26.11.1952
Sameinað þing: 16. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (2853)

225. mál, sölunefnd setuliðseigna

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Sölunefnd setuliðseigna var stofnuð á árinu 1944 með brbl. nr. 26 frá 26. apríl, og lauk hún störfum 20. maí 1948. Við störfum n., að svo miklu leyti sem framhald var á þeim, tók Sala setuliðseigna ríkisins, sem er enn starfandi og ég greini síðar frá, hvernig er saman sett. Þegar þannig Sölunefnd setuliðseigna var lögð niður, var Helga Eyjólfssyni falin framkvæmdastjórn Sölu setuliðseigna ríkisins, en sem meðstjórnendur eða meðráðamenn voru skipaðir Gunnlaugur Briem skrifstofustjóri í atvmrn. og Gunnlaugur Pétursson deildarstjóri í utanrrn. Nokkru eftir brottför Gunnlaugs Péturssonar af landinu var Hannes Guðmundsson hdl. skipaður meðstjórnandi stofnunarinnar. Á skrifstofu stofnunarinnar vinnur einn maður hálfan daginn, og einn maður er við sölu og afhendingu á vörum og einn maður við gæzlustörf á Keflavíkurflugvelli, þannig að það eru tveir og hálfur starfsmaður fyrir utan þessa, sem hafa á þessu yfirstjórn.

Hagnaður af Sölunefnd setuliðseigna varð samtals kr. 4.515.000.00, þ. e. fjórar og hálf milljón; en hún starfaði, eins og áður segir, til 20. maí 1948. En hagnaður af þessum viðskiptum, eftir að n. hætti og þessi nýja skipun var innleidd, sem sé frá 20. maí 1948 til 1. nóv. 1952, hefur orðið kr. 6.250.000,00. Hagnaður á árinu 1951 varð 1 millj. og 27 þús. Kostnaður Sölunefndar setuliðseigna, þann tíma sem hún starfaði, varð samtals kr. 4.145.000,00, og var mikill hluti þess kostnaður við niðurrif á herskálum og lögun á landi. Kostnaður við þessi viðskipti, eftir að hún hætti og nýja skipunin var upp tekin, frá 20. maí 1948 til 1. nóv. 1952, var 2 millj. rúmar. Þar af hafa tæpar 800 þús. verið greiddar vegna lögunar á landi og landhreinsunar á Keflavíkurflugvelli. Kostnaður við þessi viðskipti árið 1951 varð 381 þús. kr., og kostnaðurinn 1952, eða yfirstandandi ár, er áætlaður 310 þús. kr.

Þá er síðasta spurningin eftir, og um hana vil ég segja þetta: Eins og fyrr segir, er Sölunefnd setuliðseigna skipuð samkv. brbl. frá 26. apríl 1944. Þegar sú n. hafði að mestu tekið við þeim eignum setuliðsins, sem hér á landi voru seldar eða átti að selja, og samið um landspjöll, mun ekki hafa verið talin þörf á því, að hún starfaði lengur, og því fól þáverandi fjmrh. Helga Eyjólfssyni með bréfi, dags. 7. maí 1948, að ljúka störfum þeim, er n. hafði með höndum. Með bréfi, dags. 15. ágúst 1949, fól sami fyrrv. ráðh. Helga Eyjólfssyni að annast kaup og sölu á vörum, sem Bandaríkjastjórn óskar að selja ríkissjóði á hverjum tíma. Síðar var, svo sem áður greinir, þannig breytt til, að tveir menn annast stjórn þessara viðskipta, þ. e. a. s. Helgi Eyjólfsson og Hannes Guðmundsson lögfræðingur, en hafa að nokkru samráð við Gunnlaug Briem skrifstofustjóra í atvrmn. Skipun sú, sem gerð var með l. nr. 54 1945, tekur einungis til eigna setuliðsins, sem hér dvaldi á stríðsárunum. Hefur þótt hagkvæmt, að kaup á öðrum eignum, sem féllu til í sambandi við rekstur Keflavíkurflugvallar, svo og svöl varnarliðsins hér, færu einnig um hendur trúnaðarmanna ríkisstj., en þessar vörur væru ekki á frjálsum markaði, — eða þótt hagkvæmt, að þessi viðskipti færu eingöngu um hendur trúnaðarmanna ríkisstj., enda um slíkt samið við hina erlendu aðila á hverjum tíma, samið um það, að það skuli ganga aðeins til stjórnarinnar, sem þeir vilja selja.

Í 7. tölul. a í 8. gr. fskj. með varnarsamningnum við Bandaríkin, sbr. lög nr. 110 1951, er svo ákveðið, að vörur, sem varnarliðið flytur inn tollfrjálst, megi einungis láta af hendi á Íslandi samkv. sérstakri heimild ríkisstj. og þá með þeim skilyrðum, er tollyfirvöldin setja. Í framkvæmdinni er eitt þessara skilyrða það, að þessar vörur séu afhentar ríkisstj. til þess að selja þær aftur út innanlands. Hafa þessari Sölunefnd setuliðseigna ríkisins verið falin þessi viðskipti, og hefur stjórnin litið þannig á, að frekari heimildir þyrfti ekki fyrir þessum viðskiptum, en þann samning, sem lögfestur er. Tekjur þær, sem verða kunna af þessum viðskiptum, falla undir fjárlagaliðinn „óvissar tekjur“. Hins vegar hefur þetta ekki verið álitinn fram að þessu svo fastur liður í rekstri ríkisins, að hann hafi verið settur í fjárlög, en má vera, að rétt sé að gera það næst.