13.01.1953
Neðri deild: 49. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2740)

162. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þegar hér voru til umr. í hv. d. brbl. frá hæstv. ríkisstj. um ríkisábyrgð út af láni til byggingar á áburðarverksmiðjunni, hreyfði ég því, að það væri fullkomin ástæða til þess að endurskoða löggjöfina um áburðarverksmiðju. Af því tilefni flutti ég þá í sambandi við það frv. brtt. um, að ríkisstj. væri falið að framkvæma fyrir næsta reglulegt Alþingi endurskoðun á þessari löggjöf. Hæstv. fjmrh. mæltist til þess, að í sambandi við það mál yrði ekki hreyft endurskoðun löggjafarinnar, þar sem frv. um heimild fyrir ríkisábyrgð við lántöku væri mál út af fyrir sig og það væri grundvöllur, sem lagður væri gagnvart lánveitanda, og væri óviðkunnanlegt að blanda saman við það að því leyti óskyldu málefni að endurskoða sjálf lögin um ríkisverksmiðju. Ég féllst á það þá fyrir mitt leyti að taka aftur þá brtt. við þetta frv., en sagði, að ég mundi þá flytja sérstaka þáltill. hér í hv. d. um þetta efni.

Þessi till. liggur nú hér fyrir á þskj. 279. Þar er lagt til, að Alþingi eða deildin ákveði að fela ríkisstj. að láta fara fram endurskoðun á l. nr. 40 1949, um áburðarverksmiðju, og þeirri endurskoðun verði lokið, áður en næsta reglulegt Alþingi kemur saman. Bæði í sambandi við þá brtt., sem ég flutti út af ábyrgðarheimildinni, og í umr. um það mál yfirleitt gat ég þess, hvers vegna ég vildi, að endurskoðun færi fram á þessari löggjöf. Og í grg. fyrir þessari till. er sýnt fram á það með nokkrum orðum, að þess sé brýn þörf, að endurskoðunin fari fram. Það hefur margoft verið á það bent hér í umr. af fleirum en mér, að þessi löggjöf hafi þannig orðið til á þinginu 1949, að við síðustu umr. í síðari deild voru samþ. brtt., sem gerbreyttu frv., sem upprunalega var þannig útbúið, að ætlazt var til, að áburðarverksmiðjan væri rekin sem sjálfseignarfyrirtæki ríkisins, ef svo má segja, eða með mjög líkum hætti og síldarverksmiðjur ríkisins eru nú reknar. En þá var samþ. undir meðferð málsins mjög síðla, eins og ég gat um áðan, heimild að gera þessa verksmiðju að eins konar hlutafélagi, ef ákveðnir hlutir yrðu lagðir fram í því skyni. Ríkisstj. notfærði sér þessa heimild, og hefur nú verið lagt fram hlutafé til áburðarverksmiðjunnar, eins og öllum er kunnugt um. Hins vegar stendur áfram í löggjöfinni það, sem áður var og við allt annað miðað, að verksmiðjan yrði eign ríkisins og rekin af því, þó sem sjálfstæð stofnun, eins og ég sagði áðan, líkt og síldarverksmiðjur ríkisins. Er það út af fyrir sig mjög andkannalegt, að það standi í einu og sömu löggjöfinni annars vegar, að þetta sé eins konar sjálfseignarstofnun ríkisins, en hins vegar síðar í sömu löggjöf, að hér sé um hlutafélag að ræða. Þetta andkannalega, sem í l. er og að vissu leyti er árekstur hvað við annað, er eitt út af fyrir sig ærin þörf til endurskoðunar á löggjöfinni. Nú er ég þar að auki þeirrar skoðunar, að ég vildi gjarnan, að það yrði rætt hér nánar á Alþingi og um það teknar ákvarðanir, hvort eigi væri rétt að hverfa til hins fyrra forms, sem upprunalega var hugsað um rekstur þessa risa- og nauðsynjafyrirtækis. Held ég það fyrir allra hluta sakir það eðlilegasta. Nú veit ég ekki, hvort hér á Alþingi, bæði nú og því, sem kann að koma eftir næstu kosningar, verður vilji fyrir því, að horfið verði að hinu upprunalega fyrirkomulagi við rekstur og eign áburðarverksmiðju ríkisins, en á það mundi reyna, þegar þar að kæmi. Hitt ætla ég þó, að öllum ætti að vera ljóst, að það er lítill heiður fyrir Alþingi Íslendinga að hafa gengið þannig frá lögunum sjálfum, að í þeim sé það áberandi ósamræmi, sem ég hef á bent, jafnvel þótt með vinsamlegri túlkun kynni að geta staðizt.

Maður verður þess var nú meir og meir, að það er rætt um áburðarverksmiðjuna. rekstur hennar og hlutverk í íslenzku þjóðfélagi, og það heyrast raddir frá bændasamtökum landsins, að eðlilegast væri, að þau sem slík væru meiri þátttakendur í áburðarverksmiðjunni, og eru færð fyrir því þau rök, sem telja verður að mörgu leyti gild, að þeir verði aðalviðskiptamenn við þessa verksmiðju, þegar hún tekur til starfa. Ef það væri annað, en ríkið sjálft, eiginlega fulltrúinn fyrir almannavaldið í landinu, sem hefði með höndum rekstur þessarar verksmiðju, þá hefði mér þó fundizt eðlilegra, að það væri þó frekar íslenzka bændastéttin sem aðili, sem þar kæmi til greina, heldur en einstaka stórkaupsýslumenn og aðrir slíkir, sem hafa nú orðið hluthafar í þessari áburðarverksmiðju.

Hvernig sem kann að ganga um rekstur þessa nauðsynjafyrirtækis, sem verður eitt hið stærsta og mesta, sem stofnað hefur verið hér til í þjóðfélaginu, þá er það hin mesta nauðsyn, að þessi verksmiðja verði rekin og starfrækt á þann hátt, að hún nái þeim tilgangi sínum að geta framleitt sem allra ódýrast og hagkvæmast þá vöru, sem Íslendingar hafa hingað til þurft að flytja inn frá öðrum löndum, þ. e. tilbúinn áburð. Tel ég, að það sé almannavaldið sjálft, sent á að hugsa um heildarhag þjóðfélagsins og allra þegnanna, sem ber ríkust skylda til að sjá um, að reksturinn sé á þann veg, að það geti orðið þjóðarheildinni að notum og þá ekki hvað sízt þeim meðal þjóðarinnar, sem mest eiga undir því, að hægt sé að fá sem allra ódýrastan og beztan og hagnýtastan áburð til ræktunar á íslenzkri mold. Hins vegar finnst mér minna um það vert og minni ástæða til þess, að einstaka iðjuhöldar og einstaka kaupsýslumenn hafi þar mjög mikið með að gera. Og hætt er við, að sjónarmið þeirra kynnu að verða nokkuð á annan veg en eðlilegt væri við rekstur þessa fyrirtækis.

Hluthafar, sem leggja fram fé í slíkt fyrirtæki eins og áburðarverksmiðjuna, kynnu að hafa nokkra löngun til þess að ávaxta þetta fé sitt svo vel með rekstri á verksmiðjunni á þann veg, að hún gæfi hluthöfunum sem mestan arð. En frá mínu sjónarmiði og út frá þeirri hugsun, sem vakti fyrir þeirri ríkisstj., sem lagði þetta frv. fyrir Alþingi 1949, var það fyrst og fremst að bæta úr brýnni þörf með því að framleiða sem allra ódýrastan og hentugastan áburð handa þeim, sem hafa það með höndum í íslenzku þjóðfélagi að rækta jörðina. Ég tel því, að það geti hnigið mörg og sterk rök að því, að það sé fullkomin ástæða til þess að endurskoða þessa löggjöf alla, fyrst og fremst vegna hinna ómótmælanlegu formlegu og leiðinlegu ágalla, sem eru á löggjöfinni sjálfri, í annan stað vegna þess, að það er líka ástæða til þess að athuga, hvort rekstrinum væri ekki komið fyrir með eðlilegri hætti í höndum almannavaldsins sjálfs, eða þá að minnsta kosti, ef aðrir kæmu þar beint til mála, þá yrði það þeir, sem mest eiga undir því, að þessi verksmiðja sé rekin með það eitt fyrir augum, sem ég áður hef nefnt, að framleiða hentugan og ódýran áburð handa Íslendingum.

Fyrir þessar sakir allar hef ég borið fram þessa till. til þál. á þskj. 279, og vil ég mega vænta þess, að hv. þm. telji það ekki óeðlilegt, að hún verði samþ. og þannig verði að því gangskör gerð að framkvæma þessa eðlilegu endurskoðun á löggjöfinni. Vænti ég þess, að það sé nægilegt þingfylgi fyrir því, að svo geti orðið, því að ég fæ ekki skilið þau rök, að hér sé um óþarfa að ræða eða ástæðulaust að endurskoða löggjöfina.