06.02.1953
Sameinað þing: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

164. mál, ríkisborgararéttur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Mér finnst ekki nema gott til þess að vita, að hæstv. atvmrh. skemmti hér þingmönnum litla stund, en mér finnst, að hann ætti heldur að hafa slíkar skemmtanir eftir þinglausnir heldur en nú, þegar naumur tími er til þess að ljúka alvarlegum þingmálum.

Ég skal ekki tefja umr. um þetta mál. Ég tel, að það sé búið að segja svo mikið um þetta með og móti, að flest þau rök séu þegar komin fram, sem menn hafa fram að færa, svo að ég hygg ekki, að það verði færð mörg atriði fram, sem kynnu að breyta afstöðu hv. þm. í málinu. Og varla trúi ég því, að skilaboðin frá Blumenstein, sem hv. 3. landsk. bar nú fram, muni hafa mikil áhrif í málinu. Ég hef ekki almennilega skilið, hvernig því máli er varið. Mér var sagt, eftir að hv. þm. lauk máli sínu, að það mundi hafa verið þannig, að þessi maður vildi ekki skipta um nafn, en að fjölskylda hans, sem af sjálfu sér fær réttindi með honum, hafi mátt halda sínu nafni, þó að hann skipti um nafn! Ég skil ekki, að þetta geti verið svoleiðis. Ég skal ekki segja, hvort ég fer hérna með rétt mál, en ef svo er, þá hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða í dómsmrn. Sá, sem fær réttinn, og þeir, sem fá hann sjálfkrafa með honum, hljóta að hlíta sömu skilyrðum. En annars sé ég ekki, að það sé neinn kostur fyrir okkur, ef við hefðum nú fjóra eða fimm Blumensteina fyrir, að bæta. við einum Blumensteininum, því að þetta nafn mun aldrei skarta vel í íslenzku máli eða íslenzkum nafnaskrám.

Það er alveg rétt, að við höfum hér ýmis útlend nöfn, en mikið af þeim hefur komið eftír að Alþ. hefur veitt ríkisborgararétt í ríkum mæli á síðari árum, og ekki hefur verið athugað að láta þessa menn ekki koma með sín erlendu nöfn inn í landið og staðfestast þar. Ef það hefði verið athugað fyrr af Alþ., þá hefði urmull af útlendum nöfnum, sem nú eru í málinu, ekki komizt inn í landið. En þetta má kalla mistök, sem ekki er gott að gera við nú, nema því aðeins að nafnalögin verði tekin til athugunar í heild og einhverjar ákveðnar linur dregnar í þessum efnum.

En ég get ekki horfið frá því, að mér finnst, að misréttið sé mikið milli Íslendinganna og útlendinganna. Óbornir Íslendingar, sem fá íslenzkan borgararétt um leið og þeir koma í heiminn, fá ekki að taka sér ættarnafn, þótt íslenzk séu, en ókomnum útlendingum til landsins, sem biðja um og á sínum tíma kunna að fá borgararétt, er heimilað strax að koma með sitt erlenda ættarnafn inn í landið. Ég tel, að þetta ákvæði, sem í till. felst, sé svo stórhættulegt fyrir þennan þátt þjóðernisins, sem hér er um að ræða, mannanöfnin, ef till. yrði samþykkt, að ég mundi ekki hika við að greiða atkv. á móti frv. í heild.