28.10.1952
Efri deild: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

98. mál, Búnaðarbankinn, byggingarsjóður verkamanna, lánadeild smáíbúðarhúsa o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég tel, að þær umr., sem hér hafa farið fram, hafi nú verið lil góðs fyrir þetta mál og að hæstv. ráðh. þurfi ekki að láta í það skína, að þótt menn óski eftir ýmsum upplýsingum um málið, þá sé það af einhverjum fjandskap við það eða bændastéttina. En ummæli hans hér áðan verða varla skilin á annan hátt. Ef athugaðar eru umr. hans og einkum það, sem hann leggur megináherzlu á, hvernig megi bjarga því, að sjóðirnir étist ekki upp, þá kynnu að vera til aðrar leiðir heldur en þær að gefa eftir allar þessar milljónir, og ég veit, að hv. fjhn. og hennar ágæti formaður muni athuga það meðal annars, hvað þurfi mikið fé árlega til þess að fyrirbyggja það. Þetta er önnur leið að marki, hvernig sem þess fjár er svo aflað. Og þó að ekki sé neitt annað að græða á þessum umr. heldur en það, þá er gott, að þær hafa farið fram, vegna þess að það opnar þá a. m. k. möguleikana til þess að láta rannsaka um leið, hvað mikið fé þarf, úr ríkissjóði eða einhvers staðar annars staðar frá, til þess að sjóðirnir ekki eyðist, eins og hæstv. ráðh. gat um, og hvernig eigi að afla þess fjár. Þetta er önnur leið í þessu máli og náttúrlega miklu heilbrigðari, en að gefa eftir skuldir, sem voru ekki lánaðar á þeim forsendum að gefa þær eftir, heldur á þeim forsendum að greiða þær aftur. Kemur það þá til athugunar á sínum tíma.

Hæstv. ráðh. sneri við minni spurningu og spurði nú, hvort við hefðum ráð á því að láta þróunina stöðvast hjá einstökum atvinnuvegum. Hann sneri spurningunni við, vegna þess að hann komst í þrot um að svara hinu, hvort aðrir atvinnuvegir gætu bætt á sig nýrri byrði. Ég þykist sjá, að hann telur það ekki vera hægt á þessu stigi málsins, og þess vegna sneri hann spurningunni við.

Ég tók ekki eingöngu til máls til þess að svara þessari spurningu, heldur til þess að hrekja það, sem ávallt kemur fram hjá hæstv. ráðh. í sambandi við landbúnaðarmál, að þeim sé engin velvild eða styrkur sýndur hér á Alþ., því að það kemur þráfaldlega fram, að hvenær sem hann fær tækifæri til þess að ræða um nokkurt mál, þá fléttar hann alltaf inn hér, að þessum málum sé sýndur einhver sérstakur fjandskapur eða skilningsleysi hér á Alþ. (Landbrh. grípur fram í.) Ég skal svara hæstv. ráðh. síðar. Ég skal fyrst svara hæstv. ráðh. öðru hér til þess að sýna fram á, að þetta, sem hann var að halda fram hér, er alveg rangur áburður, þótt hann síendurtaki hann hér á Alþ., því að hér í fjárlögunum núna eru hvorki meira né minna en rúmar 42 millj. kr. alveg beint til landbúnaðarins. Er það nokkur fjandskapur að leggja alveg mótatkvæðalaust, bæði í fjvn. og í Alþ., 42 millj. kr. til landbúnaðarins? Ég kann ákaflega illa við það, þegar hæstv. ráðh., sem fer með þessi mál, hefur fengið samúð frá fjvn. og Alþ. um að taka allar þessar upphæðir á fjárlög, að þá sé hann að nota hvert eitt einasta tæklfæri, sem hægt er og hann hefur hér í þingi, til þess að núa Alþ. og fjvn. því um nasir, að það sé einhver fjandskapur rekinn gegn þessum atvinnuvegi. Þetta er alveg rangt og sannarlega ekki viðeigandi. Ég skal enn fremur benda á, að inni í þessari upphæð hér eru 2½ millj. kr. samkv. l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum og 2½ millj. kr. til byggingarsjóðs. Þetta eru 5 millj. kr., sem lagðar eru árlega til þessara mála til bændanna. Ég er síður en svo að sjá eftir þeim, og það má ekki skoða það sem neina andúð, að ég er að minnast á þetta hér. En ég kann þá heldur ekki við, að hæstv. ráðh. sé að tala um það sí og æ, að hér sé rekinn sífelldur fjandskapur gegn bændastéttinni. Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér líka að minna á, að þessar báðar upphæðir hér eru viðurkenndar að vera teknar inn á fjárlögin af miklum meiri hluta Alþ. Og það eru aðrar upphæðir, sem hv. 3. þm. Reykv., sem einnig er flm. að þessu frv., veit, að sjálfsagt væri að taka inn í, en urðu að víkja fyrir þessu, og það voru upphæðirnar, sem áttu að fara í þá sjóði, sem áttu að útrýma heilsuspillandi íbúðum í bæjum. Nú hefur hv. 8. þm. Reykv. fallið frá því að berjast fyrir því að fá þær upphæðir inn, og sannarlega torveldar það að fá þær upphæðir inn á fjárlögin, ef fella á hér niður rúmar 40 millj. kr., svo að það verður að mótmæla því alveg ákveðið, að þessari atvinnugrein sé sýnd nokkur andúð.

Ég vil einnig í sambandi við þetta, af því að við erum að ræða um vaxtabyrðina, 2½%, leyfa mér að benda á, að samfara því, sem bændastéttin fær ákveðnar milljónir úr þessum sjóði með 2½% til 42 ára og hagar þó sínum verklegu framkvæmdum svo, að sjálfir leggja þeir fram 40% í byggingarnar, því að ekki geta þeir fengið melra en 60% frá sjóðunum, og lágmark 50% og oft og tiðum 80% í byggingar til þess að koma þeim upp, vegna þess að 60 þúsundirnar, sem lánaðar eru frá bankanum, eru engan veginn nægilegar til þess að standa undir sérstökum stofnkostnaði, — að á sama tíma hafa þeir milljónir í umferð hjá S. Í. S., sem þeir taka ekki 2½% af, heldur að minnsta kosti 5%. Það ætti hæstv. ráðh. að vera kunnugt um. Og það eru engar skorður settar fyrir því — sannarlega ekki í þessum l. — að sumir menn geti ekki átt meiri upphæð, en þeir fá út úr sjóðunum inni í samvinnufélögunum eða í öðrum bönkum eða einhvers staðar annars staðar, þar sem þeir eru ávaxtaðir með miklu hærri vöxtum. Ég er ekki að segja, að þetta séu nákvæmlega sömu mennirnir, sem eiga þetta fé. En bændastéttin hefur í lánum milljónir hjá samvinnufélögunum, sem eru þeirra rekstrarfé, á miklu hærri vöxtum, en þeir greiða af lánum úr þessum sjóðum. Sambandið hefur hér hagkvæmari lánskjör heldur en ef það yrði að fara í Landsbankann og fá þar tilsvarandi upphæðir. Samtímis er svo verið að fá þessar milljónir hér með 2½% út úr Búnaðarbankanum. (Gripið fram í.) Ég er ekki að segja, að þetta sé neinn fjandskapur gegn bændunum, síður en svo. En það er bezt, að þetta sé allt saman upplýst, úr því að verið er að ræða þessi mál hér. (Gripið fram í.) Það getur vel verið, að n. óski eftir því, hæstv. ráðh. Þess vegna tel ég, að það sé vel þess virði að ræða þessi mál hér þegar við 1. umr. og það án þess að vera að núa neinum mönnum um nasir, að það sé einhver fjandskapur gagnvart ákveðinni stétt í þjóðfélaginu. Ég mun meðal annars óska þess mjög, að okkar ágæti formaður upplýsi það, hvað bændastéttin eigi mikið fé í þessum sparisjóðum Sambandsins, úr því að verið er að biðja um þetta hér.

Ég skal viðurkenna, að það er ekki neitt nýtt, þó að væri farið inn á þá braut, að ríkissjóður tæki að sér að greiða eitthvað af mismuninnm á vöxtunum til bændanna, þ. e. mismuninn, sem bændurnir greiða til Búnaðarbankans og Búnaðarbanklnn á að greiða öðrum. Það er ekki neitt nýtt, því að ég minnist þess, að þetta varð að gera í sambandi við Fiskveiðasjóð Íslands. Ég hygg, að þessar upphæðir hafi verið á sinum tíma eitthvað um 3–4 hundruð þús., á vissu árabili.

Það má sannarlega athuga það, hvort ekki sé hægt að finna einhverja leið til þess að jafna þarna á milli, án þess að koma með frv., sem hlýtur að framkalla margar aðrar jafnréttmætar kröfur og það í svo stórum stil frá öðrum atvinnuvegum þjóðarinnar og öðrum stéttum, að ríkissjóður fær ekki undir risið.

Ég skal ekki á þessu stigi ræða þetta mál nánar, en mér þótti sjálfsagt að láta þetta koma fram vegna þeirra ummæla, sem höfð hafa verið hér, og alveg sérstaklega af hæstv. ráðh. Ég fyrir mína parta frábið mér allar ásakanir um andúð eða fjandskap gegn landbúnaðinum og þykist hafa sýnt það í mínu starfi hér í fjvn. og á þingi, að það er engin ástæða til þess að vera að núa því um nasir, hvorki þeim mönnum, sem þar starfa, né öðrum, sem hafa verið sammála því að láta hæstv. ráðh. hafa yfir 40 millj. til þessara mála.