26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (2464)

154. mál, heyforðabúr

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þessi till., sem hér liggur fyrir, er um endurskoðun á gömlum l., sem eru frá 1911, heimildarlögum um heyforðabúr, sem ég hygg að hafi aldrei komið til framkvæmda hér á landi. En við þekkjum það allir, hve voðinn er mikill, ef að kreppir með harða veðréttu og litlar heybirgðir eru til. Það, sem allur íslenzkur landbúnaður grundvallast á, er heyöflunin. Ræktunin er sú menning, sem nútímabændur hafa tileinkað sér í stórum stíl, en enn þá er ekki hægt að segja, að ræktunin sé það mikil, að við getum eingöngu byggt okkar landbúnað á henni án þess að nota útengjar. Til þess liggja margar ástæður, sem ég hirði ekki um að nefna hér. En það hefur oft sannazt áþreifanlega í íslenzkum landbúnaði, að þegar harðæri hefur borið að höndum, þá hafa ekki verið til þær tilskildu heybirgðir, sem þurft hefur á að halda. Nú síðustu árin hefur verið hægt að grípa til fóðurbætis, sem komið hefur í stað heyjanna. En til þess að meira öryggi sé í búskapnum, en verið hefur til þessa, þurfa meiri heybirgðir að vera til staðar í landinu.

Við flm. þessarar till. höfum samið alllanga grg. með þessari till., sem ég vil vísa til að mestu leyti varðandi þetta mál og vonast eftir að allir hv. þm. hafi kynnt sér, því að þar er drepið á flest þau atriði, sem til greina koma í sambandi við endurskoðun l. um heyforðabúr. Það þarf ekki að taka það fram hér, það vita allir, að við eigum miklar og góðar engjar, þar sem hægt er að heyja mikið með vélum á skömmum tíma. Ef eitthvert skipulag væri til um slíka heyöflun, gætum við smám saman komið upp heybirgðum, sem mundu tryggja okkur, þegar harðindi ber að höndum. Og það er ekki til þess ætlazt, að það sé lagt út í mikinn kostnað varðandi heyöflun til forðabúra, svo sem ræktunar, heldur að notaðar séu þær beztu engjar, sem til eru, og að heyin verði þá geymd á þeim stöðum, þar sem heppilegt sé að ná þeim, þegar á þarf að halda, og mundi þá vera bezt aðstaðan að hafa heyin við hafnir, sem litlar líkur eru til þess að geti teppzt, þegar ísa leggur að. En allt þetta ásamt fleiru hygg ég að þeir, sem endurskoða þessi l., taki til greina, og vænti ég þess, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til allshn. og hún skili sem fyrst áliti, svo að till. nái fram að ganga á þessu þingi og hæstv. ríkisstjórn geti látið þegar í stað endurskoða lögin og lagt þau fyrir næsta Alþingi.