22.10.1952
Sameinað þing: 6. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (2611)

47. mál, innflutningsleyfi fyrir fólksbifreiðum

Flm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 47 till. til þál. um það að láta atvinnubílstjóra sitja fyrir innflutningsleyfum fyrir fólksbifreiðum. Það eru nú allmargir menn í landinu, sem stunda bifreiðaakstur sem aðalatvinnugrein, en hvað innflutning atvinnutækja til þessa atvinnurekstrar snertir, þá hefur atvinnubílstjórum verið gert mjög erfitt fyrir. Árið 1942, eða fyrir 10 árum, mun félagi þeirra hafa verið úthlutað 80 bifreiðum, en síðan ekki neinu nema 36 bifreiðum árið 1946. Frá þeim tíma hafa aðrir, að því er forstöðumenn bifreiðasamtakanna segja, fengið úthlutað 1.000–1.200 bifreiðum. Það er jafnframt sagt, að t. d. læknar, sem allir eru sammála um að mjög þurfi á bifreiðum að halda vegna starfa sinna, muni iðulega hafa haft möguleika til þess á þessu tímabili, þ. e. frá 1946, að endurnýja bifreiðar sínar jafnvel árlega og að flestir læknar hafi endurnýjað bifreiðaeign sína á þessu árabili, en þó er öllum ljóst, að notkun læknabifreiða, hversu mikil nauðsyn sem þær eru taldar, muni vera miklu minni en þeirra bifreiða, sem notaðar eru til atvinnurekstrar hjá atvinnubílstjórum.

Augljóst er, að 36 bifreiðar til atvinnubílstjóra á 10 árum er næstum að segja ekki neitt, svo lítið er það til þess að endurnýja þennan bifreiðakost, þar sem auðvitað er, að þessar bifreiðar eru notaðar miklu meira en nokkrar aðrar bifreiðar. Útkoman af því, hve lítinn innflutning atvinnubilstjórar hafa fengið, hefur orðið sú, að þeir hafa orðið að kaupa þessi atvinnutæki sín við allt of dýru verði af einstaklingum, þ. e. a. s. af þeim, sem hafa fengið að flytja inn bifreiðar og hafa haft möguleika til þess að skipta um þessi tæki, eða þá hitt, að viðhaldskostnaðurinn á atvinnubifreiðum hefur orðið geysilega hár, og hefur verið tilnefnt, að viðhaldskostnaður á ári hafi farið upp í 30–40 þús. kr. fyrir eina bifreið. Er því auðséð, að atvinnurekstur sá, sem hér er um að ræða, hefur vegna skorts á nýjum tækjum átt við mjög mikla erfiðleika að stríða.

Í till. þeirra, sem hér er fram borin, er gert ráð fyrir því, að atvinnubílstjórar verði látnir sitja fyrir innflutningsleyfum fyrir fólksbifreiðum, þegar slík leyfi verða veitt, en jafnframt er vitanlega nauðsynlegt, að fluttar verði inn bifreiðar handa atvinnubílstjórum, til þess að þeir geti endurnýjað atvinnutæki sín með eðlilegum hætti.

Ég legg svo til, að þessari till. til þál. verði vísað til hv. allshn.