31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

121. mál, sjúkrahús o. fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú alveg nýtt, að hér á Alþingi séu borin fram frv. um að þiggja minni greiðslur úr ríkissjóði til þess að koma upp ákveðnum byggingum eða sinna ákveðnum verkefnum, en lög mæla fyrir um, en þannig er það nú um það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég gat ekki verið sammála hv. meiri hl. um að afgr. þetta mál, m.a. af því, að fyrir mér liggja ekki nægilega miklar sannanir um, að meiri hl. þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, vilji þessa réttarskerðingu, en að því atriði skal ég koma nokkuð síðar.

Það hefur verið reynt að túlka það þannig, þótt hv. form. n. gerði það nú ekki, að lögin nr. 24 frá 1949, um breyt. á þeim lögum, sem hér um ræðir, muni ekki vera nægilega skýr og ákveðin til þess að tryggja það, að sjúkrahús af þeirri stærð og gerð, sem ætlazt er til að reisa á Selfossi eða á Suðurlandsundirlendinu, hefði fullan rétt til þess að fá 2/3 af byggingarkostnaði úr ríkissjóði. Og vegna þess að þetta hefur verið vefengt og það er m.a. skoðun hv. flm., að það sé ekki svo, þá vildi ég hér, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa upp þessa grein. Hún er þannig:

„Ríkissjóður greiðir bæjarfélögum allt að 2/5 kostnaðar, en öðrum sveitarfélögum allt að 2/3 kostnaðar af að reisa almenn sjúkrahús, sjúkraskýli eða læknisbústaði, sem reistir verða samkv. ákvæðum laga þessara, enda fallist þá ráðh. á þörf þeirra framkvæmda og meti þær við hæfi.“

Og það er einmitt vegna þessara fyrirmæla, að einn hv. þm., sem hefur umboð fyrir svo og svo mikinn hluta af þeim íbúum, sem búa á þessu svæði, hefur raunverulega mótmælt þessu frv., hv. 2. þm. Rang. Honum er það fullkomlega ljóst, að þessi ákvæði laganna eru alveg skýr og óvefengjanleg. Nú er það svo, að hv. þm. Seyðf., sem einnig er í heilbr.- og félmn., hefur talið, að samkv. lögskýringum væri á því mjög mikill vafi, að þetta gilti um jafnstórt sjúkrahús og hér er átt við, en þegar litið er á þetta mál og meðferð þess hér á þingi, þá er sýnilegt, að sú skoðun hv. þm. er ekki ú rökum reist, enda hefur hann viðurkennt, að hann hafi ekki sett sig svo inn í þetta mál, að hann geti kveðið þar upp neinn sérstakan dóm, sem sé óhrekjanlegur. En þegar frv. er fyrst borið fram, þá hljóðar það svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Læknishéruð utan bæja með yfir 2.000 íbúa, sem reisa sjúkrahús og læknisbústað, skulu njóta styrks úr ríkissjóði til bygginganna, allt að 2/3 kostnaðar,enda sé staður þeirra og starfssvæði samþykkt af heilbrigðisstjórninni.“

Þannig var frv. borið fram upphaflega. Síðan er frv. breytt — kemur brtt. einmitt frá einum af þeim hv. þm., sem hér á að gæta hagsmuna þessara aðila. Það er frá hv. þm. V-Sk. Hann kemur hér með brtt. þá, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Þó skal framlag til að reisa læknisbústaði og sjúkraskýli í læknishéruðum með færri en 850 íbúum greiðast með 4/5 kostnaðarverðs.“ Hann vildi þá á því stigi málsins skerða þennan rétt við 850 íbúa, sem flm. vildu fyrst skerða við 2 þús. íbúa, en hvort tveggja þetta er fellt. Þessi skerðing við 850 íbúa og skerðingin víð 2 þús. íbúa er hvort tveggja fellt út úr frv. og það er samþ. hér samkv. nál., sem einnig hv. flm. þessa frv. undirritar. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

N. ræddi frv. á allmörgum fundum. Nm. voru fylgjandi efni frv., en ákvæði 1. gr. voru nokkuð óljós og gátu valdið misskilningi. Auk þess þótti n. ekki rétt að binda ákvæðið um aukið framlag til byggingarframkvæmda við ákveðna fólkstölu í héruðunum. N. leggur því til, að frv. verði samþ. með eftirfarandi breytingu“ — og það er sú breyting, sem ég þegar hef lesið.

Hér skrifar Helgi Jónasson, fundaskrifari og frsm. að þessari breytingu, undir, svo að það er alveg sýnilegt, að hann á því stigi málsins hefur einmitt ætlað að tryggja það, að þó að byggt yrði svo stórt hús sem hér um ræðir á Suðurlandsundirlendinu, þá fengi það 2/3 parta úr ríkissjóði, sem og er fullkomlega tryggt með þeim l., sem samþ. voru. Þetta þótti mér rétt að láta koma hér fram.

Hver er þá ástæðan fyrir því, að hv. flm. ber þetta frv. fram nú og vill með þessu frv. skerða rétt þeirra íbúa allra, sem hér eiga hlut að máli? Það er alveg sýnilegt og hefur komið alveg ljóslega fram í sambandi við umr. um málið í heilbr.- og félmn. Hún er sú, að hann vill með þessu mótí reyna að tryggja þessu húsi einhverja sérstaka aðstöðu í rekstri. Fyrir það fyrsta hefði það nú verið miklu drengilegra og manndómsmeira að setja það strax inn í l. sér, annaðhvort í þetta frv. eða í sambandi við annað mál, að það sé sjálfsagt að gefa einhver forréttindi til sjúkrahúsa, sem viðurkennd eru sem fjórðungssjúkrahús, og láta það standa í l., en það er ekki gert, heldur er verið að svíkjast að Alþ. á þennan hátt, sem hér er gert. Það er verið að innleiða það hér að reyna að koma þessu inn sem fjórðungssjúkrahúsi til þess síðar meir að fá meiri og sterkari aðstöðu til þess að krefjast meira fjárframlags árlega í rekstur til þess sjúkrahúss, og það er unnið til þess að fórna hér allt að 700–800 þús. kr. úr vasa þessara manna til þess að reyna að tryggja þau sérréttindi. Nú er það svo, að það veit enginn, hvort það tekst síðar að fá nokkur sérréttindi fyrir rekstur fjórðungssjúkrahúsa, auk þess sem það var a.m.k. nægilegur tími til þess að taka upp þá baráttu, þegar búið var að stinga fyrstu skóflustunguna á Suðurlandsundirlendinu fyrir þetta mikla hús, sem þar á að koma. Ég get hins vegar upplýst það í sambandi við þetta mál, að það var mjög mikið rætt í fjvn. á þessu þingi að tryggja hinu nýja sjúkrahúsi á Akureyri einhver sérréttindi í rekstri, og það var komið svo langt, að það var hugsað að láta allt að 300 þús. kr. framlag úr ríkissjóði til rekstrar, en það strandaði allt á því, að þá komu aðrir þm., sem áttu að gæta hagsmuna sinna kjósenda, og kröfðust þess, að það væri einnig látinn sami réttur ganga yfir þá þegna, sem þar byggju, því að það er sjáanlega óstandandi á þeirri kröfu, að einhver ákveðinn hluti þjóðarinnar skuli fá meira framlag til byggingar sjúkrahúsa og alveg sérstaklega til rekstrar sjúkrahúsa heldur en annar. Það er alveg ótækt að standa á því, enda hefur það aldrei verið lögtekið hvað snertir reksturinn. Því er nú þannig komið fyrir, að það er fjárhagsatriði í hvert skipti, hvað mikið er látið til fjórðungssjúkrahúsa, og þau hafa fengið um 100 kr. á hvert rúm hingað til, en það hafa sí og æ vaxið kröfurnar frá öðrum sjúkrahúsum um, að þau fengju einnig þennan sama rétt. Hér skýtur hv. flm. því alveg yfir markið að halda, að hann geti með þessu móti tryggt sjúkrahúsi á Suðurlandsundirlendinu nokkuð betri aðstöðu í sambandi við rekstur í framtíðinni, og er alveg óþarft fyrir hann að fórna 7–8 hundruð þús. kr., meðan á byggingunni stendur, sem teknar eru úr vasa hans ágætu kjósenda og annarra,sem að þessu standa, því að um það verður ekkert sagt, hvernig þeim málum verður skipað, undir neinum kringumstæðum.

Ég vildi þá aðeins koma að því, hvort það sé eðlilegt út af fyrir sig, ef einhver sérréttindi eru gefin til fjórðungssjúkrahúsa, að einmitt þetta sjúkrahús kæmi undir þann lið. Og ég verð að segja það, að mér finnst það vera mjög vafasamt.

Þegar upp hefur verið komið fjórðungssjúkrahúsum, þá hefur það grundvallazt alveg sérstaklega á því, að ekki einasta aðilar úr þeim landsfjórðungum stæðu að sjúkrahúsinu, heldur að þessi sjúkrahús tækju við svo og svo miklu af fólki, sem flytur til þessara ákveðnu staða í sambandi við vertíðir og ýmsar framkvæmdir á sjó og landi, sem fara fram á vissum tímum, m.a. eins og t.d. á Siglufirði, sem að vísu er ekki tekið inn sem fjórðungssjúkrahús, en nýtur sömu réttinda eins og fjórðungssjúkrahús, vegna þess að svo og svo mikill fjöldi landsmanna flytur sig þangað að sumri til, til þess að hafa þar atvinnu, og það er talið, að það sé skylt fyrir ríkið að sjá um, að þeir menn, sem þar eru, njóti þess vegna sömu réttinda í sambandi við sjúkrahúsmálin eða sjúkdóma eins og aðrir staðir, þar sem komið er upp fjórðungssjúkrahúsum. Hið sama má segja um Ísafjörð. Þar nýtur Ísafjörður þessarar sérstöðu vegna þess, að þangað koma óhemjumargir sjómenn, bæði héðan úr Reykjavík og víðs vegar af landinu, og einkum og sér í lagi á veturna. Það sama er að ske og hefur raunverulega skeð um sjúkrahúsið, sem er á Patreksfirði. Þó að aldrei hafi það fengið að njóta þessara hlunninda, þá er sjúkrahúsið á Patreksfirði að hálfu leyti byggt upp fyrir þá aðila, sem stunda sjó fyrir Vestfjörðum allan veturinn, og m.a. fyrir fjölda manna héðan úr Reykjavík, og bezta sönnunin fyrir því, að ég fer hér með rétt mál, er það, að togaraútgerðarmannafélagið greiddi ákveðna upphæð til byggingar þessu húsi, vegna þess að þeir viðurkenndu, að það væri svo stórkostlegt atriði fyrir togaraflotann hér og fyrir þá menn, sem á honum vinna, að hafa sjúkrahús á Patreksfirði til þess að taka við veikum eða slösuðum mönnum. Þetta hefur verið gert hér í mörg ár, án þess að sjúkrahúsið hafi enn fengið nokkurn styrk frá Alþ. í sambandi við rekstur. Og ég get upplýst, að þetta sjúkrahús, sem er aðeins fyrir hálfa Barðastrandarsýslu, hefur orðið að standa undir á annað hundrað þús. kr. rekstrarhalla á hverju ári nú seinni árin, og það mun ekki verða liðið undir neinum kringumstæðum, hvað sem líður framlagi til byggingarkostnaðarins, að það verði verið að gefa einhver sérréttindi til rekstrar sjúkrahúsi á Suðurlandsundirlendinu, ef einmitt ekki verða tekin upp sömu réttindin fyrir þau önnur hús, sem líkt stendur á með.

Í sambandi við það sjúkrahús, sem hér er hugsað að reisa, þá er alveg útilokað, að nokkur maður, sem stundar sjó, komi á þetta sjúkrahús, — ja, það er helzt, ef hann yrði þá settur í land á Eyrarbakka, sem eru engin líkindi til, kannske í Þorlákshöfn síðar, þegar þar er komin höfn, gæti hugsazt, — en eins og sakir standa núna er húsið fyrst og fremst fyrir héruðin sjálf, en ekki fyrir neina aðra aðila utan að komandi, og þess vegna er alveg sýnilegt, að það þarf ekki að fórna neinum 7–8 hundruð þús. kr. til þess að tryggja sérstök fríðindi í sambandi við reksturinn, því að þau munu aldrei fást, svo lengi sem nokkurt réttlæti gildir hér á Alþ. um það, að nokkur sérstök fríðindi verði gefin í rekstri til þess húss. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram.

Það er sjálfsagt ekki mitt hlutverk hér, á meðan ég er formaður fjvn., að standa og vera á móti því, að þessir menn fái leyfi til þess að taka á sig þennan bagga. Það er m. a. þess vegna, sem ég hef ekki gefið út sérstakt nál., því að hvers vegna ætti ég, sem veit, að ríkissjóður þarf að halda á hverri krónu, sem hægt væri að spara, að berjast hér gegn því, að ríkissjóður geti sparað þessa nærrí 1 millj. og lagt það á herðar þeirra manna, sem eru óðfúsir og vilja endilega hlaupa til og fá leyfi til þess að borga það sjálfir? Þess vegna hef ég ekki heldur gefið út nál. Mér þykir samt sem áður rétt að benda á þetta, vegna þess að það liggja engin gögn fyrir, að um þetta mál sé samkomulag nema innan mjög þröngs hrings, og það er hjá þeim mönnum, sem hafa allra hagsmuna að gæta um það, að sjúkrahúsið komi upp, og þéna svo og svo mikið á því í sambandi við atvinnu og verzlun, að húsið komi þar upp á ákveðnum stað. Það eru engin ummæli frá t.d. Vestur-Skaftfellingum um það, að þeir vilji fórna þessu og borga sjálfir þennan hluta, og það er ekki nema, eins og ég segi, samkomulag við annan hv. þm. Rang., en hinn hins vegar á allt annarri skoðun og litur alveg réttilega á þetta mál, að ekki sé ástæða fyrir þá að taka að sér að greiða þetta, sem vitað er að ríkissjóður verður að greiða samkv. lögum.

Ég skal svo ekki ræða meira um það atriði. En ég vil hins vegar leyfa mér að bera fram hér brtt. við frv., og hefur hún verið prentuð hér á þskj. 695, þ.e., að framan við 1. málsgr. bætist stafliður, svo hljóðandi:

„Aftan við 1. efnismálsgr. 1. gr. l. bætist nýr málsliður: Í kostnaði við að reisa sjúkrahús eða sjúkraskýli er innifalið andvirði nauðsynlegs húsbúnaðar, áhalda og lækningatækja.“

Þetta er baráttumál, sem hvert eitt einasta hérað á landinu stendur að og svo að segja hver einn og einasti þegn í þjóðfélaginu vill að sett sé inn í l., og satt að segja á ég ákaflega erfitt með að skilja, hvers vegna þetta er ekki löngu síðan lögtekið, því að það er alveg sýnilegt, að húsið eitt gerir læknaþjónustunni og heilsugæzlunni í landinu ekkert gagn, ef ekki er hægt að útbúa það með þeim húsbúnaði, áhöldum og lækningatækjum, sem nauðsynleg eru, og að það er svo stór liður í byggingu hússins og útbúnaði, að það er ómögulegt fyrir fátæk héruð að standa undir þeim kostnaði. Þetta gildir um svo að segja öll sjúkrahús á landinu. Þetta er náttúrlega mismunandi upphæð eftir því, hvað sjúkrahúsin eru stór, en öll sjúkrahús þurfa undir öllum kringumstæðum eitthvað af þessum tækjum. Mér er m.a. kunnugt um það nú, að það hafa verið hafin viðtæk samskot í Barðastrandarsýslu til að afla nægilegs fjár til þess að geta keypt þessi tæki, og heilsugæzlan líður stórkostlega fyrir það, að ekki hefur verið hægt að kaupa þau. Ég vildi því vænta þess, að hvað sem meginatriðinu líður, þá fylgi hv. þm. þessu máli hér, og ef ríkissjóður getur með samþykkt frv. á öðrum sviðum sparað sér upp undir 1 millj. kr., eins og til er ætlazt, þá er því ríkari ástæða til þess að nota það fé, sem hann lagalega væri skyldugur til að greiða af hendi, og nota þá það fé til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af þessu leiðir nú, að héruðin verða að kaupa þau tæki, sem hér um ræðir. Ég vil því mælast til þess mjög, að þessi till. verði samþ.