18.01.1952
Neðri deild: 61. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 711 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

166. mál, samkomulag reglulegs Alþingis 1952

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Viðvíkjandi þessu máli held ég að venjulega sé sá háttur, að þm. hafi ekki mikið við það að athuga, þó að þeir samþykki þessi lög um breytingu á ákvæðum stjórnarskrárinnar um að flytja samkomudag Alþingis, en eins og sakir horfa nú, finnst mér að verði að hafa öðruvísi viðbrögð. Það er vitanlegt, að það er komið hörmungarástand hjá alþýðu manna slíkt sem ekki hefur veríð undanfarin ár, þegar þing hefur lokið störfum, og ekki í Reykjavík eða úti um land siðan á kreppuárunum 1931 og þar á eftir.

Það hafa verið bornar fram margar tillögur hér til þess á einn eða annan hátt að reyna að hæta úr þessu ástandi, bæði í sambandi við fjárlög og sem frv. og þáltill. Þegar Alþingi kom saman, var hæstv. ríkisstj. óljóst, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, hvers konar ástand var í þjóðfélaginu, enda muna menn, að hæstv. viðskmrh. viðhafði þau orð í byrjun þings, að það væri ekkert atvinnuleysi á Íslandi, enda þótt það hafi verið tilfinnanlegt úti um land síðustu 2–3 árin, en sé fyrst að byrja í Reykjavík á þessu ári. Þótt það atvinnuleysi og neyðarástand, sem var hér fyrir jól, sé ekki nema hluti af því, sem nú er orðið, býst ég við, að enginn hv. þm. eða ráðh. — e.t.v. að hæstv. viðskmrh. undanskildum — komist hjá að viðurkenna, að ástandið í Reykjavík er nú svo alvarlegt, að Alþ. og ríkisstj. geta ekki skilizt við þessi mál án þess að gera eitthvað til úrlausnar þeim.

Ég álit því ekki rétt að samþ. þetta frv. fyrr en annaðhvort liggur fyrir yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um, að hún ætli að gera einhverjar ákveðnar aðgerðir, sem þm. telja sig ánægða með, eða Alþ. sjálft hefur gert einhverjar ráðstafanir. — Ég skal viðurkenna, að það er að öllu leyti óeðlilegt, að Alþ. komi aftur saman 15. febr., þar sem fjárlög geta ekki verið til þá. En svo framarlega sem ekkert verður gert til úrlausnar á ríkjandi ástandi, finnst mér viðkunnanlegra, jafnvel þótt yrði að biða að leggja fjárlög fyrir þingið, að Alþingi kæmi affur saman 15. febr. til að taka ákvarðanir um þessi vandamál. Auk þess má minna á, eins og hv. forsrh. gat um, að það er ekki nóg með, að það sé atvinnuleysi, heldur er þar að auki hugsanleg alvarleg vinnudeila við togaraútgerðirnar í flestum kaupstöðunum, þar á meðal í Reykjavík. Og komi til stöðvunar togaraflotans um hávertíð, þykist ég vita, að flestir hv. þm. séu þeirrar skoðunar, að Alþ. verði að gera það, sem í þess valdi stendur, til þess að hægra væri að ná samkomulagi í slíku máli. Ég vil minna á, að hér liggja fyrir tvö frv. til vökulaga, sem búin eru að vera í sjútvn. deildarinnar, án þess að tekizt hafi að fá á þeim fullnaðarafgreiðslu, þótt þau hafi verið lögð fram í byrjun þings og þótt ekki sé þar farið fram á meiri raunhæfar úrbætur en 12 tíma hvíld á ísfisksveiðum. Og mér finnst, að Alþ. gæti lagt svo lítið fram til að koma í veg fyrir stöðvun togaranna að samþykkja vökulögin. Það ætti að vera skilningur á því hjá Alþ., með þetta viðhorf fram undan, að þingið má alls ekki hverfa þannig frá málunum. Hins vegar hef ég orðið var við þann áhuga hjá hæstv. ríkisstj. að ljúka þessu þingi í byrjun næstu viku, þegar þau frv. ríkisstj. sem ákveðið er að fram skuli ganga, eru afgreidd. Ég vildi því mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann gæfi hv. deild fyrirheit um, að ríkisstj. muni ekki slíta þessu þingi, — því að til þess hefur hún vald strax og þetta frv. hefur verið afgreitt, — fyrr en viðunandi lausn fengist að áliti þingsins á þeim vandamálum sem liggja fyrir. Ég verð að segja, að ef ekki næst samkomulag um, að þetta þing ljúki störfum sínum á viðunandi hátt, verð ég að vera á móti þessu frv., sem annars er eðlilegt.