19.12.1952
Neðri deild: 46. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

186. mál, almannatryggingar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vildi aðeins mæla örfá orð til stuðnings þeirri brtt., sem meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur flutt hér varðandi 2. gr. Stafar það af því, að ég hef orðið í starfi mínu margsinnis var við það herfilega misrétti, sem þær konur, sem giftar hafa verið erlendum mönnum, en þeir yfirgefið þær, hafa verið beittar í þessum efnum. Síðan tryggingalögin voru sett, 1946, hefur ástandið verið þannig hér á landi, að íslenzkar konur, sem áttu óskilgetin börn með erlendum mönnum, fengu meðlag með þeim, en íslenzkar konur, sem voru giftar erlendum mönnum og átt höfðu með þeim skilgetin börn, en mennirnir yfirgefið þær, skilið við þær, voru skör lægra settar og fengu engin meðlög. Nú hefur það hvað eftir annað komið fyrir og verið mælzt til þess við félmrn., að þetta yrði lagfært. Og þó að það hafi nú dregizt, verð ég að fagna, að 2. gr. þessa frv. er lagfæring á þessu. Hins vegar nær hún allt of skammt, því að það er sjálfsögð réttlætiskrafa, að þetta misrétti, sem þessar íslenzku konur, tiltölulega fáar, hafa orðið fyrir, verði leiðrétt alla leið frá gildistöku tryggingalaganna, eða sem sagt frá og með árinu 1947. Annað væri mikið misrétti og í rauninni ekki sæmandi Alþ. að setja þannig þær konur, sem átt hafa óskilgetin börn með erlendum mönnum, framar um styrk eða meðlög þeim konum, sem hafa verið giftar erlendum mönnum og átt með þeim börn. Það er þetta misrétti, sem mér virðist að till. meiri hl. heilbr.- og félmn. fari fram á að leiðrétta, eins og er alveg sjálfsagt. Ég hef ástæðu til þess að ætla, að það stafi aðeins af vangá í félmrn., — það væri gott, ef hæstv. félmrh. hefði tíma til að hlusta á þessar umr., — ég vil taka það fram aftur, að ég hef ástæðu til að ætla, að það stafi af hreinni vangá í félmrn., að frv. er ekki þannig úr garði gert eins og meiri hl. heilbr.- og félmn. leggur til. Sá fulltrúi í rn., sem hefur haft með undirbúning þessa máls að gera, hefur tjáð mér það, að það hafi verið tilætlunin, að frv. yrði eins og meiri hl. n. leggur til, en hér sé sem sagt um misgáning að ræða. Hér er um mjög smávægilega upphæð að ræða, eins og hv. 9. landsk. tók fram, líklega milli 20 og 30 þúsund, og sýnist mér sjálfsagt, að Alþ. færi þetta í sæmilegt horf og láti þessar konur njóta jafnréttis.