03.12.1952
Sameinað þing: 20. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (2349)

94. mál, leturborð ritvéla

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Þetta er í þriðja sinn, sem ég flyt till. þá, sem hér liggur fyrir á þskj. 116. Í fyrra var hún afgr. frá allshn. og mæltu nm. allir með því, að hún yrði samþ.

Ég hef í rauninni engu við að bæta það, sem ég hef áður mælt fyrir till., en vil aðeins minna á, að launþegadeild Verzlunarmannafélags Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum 3. nóv. s. l. svo hljóðandi till. einróma:

„Launþegafundur V. R., haldinn 3. nóvember 1952, skorar á Alþ. að samþykkja fram komna þáltill. frá Jónasi Árnasyni um samræmingu á leturborðum ritvéla.“

Eins og ég sagði áðan, mælti allshn. einróma með samþykkt till. í fyrra, og legg ég það undir dóm hæstv. forseta, hvort ástæða er til að vísa till. aftur til þeirrar n. og fresta umr.