15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

53. mál, kjötútflutningur til Bandaríkjanna

Fyrirspyrjandi (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Í þessari fyrirspurn er í fyrsta lagi spurzt fyrir um það, fyrir hvaða verð það dilkakjöt, sem flutt var til Bandaríkjanna á s. l. hausti og vetri, var selt í erlendum gjaldeyri og hve mikið magn var þar um að ræða. Í öðru lagi er svo að því spurt, hvort andvirðið hafi verið greitt og gjaldeyrinum skilað hingað til lands.

Eins og kunnugt er, urðu nokkrar umræður um það hér á síðasta þingi, hvort ástæða væri til að leyfa útflutning á dilkakjöti til Bandaríkjanna. Ég ætla, að ríkisstj. hafi þá upplýst, að hún fyrir sitt leyti teldi eðlilegt að leyfa útflutning á allt að 1.300 tonnum af dilkakjöti til Bandaríkjanna, en að framleiðsluráð landbúnaðarins hafi talið, að ekki væri ástæða til að senda meira út en um 1.000 tonn. Þá var einnig skýrt frá því, að verðið, sem fengist fyrir þetta kjöt í Bandaríkjunum, væri öllu hærra en það verð, sem fengist fyrir kjöt, sem selt væri hér á innlendum markaði. Hitt vita svo allir, að í allt sumar og frá því seint á s. l. vetri má heita að Reykjavík og fleiri staðir á landinu hafi verið fullkomlega kjötlausir staðir. Ég ætla, að almenn sala á dilkakjöti hér í bænum hafi stöðvazt um páskaleytið s. l. vor.

Það er að minni hyggju mál, sem ekki aðeins varðar framleiðendur kjöts, heldur alla landsmenn í ríkum mæli, hversu þessum viðskiptum hefur verið háttað. Ég vænti því, að hæstv. ríkisstj. geti nú gefið upplýsingar um það, sem um er spurt: Hversu mikið magn var flutt út? Fyrir hvaða verð var það selt? Hefur andvirðið verið greitt og því skilað hingað heim? — Ég vona, að hæstv. ríkisstj. gefi glögg svör við þessum fyrirspurnum.