07.11.1952
Neðri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

127. mál, menntaskóli

Flm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á því að halda langa framsöguræðu með þessu frv. Það er í meginatriðum kunnugt hv. þdm. og því ekki þörf á að rekja hér í löngu máli þær röksemdir, sem það byggist á. Ég vil þó taka það fram, að frv. er þó að nokkru leyti breytt frá því, er það var lagt hér fram á síðasta þingi. Þá var, svo sem mönnum mun kunnugt, þetta mál afgr. frá þinginu í því formi, að menntmrh. var heimilt að veita menntaskólanum á Akureyri rétt til þess að starfrækja miðskóladeild í ákveðinn tíma. Þessi lög hefur hæstv. menntmrh. framkvæmt á þann veg, að hann hefur takmarkað heimild menntaskólans á Akureyri til þess að hafa þessa deild við s.l. haust, þ.e.a.s. haustið 1952. Ég skal ekki um það deila hér, hversu réttmætur sá skilningur hefur verið á þessari heimild. Það var að vísu skoðun stuðningsmanna málsins þá, að annað fælist í lagaákvæðinu heldur en framkvæmdin hefur reynzt, en um það tjáir ekki að deila. Ástandið er því þannig hvað varðar þennan skóla nú, að 1. bekkur þessarar deildar er ekki starfræktur í vetur.

Samkv. viðtölum við hæstv. menntmrh. hefur þetta frv. nú verið formað á þann veg, að fræðslumálastjórn er heimilt, ef ástæða þykir til, að halda uppi miðskólakennslu við menntaskólana. Þetta frv. á því við alla menntaskólana jafnt, — ég segi alla, vegna þess að þeir eru í rauninni fjórir; það eru tveir menntaskólar hér í Reykjavík, þ.e.a.s. menntaskólinn og verzlunarskólinn, sem hefur rétt til að útskrifa stúdenta, menntaskólinn á Akureyri og menntaskóli, sem væntanlega rís nú upp á Laugarvatni. Svo sem hv. þdm. er ljóst af orðalagi þessa heimildarákvæðis, þá er það hvorki bundið við neinn skóla né heldur gert ráð fyrir, að í því felist nein breyt. á gildandi fræðslulöggjöf, þ.e.a.s., það er ekki gert ráð fyrir, að breytt verði tilhögun miðskólanámsins. í frv. eins og það hefur legið fyrir þinginu að undanförnu og eins og það var samþ. síðast var gert ráð fyrir, að það væri starfrækt miðskóladeild við Akureyrarskóla, tveggja vetra deild. Í þessu frv. nú er ekkert slíkt ákvæði, heldur gengið út frá því, að fræðslumálastjórn ákveði það. Og má þá gera ráð fyrir, að miðskólakennslunni við menntaskólana verði hagað á sama hátt og við gagnfræðaskóla er gert nú, þannig að í þessu frv. er ekki um að ræða neina breyt. á skólakerfinu að þessu leyti hvað tilhögun námsins snertir. Ég vænti því þess, að þeir hv. þdm., sem í fyrra voru andvígir þessu máli á þeim grundvelli aðallega, að hér væri um að ræða breyt. frá tilhögun miðskólanáms, sem væru óheppilegar vegna styttingar tímans, sem í það ætti að fara, telji sér nú fært að ljá þessu máli stuðning í þessu formi. Sú breyt. hefur einnig orðið frá því að þetta mál var síðast rætt hér í hv. deild, að gera má ráð fyrir því, að menntaskóli verði starfræktur á Laugarvatni. Og þá verður væntanlega einnig þar miðskóladeild, hvort sem hún verður talin sérstakur skóli eða miðskóladeild tilheyrandi menntaskólanum í því formi, sem hér er gert ráð fyrir. Það fer að sjálfsögðu eftir því, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. Það mun naumast þykja heppilegt að fella niður það miðskólanám, sem þar hefur verið haldið uppi, enda tel ég, að það væri fráleitt, heldur mun því verða haldið áfram, annaðhvort sem sérstökum skóla eða þá sem miðskóladeild við væntanlegan menntaskóla þar.

Það eru því mörg rök, sem að því hníga nú, og enn sterkari en síðast, að þessi tilhögun verði lögleidd, þannig að í þeim tilfellum, þar sem það væri talið skynsamlegt, verði skólunum heimilað að hafa þessa deild. Verði stofnsettur menntaskóli á Laugarvatni, þá er það einnig ljóst, að það minnkar verkefni menntadeildar menntaskólans á Akureyri. Og þá er mjög hætt við því — og reyndar nokkurn veginn víst, miðað við það húsrými, sem þar er, að það verður ekki nægilegt verkefni fyrir menntaskólann á Akureyri, nema honum verði heimilað að starfrækja miðskóladeild. Eins og sakir standa nú, er ekki hægt að gera ráð fyrir því í náinni framtíð, býst ég við, að slík deild yrði starfrækt hér í Reykjavík, þótt hins vegar sé eðlilegt og sjálfsagt að láta þessa heimild einnig ná til þess skóla, ef aðstæður breytast. En það virðist í alla staði óeðlilegt, þegar ekki er um að ræða neina breyt. á kennslutilhögun frá því, sem ákveðið er í fræðslulögum, að ekki skuli vera sköpuð skilyrði til þess að hagnýta það húsrými og þá kennslukrafta, sem til eru við núverandi menntaskóla.

Það er sameiginlegt álit forustumanna beggja menntaskólanna hér, bæði Reykjavíkurskóla og Akureyrarskóla, sem þetta mál einkum snertir, að það sé mjög æskilegt og heppilegt að hafa starfandi miðskóladeild við skólana. Ég hirði ekki um að rekja nánar þær röksemdir hér, nema tilefni gefist til þess, enda eru þær röksemdir hv. þdm. mjög vel kunnar frá umr. um þetta mál hér að undanförnu. En ég hygg, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, að það sé í alla staði heppilegt, ef því verður við komið, að veita menntaskólunum heimíld til að starfrækja slíka deild. Það kynnir þeim betur, hvernig miðskólanáminu er háttað. Þeir vita betur, á hvaða stigi nemendurnir eru, þegar þeir koma til menntaskólanáms, og það verður til þess að tengja betur saman þessa tvo þætti framhaldsskólanámsins. Á þessum sjónarmiðum og einnig og ekki hvað sízt vegna þeirra atvíka varðandi menntaskólann á Akureyri, sem einnig hv. þdm. eru kunnug, að þar er um mikið húsrými að ræða og stóra heimavist, sem nauðsynlegt er að geta hagnýtt til hins ýtrasta, þá vildi ég mega vænta þess, að þetta mál fengi nú góðar undirtektir hér á hinu háa Alþingi.

Það er ekki hvað sízt mikil þörf á því nú, eins og hefur verið rætt hér, bæði í sambandi við siðasta mál, sem var hér á dagskrá, og einnig oftar, að svo sem málum er háttað varðandi aðstöðu nemenda til náms, þá er ekki svo lítið atriði fyrir nemendur að eiga kost á heimavist við skóla. Það er að minnsta kosti mikil nauðsyn á því, að þar sem slíkir möguleikar eru fyrir hendi, séu þeir hagnýttir og það húsrými notað til fulls, sem þar er fyrir hendi. En þessu er einmitt þannig háttað á Akureyri, að það eru slíkir möguleikar þar, að það er ekki aðeins hægt að veita þeim nemendum, sem eru í menntadeild, möguleika til heimavistardvalar, öllum þeim, sem þess hafa óskað nú á þessu hausti, heldur hafa þar einnig verið teknir inn milli 20 og 30 nemendur úr þeirri miðskóladeild, sem enn er þar starfandi. Vegna þeirra vandræða, sem eru viða um land varðandi skólabyggingar, og mikið er talað um fjárskort í því sambandi og ýmiss konar erfiðleika, þá er að sjálfsögðu augljóst mál, að það ber að hagnýta möguleikana til þess að nýta skólarúmið þar, sem það er. Og þar sem, eins og ég tók fram áðan, með þessu frv. eins og það nú liggur fyrir er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu á tilhögun miðskólanámsins, þá vildi ég mega vona það og við flutningsmenn þessa máls, að hið háa Alþ. nú geti almennt fallizt á að heimila þá undanþágu, sem hér er gert ráð fyrir, ef ástæður eru þannig við menntaskólana, að eðlilegt verður talið og sjálfsagt að veita þeim möguleika til þess að hafa slíka deild starfandi. — Ég orðlengi svo ekki frekar um þetta á þessu stigi málsins, en vildi leggja til, að frv. yrði að þessari umr. lokinni vísað til hv. menntmn.