17.01.1952
Efri deild: 60. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það, hve vel hann hefur tekið í þær athugasemdir, sem ég gerði hér. Í því trausti, að hann og hæstv. ríkisstj. taki þetta mál til athugunar fyrir næsta Alþ. og geri till. um framtíðarlausn þess, þá mun ég ekki setja fótinn fyrir þetta frv. eins og það liggur nú fyrir, en breytingar á því, ef þær næðu fram að ganga, mundu frekar tefja málið, og það er síður en svo þörf á því að tefja málin nú. En aftur á móti geri ég lítið úr hinu, sem hæstv. forsrh. sagði, að þessum málum hefði ekki verið ráðið til framtíðarlykta vegna þess, að alltaf hafi staðið til að breyta stjórnarskránni. Ég fæ ekki séð, hvenær kemur að því, að ný stjórnarskrá verði sett. Og ég er ekki sannfærður um, að það sé ný stjórnarskrá, sem okkur vanhagar mest um núna. Mér þóttu athyglisverð svör hæstv. ráðherra í Sþ. í gær við fyrirspurn, hvað liði samningu nýrrar stjórnarskrár. Hæstv. ráðherra upplýsti, að þrjár n. hefðu verið settar, hver eftir aðra, til þess að athuga þetta mál og engin þeirra gert neitt, svo að vitað sé, nema hvað fyrsta n. breytti stjórnarskránni þannig, að hún átti við lýðveldið. Og þegar forsrh. var að svara þessum fyrirspurnum, skýrði hann frá því í sambandi við síðustu n., að hún hefði ekkert gert, vegna þess að engum nefndarmanna hefði hugkvæmzt nein sú breyting, er gera þyrfti. (KK: Þeir hafa ekki látið sér detta neina breyt. í hug, af því að flokkarnir hafa ekki gefið nein fyrirmæli.) Þetta getur vel verið, en þó voru ekki nema fjórir nefndarmannanna tilnefndir af flokkunum, en alls voru sjö menn í n., og formaður n., sem var stjórnlagafræðingur, gat ekki heldur látið sér hugkvæmast neina breytingu. En ég vil benda á það, að hefði verið skipuð stjórnarskrárn. árið 1934, þá er óhugsandi annað en einhver nefndarmanna hefði látið sér detta í hug að gera einhverjar breytingar á stjórnarskránni, vegna þess að þá var stjórnarskráin þannig, að hún þjakaði þjóðina. Og fólkið og þingmennirnir er ekkert verra núna en þá. Núna, þegar þrjár n. hafa verið settar til þess að endurskoða stjórnarskrána, dettur engum neitt í hug. Og hvers vegna er það? Það er af því, að stjórnarskráin, eins og hún er núna, þjakar ekki neitt þessa þjóð. (FRV: Og stjórnarvöldin taka hana ekki alvarlega.) Það hafa aldrei komið fram kærur á hendur neinni ríkisstjórn fyrir að hafa brotið gegn stjórnarskránni, og ég held, að ekki hafi verið ástæða til þess.

Ég hef lesið stjórnarskrár og grundvallarlög hinna Norðurlandaþjóðanna, og mér sýnist okkar stjórnarskrá nauðalík þeirra stjórnarskrám; munurinn er bara sá, að hér er lýðveldi en þar konungsríki. Og ég hef ekki heyrt þess getið, að þær þjóðir séu nokkuð þjakaðar af sínum stjórnarskrám. Fyrirkomulag okkar á stjórnarskrá og þingi er t.d. mjög svipað og hjá Norðmönnum. Ég held þess vegna, að það geti dregizt, að okkur detti í hug nokkrar sérstakar breytingar á stjórnarskránni. En okkur hefur í sambandi við þessar umr. dottið annað í hug, og ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að taka það til athugunar. — Nú, en fari svo, að stjórnarskrá komi og hafi ný ákvæði um þau atriði, þá er það gott og vel. En það er ekkert erfitt að setja ákvæði um þetta miðað við núverandi stjórnarskrá. og það er miklu viðkunnanlegra en að vera á hverju ári að setja lög um þetta og tefja þannig störf Alþ. Mér finnst ekki rétt, að verið sé að bíða lengur í von um að breyta þessu í sambandi við nýja stjórnarskrá. Hver veit nema þessi hæstv. ríkisstj. geti fundið svo heppilega lausn á þessu máli, að hún verði tekin upp í hina nýju stjórnarskrá, þegar hún kemur, og þá er það bara kostur að hafa ráðið til lykta einu atriði hennar?