17.12.1952
Sameinað þing: 25. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2713)

185. mál, sala þjóð- og kirkjugarða

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, og mér þykir þess vegna ástæða til að segja fáein orð út af þeim aths., sem hér hafa komið fram og út af fyrir sig er ekkert um að segja, þó að kastað sé hér fram.

Ég geri ráð fyrir því að sjálfsögðu, að þessi till. fari til n., og þykir eðlilegast, af því að hér er um talsvert mikið fjármál að ræða, að hún fari til hv. fjvn. til athugunar, en till. er í sjálfu sér um allverulegt deilumál og ekki nýtt deilumál, heldur bæði gamalt og nýtt.

Það er rétt fram tekið hjá hv. þm. V-Húnv., að mjög mikill hópur af þeim jörðum, sem ríkið og kirkjan eiga, er samkvæmt lögum fáanlegur til kaups með sérstökum skilyrðum, án þess að þurfi þingssamþykkt þar um, en það er ekki nema nokkur hluti af þessum jörðum og það aðeins sá hluti, sem hefur verið leigður í erfðaábúð. En það eru ekki nærri allar þjóð- og kirkjujarðir, sem hafa komizt undir það og geta komizt undir það að vera leigðar í erfðaábúð. Því miður er það nú svo, að þó að þjóð- og kirkjujarðir séu leigðar í erfðaábúð, hefur reynslan sannað það og sýnt, að ríkið eða ríkisvaldið, ef svo mætti segja, hefur orðið sér til mikillar minnkunar um meðferð yfirleitt á þessum jörðum að því leyti til, að þessar opinberu eignir eru yfirleitt miklu verr meðfarnar, verr setnar en þær jarðir, sem eru í einstaklingseign, og það er af þeim orsökum, að ég hef jafnan verið því fylgjandi, að sem allra flestar af þessum jörðum kæmust í eigu ábúendanna, sem á þeim búa.

Nú er það út af fyrir sig, þótt það ákvæði sé sett í l., að sá, sem kaupir jörðina fyrir fasteignamatsverð, sé skyldugur að gera hana að ættaróðali. Ég fyrir mitt leyti hef ekkert við það að athuga, því að það getur verið eðlilegt skilyrði, en ég hef mikið við það að athuga, að maðurinn, sem býr á jörðinni, fái hvorki rétt til að kaupa hana, byggja upp á henni né gera aðrar umbætur á henni, vegna þess að það er ríkið, sem á hana. — Það er ekki mjög langt síðan það kom til mín bóndi norðan úr Skagafirði, sem er þannig settur, að hann býr á ríkisjörð, og hann var að spyrja mig að, — og það af þeim orsökum, að ég er formaður nýbýlastjórnar, — hvort ég gæti ekki bjargað sér neitt úr þeim vandkvæðum, sem hann hefði við að búa. Hann býr á ríkisjörð, sem ekki fæst byggð í erfðaábúð. Hann fær hana ekki keypta, hann fær ekki byggt upp á henni. Það stendur svoleiðis á, á því svæði, að það er verið að leggja þar rafmagn. Hann fær engan styrk frá ríkinu til þess að fá rafmagn inn á sitt heimili. Ef maðurinn fengi tækifæri til þess að fá þessa jörð keypta, eins og eðlilegt er og ríkið ætti ekkert að hafa við að athuga, fyrir fasteignamatsverð, þá væri hann sjálfráður að því, hvað hann legði í af umbótum á sinni jörð.

Þessi dæmi eru mjög mörg, og þess vegna er það nálega á hverju einasta þingi, að lögð eru hér fram frv. frá einstökum þm., sem þá er oft bætt við, um það að gefa heimild til þess, að þessi og þessi jörð sé seld.

Nú veit ég, að sú hv. n., sem fær þessa till. til athugunar, athugar þessa hluti alla, og ég efast ekki um það, að margir menn, sem hér sitja á þingi, hafi svo glöggan skilning á þessum hlutum, að þeir viðurkenni, að þetta er óeðlilegt ástand, sem nú ríkir. Annaðhvort verður ríkisvaldið að gera, að gefa ábúendum jarðanna kost á því að fá þær keyptar á eðlilegan hátt og ráða því þá, hvaða umbætur þeir gera á þeim undir þeirri löggjöf, sem um það er, ellegar þá, að veita verður meira fé til þess að gera þær umbætur á þessum jörðum, sem samkv. ábúðarl. er skylt að gera og almennt eru gerðar á þeim jörðum, sem eru í einkaeign.

Hitt er svo náttúrlega alveg óskylt mál, sem hv. 8. landsk. þm. skaut hér inn í, að vera að bera þetta saman við embættisbústaði, því að það kemur þessu máli bókstaflega ekkert við. Embættisbústað dettur engum þm. í hug að selja. Og ég hygg, að það detti hvorki flm. þessarar till. né neinum öðrum hv. þm. í hug að selja þær jarðir í sveitum landsins, sem eru ákveðnar t. d. sem prestssetur. Það kemur ekki til mála. Þær eiga að vera áfram í eigu ríkisins skilyrðislaust og aðrar þær jarðir, sem nauðsynlegt er að hafa fyrir embættisbústaði eða til annarra opinberra nota. Það er náttúrlega út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. 8. landsk. þm., að fasteignamatið er lægra og það miklu lægra en almennt gangverð er á jörðum. En það er hlutur, sem ég álít hægt að ganga fram hjá eins og sakir standa, á meðan ríkisvaldið vanrækir algerlega að bæta þær jarðir, sem það á, eins og því er skylt og eins og á að vera og mundi vera, ef jarðirnar væru í eigu þeirra manna, sem á þeim búa.