05.02.1953
Neðri deild: 68. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1248)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Meginuppistaðan í rökfærslu og till. hv. 3. landsk. er sú, að engin hætta sé á því, að þessi erlendu ættarnöfn haldist í málinu, ef hans till. er samþ. og þessir erlendu menn taki upp íslenzkt fornafn. Ég vil taka fram fyrst, að við, sem erum þessari till. mótfallnir, höfum haldið því fram, að þessu muni ekki verða framfylgt og að þessi nöfn muni haldast í málinu mann fram af manni og börn þessara manna muni nota þetta ættarnafn eins og ekkert hefði skeð. (Gripið fram í.) Ég vil bara benda hv. þm. á það, að í 3. gr. laga um mannanöfn segir: „Þeir íslenzkir þegnar og börn þeirra, sem nú bera ættarnöfn, sem upp eru tekin síðan lög nr. 41 1913 komu í gildi, mega halda þeim alla ævi.“ Það þýðir það, að þeir, sem þá höfðu ættarnöfn, og börn þeirra, sem báru þau þegar lögin tóku gildi, mega halda þeim alla ævi, en lengur ekki. Þeirra barnabörn mega ekki taka upp þetta nafn samkv. lögunum; það er greinilegt. En við sjáum bara reynsluna, hver hún hefur orðið. Ég skal ekki fara að deila um það út af fyrir sig, en þetta bendir ótvírætt á það, hvað mundi verða, ef till. hv. þm. yrði samþykkt. Það mundi verða nákvæmlega sama niðurstaðan. Hér er bannað með lögum, að þessi nöfn megi ganga mann fram af manni, en reynslan hefur ekki orðið sú, að því hafi verið fylgt eftir, og sama reynslan verður með þessi útlendu ættarnöfn. Við fáum yfir okkur flóð erlendra nafna inn í málið, sem eykst með hverju ári, þannig að líklega mundi hv. þm. endast aldur til að sjá það, að helmingur af íslenzkum mannanöfnum væri af erlendum uppruna og nöfn, sem hvergi færu eftir lögmáli íslenzkrar tungu.