05.12.1952
Sameinað þing: 21. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í D-deild Alþingistíðinda. (2552)

119. mál, varahlutir til bifreiða

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þessa till., sem ég vildi segja hér. Út af fyrir sig er ég ekki svo óánægður með þá afgreiðslu, sem till, hefur fengið í hv. allshn., að vísa till. til hæstv. ríkisstj., en það hefði þó verið æskilegt, að n. hefði bent á leiðir í sambandi við bifreiðavarahluta þá, sem eru nauðsynlegir, og þá, sem notaðir eru í bifreiðar, sem taldar eru ónauðsynlegar. Mér skildist á hv. frsm., að hann út af fyrir sig væri því meðmæltur að undanþiggja varahluta til nauðsynlegra bifreiða þeim skatti, sem á þeim hvílir vegna bátalistans, ef það væri hægt að finna eitthvert form fyrir því. Hann taldi erfiðleika á því, og þess vegna skildist mér, að n. hefði ekki getað afgr. till. öðruvísi, en hún gerði, að till. sé vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að hún finni eitthvert form og einhver ráð til þess að létta skattinum af bifreiðavarahlutum, sem fara í hinar nauðsynlegu bifreiðar. Og hverjar eru þá hinar nauðsynlegu bifreiðar alveg tvímælalaust? Það eru vörubifreiðar, sem notaðar eru í þágu framleiðslunnar. Það eru sérleyfisbifreiðar, og það eru ef til vill fleiri bifreiðar. En þessar tvær bílategundir eru tvímælalaust nauðsynlegar. Og ég fullyrði það, að sá skattur, sem nú hvílir á bifreiðavarahlutum í þessar bifreiðar, er mjög tilfinnanlegur á framleiðslunni, og það er nauðsynlegt að létta þessum skatti af þessum varahlutum.

Hv. frsm. sagði áðan, að bifreiðavarahlutar væru ef til vill ekki nauðsynlegri en ýmsar þær vörur og margar þær vörur, sem nú eru á bátalistanum. En ég fullyrði, að varahlutar til bifreiða, sem notaðar eru í þágu framleiðslunnar, og sérleyfisbifreiða eru miklu nauðsynlegri, en nokkur önnur vara, sem er á bátalistanum, og hafa þess vegna mun hærri rétt til þess að fá undanþágu frá þessu heldur en aðrar vörur, sem eru á bátalistanum. En hvernig á að framkvæma þetta? Ég held, að það sé ekki svo ýkja erfitt að framkvæma þetta. Ef teknar eru vörubifreiðar, sem notaðar eru í þágu framleiðslunnar, og segjum sérleyfisbifreiðar, þá er ekki erfitt að finna form fyrir því að endurgreiða eigendum þessara bifreiða þann skatt, sem á þessa varahluta hefur verið lagður vegna bátagjaldeyrisins. Það yrði að vera sama útsöluverð á varahlutunum í versluninni, en síðan væri hægt að finna form fyrir þessu með því að endurgreiða eigendum þessara bifreiða skattana gegn vottorði frá sýslumanni og bæjarfógeta, eftir að búið væri að úrskurða það, að þessi bifreið teldist í þeim flokki, sem undanþágunnar ætti að njóta. Og í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. taki nú þetta mál til rækilegrar athugunar, þá get ég út af fyrir sig verið ánægður með þá afgreiðslu, sem till. hefur fengið í hv. allshn.