13.10.1952
Neðri deild: 7. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Í l. um ferðaskrifstofu ríkisins er svo ákveðið, að hún hafi ein rétt til þess að starfrækja ferðaskrifstofur fyrir erlenda menn. Þó segir í l. að ráðherra sé heimilt að leyfa erlendum ferðaskrifstofum, sem áður hafa starfað hér, að hafa umboðsmenn hér á landi. Setur þá ráðh. reglur um starfssvið þeirra og eftirlit með þeim. Enn fremur er í l. ákveðið, að heimilt sé að svipta slíka ferðaskrifstofu starfsleyfi, ef reglur, sem þær eiga að fylgja, eru brotnar í verulegum atriðum. Í því frv., sem ég flyt hér á þskj. 45, er lagt til, að þessi ákvæði verði felld burt úr l. Ég bar einnig fram á síðasta þingi frv. um sama efni.

Hér eru starfandi fleiri ferðaskrifstofur, en sú, er ríkið rekur. Þessar ferðaskrifstofur annast um ferðalög innlendra manna, bæði hér á landi og utanlands. Þær hafa sambönd við slík fyrirtæki í öðrum löndum og geta veitt Íslendingum, sem fara utan, fyrirgreiðslu á þann hátt að undirbúa ferðalög þeirra um önnur lönd með aðstoð ferðaskrifstofa þar. Þær hafa einnig heimild til að annast um ferðir íslenzkra manna hér á landi, en þeim er aðeins bannað að greiða fyrir útlendingum, sem koma hingað til lands. Þetta virðist óeðlilegt og óþarft. Hverjum sem er er nú frjálst að reka ferðaskrifstofur til að greiða fyrir ferðalögum íslenzkra manna hér á landi og einnig í öðrum löndum, og þá virðist engin skynsamleg ástæða til að banna þeim að aðstoða útlendinga við ferðalög hér á landi.

Þó að þetta frv. verði samþ., getur ferðaskrifstofa ríkisins starfað eins og áður að landkynningu og fyrirgreiðslu ferðafólks, en samkvæmt l., sem hún starfar eftir, á hún að veita fræðslu um landið innanlands og utan, leiðbeiningar um ferðalög hér á landi og hafa á hendi eftirlit með gististöðum og veitingahúsum. Að þessum verkefnum mundi ferðaskrifstofa ríkisins starfa áfram eins fyrir því, þótt þetta frv. yrði samþ.,—breytingin sú ein, að hún hefur ekki ein rétt til þess að aðstoða erlenda menn við ferðalög hér á landi. Ég lít svo á, að því aðeins eigi að veita einkarétt til starfsemi á þessu sviði og öðrum, að það sé til hagsbóta fyrir almenning, en ekki verður séð, að slíku sé hér til að dreifa, og því er þetta frv. fram borið. — Ég vil óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. samgmn.