05.12.1952
Neðri deild: 35. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

121. mál, sjúkrahús o. fl.

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki nema eðlilegt, að sjúkrahúsmál Suðurlandsundirlendisins komist á dagskrá. Eins og kunnugt er, þá eru í þeim þremur sýslum, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, ekkert sjúkrahús, en íbúar þar eru samtals um 12 þúsund. Fyrir nokkuð mörgum árum, þegar Guðmundur heitinn Guðfinnsson var læknir á Stórólfshvoli, þá var þar allmyndarlegt sjúkrahús og rekið með miklum myndarskap miðað við þann tíma, en þetta sjúkrahús hefur nú verið lagt niður, og hafa Rangæingar síðan ekkert sjúkrahús. Á Eyrarbakka var byggt hús með það fyrir augum að hafa þar sjúkrahús, tiltölulega stórt hús og hefði getað orðið gott sjúkrahús fyrir það hérað, ef því máli hefði verið fylgt fram eins og vonir stóðu til, en þar er ekki sjúkrahús, heldur vinnuhæli, og hefur verið um mörg ár.

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að íbúar nefndra sýslna séu sammála um, að það verði eitthvað að gera í þessum málum. Á s.l. hausti var samþykkt á aðalfundi Sjálfstæðisfélags Rangæinga að beita sér fyrir því, að byggt yrði fjórðungssjúkrahús á Suðurlandsundirlendinu. Að það var orðað „fjórðungssjúkrahús“ kom til af því, að þeir, sem fundinn sátu, töldu víst, að orðið „fjórðungssjúkrahús“ þýddi það, að meiri hlunnindi væru veitt þeim sjúkrahúsum heldur en venjulegum sjúkrahúsum. Og ég verð að segja það, að áður en ég kynnti mér þessi lög, þá taldi ég, að það væri eitthvað unnið við það að hafa þetta fjórðungssjúkrahús og nefna það því nafni. Þegar ég kom til Reykjavíkur, átti ég tal við 2. þm. Árn. um þetta mál, og kom okkur saman um að athuga m. a., hvað í þessu fælist. Við athugun laganna kom í ljós, að byggingarstyrkur til fjórðungssjúkrahúsa er lægri en til annarra sjúkrahúsa, sem byggð eru í sveit. Eftir að hafa athugað þetta kom okkur saman um að bíða átekta, enda hafði verið ákveðið, að fundur skyldi haldinn enn austanfjalls um málið til viðræðna og athugunar á því yfirleitt.

Það liggur svo einkennilega fyrir með lög um sjúkrahús, að byggingarstyrkur til fjórðungssjúkrahúsa er 3/5, en til héraðssjúkrahúsa utan kaupstaða 2/3. Ég sé hér á fylgiskjali, sem prentað er með nál. hv. heilbr.- og félmn., að landlæknir segir, að þessir 2/3 eigi aðeins við læknisbústaði og sjúkraskýli í sveitum, en þetta er ekki þannig orðað í lögunum. Þetta á við öll sjúkrahús utan kaupstaða, önnur en fjórðungssjúkrahús. Það er alveg tvímælalaust í lögunum, og skil ég þess vegna ekki, hvernig landlæknir hefur dregið þá meiningu út úr þessu, að hér væri aðeins um sjúkraskýli og læknisbústaði að ræða. M.a. vegna þess, að þetta kemur fram í áliti landlæknis, get ég ekki á mér setið að mótmæla þessu, vegna þess að ég hef kynnt mér lögin, ég hef borið þau undir lögfræðinga, og skilningur minn á þessu máli er að öllu leyti réttur. Eða hver skyldi vilja segja, að sjúkrahúsið, sem verið er að byggja á Blönduósi, sé sjúkraskýli, sjúkrahús með 30 rúmum, en það nýtur lögum samkvæmt í styrk 2/3 af byggingarkostnaði?

Ég tel rétt, að þetta komi fram, vegna þess að m. a. út af því hefur ekki fyrr á þessu þingi verið borið fram frv. um fjórðungssjúkrahús, svo sem mér var óbeinlínis falið á aðalfundi þeim, sem ég áðan nefndi.

Fundur sá, sem ég minntist á á Selfossi, var haldinn með þm. Sunnlendinga, héraðslæknum og sýslumönnum. Þar var eining um að beita sér fyrir samstarfi í þessu máli á Suðurlandsundirlendinu og koma sjúkrahúsmáli Sunnlendinga heilu í höfn, eftir því sem bezt þætti henta. Ágreiningur var á fundinum um það, hversu mikið mætti leggja upp úr því frv. um fjórðungssjúkrahús fyrir Suðurland, sem fram var komið á þinginu. Vildu sumir halda því fram, að það væri vinningur í því, að þetta frv. væri samþ., aðrir töldu það hæpið, vegna þess að byggingarstyrkur til sjúkrahússins yrði lægri, ef húsið væri byggt og rekið eins og fjórðungssjúkrahús. En aðalatriðið í þessu máli er það, að allir eru sammála um að vinna fyrir þetta mál eins og bezt má henta.

Nú mun einhver segja: Það er vinningur í því að hafa þetta sem fjórðungssjúkrahús, enda þótt byggingarstyrkurinn sé lægri, vegna þess að það eru sérstök hlunnindi, sem fjórðungssjúkrahúsin njóta í sambandi við rekstur húsanna. — Það er rétt, fjórðungssjúkrahús fá dálítinn rekstrarstyrk, en landlæknir segir rétt frá í áliti sínu hér á þskj. 371, að fram að þessu hefur rekstrarstyrkur til fjórðungssjúkrahúsa verið nauðalítill og ómerkilegur, það lítill, að það tekur naumast um það að ræða. Hitt er svo annað mál, að tímarnir geta breytzt þannig, að sá styrkur verði hækkaður og að í framtíðinni verði það styrkur og hlunnindi að láta sjúkrahúsið heita fjórðungssjúkrahús.

Ég vil segja það, að enda þótt mér hafi ekki fundizt tímabært í haust að flytja frv. um þetta efni, þá vil ég, úr því að frv. er fram komið, fylgja því fram á þinginu, m.a. vegna þess, að allt er í óvissu um það, hvernig þessum málum verður háttað í framtíðinni. E.t.v. verður styrkur til fjórðungssjúkrahúsa aukinn, en verði það ekki, þá er sýslunefndunum í þessum þrem sýslum fyrir austan og stjórn væntanlegs fjórðungssjúkrahúss í sjálfsvald sett, hvort þau reka sjúkrahúsið samkvæmt þessum lögum eða hvort húsið verður byggt eins og venjulegt héraðssjúkrahús og styrkurinn þá afþakkaður, sem fjórðungssjúkrahús gæti tekið. Og vegna þess að þetta gæti verið á valdi sýslunefndarmanna og stjórnar sjúkrahússins, þá tel ég, af því að þetta frv. er fram komið, sjálfsagt, að það verði samþykkt, m. a. vegna þess, að ég vil undirstrika það, að við erum í aðalatriðum sammála um að láta verða úr framkvæmdum um sjúkrahúsbyggingu ít Suðurlandi. Ég ætla ekki hér á þinginu að fara að auglýsa einhverja sundrungu í þessu máli eða tefja fyrir því, vegna þess að það getur orðið vinningur að því í framtíðinni, ef rekstrarstyrkur til fjórðungssjúkrahúsa verður hækkaður, og það getur aldrei orðið skaði að því, vegna þess að sýslunefndirnar og stjórn sjúkrahússins hljóta að geta ráðið því, hvort þessi lög verða notuð eða ekki, og út af þessu fylgi ég frv.