20.11.1952
Efri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1352)

76. mál, búfjártryggingar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 85, benda á, að ég tel mjög vafasamt að láta 5. gr. standa óbreytta. Hér er sett ótakmörkuð ábyrgð á ríkissjóð í sambandi við þessa tryggingu, og sýnist mér, að það sé ákaflega óeðlilegt, að ríkissjóður sé að tryggja búfé fram yfir það, sem hann leggur til trygginganna almennt. Ég skal ekki segja um, hvað þessi upphæð geti orðið mikil. En mér finnst langeðlilegast, að áhætta ríkissjóðs takmarkist við þá upphæð, sem lögð er fram til trygginganna sem stofnfé og ákveðin er með 2. gr., en ríkissjóður beri enga áhættu af tryggingunum sjálfum. Ég vildi beina því til hv. nefndar, hvort ekki sé hægt að fá milli umr. þessari grein breytt.

Ég vil benda hér á í sambandi við grg., að eftir að iðgjöldin hafa verið hækkuð, þá virðast tryggingarnar hafa gengið saman, og að erfiðleikarnir stafa í raun og veru langmest af því, að viðkomandi aðilar fáist ekki til þess að tryggja búfé sitt, vegna þess að iðgjöldin séu of há. Ef það er svo, að viðkomandi aðili telur sér meiri hag í því að hafa fé sitt ótryggt, heldur en að tryggja það fyrir eðlileg iðgjöld, miðað við það, að tryggingadeildin hafi fengið eðlilegt stofnfé til þess að starfa með, sé ég ekki annað, en það verði annaðhvort að hækka iðgjöldin enn og gera skyldutryggingu eða láta ríkissjóð ekki hafa nein afskipti af þessu máli. Mér finnst það alveg óviðeigandi, að ríkissjóður sé að tryggja að nokkru leyti frekar í þessum tryggingum heldur en öðrum. Hitt finnst mér ekki nema eðlilegt, að ríkissjóður leggi tryggingunum til ákveðna upphæð, hvort sem því er dreift á eitt ár eða fleiri, til þess að tryggingin geti talizt starfhæf. Ég vildi biðja hv. nefnd að athuga þetta.

Ég er samþykkur breyt. á þskj. 246 með þeim skýringum, sem hv. frsm. gaf. Þessi upphæð er inni á fjárlögunum, 100 þús. kr. Það virkar ekki öðruvísi en að ætlazt er til, að það séu teknar 100 þús. kr. eitt ár til, og sé ég ekki annað en það sé eðlilegt. Og ef það sýndi sig, að það væri þörf á því að framlengja það enn um eitt ár eða tvö, þá teldi ég það miklu heppilegra, heldur en að hafa það ákvæði, sem hér er í 5. gr. Ég vildi miklu heldur fylgja því, að það fengi meira stofnfé, heldur en taka þá áhættu, sem hér um ræðir.

Ég get hins vegar ekki verið samþykkur brtt. á þskj. 260, og ég vil nú mjög mælast til þess, að hv. nefnd taki þessa till. aftur til 3. umr. og sjái svo, hvort ekki sé hægt að fá samkomulag við mig um breyt. á að minnsta kosti orðalaginu.

Ég get ekki fallizt á rök hv. frsm. um, að það sé meiri hætta af flóðum í eyjum, jafnvel þótt þær séu óbyggðar, heldur en er yfirleitt annars staðar, t.d. við Breiðafjörð. Þar er flæðihætta allmikil, og ég hygg, að. reynslan hafi sýnt, að fé hafi ekki tapazt af flóðhættu meira í eyjunum heldur en það hefur gert yfirleitt á þeim bændabýlum, sem standa uppi á ströndinni, og þá ekki heldur þó að eyjarnar hafi verið óbyggðar. Mér er til dæmis kunnugt um, að í Stagley, þar sem kvað hafa komið fyrir nokkuð mikið tjón, þá getur það ekki hafa stafað sérstaklega af flóðhættu, heldur af einhverjum öðrum ástæðum. Hins vegar er heldur engin fannahætta í eyjum, það er ekki til, og miklu minni, heldur en er yfirleitt á landi. Ég álít, að þessi hætta, sem hér er talað um í sambandi við að hafa fé í óbyggðum eyjum, sé undir flestum kringumstæðum engan veginn meiri en hætta í sambandi við fannir, snjóflóð og fleira á landi.

Þess utan er ég nú ekki víss um, að það sé náð þeim tilgangi, sem hv. landbn. ætlar sér, með orðalaginu eins og það er nú, því að það er sagt hér, að þetta skuli gert að fengnum till. hreppsnefndar þess hrepps, sem eyjarnar liggi í. Ég er nú ekki alveg víss um, að það liggi fullt öryggi í því, að hreppsnefnd á hvaða tíma mundi leggja gegn því að taka fé til tryggingar, þó að einhver meiri hætta væri á því, heldur en almennt er talið. Ég vildi því mjög mælast til þess, að till. yrði tekin aftur. Ef það er ekki fáanlegt, þá neyðist ég til að bera fram brtt. við þá till., en hefði talið heppilegra, að ég fengi tækifæri til þess að ræða þetta við nefndina.