23.10.1952
Neðri deild: 13. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

43. mál, bann við okri, dráttarvöxtum o. fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. formaður og frsm. fjhn. skýrði frá um ástæður fyrir hæstv. ríkis- stj. við útgáfu þessara brbl. Það var raunverulega erfitt fyrir hæstv. ríkisstj. að gera annað, en að gefa lögin út, eftir að búið var að taka þær ákvarðanir af hálfu Landsbankans, sem getið er um í forsendum fyrir brbl.

Það, sem ég álít hins vegar að komi nú til að ákveða hér fyrir Alþingi, er, hvort við álítum þessa stefnu ríkisstj. og bankastjórnarinnar rétta. Það er ekki hægt að láta þessa stefnu, sem fram hefur komið í vaxtahækkunum Landsbankans, halda áfram, svo framarlega sem hún er ekki raunverulega eftirstaðfest með brbl. Sá aðili, sem hefur valdið til að segja til um, hvort þessi vaxtahækkun skuli standa, er Alþingi sem sá aðili, sem skapað hefur alla bank- ana á landinu og ræður að öllu leyti þeirra stjórn og stjórnarháttum.

Ég álít þess vegna, að í sambandi við þetta frv. sé rétt fyrir hv. d. að gera sér alveg ljóst, hvort hún prinsipielt er samþykk því að halda áfram á þeirri braut, sem þetta frv. er einn áfangi af. Það er alveg rétt, að ef gengið er inn á að samþykkja þá stefnu, sem Landsbankinn tók með vaxtahækkuninni, þá er þetta frv. hæstv. ríkisstj. eðlileg afleiðing af þeirri stefnu, enda kom það greinilega fram, eins og hv frsm. n. skýrði frá, hjá einum hv. nm., hv. 8. landsk., að hann — og mér virtist nú jafnvel fleiri, jafnvel líka stjórnarstuðningsmenn í fjhn. — þeir væru ósamþykkir þeirri pólitík, sem hér er verið að staðfesta, sjálfri vaxtahækkuninni, en álitu hins vegar, að eftir að vaxtahækkunin hefði átt sér stað, þá hefði ekki verið um annað að ræða, en gefa út brbl. Í því eru rétt rök, ef maður gengur út frá því, að bankinn eigi í þessu efni að ráða stefnunni. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að það sé Alþingi, sem eigi að ráða stefnunni í þessum efnum, að það sé Alþingis að taka ákvarðanir um vaxtapólitíkina, það, hvort það skuli í sífellu hækka vextina, eins og nú er stefnt að með þessu frv. og eins og gert var á síðasta þingi. Og ég vil í því sambandi segja, að þessi vaxtahækkunarpólitík Landsbankans er ekki fyrst og fremst — ja, að mínu áliti — sök Landsbankans. Hún er sök meiri hlutans á Alþingi, sem hefur valdið í þessum efnum og getur stöðvað þessa þróun, svo framarlega sem meiri hlutinn vill gera það.

Ég vil taka það fram, að ég álít alla þessa vaxtahækkun ranga og skaðlega pólitík. Og þó að þetta sé ekki sérstaklega stórt mál, sem hérna liggur fyrir, þá vil ég fyrir mitt leyti gera það að prófsteini á það, hvort Alþingi vill halda áfram þessari pólitík eða ekki. Ég skal í því sambandi taka fram, að sjálf vaxtahækkunin er, eins og hv. formaður og frsm. fjhn. sagði réttilega um mína skoðun, afleiðing af lánsfjárstefnunni og vaxtahækkunin er rökstudd með því, bæði af Landsbankanum og eins á siðasta þingi af hálfu hæstv. fjmrh., að það sé svo mikil eftirspurn eftir lánsfé, að vegna þessarar eftirspurnar eftir lánsfé verði að hækka vextina á lánsfénu, það sé eftir þeim eðlilegu lögmálum framboðs og eftirspurnar. En þá vil ég vekja athygli á því, að sá aðili, sem ræður framboðinu á lánsfé í landinu, er Landsbankinn og Alþingi fyrst og fremst. Það er alveg rétt, að vaxtahækkun og vaxta- lækkun er aðeins afleiðing af þeirri stefnu, sem ríkir um útlán á lánsfé, og þegar menn þess vegna ætla að deila um, hvort það sé rétt stefna að hækka vexti, þá hljóta menn líka, eins og hv. formaður fjhn. talaði um, að gera sér ljóst, hvort sjálf lánsfjárpólitíkin er rétt eða röng. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að þessar skaðlegu og röngu vaxtahækkanir, sem nú eru framkvæmdar þing eftir þing, séu afleiðingar af rangri lánsfjárpólitík, séu afleiðingar af því, að það er of lítil lánsfjárveita og of lítil seðlavelta með þjóðinni, sem fer saman. Þar vil ég taka það fram, að lánsfjárvelta og seðlavelta á Íslandi er ekki einhver hlutur, sem kontrollerar sig sjálfur, vegna þess að hér ríkir ekkert prívat- kapítalistískt kerfi í þessum efnum. Lánsfjárveltan og seðlaveltan er hlutur, sem ríkið sjálft og ríkið eitt ræður og fyrirskipar. Og ég vil leyfa mér að halda því fram, að lánsfjárveltunni og seðlaveltunni sé núna sem stendur haldið óeðlilega niðri, að það sé rekin algerlega röng pólitík hvað snertir lánsfjárveltuna í landinu og gengið út frá hringlandi vitlausum forsendum um allt það, sem ákveður seðlaveltu og láns- fjárveltu í landinu núna, álíka vitlausum og óraunhæfum forsendum eins og þeim, sem gengið var út frá í verzlunarmálunum og þegar hafa beðið skipbrot. Og verði þessari heimskulegu pólitík með lánsfjárveltuna og seðlaveltuna hald- ið áfram, þá leiðir það til sams konar skipbrots fyrir pólitík ríkisstj. eins og þegar hefur orðið í verzlunarmálunum. Og þetta stafar allt saman af því, að það er verið að yfirfæra á Ísland kerfi, sem á við í gömlum, ríkum, prívatkapítalistiskum ríkjum eins og Bandaríkjunum og Englandi, kerfi, sem verður algerlega óheyrilegt fyrir okkar þjóðfélag.

Um lánsfjárveltuna og seðlaveltuna vil ég segja, — ég hef nú áður oft bent á, hvað hún er miklu lægri nú á þessu ári, heldur en hún var fyrir gengislækkun, hvernig hefur verið dregið úr hvoru tveggja alveg óeðlilega, síðan gengislækkunin var gerð, — en ég vildi í fyrsta lagi benda á, án þess að ég ætli mér að fara langt út í þessi mál núna, að lánsfjár- og seðlaveitan er langt fyrir neðan það, sem þjóðfélag á eins háu tæknistigi og Ísland er, þarf á að halda. Þjóðfélag, sem er eins vel útbúið með vélar og íslenzkur sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, þarf allt öðruvísi lánsfjár- og seðlaveltu, heldur en gamaldags þjóðfélag, við skulum segja, eins og okkar þjóðfélag var fyrir stríðið 1914 með frumstæðum hætti. Það að ætla sér að viðhalda lánsfjárveltu og seðlaveltu í eins tæknilega háþróuðu þjóðfélagi og þjóðfélag Íslands er núna, að ætla sér að viðhalda lánsfjár- og seðlaveltu, sem passaði fyrir þjóðfélag á miklu lægra tæknistigi, þýðir sama sem að kyrkja atvinnuvegina og hindra þá í því að geta notað sína tækni, hindra þá í því að geta notfært sér þau stórkostlegu tæki, sem flutt hafa verið inn til þjóðarinnar. Þetta er í fyrsta lagi: Lánsfjár- og seðlaveltan er ekki í neinu samræmi við það tæknistig, sem Ísland stendur á.

Í öðru lagi: Atvinnulíf Íslands er með þeim hætti, að við framleiðum í fyrsta lagi til útflutnings tiltölulega meira, en nokkur önnur þjóð í veröldinni. Í öðru lagi er þeim vörum, sem við framleiðum, þannig háttað, að það verður að liggja með þær í hálft ár til eitt ár, áður en þeim er komið í peninga á erlendum markaði, sem þýðir, að það verður að binda lánsfé í þessum vörum, sem framleiddar eru, lánsfé, sem ekki er í neinu samræmi við t.d. íbúafjölda landsins eða neyzlu. Svo framarlega sem ekki er nægilegt lánsfé til þess að binda í saltfiski, hraðfrystum fiski eða öðru slíku, þá þýðir það, að á ákveðnu stigi, við skulum segja kannske á miðju ári, kannske í ákveðnum mánuði síðari hluta árs, þá er svo að segja hætt að lána út á þessa hluti. Svo er hætt máske að framleiða þessa hluti, þó að nóg sé hægt að selja af þeim, vegna þess að það er of lítið lánað út á þá. Og fátæk bæjarfélög, sem binda fé í t.d. saltfiski og freðfiski, sem þau fá ekki lánað nema 2/3 út á, verða að leggja fram 1/3 af lánsfénu sjálf. Þessi 1/3 verður þeim ofvaxinn, þau hafa ekki efni á að liggja með svo mikinn freðfisk og svo mikinn saltfisk, þegar þau þurfa að leggja fram 1/3 af andvirðinu sem lánsfé sjálf. Og það fer út í það, að þau hætta við að framleiða saltfiskinn og freðfiskinn og selja fiskinn kontant út úr landinu. M.ö.o., það er stöðvuð framleiðsla á útflutningsverðmæti, stöðvuð sköpun á erlendum gjaldeyri, vegna þess að lánsfjárveltunni er haldið of lítilli. Ísland þarf miklu meiri láns fjárveltu heldur en önnur lönd á svipuðu tæknistigi, vegna þess, hve sérstakar vörur það framleiðir, þ.e.a.s. fiskinn, og vegna þess, hve lengi verður að liggja með hann. — Þetta var í öðru lagi.

Svo vil ég minna á það, eins og ég býst við, að flestum hv. þm. sé ljóst, að seðlaveltan á Íslandi núna er langt fyrir neðan það, sem eðlilegt er. Ég hef t.d. verið að bera hana saman við það, sem hún var 1915, með tilliti til íbúafjölda og breytinga, sem orðið hafa á tímabilinu siðan, og hún er núna um 1/3 minni, en hún var 1915. Og það veit nú hver einasti þm., hvaða breyt. hefur orðið á högum landsins síðan. Með öðrum orðum: Það er verið í þessum efnum að framkvæma tóma hringavitleysu út frá röngum forsendum, út frá þekkingarleysi á íslenzkum staðháttum. Það er verið að framkvæma ranga lánsfjárpólitík í landinu út frá þekkingarleysi á nauðsyn íslenzkra atvinnuvega, þekkingarleysi á því tæknistigi, sem við stöndum á, og hirðuleysi um nauðsyn íslenzks atvinnulífs fyrir lánsfé. Ég skal ekkert lýsa, hvað þessi óeðlilega lága lánsfjár- og seðlavelta er skaðleg fyrir atvinnulífið. Það veit hver einasti maður, sem í atvinnulífinu stendur. Það er ekki af engu, að hv. þm. sjálfir bera hér hvert málið eftir annað fram, þar sem þeir óska eftir enn meira lánsfé. En þeim sömu hv. þm., sem bera þessar óskir fram, ber að reyna að gera sér ofurlítið ljóst, af hverju þetta stafar. Og ég vil í öðru lagi taka það fram, að þessi ranga lánsfjárpólitík kostar ríkið meira í peningum þar að auki, — fyrir utan þau hundruð milljóna, sem það kostar atvinnulífið, þá kostar það ríkið stórfé, því að það er verið að taka erlend lán núna til íslenzkra framkvæmda, sem þyrfti ekki að taka, svo framarlega sem eðlileg lánsfjárpólitík væri rekin í landinu. Það er verið að taka með 41/2%, 5% og 51/2% vöxtum lán núna erlendis, og þá verðum við að borga vexti af þessum lánum í útlendum gjaldeyri, án þess að nokkur þörf sé fyrir að taka þetta fé í útlendri mynt. Það væri hægt af hálfu Landsbankans eða Seðlabankans hér innanlands að lána þetta, svo framarlega sem Alþingi léti reka aðra lánsfjárpólitík, en nú er rekin. Og þetta kostar okkur stórfé í vöxtum, sem við alls ekki þyrftum að borga, og í gjaldeyri, sem við gæt- um sloppið við að borga. En þó er það minnst móts við það, sem það kostar atvinnulífið. Og ég skal svo segja það um leið viðvíkjandi þessari röngu lánsfjárpólitík, sem rekin er í landinu og ríkisstj. fyrst og fremst er ábyrg fyrir, að ég skil ósköp vel, af hverju þessi ranga lánsfjárpólitík er rekin. Hún á upptök sín í því, að ríkisstj. heldur, að minnkun lánsfjárins í landinu sé heppileg og rétt aðferð til að takmarka eftirspurn á útlendum gjaldeyri. Ég vil taka það fram, að ég held ég ætli ríkisstjórninni þarna ekki neitt skakkt. Ég veit alveg, að ríkisstj. segir, að svo framarlega sem það væri miklu meira fé í veitu í landinu, þá mundi um leið vera aukin eftirspurn eftir útlendum gjaldeyri — og það er rétt. Það mundi verða aukin eftirspurn eftir útlendum gjaldeyri. Og það, sem ég svara því til, er, að það yrði miklu meiri framleiðsla á útlendum gjaldeyri, svo framarlega sem lánsfjárveltan væri meiri, — miklu meiri framleiðsla á útlendum gjaldeyri heldur en samsvarar þeirri eftirspurn, sem þyrfti að vera með réttri pólitík. En ég veit, að ríkisstj. afsakar sína röngu lánsfjárpólitík, sem nú er að kyrkja atvinnulífið, ræna fjöldann allan af mönnum sínum húsum, íbúðum, verkstæðum, bátum og öðru slíku, með því, að hún sé að takmarka eftirspurnina eftir útlendum gjaldeyri. Ég vil taka það fram, að þessi takmörkun á lánsfjárveltunni sveitir at- vinnulífið, eins og ég hef minnzt á, og hún skapar svartan markað á peningum í landinu, ægilegan svartan markað, sem er að gera vaxtafótinn hærri og hærri með hverju árinu sem liður. Ef maður þess vegna er að deila á vaxtahækkunina og deilir þess vegna á ranga lánsfjárpólitík, sem veldur vaxtahækkuninni, þá verð ég út frá þessu að deila á þá pólitík, sem ég veit, að í augum hæstv. ríkisstj. veldur þessari röngu láns- fjárpólitík, sem sé á þá hugmynd, að það sé hægt að takmarka eftirspurnina eftir útlendum gjaldeyri með lánsfjárminnkuninni. Þetta er alveg óhugsandi á Íslandi. Þetta er alveg vonlaust fyrirtæki, það er vonlaust fyrirtæki á Íslandi, landi, sem flytur út næstum helminginn af öllu, sem það framleiðir, og hefur þannig sérstöðu meðal allra landa veraldarinnar. Það er vonlaust að ætla að takmarka eftirspurnina eftir útlend- um gjaldeyri með lánsfjárminnkuninni. Hins vegar er vitanlegt, að með lánsfjárminnkuninni er nú verið að leiða yfir þjóðina atvinnuleysi og sára fátækt.

Núverandi atvinnuleysi, núverandi vaxandi fá- tækt hjá alþýðumönnum er bein afleiðing af því, hvernig dregið er úr atvinnulífinu og rekstri þess og framleiðslu þess með rangri lánsfjárpólitík. Það þýðir með öðrum orðum, að það er beinlínis verið að minnka framleiðsluna í landinu, draga úr starfsemi atvinnulífsins og minnka þar með hagnýtingu þeirra möguleika, sem við höfum til útflutnings, og minnka þar með raunverulega útflutninginn til þess að takmarka eftirspurnina eftir útlendum gjaldeyri. Það er sem sé verið að hætta við að nota okkar tækni til að framleiða útlendan gjaldeyri í því skyni að minnka eftirspurnina eftir útlendum gjaldeyri. Sem sagt, öll fjármálapólitík ríkisstj. á þessu sviði er tóm hringavitleysa. Meðalið, sem ríkisstj. þarna er að nota til að draga úr eftirspurninni, er verra en sjúkdómurinn sjálfur, sem hún ætlaði að lækna. Og það er satt að segja ekki að undra, þegar ríkisstj. raunverulega fer blint í þessum efnum eftir fyrirmælum manna, sem hafa ekki hundsvit á íslenzku atvinnulífi né íslenzku fjármálalífi. Og ég hélt, að væru nógu dýr fyrir ríkisstj. og nógu dýr fyrir þjóðina þau hundruð milljóna króna í útlendum gjaldeyri, sem búið er að eyða til einskis í vitlausar tilraunir í sambandi við gjaldeyrismálin, þó að hún héldi ekki áfram sömu vitlausu stefnunni í lánsfjármálum þjóðarinnar. Það verður að stöðva þessa fjármálastefnu. Það verður að stöðva hana, það verður að auka lánsfjárveltuna í landinu, það verður að koma seðlaveltunni og lánsfjárveltunni í eðlilegt horf, sem samsvarar tæknistigi Íslands, samsvarar þörfum atvinnuveganna og samsvarar getu okkar til að hagnýta okkur aukna lánsfjárveltu í landinu. Og ég vil taka það fram, að ríkisstj. og hennar flokkar eru ábyrgir fyrir þessari pólitík; það er meiri hlutinn á Alþingi, sem ræður þessari pólitík. Það er þess vegna raunverulega hlægilegt, þegar hv. þm. stjórnarflokkanna eru að flytja hér hvert frv. á fætur öðru og biðja um meira lánsfé, — biðja um meira lánsfé og meira lánsfé, en þora ekki að breyta sjálfri lánsfjárpólitík ríkisstj. Ef hv. þm. stjórnarflokkanna yfirleitt reyndu nokkurn tíma að gera sér grein fyrir fjármálastefnunni á Íslandi og fjármálaástandinu og skildu það, þá væri þetta óþarft. En vegna þess að þeir eru flæktir í fræðikenningar, sem þeim er talin trú um, að séu réttar, og þeir aldrei hafa lagt sig niður við að kryfja til mergjar, þá gera þeir þetta sjálfsagt allt saman í góðri meiningu og halda því vafalaust áfram, eins og þeir studdu verzlunarpólitík ríkisstj., jafnvel þó að það væri fyrirsjáanlegt, hvernig hún mundi enda. Ég held þess vegna, — og það var nú það, sem gerði það að verkum, að ég klauf nefndina út af þessu annars tiltölulega litla máli, — ég álít, að það væri heppilegt, að Alþingi léti í ljós sína meiningu um þá röngu stefnu í fjármálunum, sem orsakar síhækkandi lánsfjárvexti, síhækkandi útlánsvexti, stefnu, sem skapast af rangri lánsfjárpólitík, stefnu, sem er að þrengja að atvinnulífinu og kyrkja það meir og meir og brjála allt efnahagslif þjóðarinnar. Ég held það væri heppilegt, að Alþingi léti í ljós þá skoðun, að það verði að breyta um þessa lánapólitík, að það verði að stöðva þetta, sem leiðir til þess, að atvinnulífið kiknar undir vitlausri lána- og vaxtapólitík.

Ef hv. deild fellir þetta stjórnarfrv., þá segir neðri deild Alþingis þar með, að hún vilji ekki áframhald þessarar stefnu, það verði að breyta um, það verði að endurskoða þessa stefnu. Og ég held það sé nauðsynlegt að segja það, alveg nauðsynlegt. Það er stór hætta í því fyrir þjóðina, ef haldið er áfram eins rangri stefnu og nú er rekin. Og það eru ekki bankarnir sjálfir, sem ákveða þetta, þetta er stefna, sem á upptök sín hér í þingsölunum og er framkvæmd á ábyrgð þeirra flokka, sem styðja hæstv. ríkisstj. Þess vegna legg ég til, að þetta frv. sé fellt.