10.01.1952
Neðri deild: 55. fundur, 71. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

157. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er margt í þessu frv., sem ástæða er til að fagna. Það er samt sérstaklega eitt atriði, sem ég vildi gera athugasemd við nú við 1. umr. og vita, hvort ekki væri hægt að komast að samkomulagi við hæstv. ríkisstj. um að breyta. Það er sagt í þessu frv., að lánadeildin skuli veita lán til „smáíbúðarhúsa“, en ekki sagt til smáíbúða. Þetta hefur mikið verið rætt, og var l. um fjárhagsráð breytt til þess að tryggja mönnum frelsi til að byggja smáíbúðir. Var það þá aldrei takmarkað við, að byggð væru smáíbúðarhús. Þegar svo á að rýmka nokkuð lán til smáíbúða, eru þau bundin við smáíbúðarhús. Það er vissulega nauðsynlegt fyrir okkur, þegar sett er löggjöf sem þessi, að gera okkur ljóst, hvaða afstöðu við þurfum að taka í þessu efni. Ég veit, að það ríkir ákaflega mikill áhugi hjá mörgum mönnum fyrir því að koma sér upp smáíbúðarhúsi. Það er nú svo, að við Íslendingar erum ekki enn þá orðnir bæjarþjóð nema í fyrstu kynslóð og enn svo skammt liðið síðan þjóðin bjó í sveit, að hefðu einstaklingarnir fengið að ráða, hefðum við byggt alla Reykjavík í smáíbúðarhúsum. Okkur er í blóð borið að hafa húsin eins og torfbæirnir voru, með dálitla bletti í kring, og athugum ekki, að ef við ætlum að búa í borg og gera kröfur til þæginda af okkar bæjarfélagi, svo sem hver maður gerir, þá er óvinuandi verk að byggja á slíkan hátt. Ég held því, að þegar hið opinbera setur löggjöf um þessa hluti, megi það ekki einskorða sig við að fullnægja þessari mjög svo ríku þörf og óskum hjá mörgum einstaklingum að mega hafa sína smáíbúð sem hús út af fyrir sig. Með þeirri litlu íbúð sé kjallari og ris, þó að ekki sé hægt að nota það, einnig nokkur lóð fyrir þetta smáhús. Svo á að leggja rafmagn, vatnsleiðslu, skólpleiðslu og hitalögn í húsið og útbúa yfirleitt götuna með öllum þeim þægindum, sem með þarf. Og þó að við gerum ráð fyrir, að gott sé, að þessi ríka tilfinning fái að njóta sín, þá eigum við í löggjöfinni líka að reikna með hinu, að það kunni að vera hægt að telja slíka menn á það, að skynsamlegt sé fyrir þá sjálfa að byggja slíkar smáíbúðir saman sem eitt hús, sem rúmi nokkrar íbúðir. Það veit hver einasti þdm., að hús, sem rúmar 20 og upp í 40 smáíbúðir, er mun ódýrara fyrir einstaklinginn en hús, sem rúmar aðeins eina einustu íbúð. Ég tala svo ekki um, hversu miklu ódýrara þetta er fyrir bæjarfélagið. Ég býst við, að það að veita eigendum smáíbúðarhúsa þau nútímaþægindi, sem hver maður krefst, hljóti að verða tvöfalt til þrefalt dýrara, — ég þori ekki að segja nákvæmlega um tölur, — ef um t.d. 40 smáíbúðarhús er að ræða öll dreifð, heldur en eina til tvær sambyggingar með slíkum smáíbúðum, eða jafnvel þó að maður reikni ekki með eins stórum sambyggingum. Ef bæjarfélagið er skyldað til þess, eins og verður gert, að láta nútímaþægindi í té til smáíbúðarhúsa, þýðir þetta í raun og veru aukið álag á bæjarbúa sjálfa, sem ekki hefði þurft, ef byggingarlag var öðruvísi. Ég held þess vegna, að það sé óráð að binda starfsemi þessarar lánadeildar við smáíbúðarhús, eins og gert er með þessu frv. Það er tekið fram bæði í 1., 2. og sérstaklega í 4. gr., sem afnemur möguleika þess að veita féð, þó að ekki séu meira en 2–4 íbúðir saman í einn húsi. Þar er talað um „smáhýsi“. Þó að gert sé ráð fyrir að veita fé til smáíbúða, þá held ég, að ekki eigi að neita þeim einstaklingum, sem vilja hafa samvinnu sín á milli, t.d. 8–40. Það væri engan veginn í anda þeirrar samvinnu, sem hæstv. forsrh. og hans flokkur alveg sérstaklega hafa beitt sér fyrir. Því tel ég, að það eigi að gera breyt. á þessu frv.

Þá er annað, sem vert er að athuga í þessu sambandi. Í 2. gr. eru réttindi til lána takmörkuð við það, að menn hyggist að koma þessum íbúðum upp að verulegu leyti með eigin vinnu og fjölskyldu sinnar. Ég skal ekki draga úr því, að margt getur verið heppilegt við það að ýta þannig undir menn, en ekki held ég, að rétt sé að binda þetta þannig, eins og að miklu leyti er gert þarna. Hví skyldu menn ekki mega hjálpast að almennt, vinna saman og jafnvel að einhverju leyti njóta stuðnings sins bæjarfélags, ef um það er að ræða? Við þekkjum þess dæmi, að bæjarfélagið aðstoðar með því að steypa upp hús, og eigendur ganga frá húsinu sjálfir, sem venjulega er það dýrasta við húsbyggingu. Það er tiltölulega ódýrt fyrir bæjarfélagið að láta í té gröft og steypuvinnu, með góðum tækjum. Ég verð að segja, að mér finnst hörmulegt að horfa upp á einstaklinga vinna með skóflu að grafa fyrir grunni sinna smáu húsa, þegar hægt er með mokstursvél að skófla þessu upp á nokkrum klukkutímum. Með því að útiloka samstarf manna að þessu er verið að gera margfalt erfiðara og að miklu leyti að útiloka þá tækni, sem samstarf um þessa hluti getur komið til leiðar og sparað mikinn kostnað. Og þegar við athugum, að ríkisstj. hefur fyrst og fremst í huga barnafjölskyldur, þá er erfitt að sameina þetta tvennt: að segja við fjölskylduföður með börn innan við tíu ára aldur, að hann geti fengið lán, ef hann vinni fyrst og fremst með eigin höndum og fjölskyldu sinnar. Ég held þess vegna, að rétt sé að lina þessi ákvæði í 2. gr.

Ég vil benda á þá hættu, að þetta form á íbúðum, einstaklingshúsin, getur leitt menn út í mikla drauma um íbúðarhús, sem verður þeim svo fjárhagslega ofviða. Eftir nokkurn tíma verður máske farið að gera slík einstaklingshús svo úr garði, að það skapast eins konar fátækrahverfi, eins og við erum nú mjög nærri því að fá upp hér í Reykjavík.

Ég tala hér engan veginn vegna þess, að ég vilji hindra menn í að fá lán út á smáhúsin. Ég skal engan veginn draga úr þeim þægindum, sem í því eru fólgin fyrir einstaklinginn að geta verið út af fyrir sig, og álít, að það eigi fyllilega að gera þeim það sem mest mögulegt, en hins vegar ekki banna þeim, sem vilja gera slík hús ódýrari fyrir sjálfa sig og bæjarfélagið. — þetta mál held ég væri ákaflega heppilegt að athuga í n., og æskilegt væri að hafa vinsamlegt samstarf við ríkisstj. um lagfæringu, því að ég býst rannverulega við, að ekki vaki fyrir að binda þetta endanlega við einnar fjölskyldu hús, þó að þetta orðalag sé á frv.