16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1273 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Pétur Ottesen:

Ég vil mjög mæla með framgangi þessa frv. Það er fram komið af beinni nauðsyn, sem skapazt hefur á síðari árum í sambandi við kristfjárjarðir meðal annars. Þar hafa orðið á víða þær breytingar hvað þessar jarðir snertir, að það er ekki með nokkru móti hægt að samrýma framkvæmd gjafabréfanna við núverandi kringumstæður. Þessar jarðir hafa margar tekið gerbreytingum, sem liggja í því, að ábúendur þeirra sumir hverjir — og mér er kunnugt um eitt dæmi í því efni — hafa bundið um árabil allar eignir sínar í umbótum á þessum jörðum, og annaðhvort er, að leyfi sé til þess fengið, að hægt verði að selja ábúandanum slíka jörð, eða þá að hann verði í verulegum atriðum að sjá af afrakstri lífsstarfs síns, sem hann hefur bundið í jörðinni, því að ég býst við því, að það mundi verða miklum erfiðleikum háð að finna leið til þess að tryggja slíkum ábúanda það mikla fé og þær miklu eignir, sem hann er búinn að binda í þessari jörð, með öðrum hætti, en að hann eigi þess kost að fá jörðina keypta. Ég held, að það yrði mjög erfitt og það yrði þá að koma þar fram aðili, sem nú er ekki fyrir hendi til þess að inna þessa skyldu af hendi við ábúandann, því að í gjafabréfi fyrir þeirri jörð, er ég hef hér sérstaklega í huga, er svo ákveðið, að öllu afgjaldi jarðarinnar eigi að verja í alveg ákveðnum tilgangi. Ég held þess vegna, að þar sem svona stendur á, og svo mun víða vera, eftir því sem ég hef aflað mér upplýsinga um, þá sé sú ein leið út úr þessu fyrir hendi, að sú breyting verði gerð á, að ábúendur eigi þess kost að fá þessar jarðir keyptar, og ég sé ekki, að það mundi neitt við það vinnast, þó að þau kaup færu fram með þeim hætti, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á, að það þyrfti að samþ. um þetta lög á Alþ. í hvert skipti. Hér verður að sjálfsögðu vel um búið, þannig að tryggt sé með mati óvilhallra manna, að sala á jörðinni fari fram með eðlilegum hætti, miðað við þau verðmæti, sem eru fyrir hendi í jörðinni og eigi eru eign ábúanda. Mér þykir miklu frekar, að það gæti verið álitamál, hvort ástæða væri til að leita samþykkis eftirlitsmanna með opinberum sjóðum í þessu efni, eins og gert er ráð fyrir í a-lið 1. gr. þessa frv. Þeir menn, sem þar um ræðir, hafa náttúrlega ekki neina aðstöðu til þess að dæma um aðstæðurnar á hverjum stað. Þar verða þeir trúnaðarmenn að koma til, sem falið er að meta verðgildi þessara jarða. En sem sagt, það er víða orðin svo aðkallandi nauðsyn á því, að hægt sé að breyta til um þessar jarðir, að eiginlega er ekki hægt lengur að komast hjá því, að opnuð verði leið til þess, að svo megi verða.

Ég vil þess vegna mjög mæla með því, að þetta frv. nái fram að ganga, og þó að nú sé orðið mjög áliðið þings, þá er þess að vænta, að frv. verði gerð þau skil hér í Nd., — það hefur þegar gengið í gegnum Ed., — að það geti hlotið afgreiðslu Alþingis.