02.02.1953
Efri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

209. mál, veð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hæstv. landbrh. gerði grein fyrir því innan ríkisstj., að þörf væri á nýrri löggjöf í svipaða átt eins og hér hefur verið lögð fram, og skilst mér, að það sé út af fyrir sig enginn ágreiningur um það, vegna þess að búrekstur þarf nú meira lánsfé, en hann áður þurfti og þá erfitt að veita aðrar tryggingar en þær, sem hér er um að ræða. Hins vegar hefur það komið fram í meðferð málsins, að hér er um mikið lögfræðilegt vandamál að ræða, hvernig þetta skuli orðað og hvernig þessu skuli fyrir komið. Það sést af því, að frv. hefur verið alveg umsteypt hér í hv. Ed.

Ég hreyfði því við einhverja nm. í allshn., þegar frv. var hér til 1. umr., hvort ekki væri rétt að senda þetta mál til umsagnar lagadeildar háskólans. Ég veit ekki, hvort það hefur verið gert, en ég veit hins vegar, að það eru mörg vafaatriði, sem rísa upp í sambandi við almennar veðselningar og veðsetningarákvæði eru einhver flóknustu ákvæði í lögfræðinni yfirleitt og vandmeðförnustu. Þess vegna játa ég það, að ég sjálfur er dálítið hræddur við að taka afstöðu í þessu máli, um formið á því, þó að ég játi efnislega nauðsyn, nema ég hafi tryggingu fyrir því, að góðir fræðimenn í þessum efnum hafi gerskoðað málið. Ég vildi þess vegna sem sagt ítreka þá fyrirspurn, hvort lagadeildarmennirnir hafi verið fengnir til þess að líta á þetta, en ef það er ekki, hvort menn teldu, að það væri svigrúm til þess að láta einhverja fræðimenn skoða málið, áður en það verður endanlega samþykkt. En við sjáum af þeirri gerbreytingu, sem hv. n. leggur til að gerð sé á frv., að það var rétt til getið hjá mér, að hér væri um töluvert vafamál að ræða, — ekki um það að ná tilganginum, heldur hvernig honum verður bezt náð.