28.01.1953
Efri deild: 57. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég verð nú að viðurkenna það, að ég greip ekki almennilega, hvað hæstv. dómsmrh. var að fara. Hann var að tala um að flytja sína till. til þess að fara eins með vörubifreiðarnar og fólksbifreiðar. En í frv., eins og það er núna, stendur, að allar leigubifreiðar í kaupstöðum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabilar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar. Það nær nákvæmlega hið sama yfir vörubílana eins og fólksbilana og sendiferðabílana, ef það eru leigubílar. En það nær ekki til neinna bíla, sem eru eign einstakra manna og ekki leigja þá út, heldur keyra bara fyrir sjálfa sig. Þess vegna er mér ekki ljós þessi mismunur, sem hann er að gera á því, þegar hann segir: Ja, eins og lögin eru núna, þá löggildir bæjarstjórnin bifreiðastöðvarnar, og þá er það í valdi bifreiðastöðvanna sjálfra, hve mörgum bilum þær leyfa að keyra frá stöð og vera á stöðinni. Þær geta þess vegna takmarkað fjöldann. Þetta gildir um fólksbifreiðar, segir hann, en ekki um vörubíla. Og þess vegna vill hann koma með sína till. til þess að láta nú bæjarstjórnina geta ákveðið þetta með vörubílana. En frv. segir alveg hreint, eins og það er núna, að þetta gildi, hvort heldur er um að ræða fólks-, vöru- eða sendiferðabíla. Þess vegna er mér ómögulegt að sjá þennan mismun, sem hann sér þarna. En hvað sem þessu líður, og um það vil ég ekki neitt vera að deila, þá er mér út af fyrir mig alveg sama, hvort frv. kemur aftur til n. eða ekki, en ég mun aldrei verða með því að gefa bæjarstjórn, ríkisstjórn eða neinum einstökum leyfi til þess að banna mönnum að vinna það, sem þeir helzt vilja vinna, banna mönnum að vera í þeirri atvinnugrein, sem þeir vilja vera í. Og hér er um það að ræða að gefa bæjarstjórninni vald til þess að banna svo og svo miklum hóp manna að eiga vörubíla og keyra þá í bænum. Ég mun aldrei verða með því. Ef þeir aftur sjálfir fá ekki pláss hjá sínum félögum á þeim stöðvum, sem fyrir eru, það er annað mál. Það er þá ekki það opinbera, sem grípur þar inn í, það er þá viðkomandi félag viðkomandi manns, sem hann er í, sem grípur þar inn í og takmarkar það. Það er annað mál, en að það opinbera gripi inn í og segi: „Ja, þú færð nú, góði minn, ekki að keyra vörubíl“ — þó að maðurinn segi: „Það er nóg hér að gera. Ég hef minn bíl, og ég vil fá að keyra hann.“ Bæjarstjórninni þóknaðist ekki að gefa leyfi til þess, annaðhvort af því, að það væri engin þörf fyrir það, eða af því, að hún hafði af einhverjum ástæðum litið þannig á manninn, að einhver annar sé rétthærri til þess að keyra vörubíl, heldur en hann. Ég fer aldrei inn á þá braut og vil ekki veita neinni bæjarstjórn það leyfi, hvort sem meiri hluti hennar er þessa flokks eða hins; það kemur málinu ekkert við. Það getur allt saman skipzt sitt á hvað, og ég vil aldrei láta neina bæjarstjórn hafa leyfi til þess að segja: „Við bönnum þér að vinna þessa vinnu. Þú vinnur hana ekki. Þú getur gert eitthvað annað.“ Það vald vil ég ekki gefa bæjarstjórn, og sízt situr það á flokki einkaframtaksins að flytja og fylgja slíkri tillögu.