21.01.1953
Neðri deild: 54. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 950 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

42. mál, verðlag

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég er einn þeirra manna, er vilja hafa frjálsa verzlun og telja óhefta samkeppni í verzlun hagstæðustu viðskiptaaðferð, en ég er í miklum minni hl. um þetta mál innan þings og hef lagt á mig ár eftir ár og þing eftir þing að hlusta — að mestu þegjandi — á margt af því, sem hér hefur verið flutt og hvinið í eyrum manna um verzlunarmál, um höft og bönn og þvinganir, langs og þvers, auk alls hins, um toll ofan á toll og skatt ofan á skatt.

Allt hefur þetta leitt til hærra vöruverðs fyrir almenning, en nokkur dæmi eru áður til og nokkur þörf er á, en jafnframt skapað mörgum sinnum fjölmennari verzlunarstétt, en þyrfti að vera og um leið gert þann atvinnuveg arðvænlegri, en flest eða allt annað í landi voru. Um tolla og skatta á vörum er það að segja, að hjá þeim verður eigi komizt, því að aðaltekjur ríkisins eru teknar á þann hátt og eiga að vera það, en helzt ætti þetta að vera tekið í einu lagi með verðtolli eða a.m.k. á mörgum sinnum einfaldari hátt, en gert er. En höftin, bönnin, nefndirnar, leyfin og allt það fargan hefði aldrei átt að vera til. Og ef ég mætti ráða, skyldi því öllu hafa verið sópað burt fyrir löngu. Það hefur yfirleitt allt orðið til þess að gera verzlunina óhagstæðari og vöruverðið hærra fyrir almenning í landinu, en það hefur líka skapað atvinnu fyrir marga menn, og suma vafasama menn. Ég þykist viss um, að hæstv. ríkisstj. og mikill meiri hluti þings ætlar og vill, að þetta haldi áfram, — og sumum þykir aldrei nóg af slíku. Þessu get ég auðsjáanlega ekki varnað. Það verður sem fyrr að hafa sinn gang almenningi til óþæginda og tjóns, þar á meðal verðlagseftirlit, sem nú heitir hinu fáránlega nafni „verðgæzla“.

Við vitum nú samt margir, að mismunur á útsöluverði margra vörutegunda milli hinna einstöku verzlana víðs vegar um land er svo mikill oft og einatt, að fullum undrum sætir. En blessuð verðgæzlan og allir hennar menn sitja með sveittan skallann eftir fyrirskipun við að safna skýrslum og skrifa skýrslur um álagningu á vörur í heildsölu og smásölu, eins og það er orðað.

Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 268 um breytingu á verðgæzlulögunum, miðar yfirleitt að því að herða nú betur á og auka eftirlitið, auka verðgæzluna. Fyrst það er ákveðið, að þessi stofnun haldi áfram að starfa, þá þykir mér rétt, að gerð sé tilraun til þess, að hún geri þjóðinni nokkurt gagn. Þess vegna hef ég flutt brtt. við frv., og eru þær á þskj. 569. Þessar till. ganga út á það að koma verðgæzlunni í það horf að verða hjálpartæki til að stuðla að samkeppni milli verzlananna í landinu um vöruverð. Það getur hún því aðeins orðið, að starfsemi hennar miðist öll við það að rannsaka og opinbera útsöluverð á vörum, í stað þess að hanga sí og æ í prósentureikningi um álagningu án tillits til innkaupsverðs. Almenn álagning er aldrei og verður aldrei nema önnur hliðin á því, hvert útsöluverð vörunnar er. Innkaupsverðíð er sannarlega eigi minna atriði. En starfsemi hafta og verðlagseftirlits hefur frá upphafi vega sinna stutt að því að hvetja alla þá, er verzlun stunda, til að kaupa inn á sem hæstu verði til þess að fá sem mestan hagnað í prósentureikningi álagningarinnar. Verzlunarþekking hefur verið lítils virt á refilstigum haftanna. Hvaða snákur sem er hefur getað grætt á stundum með því að fá leyfi og kaupa inn án tillits til þess, hvar verðið er hagfelldast. Að bera saman útsöluverð er því það aðalatriði, sem ætti að vera verkefni þess auga, sem heitir „verðgæzla“ og sumir halda að sé alltsjáandi.

Í frv. er ákvæði í 3. gr. um mánaðarlegar skýrslur um hæsta verð og lægsta verð, að því er virðist eingöngu hér í Reykjavík. Ég hygg þetta nokkuð langt gengið og raunar óþarft, að heimta verðlagsskýrslur um hver mánaðamót, og legg því til, að þeirra sé aflað og þær birtar á þriggja mánaða fresti fyrir Rvík og Hafnarfjörð, en tvisvar á ári frá öllum helztu verzlunarstöðum annars staðar í landinu. Ég hygg nægilegt að gera þetta svo oft, sé það rétt og samvizkusamlega gert. Þá mundi það gera talsvert gagn til að sýna almenningi, hvernig ástandið er, og vera honum til leiðbeiningar um það, hvar er hagstæðast að verzla á hverjum tíma.

Ég get hugsað mér, að þeir verði andvígir mínum till., sem vilja láta þá hagnast sem mest, er stunda verzlun, og hafa auk þess annarleg sjónarmið um það að nota verðgæzluna sem refsivönd án tillits til þess, hvort það kemur réttilega niður eða ekki. Aðrir hv. þm. ættu, að mér virðist, að geta verið með því að færa þetta frv. í það horf, sem ég legg til. Annars vildi ég beina því til hæstv. forseta að haga því svo til, að atkvgr. um þetta mál verði látin fara fram þegar sem allra flestir þm. eru viðstaddir.