04.01.1952
Efri deild: 54. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 648 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

19. mál, áfengislög

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. vildi láta að því liggja, að ég hefði blandað saman tveimur óskyldum málum. Þetta er alrangt. Ég gat þess, að það hefðu áður verið þm. hér á þingi, sem hefðu haft áhuga á því að koma á bruggun öls fyrir landsmenn sjálfa, og ég blandaði því máli á engan hátt saman við þetta mál, sem er alls ekki hið sama, og ég veit, að þeir eru ekki svo skilningssljóir, að þeir sjái það ekki.

Hins vegar gegnir það furðu, að hv. þm. N-Ísl. skuli hafa barizt svo ákaft fyrir því máli, því að ég veit, að það stafar ekki af því, að hans kjósendur séu svo miklu þorstlátari en aðrir, og ég geri mér það fyllilega ljóst, að þetta mál er flutt á annan hátt og þetta frv. er flutt undir því yfirskini, að þetta öl eigi að vera handa hinu erlenda setuliði. En þarna er verið að rýmka þær hömlur, sem verið hafa á framleiðslu öls hér á landi, og það er sagt, að þegar skrattanum sé boðinn litli fingurinn, þá taki hann alla höndina. Hér hefur nú litli fingurinn ekki verið tekinn strax, en það mun þá ákveðið að bjóða alla höndina.

Þetta mál er af fylgismönnum þess túlkað sem atvinnubótamál. Það á að veita Íslendingum vinnu til viðbótar því, sem þeir hafa við að brugga óáfengt öl handa landsmönnum sjálfum; þetta er atvinnubótamál. Mér lá nú við að brosa, þegar ég heyrði það. Nú, — og það er meira, það er bjargráð, það er fjárhagslegt hjálpráð fyrir ríkissjóð, það á að bæta úr bæði fyrir bæjar- og ríkissjóði. Þetta er sem sagt atvinnu- og fjárhagsmál. Ég veit ekki, hvort hæstv. ráðh. er góður að blása sápukúlur, en þetta mál er ekki annað en sápukúla, sem hann er að reyna að gera litfallega. Þetta er ekki nein úrbót í atvinnu- eða fjárhagsmálum, eða hvað á það þá að veita mörgum atvinnu, og hvað á það að gefa miklar tekjur í aðra hönd? Það er ekki annað en hjákátlegt að fara inn á þá braut að túlka það þannig. — Þm. Barð. var ekki lengi að taka undir þetta. Hann sagði: 6. landsk. er á móti þessu máli. Hann er á móti aukinni atvinnu og auknum tekjum fyrir ríkið. — Þetta er þvættingur og hvergi boðlegur og sízt í sölum Alþingis. Það verða jafnmargir atvinnulausir, þó að þetta verði samþ., og það veit hv. þm. Barð. eins vel og ég. En ef það skyldi vera, að einhverjir stæðu í þeirri meiningu, að af þessu fengjust auknir skattar, er það þá ekki gefinn hlutur, að af þessum mjóu þvengjum verði þau skæði, að með þeim mætti bæta við nýjum tekjustofnum og auka atvinnulífið? Og ef svo færi, er mér næst að halda, að á næstu fjárlögum yrði nýr liður um tekjur af öli, sem brugga mætti til innanlandsneyzlu. Það er gefinn hlutur, að svona verður afgreiðsla þess.

Það hefur verið falazt eftir að mega brugga öl handa Íslendingum sjálfum, og hv. 1. þm. N-M. vill ekki ljá þessu máli lið nema í þessu formi einu. Það hefur verið falazt eftir að brugga áfengt öl, og reyndar er verið með þessum aðgerðum að opna gáttina, það er verið að rétta alla höndina. Í þessu máli er um meira að ræða en það, hvort leyfa eigi að brugga öl handa setuliðinu. Það er um það að ræða, hvort leyfa eigi bruggun öls í landinu. Þess vegna er þetta svo mjög mikilsvert mál.

Það hefur verið upplýst, að framleiðandinn hefur ekki af þessu auknar tekjur, nema af því séu felldir tollarnir, og svo segir frsm. n., að það sé búið að selja, en ráðh. heldur hins vegar, að það sé ekki búið. Ekki ber þeim nú rétt vel saman, blessuðum. Það er að segja, þarna veður n. í villu og svima, og ráðh. hefur upplýst, að það er ekki búið að leysa þann hnút, sem n. taldi frumskilyrðið, að leystur væri, til þess að hún gæti fallizt á að leyfa þessa bruggun. Með öðrum orðum, u. ætti að fresta frekari ákvörðun, þangað til ljóst er, hvort samningar takast. Meðan ekki hefur tekizt að selja þessa framleiðslu, þá eru ekki líkur til, að af henni verði atvinnubætur eða auknar tekjur.

Þegar þm. Barð. ætlaði að sanna, að það væri lygasaga, að ölinu hefði verið hellt niður, af því að fréttin hefði birzt í Þjóðviljanum, greip ráðh. fram í fyrir honum og sagði, að það væri ekki víst nema ölinu hefði verið hellt niður. Þ.e.a.s., hann gat ekki sagt á kurteislegri hátt, að ölinu hefði verið hellt niður. Þetta ber allt að sama brunni. Það er enginn möguleiki fyrir framleiðendurna að hefja framleiðslu þessa öls, fyrr en tekizt hefur að semja við setuliðið. Með því eru færðar óyggjandi sannanir fyrir því, að af þessu getur ekki orðið fjárhagslegur styrkur fyrr. Og ég vil leyfa mér að spyrja hv. frsm. n., hann getur svarað því hér á eftir: Hvað mikil fjölgun mun verða hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson á verkamönnum, ef af þessu verður, og hvað miklar auknar skatttekjur mun þetta gefa? Þetta eru þau grundvallaratriði, sem við hljótum að verða að vita.

Það er meining stuðningsmanna þessa máls að fleyta því í gegn undir því yfirskini, að það sé atvinnubótamál og skapi auknar tolltekjur fyrir ríkissjóð og þetta sé mikið atvinnuspursmál og fjárhagsspursmál. Ég skal játa, að það mundu renna á mig tvær grímur, ef þetta mundi veita mörgum tugum verkamanna atvinnu og mörgum tugum milljóna í bæjarsjóð. En ég hef trú á, að það verði svipað með þetta og sápukúlur ráðh.

Ég veit, hvers eðlis þetta er. Það á að fá þetta í gegn í saklausu formi sem lagaákvæði um, að selja megi þetta setuliðinu; þó segir einungis, að ríkisstj. sé heimilt að leyfa bruggun handa hinn erlenda setuliði, en það segir ekkert um það, að ekki megi selja það Íslendingum sjálfum. (BSt: Það er í öðrum lögum.) Nú, ekki verður það ráðið af þessari lagagr. Það er einungis tekið fram, að leyfilegt sé að búa til öl handa hinu erlenda setuliði, en ekkert tekið fram um, hvað það megi vera sterkt né hvort ekki megi selja það öðrum. Það má hafa meira en 21/4 % áfengismagns af innihaldi, en hvað mikið, er framleiðandanum í sjálfsvald sett, og mun hugsað, að það megi vera eins sterkt og framast er hægt að hafa öl.

Ég er handviss um, að næsta skrefið verður það, að á næsta Alþingi verður borið fram frv. um, að þessi drykkur skuli framleiddur handa öllum landsmönnum, þar sem hann auki atvinnu og auki tekjur. Þannig verður hægt að gera sápukúluna að bolta úr einhverju haldbetra efni. Þá verður það komið í gegn, sem Jón Auðun dreymdi um, að bruggað yrði áfengt öl handa Íslendingum, og Sigurður Bjarnason hefur síðan tekið upp á sína náðararma.

Og af þeim ástæðum, sem ég nú hef fram tekið, og af því, að þetta hefur enn ekki verið ákveðið við herinn, hvort hann mundi kaupa þessa framleiðslu, og enn fremur af öllum þeim loddaraleik og skinhelgi, sem þetta mál er fram borið með, þá er ég enn meira á móti því en áður.