04.02.1953
Neðri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Pétur Ottesen):

Það kom mjög skýrt fram hjá hæstv. atvmrh., að aðalorsökin til þess, að hann mælti gegn þessari brtt. minni, væri sú, að það væri ekki fyrir hendi samkomulag við stjórn Landsbankans um að ganga lengra í að gefa frest á afborgunum, heldur en í þessu frv. felst. Hæstv. ráðh. viðurkenndi hins vegar fullkomlega þörfina á því, að hægt væri að koma þessu í kring. En þá er náttúrlega fyrir hendi, eins og raunar hefur verið bent á, sá möguleiki, að ríkisstj. tækist, ef hún vildi beita sér fyrir því, að fá um það samkomulag við stjórn Landsbankans, að þessi gjaldfrestur yrði aukinn, þannig að þetta tæki einnig til togaranna, eins og ég hef hér lagt fram.

Mér skildist á hæstv. atvmrh., að samþykkt minnar till. gæti orðið málinu til falls, þannig að þau hlunnindi, sem í frv. felast til handa bátaútvegsmönnum, mundu þá glatast. Ég hygg, að þetta þurfi nú ekki að vera, því þó að svo færi, að ríkisstj. tækist ekki að fá samkomulag við stjórn Landsbankans um að láta þetta að neinu leyti taka til togaranna, þá hefur þó ríkisstj. alltaf í sinni hendi að bjarga málinu að því er tekur til bátaútvegsmannanna, af því að þetta frv. er í rauninni ekki annað, en heimild handa ríkisstj. Ríkisstj. gæti þá fallið frá þessum þætti frv., en það þyrfti ekki að hafa nein áhrif á það, að lögin kæmu til framkvæmda að því er tekur til bátaflotans, því að þar stendur svo, að stofnlánadeildin skal, „ef nauðsyn krefur og ríkisstj. óskar þess“ o.s.frv. En þetta felur það fullkomlega í sér, að ríkisstj. hefur alveg á sínu valdi að bjarga framkvæmd þessa frv. eða þessara laga hvað bátana snertir, þó að samþykkt væri mín till. um togarana, ef ríkisstj. tækist ekki að fá samkomulag um togaralánin við stjórn Landsbankans. Þess vegna held ég, að það sé alveg ástæðulaust að óttast það, að af samþykkt minnar till. þyrfti í framkvæmd málsins að leiða það, að óvirk yrðu ákvæðin að því er snertir bátana. — Ég vildi aðeins benda á þetta hér, að af samþykkt minnar till. þyrfti ekki að leiða það, að ákvæði þessa frv. að því er snertir bátaflotann gætu ekki haldið gildi sínu. Ég vildi aðeins benda á þetta, en skal svo ekki ræða frekar um málið.