lýsti ég þessu nokkuð í framsögu. En þetta gerir allt 19.5 millj. kr., og verður þá nokkuð hagstæður greiðslujöfnuður, eins og ég gat um í framsöguræðu. — Þá er enn fremur lagt til í 5. till. á þessu þskj., að niður falli nokkrir liðir á 18. gr., en það eru menn, sem hafa látizt og fengin er vitneskja um síðan fyrra þskj. var gefið út.

Í sambandi við 6. till., sem er heimild til ríkisstj. á 22. gr. fjárl. til að hækka úr 11/2 millj. í 8 millj. lán til raforkuframkvæmda, þá hefði mér þótt eðlilegt í sambandi við ummæli hv. þm. N-Ísf., að hann hefði sýnt sama manndóm í að biða hér til loka umr. til að fá þau svör, sem hann bað um, eins og hann sýndi við það að kasta óverðskulduðum ádeilum á fjvn. fyrir ákveðna afgreiðslu málsins, sem hann hefur ekki heldur botnað í, hvorki upp né niður, og virðist ekki þekkja sjálft málið til hlítar. En hann er ekki við. Ég skal samt skýra frá því, að það fylgja engar upplýsingar í sambandi við það, hvernig þessum 8 millj. skuli varið, þar er engin sundurliðun á því, hvort þær skuli fara til Vestfjarða eða annarra landshluta. Það er aðeins heimild til að taka lán til slíkra raforkuframkvæmda, og fjvn. lítur svo á, að það sé ekki á þessu stigi málsins hennar hlutverk að skipta því fé. sem varið er til þessara raforkuframkvæmda í landinu. Til þess hafa verið valdir aðrir menn, önnur enn voldugri n., sem heitir raforkuráð, að gera till. um þessi mál. Fjvn. telur sig ekki hafa leyfi til þess að grípa þar inn í, enda ekki unnt fyrir hana að gera það eins og búið hefur verið um þessi mál. Það var þess vegna ómögulegt fyrir hv. þm. N-Ísf. að ætlast til þess, að við gætum bundið þetta atriði við neinn sérstakan stað, og hefði ég þó óskað eftir því, að mest af þessu hefði getað farið til Vestfjarða, en það var ekki í okkar verkahring að ákveða það. Þetta þótti mér rétt að taka fram í sambandi við þessa till.

Um 7. till. á þessu þskj., sem hv. 1. þm. Árn. ræddi nokkuð um, er það að segja, að okkur þótti rétt að leggja til, að þetta yrði greitt á þremur árum, en þetta er upphæð, sem hefur verið varið til þess að leggja veg, Þorlákshafnarveg, sem er í þjóðvegatölu og var kominn í þjóðvegatölu það ár, sem verkið var unnið, þó að fyrir einhvern misskilning hafi þetta ekki verið tekið upp og greitt fyrr, enda hefur ekki komið um það beiðni til fjvn., og mun það stafa af því, að hafnarn. hafi hugsað sér að geta fengið þetta greitt óskipt af hafnarfé. Hefur fjvn. rætt um þetta við ríkisstj., og það er í samráði við hæstv. fjmrh., að þessu er skipt svona, og kvaðst hann mundu taka við heimildinni á þennan hátt og nota hana. Þykir mér rétt að láta það koma fram í umr.

Þá er hér till. á þskj. 523 frá meiri hl. fjvn., að til fangahjálpar skuli varið 60 þús. kr. samkvæmt ákvörðun dómsmrh. N. hefur fengið margvísleg gögn í hendur í sambandi við þetta merkilega mál, sem er nýmæli hér í okkar landi, en hefur þó vakið svo mikla athygli, að ég hef sjálfur séð meðmæli ekki ómerkari manns en Guðmundar Grímssonar dómara í Kanada, þar sem hann ritar mjög vinsamlega um þetta mál á Íslandi og telur mikilsvert fyrir okkar þjóð að koma þessu á fót. Mér er persónulega kunnugt, að það hefur komið töluvert fé frá einstökum mönnum, sem skotið hafa saman til þess að standa undir þessari starfsemi. Það hefur mikil fórnfýsi verið sýnd í þessu máli, og fjvn. hefur á þessu ári fengið fullkominn skilning á því í sambandi við viðræður við fangavörðinn á Litla-Hrauni, hversu áríðandi það er, að ungir menn, sem þaðan koma, séu einangraðir frá þeim félagsskap, sem þeir hafa lent í, og hjálpað yfir örðugleikana. Ég vænti því, að þessi till. verði samþ. Þetta hefur einnig verið rætt við hæstv. dómsmrh., sem er þess fýsandi, að það verði svo.

Þá vildi ég fara nokkrum orðum um till. hv. 2. minni hl., hv. 6. landsk., sem nú hefur flúið hér af hólmi eftir að hafa sett fram sínar till. og mjög mælt fyrir því, að þær verði samþ., og einnig gert harða hríð að fjvn. og ríkisstj. fyrir að afgr. fjárl. eins og þau eru nú. Hann leggur hér til, — og kveður sinn flokk standa að því óskiptan, — að tekjuhliðin sé hækkuð enn um tæpar 30 millj. frá því, sem meiri hl. fjvn. leggur til. Mér þykir rétt í þessu sambandi að láta ekki hæstv. fjmrh. bera einan ábyrgð á þessum gerðum eða láta líta svo út sem þetta séu óskir hans eins, það er siður en svo, því að það er þrautrætt við hæstv. ráðh. af mér persónulega, og meðan ég sit sem form. fjvn., þá þykir mér skylt að finna til ábyrgðar í sambandi við afgreiðslu fjárl., burtséð frá því, hvaða flokks maður situr sem fjmrh. Þessi atriði eru þrautrædd við hæstv. fjmrh., og mér er ómögulegt að sjá, að nokkurt vit sé í að áætla hærri tekjur en gert er hjá meiri hl., ef á að treysta því, að ríkisreikningurinn 1952 komi út með hagnaði. En til þess þurfa áreiðanlega að verða yfir 400 millj. kr. tekjur á árinu, og sé ég ekki, eftir að búið er að beita vissu fyrirkomulagi eins og nú hefur verið gert, að það sé nokkur von til þess, að þessar tekjur geti orðið hærri eða verulega hærri, og síður en svo, að þær geti orðið hærri en gera má ráð fyrir að útgjöldin einnig hækki, nema við fáum mjög mikið tekjuár eða veltuár. En það er að sjálfsögðu engin hagsýni og engin fjárhagsleg ábyrgð, hvorki af fjmrh. né form. fjvn., að byggja eingöngu á því. Það stóðu allt aðrar vonir til þess í fyrra, þegar vitað var, að verzlunin öll var í höftum, og við vissum þá ekki, hvort þau höft yrðu afnumin eða ekki, en það er grundvallaratriði fyrir því, að ríkissjóður fékk meiri tekjur á árinu en gert var ráð fyrir. Þetta er ekki fyrir hendi á næsta ári, og því er ekki hægt að gera ráð fyrir, að tekjuaukningin verði eins mikil. Ég tek því undir það með hæstv. fjmrh., að það sé ekkert vit í því að hækka þessa áætlun frá því, sem nú er, og stend með honum í því máli og hef ekki viljað leggja mitt nafn í að hækka um 30 millj., eins og lagt er til af 2. minni hl. Ég skal svo ekki ræða meira um tekjuáætlunina.

Hv. þm. sagði, að sér hefði ofboðið, hvernig fjvn. hefði nú farið að í till. sínum um útgjöld á þskj. 502. Það mátti skilja það svo af hans ræðu, og þykir mér rétt að mótmæla því, að hann hefði í raun og veru ekki viljað styðja neitt af þeim tillögum, sem hér eru lagðar fram á þessu þskj., eða neina af þeim till., sem nokkru nemur að upphæð. En mér er ekki kunnugt um það í n., að hann hafi hreyft mótmælum um nokkra till., nema aðeins tvær. Önnur er hækkunin til sauðfjársjúkdómavarna um 360 þús. kr. Ég skal viðurkenna, að honum ofbauð að bæta því ofan á allar þær milljónir, sem til þeirra framkvæmda fara, og lýsti ég því nokkuð í dag. En ég vil í sambandi við það benda á, að hann hefur samfara mér gert sterkar kröfur til Alþ. um það, að allt sé gert, sem unnt er, til þess að mæðiveikin berist ekki út um Vestfirði, en ég hef víkkað enn mínar kröfur um það, að allt sé gert til að stöðva veikina, og 360 þús. kr. frá eða til baka, ef hægt er að ná takmarkinu, hafa ekkert að segja í þessari upphæð. En þessi till. vildi hann ekki að yrði samþ. — Hann vildi ekki heldur samþ. 500 þús. kr. fyrir iðnskólann. Hins vegar hef ég einnig heyrt þennan hv. þm. telja sig vera svo sterkan vin iðnaðarmálanna í landinu, að hann hefur talið, að allt þyrfti að gera fyrir þessa stétt eins og ég — því að ég álit, að hér sé um að ræða eina af þremur fjölmennustu stéttum landsins, og hann ætti ekki að sjá eftir því, að reynt sé að bjarga þeim verðmætum, sem búið er að láta í skólann nú, því að það stendur svoleiðis á, að það má búast við, að þessi bygging verði lítils virði, nema haldið sé áfram með stóru átaki. — Aðrar till. varð ég ekki var við að hv. þm. beitti sér gegn í n. Ég veit ekki, hvort hann hefur viljað láta — án þess að láta það í ljós — fella till. okkar um 400 þús. kr. framlag til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga, en það er ein af þeim stóru till., eða 150 þús. kr. til vatnsveitna, en þetta eru með stærstu till. Svo að ég hygg, að hér sé komin fram ein sönnunin fyrir hans takmarkalausa ábyrgðarleysi í sambandi við gagnrýni á afgreiðslu fjárl. Ég þarf ekki að fara út í aðra liði til þess að sanna þetta.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um þá till., sem fjvn. hefur borið fram í sambandi við höfnina í Bolungavík, og hv. þm. N-Ísf. ræddi einnig um þetta mál af allmiklum þjósti og litlum skilningi, bæði á störfum fjvn. og málinu sjálfu. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, eins og ég gat um í kvöld, að búið er að greiða 1311000 kr. í þetta. Það var sameiginlegt álit meiri hl. fjvn. og ríkisstj., að það væri ógerlegt að fara lengra, nema því aðeins að mótframlag kæmi frá mönnum heima fyrir, því að hér er komið a.m.k. 800 þús. kr. hærra en gert var ráð fyrir, og þegar veitt var heimild hér á Alþ., þá var það með þeim upplýsingum frá vitamálastjóra, hv. þm. Hafnf., sem ég hygg að hv. 6. landsk. vilji ekki láta segja neitt illt um og enginn maður vill segja neitt misjafnt um, að þetta færi ekki yfir 500 þús., en það er komið upp í þá upphæð, sem ég hef sagt. Hins vegar hafa engar upplýsingar legið fyrir fjvn. um það, hvernig höfnin stendur fjárhagslega og hvort hægt er að hækka þeirra hafnargjöld. En ekkert af þessu varð þó til þess að vera þyngsta lóðið á vogarskálinni, heldur hitt, sem þegar er komið fram, að hér er farið inn á þá braut, sem Alþ. mundi ekki geta stöðvað sig á nú, ef á að greiða að fullu hvert það tjón, sem verður á slíkum hafnarmannvirkjum, hvar sem er á landinu. Það þyrfti þá a.m.k. að setja um það alveg sérstakan lagabálk, því að annars er ekki hægt að stöðva sig á þessu máli. Við höfum heyrt frá hv. 1. þm. Eyf., að hann geri kröfu um þessi mál fyrir tjón, sem búið er að greiða, en hann þykist hafa lagalegan og síðferðislegan rétt til að fá þetta greitt, eftir að það er greitt til einnar hafnar, og ég skil vel hans kröfu og hans hugsunarhátt. Hitt er svo alvarlegra mál, að hér hafa þessi tjón sannarlega orðið fyrir mistök þeirra, sem hafa átt að s já um þetta verk. Það má upplýsa í sambandi við Bolungavík, að hafnarstjórnin þar mótmælti á sínum tíma, að þetta verk væri unnið, en þeim mótmælum var ekki sinnt, og þess vegna er hart fyrir sveitarfélagið að þurfa að þola milljónatap vegna slíkra mistaka. En hv. 6. landsk. getur deilt um þetta við flokksbróður sinn. En þetta hefur ekki aðeins skeð í Bolungavik, heldur líka á Bakkafirði. Við þessu er þó það að segja, að hafnarstjórnin sjálf hefur ráðið þessu, og gæti því komið til greina að beita sér fyrir að vátryggja fyrir slíkum óhöppum, því ef slík óhöpp eiga oft að kosta ríkissjóð 1, 2 eða 3 milljónir, getur slíkt orðið stórkostlegt fé. Þetta er svo alvarlegt mál, að æskilegt væri, að það væri tekið upp á öðrum grundvelli en í sambandi við afgreiðslu fjárlaga. — Ég vil svo að endingu í sambandi við þetta mál segja, að ég sem form. fjvn. vil ekki gera hv. þm. N-Ísf. eða hans kjósendum og fátæku kauptúni þann bjarnargreiða að taka aftur till. þá, sem hann óskaði eftir að ég tæki aftur, og með því að stöðva allt fjárframlag til hafnarinnar, sem er 60 þús. á frv. nú, því að vitanlega er ekki hægt að taka aðeins 200 þús., heldur verður að taka 60 þús. líka, og þá stæði Bolungavík eftir og fengi ekki einn eyri, þar sem þetta er 3. umr. um fjárl. Svona litið hefur hv. þm. hugsað um þetta mál, og í offorsi við að reyna að koma fram með gagnrýni á n. verið að því kominn að gera sínum umbjóðendum tjón, ef n. hefði ekki haft vit fyrir honum. Þó hans tili. yrði samþ., gæti hann ekki bjargað þeim hluta, sem fjvn. lagði til, að höfnin fengi. Þessi till. verður því ekki tekin til baka. Verði till. hans um að heimila að bæta tjónið að fullu samþ., mun ríkissjóður nota þessa upphæð til að ganga upp í þá greiðslu, og er því enn síður ástæða til að taka þessa till. aftur.

Hv. þm. Snæf. minntist á eitt atriði, og er ég neyddur til að segja nokkur orð út af því. Það er út af 240 þús. kr. greiðslu til Húsavíkurhafnar, og er upplýst, að stjórn síldarverksmiðjanna hefði mótmælt þessu í nafni verksmiðjanna, en með þessu er hún að hraða e.t.v. enn meir kröfum í sambandi við þetta mál, því að sannleikurinn er sá, að Húsavíkurhöfn þykist eiga stórkröfu á hendur verksmiðjunni í sambandi við samningsrof. Þykir því skynsamlegt að taka það fram, svo að hægt sé að vísa í það, að það er bundið því skilyrði, að ef þessar 240 þús. eru greiddar, skuli það vera lokagreiðsla í sambandi við þessa deilu. Um það er samkomulag milli ríkisstj. og hafnarstjórnar Húsavikur. Þannig er þetta langa og leiðinlega deilumál leyst, svo að þessi stofnun þarf ekki að óttast vandræði út úr því síðar.

Ég ætla ekki að fara inn á einstakar athugasemdir frá hv. þm., en vil þó í sambandi við athugasemd frá hv. þm. Vestm. út af hans till. um uppbætur til bátasmiðjanna benda á, að þótt fjvn. sæi sér ekki fært að taka þetta upp, er ákaflega mikil sanngirniskrafa, að þetta tjón sé bætt upp, af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi af því, að þessi kostnaður stafaði af vísitöluhækkun og láðst hafði að setja í samningana víð þessa menn, að þeir skyldu fá bætt tjón, sem stafaði af vísitöluhækkun. Hins vegar var það svo gert til að forða ríkissjóði frá að greiða toll af sænsku húsunum, en það var aldrei heimilað að endurgreiða nema af þeim húsum, sem flutt voru inn 1946, að þetta var fellt, þó að meiri hluti væri fyrir því í þinginu. Ég segi þetta ekki til að vera með áróður gegn till., heldur til þess að þetta komi fram í þingtíðindunum, að það var af þeim ástæðum, að fjvn. felldi á sínum tíma þá heimild, sem þáverandi ráðh. óskaði eftir og rætt var um í dag.

Ég get þá ekki heldur annað en rætt ofur litið í sambandi við sjúkrahúsin. Það er rétt, sem hv. þm. A-Húnv. sagði, að sjúkrahúsin hafa orðið útundan, því miður, ef litið er á það kapphlaup í framkvæmdum, sem verið hefur í öðrum málum. Það sorglega í þessum málum er, að þau hafa nú orðið útundan, ef litið er á stórkostlegar framkvæmdir eins og Vífilsstaðahælið og það svo borið saman við það, sem gert hefur verið síðan skipt var um yfirstjórn þessara mála. Það er táknrænt, að í yfirstjórn heilbrigðismálanna nú sitja landlæknir, skóari og bakari, flokksbræður hv. 6. landsk. og hv. 4. þm. Reykv., sem fast hafa deilt á þessi mál. Það sorglega við þessi mál er það, að þau eru þannig í dag, að ekki er hægt að fá samkomulag um að nota þær 2 milljónir, sem boðnar eru fram til að byggja barnaspítala, en það er ekki hægt að ná samkomulagi um, hvar á að byggja þetta hús, að maður nú ekki tali um 1 milljón, sem liggur ónotuð til að byggja fávitahæli í Kópavogi. Því er ekki hægt að koma fram, og þó liggja fávitarnir um allt land til stórrar byrði fyrir þá, sem eiga að sjá um þá. Í þriðja lagi er svo 1.2 millj. til að byggja hæli fyrir drykkjusjúka menn, sem ómögulegt er að ná samkomulagi við landlækni um, hvar á að reisa, að maður nú ekki tali um, að hægt sé að fá samkomulag um að leggja hornsteininn að hjúkrunarkvennaskóla, sem er frumskilyrði heilbrigðisgæzlu í landinu. Ég varð sjálfur að beita mér mikið við afgreiðslu fjárl. til að geta fengið inn í þau 250 þús. til þessarar byggingar. Það er áreiðanlegt, að heilbrigðisstjórnin beitir sér ekki fyrir, að þessum málum verði hrundið áfram.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. forseti sagði, að hann skildi ekki, hvers vegna þessu fé væri ekki skipt í fjvn., vil ég segja, að það mundi að sjálfsögðu verða talið vantraust á viðkomandi ráðh., ef fjvn. færi að skipta því, enda er svo með ýmislegt annað fé, að því er ekki skipt í fjvn., m.a. hafnarbótafé. Það er nóg togstreita um að skipta vega- og brúafénu, þó að þetta bætist ekki við. — Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. hafi það mikinn skilning á þörfum Húnvetninga, að hann láti þá ekki verða afskipta, þótt upphæðin verði ekki hækkuð. Ber ég til hans fullt traust, að hann geri það af sanngirni.

Ég vil þá aðeins segja nokkur orð í sambandi við skólamálin. Hv. 3. landsk. hélt hér athyglisverða ræðu í sambandi við menntaskólann í Reykjavík og Laugarvatn og menntaskólann á Akureyri, og get ég stytt mál mitt vegna ræðu hv. 1. þm. Árn. Í sambandi við þetta vil ég benda á og mótmæla þeirri ásökun, að það sé fjvn. og Alþ. að kenna, að menntaskólinn í Reykjavík er svo langt aftur úr. Það er að kenna ósamkomulagi og skilningsleysi manna hér í Reykjavík. Þegar átti að verja fé í þessu skyni, var byrjað að rífast um það af kennurum skólans og rektor, hvort skólinn ætti að vera þar, sem hann er nú, eða í Laugarnesi, þar sem menntmrh. vildi hafa hann og eyddi 300 þús. kr. til að kaupa eign, sem ríkissjóður átti. Þetta varð til þess, að ekki var hægt að byggja menntaskólann í Reykjavík upp, að ekki var einu sinni hægt að koma sér saman um, hvar hann ætti að standa. Það var þess vegna, sem borin var fram till. af hæstv. núverandi dómsmrh. um, að menntaskólinn í Reykjavík skuli standa þar, sem hann nú er. En það er útilokað að leysa þá deilu, nema með því að rífa húsið og flytja það burt. — Ég hef ekki heldur séð, að sá stóri og friði flokkur manna, sem kemur út úr menntaskólanum í Reykjavík, hafi átt það sterk ítök í þessu landi eða komizt það vel áfram, að þeir hafi lagt fram nokkra krónu til endurreisnar skólanum. Menn hjá öðrum þjóðum telja það fyrst og fremst skyldu sína að láta þær stofnanir, er þeir nema hjá, njóta einhvers fyrir menntunina. Þessir menn veit ég ekki til að hafi lagt fram eina krónu til að koma upp húsi yfir skólann, þó að þeir þykist elska hann mikið, og ekki heldur hafið baráttu fyrir, að skólinn gæti hafizt upp úr niðurlægingunni. Það eina, sem þeir geta gert, er að horfa á sjómannaskólann og vera gramir yfir, að menntaskólinn sé í 100 ára húsi, meðan sjómannaskólinn hefur fengið sína höll. Fyrir baráttu Sigurðar Guðmundssonar skólameistara fékkst fé til Akureyrar meðan menntaskólina í Reykjavík, rektor og kennarar sváfu og gátu ekki hugsað um málið. Þá á að ásaka fyrir þessi mál. Þegar hv. þm. segir, að það sé skorið við neglur sér við skólann í fjárframlögum, get ég ekki lengur orða bundizt. Er skorið við neglur sér við skóla, þar sem kennari hefur 60–90 þús. kr. í tekjur? Ég held, að það sé eitthvað annað, sem þarf að laga í slíkri stofnun, en að ausa í hana fé. Ef hv. þm. halda, að ég fari með fleipur, þá er svo ekki. Það liggja fyrir skjöl um þetta hjá fjvn., og hefur orðið að skipa rannsókn í þessu máli. Ég ætlaði ekki að geta um þetta, en þegar komið er með slíka ádeilu, er ekki hægt að þegja lengur. — Ég vil svo taka undir það, að ég tel mikilsvert að hafa ekki einungis menntaskóla í kaupstöðum. Ég tel þjóðinni bezt borgið, þegar nemendur geta verið úr öllum stéttum og lesið undir mismunandi áhrifum frá okkar landi. Jafnvel geta menn úr kaupstöðum farið í sveitaskóla til að breyta um. Mín skoðun er sú, að þjóðin eignist betur undirbúna stúdenta, ef þeim á sama tíma er kennt að vera við lífræn störf. Ég tel því, að það sé síður en svo goðgá að stofna menntaskóla í sveit. Ég vil benda hv. þm. á ummæli hæstv. ráðh. í sambandi við þetta mál í dag. — Ég veit, að hæstv. forseti er orðinn órólegur, en ég skal nú fara að stytta mál mitt. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hafa tekið eftir því, en hann sagði, að ef þessi till. yrði samþ., mundi hann telja sér skylt að koma upp menntaskóla í sveit. En það er ekki bundið við Laugarvatn. Það er eins heimild til að gera það í Skógaskóla. Vildi ég, að hv. 1. þm. Árn. athugaði það. Það er alveg eins möguleiki til að gera það í Staðarfellsskóla og engin trygging fyrir, að það verði gert á Laugarvatni, ef ekki er búið betur um hnútana. En ég teldi óhappaverk, ef gengið væri fram hjá öllum þeim verðmætum, sem þar eru. Það er takmarkið, sem við erum að reyna að ná, að menn geti lesið við sveitaskóla án þess að þurfa að borga allt of mikið fé fyrir. Hæstv. ráðh. sagði, að þetta kostaði ekki nema 175 þús., en í dag var það svo komið upp í 500 þús. Þegar talað er um 175 þús., er átt við mismuninn á því sem kostar að hafa menntaskóla og héraðsskóla. — Ég álít, að það beri síður en svo að hraða byggingu heimavistarinnar á Akureyri. Ég álít, að beri að stöðva það mál. Það er meiningarlaust að halda því áfram, meðan ekki er hægt að ljúka við sjúkrahúsið þar. Það er ástæðulaust að vera að byggja þar hótel með eins góðum herbergjum og Hótel Borg og láta s^vo ekki borga þar húsaleigu, ljós eða hita.

Ég get ekki lokið máli mínu án þess að leiðrétta tölur, sem hv. 4. þm. Reykv. fór með í sambandi við Búnaðarfélagið. Ég er nú ekki talinn bera mikla ást til Búnaðarfélagsins, en mér er skylt að leiðrétta þetta. Hann sagði, að varið væri til bókaútgáfu 240 þús. kr. Sannleikurinn er sá, að varið er til Búnaðarfélags Íslands, sem reiknast sem útgjaldaliður, 245 þús., en hann gleymir að draga frá tekjuliðinn, sem er 130 þús., svo að útgáfukostnaðurinn er allmiklu minni, eða 115 þús. Ég veit, að hv. 4. þm. Reykv. hafði þetta eftir þeim þm., sem varð sú skyssa á að tvöfalda allar tölur, og hefur þá einu afsökun, að hann er ekki búinn að læra, að það má ekki taka of mikið mark á því, sem hv. 6. landsk. segir.

Ég vil svo enda mál mitt með því að biðja hv. þm. að gæta þess að samþ. ekki inn í frv. aðrar meiri háttar upphæðir en þær, sem meiri hl. fjvn. flytur, svo að fjárl. verði ekki afgr. með greiðsluhalla. Það er ekki til sóma fyrir hæstv. ríkisstj. eða Alþingi, ef það er gert. Og áreiðanlega verður að halda vel á í sambandi við útgjöld, ef ríkisreikningurinn á að sýna hagstæðan rekstur á næsta ári, eftir því sem lagt er til um tekjur og gjöld.