26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í D-deild Alþingistíðinda. (2302)

111. mál, verðlaun til afreksmanna við framleiðslustörf

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var nú eiginlega meira framsöguræðan heldur en sjálf till., sem gaf mér tilefni til þess að standa hér upp og segja nokkur orð út af þessu.

Þessi till. er raunverulega út af fyrir sig góð, en það er máske ekki fjarri lagi, um leið og svona till. er flutt, að menn íhugi það, að aðstæðurnar með framleiðsluna og ástæðurnar til verðlauna eru orðnar dálítið breyttar frá því, sem var hjá okkur fyrr á tímum á Íslandi. Okkar land er ríkt, eins og hv. frsm. tók fram. Hér er nægur auður, nægar auðlindir til þess að ausa af og næg tæki til þess að sjá um, að öllum almenningi liði vel, og hvað snertir þann harmagrát, sem hv. þm. var með út af því, að þjóðarskútan gengi fyrir gjöfum núna, þá höfum við efnahagslega séð aðeins tapað á þeim gjöfum. Við hefðum skapað meira hér sjálfir, ef við hefðum fengið að vinna í friði og ekkert af þeim gjöfum fengið. Hv. frsm. veit, að samfara gjöfunum hefur verið settur fjötur á okkar þjóð, þannig að hún hefur ekki fengið að nota sína framleiðslukrafta, og sjálf sú ríkisstj., sem hann styður, hefur skipulagt atvinnuleysi yfir þjóðina á þessum tíma. Við getum framleitt nóg hér á Íslandi, og það er nægilegt af dugandi mönnum, sem geta, ef þeir fá góð framleiðslutæki í hendur, framleitt miklu meira en nú er gert með öllum okkar tækjum bæði í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, en við fáum ekki að gera það. Það er það undarlega og öfuga við það þjóðfélag, sem við lifum í, móts við það, sem var hér á Íslandi áður fyrr, meðan framfarir og aukning framleiðslu þótti sjálfsagður og eðlilegur hlutur til að styðja.

Núna hefur verið flutt hvert frv. hér á Alþ. á fætur öðru af hálfu okkar sósíalista til þess að biðja um rétt fyrir menn á þessu landi til að fá að framleiða, og þau frv. eru drepin, m. a. af flokki hv. frsm. Það er beðið um það, að okkar sjómenn fái að framleiða af fullum krafti og okkar verkamenn og verkakonur fái að vinna af fullum krafti í okkar fiskiðjuverum og fái að flytja út okkar fisk eins mikið og við getum framleitt, og þeir segja nei. Það er beðið um, að bankarnir láti eðlilega aðstoð í té, til þess að framleiðslutækin geti gengið af fullum krafti, og því er neitað. Það er skipulögð lánsfjárkreppa í landinu af hálfu ríkisvaldsins til þess að hindra menn í því að geta unnið að því að framleiða fisk og selja hann út úr landinu, unnið að því að byggja hús yfir sig og gera þannig að öllu leyti afkomu þjóðarinnar betri. Hvernig er ástandið hjá duglegustu bændunum núna, þeim sem framleiða mesta mjólk eða kjöt, sérstaklega þó mjólk? Hvað er gert við svo og svo mikið af mjólkinni, sem framleidd er? Það eru unnir úr henni ostar eða skyr, sem sent er aftur heim til bændanna, og þeim sagt að nota það handa skepnunum. M. ö. o., það þjóðfélagsskipulag, sem við búum við, er svo vitlaust, að í staðinn fyrir að verðlauna dugnaðarmanninn við framleiðslustörfin, þá eyðileggur það afurðirnar í höndunum á honum. Hvað er gert við sjómennina, sem eru duglegastir og framleiða mest? Hver eru verðlaunin, sem þeir koma til með að fá, sem verða duglegastir í þessum efnum og framleiða sem fyrst og mest? Þeir eru stöðvaðir. Það er hindrað, að fiskframleiðslan fái að halda áfram af fullum krafti. Þeir eru með lánsfjárbanninu reknir til að selja fiskinn út úr landinu í staðinn fyrir að lofa mönnum að vinna við hann hér heima. Hvað með iðnaðinn? Hvernig hagar ríkisstj. sér viðvíkjandi iðnaðinum í landinu? Er verið að hvetja iðnaðarmanninn til þess að vinna sem mest að því að framleiða fyrir þjóðina? Eða er með ríkisráðstöfunum verið að gera sérstakar gælur við útlendan iðnað og hindra það, að Íslendingar geti framleitt af fullum krafti?

Við eigum ekki aðeins afreksmenn í framleiðslu hérna heima. Við eigum líka afreksstéttir. Okkar bændur, okkar sjómenn, okkar verkamenn eru með duglegustu og afkastamestu vinnandi stéttum í veröldinni, og með hverju eru þessar stéttir verðlaunaðar? Þær eru verðlaunaðar af núverandi ríkisvaldi með atvinnuleysi og með launaráni, verðlaunaðar með einokunarfjötrum, þannig að þær fá ekki að njóta sín og þeirra tækja, sem þjóðin nú á, og þeirra auðlinda, sem landið býður þeim. Þetta stafar af því, sem hv. frsm. kom alveg réttilega inn á, að það er auðurinn, sem er metinn og verðlaunaður og ræður í okkar landi, en ekki vinnan, og vinnan og vinnuaflið er lagt í fjötra auðsins. Það er gott að verðlauna þá, sem eru afkastamestir, það er gott að verðlauna unga iðnaðarmanninn, sem er að læra, lærlinginn, sem er duglegastur, framleiðir mest, en það er þó bezt, að hann sé ekki verðlaunaður með því, að hann sé rekinn um leið og hann er búinn að taka sveinsprófið.

Ég vil biðja menn að athuga, að framleiðsluhættirnir, sem við búum við núna, eru nokkuð ólíkir því, sem var. Þess vegna er ég því miður hræddur um, að þessi till, sem er alveg réttilega hugsuð, og til grundvallar henni liggur rétt virðing fyrir vinnunni og framleiðslustörfunum, — ég er hræddur um, að hún fái illa að njóta sín í þjóðfélagi, þar sem auðurinn ræður og þar sem ríkisstjórnirnar, sem þjóna þeim auði, verðlauna vinnandi stéttirnar fyrst og fremst með atvinnuleysi og launaráni.

Hins vegar hef ég fyrir mitt leyti ekki á móti því, að svona till.samþ. Í landi og þjóðfélagi, þar sem vinnan væri í hávegum höfð, mundi þetta vera sjálfsagður hlutur. Í landi, þar sem einokunarfjötrar lítillar auðmannaklíku í Reykjavík hvíla sem ok á herðum alls almennings í landinu og beygja hann dýpra og dýpra, þar kemur þetta ekki til með að koma að þv. gagni, sem gæfi orðið. Hitt væri heppilegt, að um leið og svona till. væri samþ., þá væri breytt þannig til, að hætt væri að leggja bann við því, að menn fengju að vinna af fullum krafti við framleiðslustörfin í þágu þjóðarinnar, og ríkisvaldið hætti að gera það að aðalatriði, að það yrði að sækja um leyfi hingað til Reykjavíkur fyrir hverju smáræði, sem menn ætluðu að vinna, hvort heldur það væri fiskur, sem menn ætluðu að flytja út, eða hús, sem menn ætluðu að byggja.

Þessum athugasemdum vildi ég aðeins skjóta fram, meir út af framsöguræðunni heldur en út af því, sem í sjálfri till. felst.