05.11.1952
Sameinað þing: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (2493)

57. mál, bátaútvegsgjaldeyrir

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð fyrst út af því, sem hv. síðasti ræðumaður, 8. landsk., sagði viðvíkjandi spursmálinu um, hve þingleg þessi till. væri. Ég flyt þetta sem þáltill. sökum þess, að ég álít ekki þörf á að breyta l., og flyt þess vegna ekki frv. Ég álít, að ég standi á grundvelli l., en hæstv. ríkisstj. sé utan við þau, brjóti þau. Ég fer ekki að flytja brtt. við l., sem ég álít að standi alveg hvað þetta snertir, og þegar ég þess vegna legg til, að Alþingi gefi ríkisstj. nokkurs konar áminningu út af því, að hún hafi gefið út ólöglega auglýsingu, þá finn ég ekki annað ráð en þáltill. Ég skal vissulega viðurkenna, að eðlilegasti hátturinn í málum eins og þessum hefði verið, að dómstólarnir hefðu strax í byrjun verið látnir skera úr þessu. En það vil ég bara segja, hvernig það er, að það virðist svo í landinu sem það treysti sér enginn maður til að fara í mál við ríkið um, hvað sé lög og réttur, vegna þess að það er búizt við, að dómstólarnir standi með ríkinu, þegar það skiptir einhverju fjárhagslegu fyrir það.

Svo skal ég víkja að ræðu hæstv. viðskmrh., sem ég vil segja að sé sú stórmerkilegasta yfirlýsing, sem ég man eftir nokkru sinni að hafi verið gefin hér á Alþingi. Svo framarlega sem sú yfirlýsing ráðh. fær að standast, sem hann gaf í sinni ræðu, þá eru opnuð algerlega ný svið fyrir túlkun þess valds, sem opinberir aðilar hafa hér á Íslandi, móts við það, sem verið hefur hingað til. Og skal ég nú koma inn á þetta.

Það má hæstv. viðskmrh. eiga, að hann talar skýrt og skorinort, og það er alveg greinilegt, að ef hans yfirlýsing stenzt við l., þá hefur ríkisstj. vald, sem ég satt að segja í minni framsöguræðu setti fram og lýsti sem firru, algerlega óhugsanlegri firru út frá öllu þingræði. En hæstv. viðskmrh. staðhæfir sem sé, að ríkisstj. hafi slíkt vald, sem ég áleit alls ekki geta komið til mála, þannig að það er raunverulega um tvennt að ræða, eins og ég mun nú sýna fram á: Annaðhvort hefur ríkisstj. og hennar fjárhagsráð bókstaflega einræðisvald í öllum okkar þjóðarbúskaparmálum, sem snerta verzlun með gjaldeyri og ráðstöfun hans, og þar með um raunverulega gengisskráningu, alla innheimtu fjár af landsmönnum, allt það, sem við hingað til höfum álitið að við þyrftum að fjalla um í sérstökum l. á Alþingi, eða þá hins vegar að hún er að fremja algert lögbrot. Og þá skal ég nú leyfa mér að lesa upp orðrétt eftir ræðunni, skrifaðri niður af stálbandinu, það, sem hæstv. viðskmrh. sagði, með leyfi hæstv. forseta. Hann sagði:

„Fjárhagsráð hefur því óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, þ. á m. að heimila útflytjendum öllum eða einhverri sérgrein útflytjenda að hafa frjáls umráð gjaldeyris síns að öllu eða einhverju leyti til innflutnings almennt eða bundið við sérstakar vörutegundir, sbr. bátalistann. Þeim, sem fá þennan ráðstöfunarrétt, er heimilt að notfæra sér hann á hvern þann hátt, er ekki brýtur í bága við fyrirmæli fjárhagsráðs, þ. á m. að selja gjaldeyrinn með hagnaði í einu formi eða öðru, ef slík sala er heimiluð af fjárhagsráði.“

Þetta er yfirlýsing hæstv. viðskmrh. Samkv. þessari yfirlýsingu á fjárhagsráð — og það þýðir ríkisstjórnin — að hafa rétt til þess að mega gefa í fyrsta lagi útflytjendum — og út frá því náttúrlega líka hverjum öðrum — rétt til þess að mega ráðstafa sínum gjaldeyri og í öðru lagi, að þeir megi leggja á hann eins og þeim þóknast. Nú skulum við athuga í fyrsta lagi þetta í sambandi við þau gildandi l. og síðan hvað þetta mundi þýða, ef það væri virkilega til einhver lagasmuga fyrir því.

Við skulum þá fyrst líta á greinina, sem hæstv. viðskmrh. vitnaði í. Hingað til hafði hæstv. ríkisstj. í umr. um þetta mál vitnað í 11. og 12: gr. fjárhagsráðsl. Ég hafði rakið 12. gr. sérstaklega — á 11. gr. er ekki hægt að byggja neitt í þessu — og sýnt fram á, að innflutnings- og gjaldeyrisleyfin mættu eingöngu fara til innflytjenda, og eftir að ég hafði sýnt fram á það, þá hefur verið hætt við að vitna í 12. gr. Og nú kemur hæstv. viðskmrh. og vitnar í 13. gr. og segir, að samkv. 13. gr. hafi fjárhagsráð óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, m. a. til að heimila öllum útflytjendum að selja gjaldeyri með hagnaði í einu eða öðru formi. Hvað stendur nú í 13. gr.? Í 13. gr., 2. mgr., er síðasti málsliður þannig: „Enginn hefur rétt til að selja erlendan gjaldeyri nema Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands h/f. Þó er póststjórninni heimil slík verzlun innan þeirra takmarka, sem ríkisstj. setur.“ Og síðast í 13. gr. stendur: „Ráðherra setur með reglugerð fyrirmæli til tryggingar því, að íslenzk útflutningsverðmæti verði greidd með erlendum gjaldeyri, er renni til bankanna. Enn fremur ákvæði um það, að allur annar gjaldeyrir, sem menn eiga eða eignast, renni til þeirra.“ M. ö. o.: Þó að við lesum alla 13. gr. yfir, þá er ekki eitt einasta atriði í henni, sem heimilar fjárhagsráði og því síður útflytjendum nokkra ráðstöfun á gjaldeyri. Það er þvert á móti tekið alveg greinilega fram, að það eru tveir bankar í landinu, sem hafa einir rétt til þess að selja erlendan gjaldeyri, og þeim bönkum er með öðrum l., þ. e. viðvíkjandi gengisskráningunni, meira að segja fyrirskipað, með hvaða verði þeir megi selja gjaldeyrinn. Það væri nú hálfundarlegt, ef einhverjir útflytjendur í landinu, sem eftir l. hafa engan rétt til þess að fá neinn gjaldeyri og ekki til að selja hann, mættu selja gjaldeyrinn með hagnaði, eins og hæstv. viðskmrh. lýsti yfir, en ef svo t. d. Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands mættu ekki selja gjaldeyrinn með hagnaði, þeir væru bundnir af l. Ég get ekki skilið annað en Útvegsbankinn og Landsbankinn mættu þá selja gjaldeyri með þeim hagnaði, sem þeim þóknast, ef fjárhagsráð leyfði þeim. M. ö. o.: Í 13. gr. kemur alveg greinilega fram, að það eru tveir aðilar, sem hafa einkaréttinn á sölu gjaldeyrisins, og ekki nokkur smuga til í 13. gr. um að láta útvegsmennina fá hann.

Hæstv. viðskmrh. segir alltaf, að þessir hlutir séu heimilir, ef fjárhagsráð leyfi. En við verðum bara að gá að öðru. Þótt fjárhagsráð sé voldugt, þá er það bundið af l. Það er bundið í l., hvað fjárhagsráð hefur leyfi til að gera. Þótt fjárhagsráð geti bannað mönnum að hafa sæmilegt ris á íbúðum og numið það úr gildi, þegar það er orðið hrætt við það, þá hefur það ekki rétt til þess að ákveða allt verð á gjaldeyri á Íslandi eða hverjir skuli fara með hann. Fjárhagsráð er bundið af l. og á að haga sér og reka alla sína starfsemi alveg með sérstöku tilliti til ákveðinna fyrirmæla, sem eru í 2. gr. l. um fjárhagsráð. Í l. um fjárhagsráð er aðeins gert mögulegt að selja gjaldeyri á tvennan hátt. Það eru aðeins tvenns konar möguleikar, sem þar eru til. Annars vegar er að úthluta skírteinum, þ. e. innflutnings- og gjaldeyrisleyfum svo kölluðum, sem fjárhagsráð hefur rétt til þess að gera, og 12. gr. mælir alveg sérstaklega fyrir, hvernig þessum innflutnings- og gjaldeyrisleyfum skuli úthlutað, og er alveg tæmandi um þann hlut, eins og hæstv. viðskmrh. hefur ekki heldur reynt að bera á móti. Ef það er um innflutnings- og gjaldeyrisleyfi að ræða, þá skal samkv. 12. gr. úthluta þeim til innflytjenda. Það er engin smuga í 12. gr. um að úthluta til útflytjenda innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Hinn möguleikinn til að ráðstafa gjaldeyri er að selja gjaldeyrinn sjálfan. Þann rétt hafa samkv. 13. gr. bankarnir einir, þessir tveir bankar, sem ég nefndi. Og reglan, sem líka er samkv. l., er sú, að þessir bankar mega aðeins selja þennan gjaldeyri samkvæmt innflutnings- og gjaldeyrisskírteinum, að svo miklu leyti sem vörurnar eru ekki almennt gefnar frjálsar til innflutnings.

Það er þess vegna alveg greinilegt, að fram hjá þessu verður ekki komizt. Bankarnir geta selt gjaldeyri, en mega meira að segja ekki leggja á hann, verða að selja hann á alveg ákveðnu verði samkv. gengisskráningarl.. þegar um er að ræða almennar frílistavörur, og það er enginn grundvöllur hvorki í 11., 12. né 13. gr. um að gefa frílista út með sérstökum skilyrðum, með sérstökum einokunum, með sérstakri álagningu eða neinu slíku. Þess vegna var annaðhvort fyrir ríkisstj. að fara þá leið eða gefa út innflutnings- og gjaldeyrisleyfi, og það er raunverulega það, sem hún hefur gert viðvíkjandi bátaútvegsgjaldeyrinum. En hún gat ekki eftir l. afhent þau innflutnings- og gjaldeyrisleyfi til annarra en innflytjenda og það með alveg ákveðnum réttindum og ákveðnum skyldum samkv. 12. gr., og hún gat ekki lagt nokkurn skapaðan hlut á þessi leyfi umfram þau 2%, sem heimilað er í l. að leggja á innflutnings- og gjaldeyrisleyfi eða láta menn borga. Hins vegar valdi hún þarna leið, sem hún hélt að væri fær, á milli þessara tveggja, en er algerlega ófær. Fjárhagsráð er þarna algerlega bundið og getur ekki á nokkurn hátt gert þessar ráðstafanir samkv. l., sem hæstv. viðskmrh. vildi vera láta. Fjárhagsráð er bundið af l., eins og ég gat um áðan, og ef fjárhagsráð ætti nú að fara að gera sínar ráðstafanir út frá því, sem hæstv. viðskmrh. sagði, þá rekst það á 2. gr. l.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að fjárhagsráð hefði óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, m. a. til að heimila útflytjendum að fá frjáls umráð gjaldeyris síns og að leyfa þeim að selja gjaldeyri með hagnaði í einu eða öðru formi. Þetta hefur fjárhagsráð ekki neitt leyfi til þess að gera, í fyrsta lagi út frá því, sem ég áður hef tekið fram um, hverjir selja gjaldeyrinn og til hverra skuli úthluta innflutningsleyfum. Enn fremur er í 2. gr., 2. og 3. lið, sagt alveg sérstaklega, á hvern hátt fjárhagsráð skuli ráðstafa gjaldeyri og hvernig það skuli starfa og hvað það skuli miða sín störf við. Í 2. gr. segir, að fjárhagsráð miði störf sín við eftirfarandi: „Að öllum vinnandi mönnum og þó sérstaklega þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku.“ Það, sem hæstv. viðskmrh. er alveg sérstaklega að halda hér fram, er, að útflytjendur hafi ótakmarkaðan rétt, ef fjárhagsráð leyfir þeim, til spákaupmennsku með sinn gjaldeyri, til að leggja á gjaldeyri eins og þeim þóknast, spekúlera með hann, eins og sagt er á slæmu máli, leggja á hann 60%, 100%, 200% eða hvað mikið sem þeir geta fengið. Það rekst algerlega á verkefni ráðsins samkv. 2. gr. Svo kemur í 3. lið 2. gr., að fjárhagsráð miði störf sín við: „Að neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á hagkvæmasta hátt og vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands gerð eins ódýr og hagkvæm og frekast er unnt.“ Fjárhagsráði ber að miða öll sín störf við þessi fyrirmæli, gera neytendum og framleiðendum mögulegt að kaupa sína vöru sem ódýrast. Ef fjárhagsráð heimilar einhverjum aðila í landinu að mega leggja sérstaklega á rekstrarvörur fram yfir það, sem almennt er leyft í þjóðfélaginu, þá er fjárhagsráð að brjóta þau fyrirmæli, sem fjárhagsráð hefur frá Alþingi í 2. gr. um, hvernig það eigi að starfa.

Allt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, að fjárhagsráð geti gert og hafi rétt til þess að gera í þessu sambandi, er sama sem að segja: Fjárhagsráð hefur rétt til að brjóta öll þau l., sem Alþingi hefur sett því. — Hæstv. ráðh. eru, eins og raunar sumir fleiri hérna í landinu, farnir að halda, að fjárhagsráð geti gert allt, sem því þóknast, ef ríkisstj. bara leyfir því. Þetta er alger misskilningur. Fjárhagsráð er þrælbundið af l., og fjárhagsráð hefur eftir ósk ríkisstj. verið að brjóta lög. Eftir ósk ríkisstj. hefur fjárhagsráð gefið út þessa auglýsingu, eins og hún byrjar: „Samkv. ósk ríkisstj. og með tilvísun til samkomulags, sem hún hefur gert við Landssamband íslenzkra útvegsmanna“ — og öll þessi auglýsing er þverbrot á l. Það hafðist í fyrra upp úr hæstv. ríkisstj. eftir langt þóf, að hún vitnaði í 11. og 12. gr. l. og sagði, að bátaútvegsgjaldeyririnn styddist við þær greinar. Nú er hún flúin frá því og vitnar í 13. gr. l. Þetta stangast jafnt við 13. gr. l., sem gefur bönkunum einokun á gjaldeyrinum, þannig að fjárhagsráð er sem sé með þessu algerlega að brjóta í bága við l., — ég er ekki að skella skuldinni á fjárhagsráð, fjárhagsráð gerir þetta eftir ósk ríkisstjórnarinnar.

Nú skal ég svo hins vegar ræða málið frá því sjónarmiði, ef hæstv. viðskmrh. virkilega hefði haft á réttu að standa, ef það væru virkilega til einhverjar lagagreinar, sem ekki er búið að benda mér ólögfróðum manni á enn þá. Þær, sem mér hefur verið bent á, hef ég tætt í sundur. Ef þær væru hins vegar til og þetta væri virkilega leyfilegt, þá langar mig til að rekja það í stuttu máli, hvað það þýðir þá raunverulega fyrir Alþingi og hvað það er raunverulega óþarft af okkur að vera að sitja hér á þingi og sérstaklega að vera að fjalla um nokkur fjárlög og annað slíkt. Ef leyfilegt er að nota vald sitt þvert ofan í l., brjóta 11., 12. og 13. gr. fjárhagsráðslaganna, þá skil ég ekki í öðru, en það hljóti að vera leyfilegt að teygja sig heldur lengra með það vald, sem menn hafa samkv. l., en hefur aldrei dottið í hug að nota öðruvísi, en gert hefur verið. Við skulum segja, að í fjárhagsráðslögunum er ákveðið, að innflytjendur skuli fá innflutnings- og gjaldeyrisleyfi. Hæstv. viðskmrh. segir, að það sé allt í lagi, að útflytjendur fái þau eins og þeir vilja. Í l. um sölu og útflutning á vörum, nr. 11. frá 12. febr. 1940, er ríkisstj. gefinn réttur til þess að ráða, hverjir flytja út vörur frá Íslandi. Engin hæstv. ríkisstj., sem að völdum hefur setið, hefur notað þetta á annan hátt en að gefa hinum og þessum útflytjendum rétt til þess að flytja út þessar vörur þeirra, yfirleitt aðeins firmum, sem hafa þá haft líka með innflutning og útflutning að gera. Ef þessi lagatúlkun, sem hæstv. viðskmrh. var með viðvíkjandi réttindunum til innflutningsins. væri rétt, þá fæ ég ekki annað séð en sá hæstv. ráðh., sem hefur með sölu og útflutning á vörum að gera, hefði fulla heimild til að gefa hvaða aðila sem hann vill heimild til alls útflutningsins á Íslandi. Við skulum segja sem dæmi, að sá ráðh., sem hefur með sölu og útflutning á vörum að gera, vildi gefa t. d. S. Í. S. eða Þórði Sveinssyni & Co. réttindi til alls útflutnings á Íslandi, og hann hefði þá alveg rétt til þess. Við skulum segja, að einhver ráðherra færi þá að nota þennan rétt, og hann hefur áreiðanlega meiri rétt til þess, en til þeirrar ráðstöfunar, sem gerð er viðvíkjandi bátaútvegsgjaldeyrinum. Þar með er t. d. S. Í. S. eða Þórður Sveinsson og Co. orðið eini útflytjandinn á vörum frá Íslandi. — Hæstv. viðskmrh. segir, að samkv. l. um fjárhagsráð hafi fjárhagsráð rétt til þess að gefa hvaða útflytjanda sem væri eða útflytjendunum yfirleitt eða einhverri sérgrein útflytjenda frjáls umráð gjaldeyrisins og sá aðili megi selja gjaldeyrinn með hagnaði eins og honum þóknast. Það þýðir með öðrum orðum, að ef ráðh., sem hefur með útflutninginn að gera samkv. l., notar sitt vald þannig, að hann gefur einhverjum einum eða tveimur aðilum allan útflutninginn frá Íslandi, þá hefði líka — samkv. sömu rökum sem hæstv. viðskmrh. hefur flutt — fjárhagsráðið rétt til þess að gefa þessum einum eða tveimur aðilum réttinn til þess að ráðstafa að eigin vild öllum gjaldeyri Íslands, þannig að þessir tveir aðilar, sem hafa flutt allar vörurnar út, geta fengið að ráðstafa gjaldeyrinum og selja hann með hvaða álagningu sem þeim þóknast. Ég vil skora á hæstv. viðskmrh. að mótmæli þessum rökum, að þetta sé rétt ályktun af þeim forsendum, sem hann hefur gefið.

Hæstv. ráðh. segir: „Fjárhagsráð hefur því óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, þ. á m. að heimila útflytjendum öllum eða einhverri sérgrein útflytjenda að hafa frjáls umráð gjaldeyris síns að öllu eða einhverju leyti til innflutnings almennt eða bundið við sérstakar vörutegundir, sbr. bátalistann. Þeim, sem fá þennan ráðstöfunarrétt, er heimilt að notfæra sér hann á hvern þann hátt, er ekki brýtur í bága við fyrirmæli fjárhagsráðs, þ. á m. að selja gjaldeyrinn með hagnaði í einu formi eða öðru, ef slík sala er heimiluð af fjárhagsráði.“ M. ö. o., ef það er rétt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, þá hefur af þeim þm., sem hafa samþ. l. um fjárhagsráð, — og það þori ég að fullyrða, að enginn þingmaður hefur gert sér það ljóst, þegar hann samþ. þau, enda aldrei verið haldið fram í neinum umr. um það mál, — þá hefur ríkisstjórninni verið gefinn réttur, sem enginn þm. gerði sér grein fyrir að væri verið að gefa.

Nú skulum við athuga þetta enn þá nánar. Mönnum þykir þetta kannske nokkuð djarft dæmi, sem ég hef tekið, að það væri gefinn einum eða tveimur mönnum allur réttur um útflutning frá Íslandi og þess vegna allur réttur um innflutning og réttur til að verzla með gjaldeyrinn með þeim hagnaði, sem þeim þóknast. En þetta er rökrétt afleiðing af því, sem hæstv. viðskmrh. hefur haldið fram. — Nú skulum við taka þetta ofur lítið rólega.

Í dag er þessi réttur, sem hæstv. viðskmrh. og ríkisstj. segist hafa, notaður til þess að veita ákveðnum hluta af bátaútvegsmönnum eða réttara sagt ákveðnum fiskútflytjendum, sem keypt hafa fisk af vélbátum og meðhöndlað hann á sérstakan hátt, sérstök fríðindi viðvíkjandi gjaldeyrinum. Það er gefið, að ef fjárhagsráð hefur þennan rétt til þess að veita þeim þau fríðindi að mega selja gjaldeyrinn með hagnaði, þá hlýtur fjárhagsráð líka að hafa rétt til þess að láta þetta gilda um framleiðslu bátanna hvað snertir síld og annað slíkt. Enn fremur hlýtur þetta að gilda, ef fjárhagsráð vill, um alla togara. Það hlýtur jafnt að vera hægt að veita allri togaraútgerð eða hraðfrystihúsum og saltfisksiðjuverum, sem kaupa af togurunum, sama réttinn til þess að mega ráðstafa frjáls sínum gjaldeyri og selja hann eða vörur, sem þau kaupa fyrir hann, með þeim hagnaði, sem þeim þóknast. Það hlýtur að vera lögfest. Gildi þetta um sjávarafurðir, hvaða lög eru það þá, sem banna, að það sama gildi um landbúnaðarafurðir: ull, gærur, kjöt eða annað slíkt? Skyldi ekki Samband íslenzkra samvinnufélaga hafa sama rétt til þess að mega þá leggja á slíkar vörur og gjaldeyri, sem fengist fyrir þær, eða þá einhverjir aðilar, sem flytja slíkar vörur út, alveg eins og hraðfrystihúsin eða saltfisksútflytjendur? Auðvitað vildu þeir hafa sama rétt. M. ö. o.: Ef þetta er rétt, sem hæstv. ráðh. heldur fram, þá er hægt að gefa öllum þeim, sem flytja út vörur frá Íslandi, þennan sama rétt. En hvað þýðir það? Það þýðir, að það er þannig réttur til þess að mega leggja á gjaldeyrinn eins og þeim þóknast, það þýðir um leið að fella gjaldeyrinn í verði eins og þeim þóknast, það þýðir um leið að innheimta tolla raunverulega af almenningi eins og þeim þóknast, það þýðir að selja raunverulega landið á leigu til þessara aðila til eins miskunnarlausra innheimtna af almenningi eins og þeim þóknast.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að fjárhagsráð hefði óskorað vald um ráðstöfun gjaldeyris, þ. á m. að heimila útflytjendum öllum frjáls umráð gjaldeyrisins og selja þeim hann. Það er skýrt og skorinort eins og allt, sem hæstv. viðskmrh. segir. Hann tekur fram: „Þ. á m. að heimila útflytjendum öllum.“ M. ö. o.: Það má auðvitað heimila fleirum en útflytjendum, enda alveg rétt hjá honum, ef hann á annað borð hefði lög að mæla. Það er alveg eins hægt að heimila innflytjendum þetta, væri jafnvel nær. Það er líka hægt að heimila þetta einhverjum öðrum aðila, sem hvorki kemur nærri innflutningi né útflutningi. Fjárhagsráð hefði eftir þessu rétt til þess að ráðstafa gjaldeyri til hvaða manns sem vera skal í landinu, — bara ef fjárhagsráð leyfir það, þá er allt í lagi, og þessi maður, hvort sem hann héti Jón Jónsson eða hvað sem hann héti, sem fjárhagsráð gæti þannig ráðstafað gjaldeyrinum til, mætti selja gjaldeyrinn með þeirri álagningu, sem honum þóknaðist. Þetta er sem sé það vald, sem hæstv. ráðh. heldur fram að fjárhagsráð og ríkisstj. hafi. Ég er ekki að segja þar með, að þessi ríkisstj. ætli að nota þetta vald, ég veit ekkert um það. Eins og hún hefur notað valdið til bátaútvegsgjaldeyrisálagningarinnar nú, eins getur hún notað það til togaraútvegsgjaldeyris á morgun og til landbúnaðarvörugjaldeyris hinn daginn. Það er náttúrlega ekkert vald frá Alþingi, ef hæstv. viðskmrh. hefur lög að mæla, sem hindrar hana í því. Þetta vil ég að hv. alþm. geri sér alveg ljóst. Svo framarlega sem þeir ætla að standa með hæstv. viðskmrh. í þessu, þá eru þeir þar með að gefa honum og ríkisstj. algera heimild til allra þeirra skattaálagninga á Íslandi, sem þeir vilja, því að það er ekkert annað en skatta- og tollaálagning, að það sé hægt að láta einstaka aðila leggja á gjöld eins og þeim þóknast. Ég benti á það í minni framsöguræðu, að slíkt bryti í bága við stjórnarskrána; hæstv. viðskmrh. tók auðvitað ekkert tillit til þess.

Þá vil ég enn fremur benda alveg sérstaklega hæstv. fjmrh., af því að hann er stundum að kvarta yfir, að allt sé keypt, á þær dyr, sem hæstv. viðskmrh. með þessari túlkun á lögunum hefur opnað fyrir hann og hann hefur líklega ekki séð fram að þessu frekar en við aðrir, sem höfum verið mjög blindir í þessum málum. Fjárhagsráð hefur óskoraðan rétt til að ráðstafa gjaldeyri til hverra sem vera skal og láta selja þennan gjaldeyri með hagnaði. Það má úthluta útflytjendum þessum gjaldeyri, og það má líka jafnvel úthluta innflytjendum, eins og það er núna í lögunum. Þá liggur í augum uppi, að auðvitað hefur fjárhagsráð rétt til þess að úthluta ríkinu slíkum gjaldeyri. Ríkið er ekki réttlægra á Íslandi heldur en einstakir aðilar. M. ö. o.: Ef hæstv. fjmrh. tæki nú þessa ábendingu mína til inntekta, þá getur hann sagt við hæstv. viðskmrh.: „Það er bezt, að þú úthlutir mér f. h. ríkisstjórnarinnar hérna 200 millj. af gjaldeyrinum til ráðstöfunar. Ég ætla að selja hann með hagnaði. Ég ætla að leggja á hann 100%, og ég tek þann hagnað í ríkissjóðinn, og þá þarf ég ekki að vera að basla við þessi fjárlög, nema a. m. k. eitthvað smávægilegt af þeim.“ M. ö. o. ætti þetta að vera fullkomlega heimilt. Ég get ekki skilið það, ef fjárhagsráð hefur rétt til þess að úthluta einhverjum fiskútflytjanda gjaldeyri, þannig að hann megi selja hann með þeim hagnaði, sem honum þóknast, að það mætti ekki úthluta ríkinu þessum gjaldeyri. Mér fyndist það undarlegt, ef búið væri að setja ríkið og ríkisstj. niður fyrir allt. Ég get ekki betur skilið en t. d. hæstv. ríkisstj. og fjárhagsráð hefðu rétt til þess að taka allan togaragjaldeyrinn á morgun, og togararnir geta framleitt, ef þeim væri almennilega stjórnað af hálfu ríkisins, útflutningsvöru fyrir 500 millj. kr. Ég get ekki annað séð en að það væri hægt að segja á morgun fyrir hæstv. ríkisstj.: Þessar 500 millj. kr., sem togararnir framleiða, fær ríkið til umráða til að selja þær með hagnaði. Ríkið getur lagt á þær 100%, ef því þóknast, og tekið það í ríkissjóðinn. Ég vil enn fremur benda á annað: Með bátaútvegsgjaldeyrislistanum er tekin einokun á ákveðnum vörum. Ákveðnum fiskútflytjendum er heimiluð einokun á ákveðnum vörutegundum. Eins og geta má nærri, þá væri hægt að heimila ríkinu einokun á ákveðnum vörum með sama móti, það væri hægt í þessari auglýsingu að bæta því við, að enn fremur skuli ákveðnar vörur teknar og ríkið fær eitt gjaldeyris- og innflutningsskírteini viðvíkjandi þeim og gefur þau út og selur þau með 60% eða 100% álagningu. M. ö. o.: Ríkið getur tekið sér þær einkasölur, sem því þóknast, svo framarlega sem það getur gefið bátaútveginum þá einokun til innflutnings, sem gefin er með bátaútvegsgjaldeyrislistanum, ef þetta væri rétt hjá hæstv. viðskmrh., sem hann heldur fram. Það þyrfti þess vegna engin lög um einkasölur til ríkisins. Ríkið getur alveg ráðstafað þessu eins og því þóknast. Og ég sé ekki, hvað við eigum að vera að basla við fjárlög og nýja skattaálagningu og tollaálagningu og annað slíkt hér á Alþ., ef ríkið virkilega hefur rétt til þess að taka í sinn sjóð bara með því að leggja utan við lögin á sérstök skírteini, sem það úthlutar sjálfu sér til handa, 100 eða 200% álag. M. ö. o.: Ef þessi yfirlýsing hæstv. viðskmrh. byggist á lögum, þá hefur ríkisstj. einræðisvald til þess að úthluta öllum gjaldeyri landsins til hvaða aðila sem vera skal, þ. á m. líka ríkisins sjálfs, og leyfa hvaða aðila sem vera skal að leggja á þennan gjaldeyri það álag, sem honum þóknast, hvort það er 60%, 100%, 500% eða 1000%. Ég sé þá ekki, til hvers hafa verið sett sérstök lög viðvíkjandi gengisskráningu og öðru slíku. Af hverju er verið að skrá gjaldeyrinn? Af hverju var verið að taka það burt úr gengislögunum, þegar þau komu fyrir, að Landsbankinn mætti skrá gjaldeyrinn? Ég sé ekki betur en með þessari yfirlýsingu hæstv. viðskmrh. sé verið að þurrka burt allan þann grundvöll, sem við höfum staðið á fram að þessu viðvíkjandi ráðstöfun á gjaldeyri á Íslandi og viðvíkjandi vöruverði, og eins og ég er margoft búinn að taka fram, þverbrýtur þessi yfirlýsing og allur praksisinn um bátaútvegsgjaldeyrinn að mínu áliti lögin um fjárhagsráð og innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, fyrst og fremst 2. gr., 11. gr., 12. gr. og 13. gr.

Ég tel það mjög gott, að hæstv. viðskmrh. skuli hafa komið fram með þessa yfirlýsingu sína hér. Hún er svo skýr og skorinorð, að þeim þm., — og þá tala ég sérstaklega til hv. þm. stjórnarflokkanna, — sem vilja taka ábyrgð á því að gefa ríkisstj. svona einræðisvald, er að minnsta kosti bezt að hætta að tala um dýrtíð, frjálsa verzlun, rétt neytenda eða eitthvað þess háttar. Sérstaklega ættu þeir þó ekki að fara að tala um einræði í sambandi við fjárhagsmál og annað slíkt. Það hefur aldrei nokkurn tíma verið gefin yfirlýsing, sem hefur krafizt til handa ríkisstjórn meira einræðis heldur en þessi yfirlýsing hæstv. viðskmrh.

Ég gerði ekki till. um, að þessari þáltill. minni væri vísað til nefndar, og ég ætla ekki að gera till. um það. Ég tók eftir, að hæstv. viðskmrh. lagði til, að hún yrði felld, og það er bezt, að það fái alveg að koma í ljós, hvaða afstöðu menn hafa. Ég hef orðið var við það hér hjá sumum hv. þm. stjórnarflokkanna, að þeir eru að kvarta og kveina um, að það sé lagður bátaútvegsgjaldeyrir á varahluta til bifreiða og allt mögulegt, sem kemur eitthvað þungt við þá. Ég vil bara segja þeim í sambandi við það, að það eru þeir sjálfir, sem viðhalda öllum þessum ólöglegu álagningum. Það eru þeir sjálfir, sem eru ábyrgir fyrir því, að það er stolið, — ég endurtek það: stolið af þjóðinni núna sem stendur með því að leggja á hana álögur, sem engin lög eru til fyrir, — og það eru þeir sjálfir, þessir þm., sem eru ábyrgir fyrir því, svo framarlega sem þeir gefa ekki sinni ríkisstjórn áminningu um, að hún eigi að fara að lögum, en ekki brjóta lög. Ég veit ósköp vel, hvernig hv. þm. kvarta og kvarta, hvernig þeir eru öðru hvoru að flytja hér fram brtt., en vita ekki almennilega, hvernig þeir eiga að flytja þær fram, vegna þess að þeir eru alltaf að koma fram með óskir til stjórnarinnar um, að hún afnemi nú þetta og þetta af bátaútvegsgjaldeyrislistanum. Það er sem sé vitað mál, að bátaútvegsgjaldeyrislistinn er hvergi í lögum. Ef það væri um tolla að ræða, þá getur Alþ. gert breytingu á tollalögum, en Alþ. getur ekki gert breytingu á bátaútvegsgjaldeyrislistanum. Af hverju ekki? Af því að bátaútvegsgjaldeyrislistinn er ekki til samkvæmt neinum lögum. Svo standa þeir uppi eins og þvara, kvarta og kvarta, en þora ekki einu sinni að horfast í augu við það, að þeir hafa stutt ríkisstj., sem er búin að þverbrjóta lög hálft annað ár, sem er búin að leyfa einstökum aðilum að taka tugi milljóna króna, án þess að það sé nokkur stoð til þess í lögum. Og ég vildi segja það til Framsóknarþm., að það er á þeirra ábyrgð, ef þeir ætla að viðhalda þessum ólögum, sem hér er beitt. Það er á þeirra ábyrgð, ef íhaldsmeirihluti á Alþ. kynni einhvern tíma seinna að hagnýta sér svona lög til þess að útiloka Samband íslenzkra samvinnufélaga og öll neytendasambönd Íslands frá því að geta fengið einn einasta eyri til ráðstöfunar af gjaldeyrinum og nokkurt gjaldeyrisleyfi. Og það er á þeirra ábyrgð, ef þeir ætla að viðhalda þessum praksis, — það þyrfti ekki meira en t. d. að það kæmi íhaldsstjórn, sem hefði litið rjúfa þing og sæti bara á milli kosninga, — það er á þeirra ábyrgð, svo framarlega sem sú ríkisstj. notar svona vald eins og viðskmrh. nú hefur lýst yfir að stjórnin hafi til þess að leggja á almenning og leggja á neytendur þvert ofan í aðalákvæði fjárhagsráðslaganna þær álögur, sem henni þóknast. Eins og ég tók fram áðan, væri samkv. l., eins og viðskmrh. túlkaði þau, hægt að gefa meira að segja Þórði Sveinssyni & Co. allan rétt til innflutnings á Íslandi og til að mega leggja á gjaldeyrinn eftir vild. Og svo eru sumir að kvarta stundum yfir of hárri verðlagningu. Sömuleiðis vil ég taka fram til þm. Sjálfstfl., að stjórn Framsóknar seinna meir gæti framfylgt þessu sama, gefið Sambandi íslenzkra samvinnufélaga ekki aðeins rétt til alls útflutnings frá Íslandi, heldur líka réttinn til alls innflutnings til Íslands og til ráðstöfunar á öllum þeim gjaldeyri, sem framleiddur er, án þess að spyrja Alþ. nokkurn skapaðan hlut að því. Ég held, að það sé rétt, að hv. þm. geri sér alveg ljóst, hvað þarna er að gerast og hvort þeir þora að láta þá ríkisstj., sem þeir styðja, standa á grundvelli laganna eða ekki. Hitt hefði hæstv. ríkisstj. átt að gera fyrir löngu, að tryggja sér lagalegan grundvöll fyrir því, sem hún er að gera. Það getur hún enn þá. Ég býst kannske við, að henni finnist það of auðmýkjandi, þegar búið er að sýna fram á, að hún hafi brotið lögin. En það er þó betra fyrir hana að gera það, en að halda þessum lögbrotum áfram.