04.02.1953
Neðri deild: 66. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Ég ætla nú að leyfa mér í upphafi máls míns að vita alveg sérstaklega framkomu hæstv. forseta þessarar deildar, þegar þeir leggja nú saman, aðal- og varaforseti, í því að ætla hér að afgreiða mál þannig, að þm. gefist bókstaflega enginn kostur á því að fjalla um þau.

Það er augljóst, að þetta mál hefur tekið mjög miklum stakkaskiptum í meðferðinni í Ed., og mun þessum till. lýst þannig, að það er lagt til, að frv. sé aftur fært í þann búning, sem það var hér í þessari hv. d.

Í meðferð málsins í Ed. komu reyndar fram ýmsar athyglisverðar till. og ábendingar, sem eru nú reyndar ekki inni í frv. eins og það kemur þaðan, en ég tel eðlilegt að þessi hv. d. fái að fjalla um og mönnum gefist kostur á að flytja brtt. þar að lútandi, og þess vegna sagði ég áðan, að enda þótt þær till., sem hér eru lagðar fram, séu þess eðlis að færa málið í sinn fyrri búning, þá sé að sjálfsögðu eðlilegt, að þm. óski að skoða þær í ljósi þeirra annarra brtt., sem fram komu í Ed., og jafnframt í ljósi þess, hvernig málið er þaðan komið.

Það eru einkum tvö atriði, sem ég hefði haft hug á, að tekin væri afstaða til í þessari deild. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að tekin hafi verið til baka hér till., sem flutt var á sínum tíma um að taka benzínið út úr verðjöfnuninni. Auk þess eru það till. svipaðar því, sem fluttar voru í Ed. og eru þess eðlis, að þetta frv. verði tengt ákvæði um það, að ríkisstj. skuli rannsaka kostnað útvegsmanna í öllum verstöðvum landsins, sem telja má eðlilegt framhald af þessu máli, vegna nota þeirra af húsum og öðrum mannvirkjum í þágu útgerðarinnar, og jafnframt sem hefur nú ekki komið hér fram í tillöguformi — verði þá rannsakaður olíukostnaður útgerðarmanna í hinum mismunandi verstöðvum. Á ég við þar, að það er í sjálfu sér ekki einhlítt, hvert verðið er á hverri olíueiningu, heldur kemur að sjálfsögðu einnig til athugunar, hver olíukostnaðurinn er á hinum mismunandi stöðum, þ. e. a. s., hvað útgerðarmennirnir þurfa að nota mikla olíu vegna þess, hvernig þeir liggja við miðum o. s. frv., því að það hygg ég að telja mætti allósanngjarnt, ef niðurstaðan í þessu máli yrði sú, að olíuverðið hækkaði miðað við einingu í þeim verstöðvum, þar sem olíukostnaðurinn er kannske langmestur í dag, því að það er hugsanlegt, að af þessu máli leiði það. Þess vegna tel ég eðlilegt, að inn í þetta mál verði a. m. k. bætt, að ríkisstj. sé falið að rannsaka þetta mál, og einhver varnagli settur um það. Tilgangur frv. var sá, að þeir, sem búa við dýrara verð á olíueiningu utan Reykjavíkur og Faxaflóa, fái nú lækkaðan sinn tilkostnað við útgerðina og það óháð því, þó að með þessu móti sé verið að hækka tilkostnað annarra. En mér sýnist, að frv. sé þá fyrst orðið verulega ranglátt, ef það stefnir að því að gera tilkostnaðinn við olíunotkun í verstöðvum landsins enn þá hærri þar, sem hann e. t. v. hefur verið mestur, ef miðað er við heildarnotkun olíunnar.

Mér hefur ekki unnizt tími til þess að skrifa þessar brtt. Ég geri ráð fyrir, að það vinnist tími til þess, ef atkvgr. er frestað, eða hvað? (Forseti: Ekki ef umræðunni er slitið.) Ég vil þá leyfa mér að spyrja forseta, hvort þm. gefist tóm til þess að skrifa brtt., sem þeir hafa hug á að koma fram. (Forseti: Hefur hv. þm. lokið máli sínu?) Ja, ég mundi hafa gert það.