15.10.1952
Sameinað þing: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í D-deild Alþingistíðinda. (2756)

216. mál, samskipti Íslendinga og varnarliðsins

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í þessum fyrirspurnum er spurzt fyrir um ýmis atriði varðandi heimild varnarliðsmanna til dvalar utan bækistöðva sinna. Eftir að þeim var útbýtt, hefur hæstv. ríkisstj. birt í blöðum tilkynningu, sem telja má svar við nokkru af því, sem hér er spurt um. Í tilkynningu þessari er frá því greint, að óbreyttir liðsmenn varnarliðsins skuli hverfa frá Reykjavík og nálægum bæjum kl. 10 að kvöldi og vera komnir til stöðva sinna eigi siðar en kl. 11, að einum degi vikunnar þó undanteknum.

Í þessu sambandi vantar þó skýringu á einu atriði. Hvað er átt við með orðunum „óbreyttir hermenn“? Er það rétt, að í þessu sambandi séu allir þeir taldir yfirmenn, sem einhvern frama hafa hlotið í hernum, þannig að mjög verulegur hluti varnarliðsins sé talinn yfirmenn? Það er nauðsynlegt að fá upplýst, til hve mikils hluta liðsins þessar reglur ná. Ég hef heyrt, að þær reglur hafi ávallt átt að gilda, að óbreyttir hermenn hafi átt að vera farnir úr Reykjavík kl. 11 að kvöldi. Ef það er rétt, er aðeins tvennt til. Annaðhvort hafa settar reglur alls ekki verið haldnar eða mjög verulegur hluti varnarliðsmanna er yfirmenn, sem hinar nýju reglur ná þá ekki heldur til. Hvort sem á sér stað, bendir þetta til þess, að þessar nýju reglur séu alls ekki fullnægjandi.

Í þessu sambandi vil ég einnig spyrjast fyrir um, hvort það sé rétt, sem annað aðalmálgagn ríkisstj. skýrði frá í gær, að hermönnum sé leyfilegt að klæðast borgaralegum klæðum í leyfum sínum. Sú ráðstöfun væri mjög óvenjuleg, og hún er mjög varhugaverð frá íslenzku sjónarmiði.

Hér er einnig spurzt fyrir um það, hvers vegna reglur þær, sem í fyrstu giltu hér í þessum efnum, hafi verið afnumdar. Fyrst eftir að varnarsamningurinn var gerður og herinn kom til landsins, hélt hann sig nær eingöngu í stöðvum sínum. Mér og öðrum, sem töldu það skipta meginmáli, hvernig þessum atriðum yrði háttað, var sagt, að til þess væri ætlað, að þannig yrði þetta einnig framvegis, hermenn mundu ekki koma til Reykjavíkur nema þá í skipulögðum hópferðum til þess að skoða bæinn. Á þessu varð þó breyting. Hermenn fóru að koma í bæinn á eigin spýtur og sækja skemmtistaði, en í fyrstu áttu þeir þó að hverfa úr bænum kl. 10. Síðan var þessum takmörkunum einnig aflétt, og virtist Reykvíkingum sem engar takmarkanir væru á dvalarheimild þeirra í bænum. Þeir fjölmenntu á hina fáu og litlu veitingastaði bæjarins, tóku húsnæði á leigu til langs og skamms tíma, og þeirra fór smám saman að gæta svo verulega í bæjarlífinu og að ýmsu leyti því miður í sambandi við mjög aukna lausung að almenningi í Reykjavík hefur orðið mikið áhyggjuefni.

Í 3. gr. herverndarsamningsins er kveðið svo á, að íslenzka ríkisstj. hafi úrslitaákvörðunarvald um, hvernig réttindi þau, sem veitt eru í samningnum, séu hagnýtt. Ég hef frá upphafi litið þannig á, að í þessum ákvæðum fælist m. a. það, að íslenzka ríkisstj. gæti sett reglur um dvalarheimild varnarliðsmanna utan bækistöðva sinna. Það urðu mér þess vegna mikil vonbrigði, þegar ríkisstj. virtist að engu leyti hagnýta sér þennan rétt og jafnvel ekki hafa áhuga fyrir því, að reglur væru settar um þetta efni. Í upphafi síðasta þings ræddum við, sem berum fram þessar fyrirspurnir, ásamt fleiri þm. Alþfl., við ráðherra úr ríkisstj. um nauðsyn þess að setja reglur um þetta efni og lögðum áherzlu á, að það yrði gert þá þegar. Ríkisstj. lét hins vegar ekki verða úr framkvæmdum. Ég hef haft fregnir af því, að nefnd, sem skipuð var af sjálfri ríkisstj. til þess að fjalla um félagsleg vandamál, sem upp koma í sambandi við varnarsamninginn, hafi fyrir meira en ári gert tillögur um, að reglur yrðu settar um þetta efni, allmiklu strangari en þær, sem nú eru taldar gilda, en þær till. ekki náð fram að ganga. Er þetta rétt?

Það er ekki að ástæðulausu, að þessar fyrirspurnir eru fram bornar. Hér er mesta alvörumál á ferðinni. Þegar varnarsamningurinn var gerður fyrir hálfu öðru ári, mun mestur hluti Íslendinga hafa talið hann óhjákvæmilega nauðsyn, að vísu illa nauðsyn, en þó óhjákvæmilega eins og á stóð. Menn vonuðu hins vegar, að þannig yrði haldið á málum, að hlutur Íslendinga yrði sómasamlegur og vist liðsins hér yrði ekki látin valda óeðlilegum truflunum á borgaralegu lífi Íslendinga. Þær vonir hafa því miður brugðizt. Ríkisstj. hefur ekki gegnt skyldu sinni. Það er sitthvað að heimila erlendum her vist í landinu um takmarkaðan tíma til þess að treysta öryggi Norður-Atlantshafssvæðisins og að láta herliðið valda röskun á högum svo fámennrar og sérstæðrar þjóðar sem Íslendingar eru. Það var örlagarík tilraun, sem gerð var með samþykkt varnarsamningsins, ekki aðeins fyrir Íslendinga, heldur og fyrir Atlantshafsríkin í heild. Reynsla þessara fyrstu ára sker úr um það, hvort slíkir samningar eru yfirleitt framkvæmanlegir, þannig að báðir aðilar megi vel við una, eða ekki. Það er þess vegna, sem nauðsynlegt er að fá sem gleggstar upplýsingar um allt, sem lýtur að framkvæmd samningsins.