02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

199. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér liggur fyrir, barst heilbr.- og félmn. s.l. föstudag, og n. gat haldið einn fund um málið, á laugardagsmorgun, og kom þá í ljós, að n. gat ekki orðið sammála um að standa að þessu máli og er því klofin. Ég hef nú ekki séð neitt nál. frá minni hl., en býst samt við, að það minni eiga að koma. Einn þm., hv. 10. landsk., var á móti því, en hinir nm. fjórir féllust á að mæla með frv. óbreyttu. Þó gátu tveir nm., hv. 10. landsk. þm. og hv. 3. landsk. þm., um það, að þeir áskildu sér rétt til þess að koma fram með brtt. eða samþ. þær, sem fram kynnu að koma.

Frv. þetta er stjfrv., sem borið er fram í Ed. og er einn liður í því samkomulagi, sem náðist hér fyrir jólin í hinni svo kölluðu verkfallsdeilu, sem hér stóð þá yfir. Þá var nýbúið að samþ. annað frv. um breyt. á tryggingal., og er það fellt inn í þetta frv. hér líka, svo að það er bæði um það, sem búið var að samþ. hér fyrir jólin í vetur, og eins er það nú borið upp með breytingum vegna þess samkomulags, sem varð í vinnudeilunni hér fyrir mánuði.

Þó að við fjórir mæltum með því, að frv. yrði samþ. óbreytt eins og það lá hér fyrir, þá lýsti n. óánægju sinni yfir því, að þarna væri gengið inn á þá braut í tryggingalöggjöfinni að greiða fjölskyldubætur án skerðingar, veita þær sem sagt öllum, hvort sem þeir hafa lágar eða háar tekjur. En eins og nú standa sakir, þá er — eins og alþm. vita — í tryggingalöggjöfinni enn þá skerðingarákvæði um það, að menn, sem fá ellilífeyrir, fá hann ekki, ef þeir hafa visst tekjuhámark. Þetta er náttúrlega ósamræmi, sem þarf að laga, en það er vitað og yfirlýst, að þetta var skoðað sem brot á því samkomulagi, sem gert var fyrir jólin í vinnudeilunni, og n. sá sér ekki fært að mæla á móti því að svo komnu og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. N. vill enn fremur geta þess, að hún leggur á það ríka áherzlu, að þeirri endurskoðun, sem framkvæma á, á tryggingalöggjöfinni, verði hraðað sem allra mest og fari fram ekki síðar en á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir í l. um það.

Ég skal svo ekki ræða þetta mál frekar að sinni. Ég býst við því, að hér komi brtt. frá minni hl., og mun þá bíða með að taka afstöðu til þeirra, þar til þær koma fram og búið er að mæla fyrir þeim.