18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

155. mál, greiðsluafgangur ríkissjóðs

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég lagði fram við 2. umr. þessa máls allvíðtækar brtt., og voru þær felldar. Ég vildi nú leyfa mér að bera fram nokkrar brtt. á þskj. 652, þar sem farið er allmiklu vægar í sakirnar, og vildi nú mega vænta þess, að hv. þm. gætu orðið sammála um nokkrar af þeim till., sem þar eru fluttar. Ég hef í þeim till. haldið við sama prinsipi og sjálf ríkisstj. hefur innleitt í sambandi við afgreiðslu málsins, þ.e. að áskilja sér heimild til þess, ef henni þykir hentugra, að lána viðkomandi fjárhæðir úr mótvirðissjóði, og sé þá varið jafnstórum fjárhæðum af tekjum ríkissjóðs til þess að greiða lausaskuldir. Þess vegna er a-liður 1. brtt. um það að fella niður í 1. mgr. orðin „38 millj. króna“, þannig að upphaf 1. gr. hljóði svo: Ríkisstjórninni er heimilt að verja af tekjum ríkissjóðs árið 1951 sem hér segir: — Það er vitað, að tekjur ríkissjóðs 1951 munu líklega verða meiri en 38 millj. kr., og þegar enn fremur ríkisstj. áskilur sér heimild til að lána úr mótvirðissjóði samkv. 2. gr., eins og ég hef tekið fram, ætti það að vera í lagi.

Sjálfar brtt. eru svo miðaðar við till. ríkisstj., þannig að ég vildi mælast til þess, að hver einstakur liður yrði borinn upp út af fyrir sig.

— Það er þá fyrst að hækka lánveitingu til ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs um 5 millj. kr., þ.e. úr 15 millj. í 20 millj., og í öðru lagi að hækka lán til byggingarsjóðs verkamanna úr 4 millj. kr. í 9 millj. kr. Þá hef ég einnig lagt til, að lánsupphæð til sveitarfélaga til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum og lánsupphæð til byggingar smáíbúða verði hvor um sig hækkuð úr 4 millj. í 9 millj. kr. Hafa þannig þessir þrír síðustu liðir allir verið hækkaðir jafnmikið í brtt. mínum frá því, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir, og býst ég við, að flestir hv. þm. geti verið sammála um, að ekki muni af veita, að þessu fé verði ráðstafað til bygginga eins og nú er ástatt. — Þá legg ég til, að á eftir 8. lið komi nýr liður, þ.e. til byggingar sjúkrahúsa, heilsuhæla og heilsuverndarstöðva 7 millj. kr.

Verði þessar brtt. samþ., mundi það þýða, að þarna bættust við 27 millj. kr. Ef tekjuafgangur ríkissjóðs verður 50 millj. kr., mundi það þýða, að þetta yrði ekki nema um 15 millj. fram yfir greiðsluafgang ríkissjóðs, þannig að þarna væri þá raunverulega lagt til að taka 15 millj. úr mótvirðissjóði til þessara ráðstafana. Nú hefur verið upplýst í sambandi við þær umr., sem farið hafa fram um mótvirðissjóð, að í honum muni vera um 340 millj. kr. alls. Hins vegar nema samtals þær upphæðir, sem samþ. hefur verið að verja úr honum til hinna þriggja stóru fyrirtækja og til þess að greiða lausaskuldir í Landsbankanum, um það bil 265 millj. kr. alls, þannig að eftir munu verða í honum nálægt 75 millj. kr. Ég verð að segja, að 15 millj. kr. úr mótvirðissjóði af 340 millj. er ekki sérstaklega mikið, þegar á að ráðstafa því á þennan hátt. Þar er því um að ræða fé, sem er til, — fé, sem mun gefa sinn arð og hjálpa nokkuð til að bæta úr því neyðarástandi, sem nú ríkir í þessum efnum.

Brtt. við 2. gr. er til þess að gefa ríkisstj. heimild til að lána úr mótvirðissjóði með tilliti til þeirra 15 millj., sem hér hefur verið talað um. — Þá er einnig lagt til, að fyrirsögn frv. verði breytt vegna væntanlegra framlaga úr mótvirðissjóði. — Þá er og lagt til, að vaxtafætinum verði breytt. Voru felldar allar till., sem ég flutti við 2. umr. um að fá hann lækkaðan niður í 4%, og geri ég hér tilraun til að fá honum komið niður í 41/2 %.

Vænti ég svo, að þm. geti orðið sammála um að minnsta kosti nokkrar af þessum till.