20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (2888)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. minni hl. (Jón Gíslason):

Herra. forseti. Eins og fram hefur komið af þeim nál., sem út hafa verið gefin um þetta mál, frv. til l. um breyt. á l. um Ferðaskrifstofu ríkisins, þá kemur það fram, að n. hefur ekki orðið alveg á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Frsm. meiri hl., hv.. 2. þm. Eyf., hefur nú gert grein fyrir afstöðu. meiri hl., sem leggur til, að frv. verði samþ. Við sem erum í minni hl., ég og hv. þm. Dal., höfum gefið út sérstakt nál. á þskj. 256 og prentað þar með sem fskj. bréf frá forstjóra Ferðaskrifstofu ríkisins, sem færir þar allmikil rök fram á móti frv.

Við, sem erum í minni hl., lítum þannig á, að aðsókn erlendra ferðamanna hingað til landsins sé ekki svo mikil, að þarna geti verið verkefni fyrir fleiri ferðaskrifstofur til að greiða fyrir. þeim mönnum. Það hefur verið í umr. um þetta mál nokkuð bent á það, að meðal annarra þjóða mundi þetta vera algerlega frjálst, en þar tel ég vera dálitið öðru máli að gegna, þar sem fjöldi ferðamanna er mikill og í þessu starfi er mjög mikið verkefni. Hér á landi hjá okkur er það nú svo, að aðsókn ferðamanna til landsins er enn þá mjög lítil, þótt við vonum, að hún geti orðið meiri með tíð og tíma, til tekna fyrir landið. En enn sem komið er er aðsókn ferðamanna lítil, og virðist ekki vera þar verkefni fyrir marga. Nú sem stendur er það Ferðaskrifstofa ríkisins, sem hefur nokkurs konar einkarétt á þessari fyrirgreiðslu. Þó er það nú svo, að önnur ferðaskrifstofa til, mun hafa undanþágu og sinna þessu starfi líka, og virðist okkur, að það sé alveg nægilega fyrir þessu séð á þann hátt, að þessar tvær ferðaskrifstofur geri það. Ef fyrirgreiðsla erlendra ferðamanna væri gefin frjáls öllum og það yrðu fleiri aðilar, sem gæfu sig að því og við það vildu fást, þá virðist okkur, að skiptingin á þessu stafi hlyti að verða til þess, að enginn hefði neitt upp úr því, sem máli skipti, og jafnframt mundi það verða til þess, að ríkið yrði að leggja ferðaskrifstofu ríkisins til nokkru meira fé heldur en ella væri, þar sem ekki virðist vera neinn ágreiningur um það, að eftir sem áður ætti ferðaskrifstofan að hafa á hendi upplýsingastarfsemi og landkynningu, svo sem hún hefur haft.

Það er okkar álit, að ef móttaka erlendra ferðamanna færi að einhverju leyti eða kannske að öllu leyti úr höndum ferðaskrifstofunnar, þá missti hún — eins og ég hef sagt — við það allmiklar tekjur, sem ríkissjóður yrði að bæta henni upp á annan hátt til starfsins. Í öðru lagi er það, að ég get ekki séð neina ástæðu til þess, að fyrirgreiðsla fyrir erlendum ferðamönnum yrði betur af hendi leyst, þó að einhver fjöldi manna færi að fást við það starf, heldur yrði jafnvel síðri. En af því að við erum á byrjunarstigi sem ferðamannaland og viljum auka okkar afskipti þar af, þá tel ég, að það sé mjög mikil ástæða til, að móttaka erlendra ferðamanna takist vel, því að það er enginn vafi, að svo fyrst getum við látið okkur detta það í hug, að hingað sæki erlendir ferðamenn og eyði sínu skemmtiferðafé hér hjá okkur, og svo bezt getum við búizt við því, að það komist eitthvað áleiðis, að móttakan sé í fullu lagi. En eins og núna standa sakir, þá tel ég meiri líkur fyrir því, að móttaka erlendra ferðamanna verði í góðu lagi, ef fáir aðilar fást við móttöku erlendra ferðamanna, og sérstaklega ber ég mjög gott traust til ferðaskrifstofunnar til að inna það starf sæmilega af hendi. — Þetta eru nú þær aðalforsendur, sem við í minni hl. höfum fyrir því, að við leggjum til, að frv. verði fellt.