21.11.1952
Neðri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2894)

45. mál, ferðaskrifstofa ríkisins

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég ætla nú ekki sérstaklega að fara að taka upp hanzkann fyrir flm. þessa frv. Það væri eðlilegt, að hann svaraði sjálfur fyrir sitt mál, og ég geri ráð fyrir, að hann muni væntanlega gera það. En það eru aðeins nokkur orð vegna ummæla, sem fram hafa komið hér frá hv. 8. landsk. og hv. 3. landsk., sem ég vil ekki láta hjá líða að svara lítillega, vegna afstöðu meiri hluta þeirrar n., sem hafði þetta mál til meðferðar, og þeirra röksemda, sem lágu fyrir afstöðu þeirra að mæla með samþykkt frv.

Ég hafði nú satt að segja aldrei gert ráð fyrir því, eða það var að minnsta kosti ekki af n. hálfu — neins nm., geri ég ráð fyrir — búizt við því, að það yrði svo mjög hávaðasamt um þetta mál, það er nú ekki í eðli sínu það mikið stórmál. En það er þó ef til vill skiljanlegt, að þeir hv. Alþfl.-menn tveir, sem talað hafa gegn frv., hafi farið svo geyst sem þeir hafa gert, vegna þess að það er öllum hv. þdm. kunnugt, að þetta mál um einokun ferðaskrifstofunnar á þessu sviði er þeim að sjálfsögðu mikið hjartans mál, svo sem öll önnur mál, er til einokunar horfa, og er því ekkert við því að segja, þótt þeir rísi mjög harkalega gegn frv. En það voru nokkur atriði, sem mér virtust vera fram sett af nokkrum misskilningi hjá báðum þessum hv. ræðumönnum.

Vil ég þá fyrst og fremst víkja að því, sem hv. 3. landsk. sagði hér áðan um tekjur ferðaskrifstofunnar og tekjumissi hennar, ef þetta frv. yrði samþ. Hann las hér upp úr fjárlagafrv. þær tekjur, sem gert væri ráð fyrir að ferðaskrifstofa ríkisins hefði á næsta ári, og mér skildist, eftir ummælum hans að dæma, að hann gerði ráð fyrir því, að ef hún missti sína einkaréttaraðstöðu til móttöku erlendra ferðamanna, þá mundu þessar tekjur rýrna að verulegu leyti. Þetta er að miklu leyti misskilningur. Mjög lítill hluti af tekjum ferðaskrifstofunnar stafar beinlínis af móttöku erlendra ferðamanna, heldur eru tekjur hennar til komnar á allt annan hátt. Ferðaskrifstofan heldur uppi margvíslegri starfsemi hér innanlands, ferðalögum mörgum, sem öllum mun kunnugt um, hún hefur hér verzlun starfandi, og hún hefur mikla þjónustu fyrir áætlunarbifreiðar. Af þessu öllu hefur hún meginhlutann af sínum tekjum, en alls ekki af móttöku erlendra ferðamanna; það eru hverfandi litlar tekjur, sem af þeim eru. Ég geri ráð fyrir því, að fastakostnaður ferðaskrifstofunnar og það mannahald, sem þar þarf að vera, geri svo mikið mótvægi á móti þeim tekjum, að ekki sé hægt að segja, að tekjur hennar af erlendum ferðamönnum séu nema tiltölulega mjög litlar, nema segja megi, að minjagripasalan komi þar til. En það útilokar auðvitað ekki, að ferðaskrifstofa ríkisins geti haldið uppi minjagripasölu og haft verzlun með þá, almenna verzlun, eins og hún nú hefur, þó að hún veiti ekki móttöku erlendum ferðamönnum. Ég hygg því, að það sé á verulegum misskilningi byggt, að það mundi auka útgjöld ríkisins, svo að hundruðum þúsunda skipti, eins og hv. 3. landsk. sagði, ef þetta frv. yrði samþ.

Ég skal ekkert vefengja það, að Ferðaskrifstofa ríkisins hafi gott orð á sér, bæði hér innanlands og erlendis, enda þakka ég henni það út af fyrir sig ekki sérstaklega. En það hefur engin reynd á það komið, hvort aðrar skrifstofur gætu ekki fengið alveg jafngott orð og Ferðaskrifstofan, en hún er eini aðilinn, sem hefur haft til þess aðstöðu hingað til. Ég hygg hins vegar, að því miður hafi Ferðaskrifstofan ekki sinnt því verkefni sem skyldi að kynna landið erlendis.

Ég vék að því hér í minni frumræðu, að það mundi vera svo málum háttað varðandi fyrirgreiðslu erlendra ferðamanna í flestum nálægum löndum, að ríkið hefði fyrirgreiðslu um það efni, en sú fyrirgreiðsla væri aðallega fólgin í upplýsingastarfsemi um landið, en aftur á móti væru í öllum þessum löndum starfandi ferðaskrifstofur, annaðhvort starfræktar af einstaklingum eða í sambandi við ýmiss konar félög, t. d. flugfélög, skipafélög eða aðra slíka aðila, sem mjög eðlilegt er að hafi slíka fyrirgreiðslu með höndum.

Sannleikurinn er því sá, að ef ætti að tryggja hag Ferðaskrifstofunnar peningalega séð, svo að maður víki að því máli aftur, þá væri auðvitað nauðsynlegt að banna að starfrækja aðrar ferðaskrifstofur hér, sem halda uppi ferðalögum innanlands. Meðan það er ekki gert, þá eru að sjálfsögðu skertir mjög mikið möguleikar Ferðaskrifstofunnar til þess að geta staðið undir öllum sínum rekstri. En afstaða meiri hl. n. byggðist á því hvað fjármálin snerti, að hann taldi ekki óeðlilegt, að Ferðaskrifstofan gæti eins starfað að þessum málum, eftir sem áður, þó að þessari einokun væri aflétt. Úr því að aðrir aðilar teldu sér mögulegt að reka ferðaskrifstofur með hagnaði, þá ætti ekki að þurfa að vera svo mjög mikill halli á Ferðaskrifstofu ríkisins, sem hefur óneitanlega þá sérstöðu eftir sem áður, að hún hefur þegar náð í mörg sambönd, sem alls ekki er hægt að ætla að hún muni missa, ef hún á annað borð rækir sitt verkefni eins og vera ber, þótt aðrir keppinautar komi til.

Ég vil sérstaklega víkja að því í ræðu hv. 8. landsk., að hann sagði, að það væri að sjálfsögðu eðlilegt sjónarmið sjálfstæðismanna að leggja til, að þessari einokun væri aflétt, vegna þess að þeir vildu auðvitað, að einstaklingar fengju aðstöðu til þess að græða á þessari þjónustu. Hingað til hefur þetta ekki verið svo sérlega gróðavænleg þjónusta, eftir því sem legið hefur hér fyrir Alþ. um rekstrarafkomu Ferðaskrifstofunnar þrátt fyrir hennar einokunaraðstöðu, að það séu nú miklar líkur til þess, að einstaklingar rökuðu saman fé á því að starfrækja ferðaskrifstofu. En það kann ef til vill að verða svo, og þá er ekki nema vel, að það verði sú sama breyting á þessu og varð t. d. með annað mikið ástfóstur Alþfl., áætlunarbifreiðarnar, á sínum tíma, sem voru starfræktar með stórkostlegum halla, og síðasta árið, sem þær voru starfræktar, var gert ráð fyrir því í áætlun um rekstur þeirra næsta ár, að hallinn á þeim mundi verða allt að einni milljón. Þessar áætlunarbifreiðar voru seldar og ríkið losnaði við rekstur þeirra, og mér er ekki kunnugt um annað en að rekstur þeirra hafi gengið mjög sæmilega síðan og ekki hlaðizt á ríkissjóðinn neinn baggi af þeim sökum. Ég held, að enginn harmi það, að svo hafi til tekizt og að sú ráðstöfun hafi verið gerð, og ef það gæti skilað sama árangri að létta einokuninni af ferðaskrifstofunni, þá held ég, að það væri mjög skynsamlegt, að það væri gert. — Að öðru leyti hirði ég svo ekki að ræða þetta mál. Það er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, eðlilegt, að frsm. þess og flm. hafi orð fyrir málinu sjálfu og ástæðunum fyrir því, að hann ber það fram. Ég ætla mér ekki að svara fyrir það, en ég taldi aðeins rétt að segja þessi orð vegna afstöðu meiri hl. n. og sem frsm. hans.