16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

199. mál, almannatryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú í framsöguræðu sinni lýst því, hvers vegna þessar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni eru nú fram komnar, og lét fylgja, að hér væri um að ræða samning, sem ríkisstj. öll stæði óskipt að, og ég geri því ráð fyrir, að það verði torvelt að koma fram þar nokkrum umbótum á eða nokkrum breytingum við löggjöfina eins og hún er sett hér fram, og harma ég það raunverulega mjög.

Ég skal ekki mjög á þessu stigi málsins ræða það efnislega, hversu heppilegt það er fyrir þingræðið í landinu, að hæstv. ríkisstj. semur um víðtækar breytingar á viðkvæmri og mjög þýðingarmikilli löggjöf á meðan Alþ. situr. Ég skal geyma mér það þangað til ég hef tækifæri til þess undir öðrum kringumstæðum og ekki eyða tíma hv. d. til þess að ræða það atriði, en vil aðeins á þessu stigi málsins leyfa mér að fullyrða, að annars vegar skil ég vel þann vanda, sem hæstv. ríkisstj. var í, en hins vegar er ég ekki sammála um, að ekki hefði mátt fórna allmiklu fé til þess að grafa ekki rætur undan Alþ. með slíkri framkomu sem hefur verið höfð hér í sambandi við þessi mál. Ég skal hins vegar ekki fara út í það frekar nú. En hitt harma ég enn meir, að úr því að hæstv. ríkisstj. þótti nauðsyn til bera að breyta þessari löggjöf, þá skyldi ekki vera leitað til þeirra aðila, sem samning löggjafarinnar hefur jafnan hvílt á frá upphafi og breytingarnar jafnan hafa hvílt á öll þau ár síðan löggjöfin var samþykkt, og á ég þar m.a. bæði við heilbr.- og félmn. þessarar d., sem hefur borið hitann og þungann af þessu máli allan tímann, úr því að til þeirra manna var hægt að ná, svo og við tryggingaráð, því að það er áreiðanlegt, eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram áðan, að það voru ekki fyrst og fremst þessi atriði, sem þeir aðilar hefðu óskað eftir að breytt væri í löggjöfinni. Og ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á, að í lögum nr. 112 frá árinu 1952, sem gengið var frá hér á síðustu dögum á undan þinghléi, þá var það gert til þess að mæta óskum hæstv. ráðh. og af skilningi á fjárþröng ríkissjóðs og hins vegar vegna fjárhagsörðugleika trygginganna sjálfra að fresta ákvæðunum samkv. 4. gr. þeirra laga til ársins 1954. Ég mun nú undir meðferð þessa máls, og það er þess vegna, sem mér þótti rétt að taka til máls nú þegar við 1. umr., gera ítrekaðar tilraunir til þess að fá þessu lagaákvæði breytt. Ég get ekki undir neinum kringumstæðum fellt mig við né viðurkennt, að úr því að einhver möguleiki er fyrir hendi að eyða svo mörgum milljónum í tryggingarnar eins og hér er gert, þá séu þeir skildir eftir úti á hjarninu, sem mest og frekast þurfa þess með að, að þeim sé hlúð. Ég vil segja hæstv. ráðh. frá því strax, að við mig getur ekkert samkomulag orðið um þessi atriði nú, þó að ég hefði við hann fullt samkomulag um það, þegar lögin voru samþykkt í desembermánuði, að gagnrýna hann ekki fyrir að verða að víkja frá þeim loforðum, sem hann gaf þinginu á sínum tíma um það atriði. Ég mun því gera þá breyt. í n. og reyna að koma henni fram, að annaðhvort verði þessum takmörkunum eitthvað breytt eða að tíminn a.m.k. verði allverulega styttur, eða hvort tveggja.

Ég vil í sambandi við þessa löggjöf, sem nú er hér til umr., mega spyrja hæstv. ráðh.: Er það tilgangur hæstv. ríkisstj., að hér sé um frambúðarlöggjöf að ræða, eða er það aðeins tilgangurinn, að þetta sé látið ná yfir ákveðið tímabil, þó að það sé ekki tekið fram í löggjöfinni? Og sé hér um ákveðna framtíðarlöggjöf að ræða, þá vildi ég einnig mega spyrja hæstv. ráðherra, hvaða tryggingar Tryggingastofnuninni séu settar til þess, að hún þurfi ekki að svíkja þessi loforð í framtíðinni.

Þegar tryggingalöggjöfin var byggð upp í fyrstu, stóð einmitt um þessi atriði hörð barátta á milli mín annars vegar og hv. 4. þm. Reykv. hins vegar, að það yrði ekki settur meiri þungi á tryggingarnar í upphafi heldur en svo, að það væri alltaf öruggt, að ekki þyrfti að hverfa aftur til baka og svíkja bótaþega, — þyrfti ekki að draga úr þeim greiðslum, sem honum frá upphafi væru ætlaðar. Og barátta mín fyrir því að fá aukinn tekjustofn til almannatrygginganna, m.a. allt erfðafé, er byggð á þessum skilningi mínum á nauðsyn Tryggingastofnunarinnar til þess að þurfa ekki að svíkja þegnana í framtíðinni. Þeim óskum frá minni hálfu hefur ekki verið mætt nema að litlu leyti, þar sem ekki hafa verið teknir upp neinir öruggir, fastir tekjustofnar fyrir Tryggingastofnunina, heldur verður hún að treysta á ríkissjóðinn og afkomu hans eins og hún kann að vera á hverjum tíma. Og ég tel það vægast sagt ákaflega mikla bjartsýni að ætla sér nú að leggja 19 millj. kr. nýja byrði á Tryggingastofnunina, nema því aðeins að það sé einhvern veginn séð fyrir þessum málum í framtíðinni, — nema hér sé um að ræða einhverja bráðabirgðalausn.

Þá vil ég einnig í sambandi við þetta leyfa mér að spyrja: Hvernig hefur hæstv. ríkisstj. hugsað sér að tryggja greiðslurnar frá sveitarsjóðunum eða gera þeim mögulegt að standa undir þeirri 4 millj. kr. nýju byrði, sem ætlazt er til hér að lögð sé á þá í sambandi við þessa löggjöf? Mér er vel kunnugt um þau kvein, sem hafa komið frá sveitarstjórnarfélögunum, m.a. vil ég minna á kröfur þeirra og kröfugöngur hér til Alþingis um að fá ákveðinn hluta af söluskattinum, vegna þess að þau þóttust þá ekki geta staðið undir þeim byrðum, sem þegar var búið að leggja á. Það hefur ekki verið mætt minni kröfu hér í hv. Alþ. um að afnema tekju- og eignarskattslögin til þess að gefa sveitarsjóðunum enn meiri möguleika til að afla sér tekna, og það hefur ekkert verið létt af sveitarsjóðunum, að mér sé kunnugt um, í sambandi við löggjöf á þessu þingi, en nú er bætt a.m.k. 4 millj. kr. við, og þess vegna vil ég gjarnan spyrja: Hvað hefur ríkisstj. hugsað sér að gera í sambandi við tryggingu á greiðslum frá sveitarsjóðunum, ekki einasta á þeim upphæðum, sem samkv. gildandi löggjöf ber að greiða til trygginganna, heldur og að viðbættri þeirri upphæð, sem hér um ræðir? Hv. 4. þm. Reykv. minntist nokkuð á þá hættu, sem hann teldi að væri fyrir hendi á þessu sviði, og er ekki ástæðulaust að minna á það, þegar um málið er rætt.

Ég vil enn fremur leyfa mér að spyrja: Hvaða tryggingu getur ríkissjóður gert eða gefið fyrir því, að atvinnurekendur geti greitt sinn hlut? Það er viðurkennt í þessu verkfalli, ekki einasta af almenningi, heldur og alveg sérstaklega af þeim mönnum, sem komu verkfallinu af stað, að það sé alveg útilokað, að atvinnurekendur geti tekið á sig nokkra byrði í sambandi við kröfur þeirra. Samt sem áður er hér lögð allveruleg byrði á atvinnurekendur í auknum gjöldum til trygginganna í sambandi við lausn verkfallsins og vinnudeilunnar.

Ég vil einnig spyrja um, hvaða réttlæti var í því að leggja hér ákveðna byrði á aðra aðila, einstaklinga, sem ekkert kom þessi deila við, eins og gert er með þessari löggjöf, sem hér er á ferðinni. Auk þess er nú tekið úr einum vasanum og látið í annan hjá þessum sömu mönnum, þar sem þeim eru að vísu gefin þau fríðindi að fá meðlög með börnum, en hins vegar eru þó hækkuð öll gjöld til trygginganna hjá öllum vinnuþiggjendum, einnig hjá þeim, sem lágt eru launaðir.

Ég hygg, að það hefði verið miklu eðlilegra, skynsamlegra og að ég ekki tali um, hvað það hefði verið miklu þinglegra, að öll þessi mál hefðu veríð rædd hér í þingi, áður en gengið var frá þessum samningum. Mér er það alveg ljóst, að það hefði að vísu kostað eitthvert fjárhagslegt tjón fyrir þjóðina að bíða eftir því einhverja ákveðna daga, að þessi mál hefðu fengið þinglega meðferð, en mér er þá líka ljóst, að það kann að kosta miklu meira tjón fyrir þjóðina, ef á að fara inn á þá braut og halda áfram á þeirri braut, sem hér hefur verið mörkuð. Þess er kannske ekki að vænta, að hæstv. ríkisstj., þó að hún þekki vel þessi mál, sýni jafnmikla þekkingu á hverju smáatriði eða jafnvel veigamiklum atriðum þessa máls eins og þeir menn, sem hafa orðið að bera hita og þunga dagsins af málinu allt síðan það fyrst kom hér fyrir Alþingi. Og ég verð að segja það, að ég er eiginlega alveg undrandi yfir þessari málsmeðferð. Ég hef ekki enn gleymt þeirri baráttu, sem ég hef átt við Framsfl. til tryggingar því, að hægt væri að uppfylla þau loforð, sem á sínum tíma voru gefin bótaþegunum. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á það, að það urðu um þetta hörð átök hér á siðasta Alþ. rétt fyrir þingslít, þar sem hann af sérstökum ástæðum gat ekki verið við umræður og þar sem Framsfl. í annað skipti gerði stórkostlegar tilraunir til þess að rýra möguleika trygginganna til þess að standa undir sínum loforðum og sínum skyldum. Það er því sannarleg hugarfarsbreyting, þegar hæstv. ráðh. lýsir því yfir, að honum sé það gleðiefni, að þessi löggjöf sé nú fram komin, og hann áliti, að það sé einmitt þetta, sem hafi þurft að koma inn í löggjöfina, þó að ekki hafi verið nauðsynlegt eða hafi verið knúið fram undir þeim kringumstæðum, sem hann gat um. Ég veit það, að ef sú barátta hefði ekki verið háð og Framsfl. hefði þá komið fram því, sem þá var stefnt að, að rýra svo sjóði trygginganna sem hann vildi og illu heilli var að nokkru leyti gert, þá hefði nú tryggingin staðið enn verr til þess að geta mætt þeim álögum, sem hér eru nú á hana lagðar.

Ég vildi enn fremur leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, hvort það teldist samningsbrot, — ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. geri allmiklar kröfur til þess, að það verði ekki farið lengra í þessu máli heldur en þó það, að það sé hægt að halda þann samning, sem hún hefur gert hér fyrir utan þingið og meðan þingið sat, — hvort það mundi teljast samningsbrot, að sett væru inn skerðingarákvæði í sambandi við fjölskyldubæturnar, þannig að þær yrðu þó ekki greiddar neinum aðila, sem hefði hærri laun en þeir aðilar, sem börðust fyrir sínum launatekjum í sambandi við verkfallið. Ég læt mér ekki detta í hug, að hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér það að vera með þeim samningum, sem hún gerði, og þeim lagabreytingum, sem hún er að gera, að tryggja hag þeirra manna í landinu, sem engin ástæða þótti til að gera kröfur um bætur fyrir og engin ástæða var til að auka tekjur hjá, eins og hæst launuðu mönnunum í landinu, en sannarlega koma þeir einnig til að njóta þeirra hlunninda, sem hér um ræðir. Ég mun því gera tilraun til þess í n. að fá því breytt, að hér sé sett inn skerðingarákvæði, þannig að þessar fjölskyldubætur skuli þó ekki veittar til þeirra manna, sem hafa ákveðnar tekjur, eftir því sem kann að verða samkomulag í nefndinni um, að það takmark verði sett.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég aðeins leyfa mér að benda á, hvernig tryggingalöggjöfin var raunverulega hugsuð í upphafi. Það var hugsað að hafa sambland af tryggingum og framfærslu fyrir fólkið, svo að fólkið væri öruggt um að geta lifað, þó að það hefði litlar eða engar aðrar tekju,r en frá Tryggingastofnuninni. Þetta var nú frumskilyrðið. En það var jafnframt hugsað, að hér skyldi vera um tryggingastarfsemi að ræða, þar sem menn ættu kröfu á að geta fengið út úr tryggingunum m.a. sín ellilaun, eftir að hafa greitt inn í tryggingarnar ákveðinn árafjölda, hvort sem þeir þurftu á því að halda eða ekki, alveg eins og maður á heimtingu á að fá brunabótagreiðslu fyrir sitt hús, ef það brennur, hvort sem hann hefur verið ríkur eða fátækur. Og það er einmitt þessi þátturinn í tryggingalöggjöfinni, sem í framtíðinni kemur til þess að gera löggjöfina vinsæla og treysta hana á allan veg, en í upphafi hefur valdið því, að hún hefur ekki notið þess skilnings hjá fólki, sem hún hefur þurft. Ég hef hvað eftir annað orðið þess var, að fólk skilur ekki, hvers vegna fátækur maður, sem orðinn er 67 ára eða eldri, fær ekki hærri ellilaun, en veitt eru, en annar, sem er efnaðri, getur fengið sömu laun, og eftir því sem ætlazt er til í framtíðinni, þá geta allir fengið eftirlaun, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir, þegar viðmiðunin er afnumin. Þetta hafa menn ekki skilið enn, vegna þess að þeir hafa ekki skilið tryggingarþátt trygginganna. En nú er tryggingin komin inn á allt annað svið og það mjög óheppilegt svið að mínu áliti. Nú er hún komin inn á að vera miðlari á milli atvinnurekanda og atvinnuþiggjanda í landinu, og það er sannarlega hættulegt stig. Þessi löggjöf, sem á að byggja upp betra þjóðfélag heldur en nokkru sinni hefur verið á Íslandi og áreiðanlega og tvímælalaust er bezta og skynsamlegasta löggjöf, sem við höfum gert hér á Alþ. á hinum síðari tímum, er dregin inn í harðar verkfallsdeilur og pólitískar deilur til þess að verða þar knöttur á milli þeirra manna, sem þar deila, og það tel ég alveg voðalegt fyrir þetta mál. Og ég veit sannarlega ekki, hvar bótaþegarnir standa í þessu landi, þegar þeir eiga alla sina afkomu undir því annars vegar, að ekki séu settar gersamlega óhæfar kröfur í sambandi við greiðslu launa, og hins vegar ekki nægjanlega sterkir menn til þess að standa á móti þeim kröfum og ganga þá á tryggingarnar til þess að láta þær leysa vandamálin.

Ég harma það mjög, að hinn ágæti hæstv. heilbr.- og félmrh. skyldi láta leiða sig út í þessa óhæfu. Og ég vonast til þess, að hann verði fús til þess að leysa Tryggingastofnunina út úr þessum vanda svo fljótt sem verða má. Einmitt þess vegna vildi ég mega spyrja: Teldi hann ekki rétt, úr því sem komið er, að inn í þessa löggjöf væri sett, að tryggingalöggjöfin öll skuli nú endurskoðuð þegar á þessu ári og nýjar till. lagðar fyrir næsta Alþingi, ef okkur kemur saman á yfirstandandi ári? Ég mun gera tilraun til þess einnig að fá það ákvæði sett inn í frv., því að svo mikið rothögg hefur Tryggingastofnunin fengið við það að blanda henni í vinnudeilur, að það er ekki vanþörf á, að það sé tekið til raunverulegrar athugunar nú þegar á þessu ári, hvernig hægt sé að tryggja það, að það verði aldrei framar gert.