31.01.1953
Efri deild: 61. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í C-deild Alþingistíðinda. (2950)

145. mál, skipun læknishéraða

Frsm. 2. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég vil nú í fyrsta lagi viðurkenna þá leiðréttingu, sem kom fram frá hv. 8. þm. Reykv. (RÞ), að tilvísun mín hafði ekki verið rétt í þau lög, sem ég ræddi um, og viðurkennist það hér með.

Út af því, sem hæstv. ráðh. spurði um, þá hefur ekkert komið til n., sem upplýsir það, hvað líður allsherjarendurskoðun þessarar löggjafar. (Gripið fram í.) Hún var ekki fyrirskipuð af þinginu. Ég held, að það hafi aðeins verið bent á það. En það má segja, að það hafi verið fyrirskipað af þingi í fyrra að athuga alveg sérstaklega þessi mál, því eins og ég tók fram áðan og kemur fram í mínu nál., þá var það fyrirskipun frá þinginu, að hæstv. ríkisstj. og heilbrigðisstj. skyldu láta athuga þessi sérstöku mál, Blönduós, Skagaströnd og Egilsstaði, og það hefur ekkert komið út úr þeirri rannsókn eða þeim athugunum. Ég hygg, að málið hafi alls ekki verið athugað.

Ég tek mjög undir það, sem hæstv. ráðh. sagði og ég raunar tók fram áðan, að það sé ekki eðlilegt eða rétt að láta skipta svona neinum læknishéruðum nema með forgöngu frá heilbrigðisstjórninni, því að það er svo margt, sem rekst hér á í þessum málum, og er engan veginn rétt að fara þar eftir óskum einstakra manna, sem af því hafa hag að fá lækni rétt við húsdyrnar. Ég vil m. a. taka hér samanburð á Blönduósi annars vegar eða Skagaströnd og Patrekshéraði. Patreksfjörður hefur nú álíka sjúkrahús, eftir því sem hv. 4. þm. Reykv. upplýsir, að sjúkrahúsið á Blönduósi eigi að vera, þ. e. um 30 rúm. Patreksfjörður hefur núna 39 rúma sjúkrahús, og við það er einn læknir og einn aðstoðarlæknir. Þessi héraðslæknir á að gegna héraðslæknisstörfum yfir mjög erfiða fjallgarða til Barðastrandar og yfir sjó og fjallgarða í Rauðasandshreppinn, og ég hygg, að þær vegalengdir séu margfalt meiri frá sjálfu læknissetrinu þar heldur en á milli Skagastrandar og Blönduóss, sem aðeins mun vera um 25 km, að mér skilst, og upphleyptur akvegur alla leið, sem væntanlega er einnig bílfær flesta vetur. Hinn læknirinn á að sækja yfir fjallgarða og yfir sjó, og það hefur þótt miklu heppilegra í því héraði að hafa sjúkrahúsið á Patreksfirði, búa vel að því og hafa þar tvo lækna, þar sem annar gæti alltaf sinnt sjúkrahúsinu, en hinn verið á ferðalagi, og þar er hvorki skipaður aukalæknir né annar sérstakur jafnrétthár læknir á þeim stað, heldur þetta haft sameiginlegt og hefur reynzt alveg prýðilega.

Þá vil ég einnig leyfa mér að benda á, að samkv. bæði þskj. 225, þ. e. frv. eins og það var upphaflega borið fram, og samkv. ákveðnum ummælum allra flm. hjá heilbr.- og félmn., þá sætta þeir sig engan veginn við, að frv. nái fram að ganga eins og það nú er eftir 3. umr. í hv. Nd., á þskj. 634. Og þess er að vænta, að þegar á næsta þingi komi alveg ákveðin krafa um það, að ef frv. verður samþ. eins og það er á þskj. 634, þá verði 2. gr. frv. breytt á næsta þingi í það sama horf sem 1. gr. er nú á þskj. 225. Þetta er hv. form. n. vel kunnugt um og öllum nm. Þetta deiluatriði er því engan veginn leyst, þó að frv. sé samþykkt nú eins og það er á þskj. 634. Þeir hafa hins vegar lýst því yfir, að þeir sætti sig við, að frv. verði samþ. eins og það er á þskj. 580, og það er í það horf, sem hv. 8. þm. Reykv. er að reyna að fá frv. En það er eingöngu gert til þess að geta náð takmarkinu síðar meir, af því að hér sé búið að fá fótfestu um það, að nú sé kominn hér fastur aukalæknir og það sé ekki nema eðlilegt og rétt, að hann sé einnig síðar gerður að föstum héraðslækni á þessum sama stað, þegar hvort sem er, er búið að byggja undir hann læknisbústað, því að það er alveg áreiðanlegt, að ef ekki á að byggja læknisbústað undir þann aukalækni, sem hér um ræðir, þá er engin ástæða til þess að breyta lögunum, því að það var eitt af því, sem viðkomandi aðilar færðu fram á síðasta þingi, að það væri ómögulegt að láta læknana búa í sama húsi,. vegna þess að annar læknirinn hefði svo og svo stóra íbúð, en aukalæknirinn eða aðstoðarlæknirinn hefði miklu minni íbúð, sem hann mundi aldrei beygja sig undir að hafa, og þess vegna yrði að byggja þar nýjan læknisbústað. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram hér í þessu máli.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. forseti beri fyrst upp mína rökstuddu dagskrá. Það er sýnilegt, að ef hún verður felld, þá verður borin upp brtt. á þskj. 677. Er það ekki rétt? (Forseti: Þú meinar á undan 1. gr.) Já, á undan 1. gr. (Forseti: Jú, jú.) Já, þá verður hún borin upp á undan 1. gr. Verði sú till. felld og 1. gr. samþ., sem vel getur orðið, þá er sýnilegt, að skipt er héraðinu í Húnavatnssýslu og stofnsett er læknishérað á Skagaströnd, en ekkert raskað Egilsstaðahéraði. Þessi afgreiðsla er möguleg. Að vísu þarf þá málið aftur að fara til hv. Nd., og það kynni vel að vera, að það annaðhvort dagaði þar uppi eða því yrði breytt aftur og þessi grein sett inn á ný. Fyrir mína parta mundi ég miklu frekar styðja að því, að nýtt embætti yrði sett upp á Skagaströnd, þó að ég sé því alveg andvígur, með þeim rökum, sem ég hef þegar sett fram í sambandi við þetta mál, heldur en að það sé verið að gera þær ráðstafanir í Egilsstaðahéraði, sem hér er ætlazt til að gera, því að ég veit. að þær eru hvorki til þess að fullnægja þörf héraðsbúa né vilja flm. og eru ekkert annað, en áfangi að því, sem þeir ætla sér að ná síðar, en það er að skipta héraðinu í tvö héruð, því að það er það, sem þeir hafa alltaf stefnt að og munu stefna enn að, að skipta héraðinu í tvö héruð og fá tvo lækna og tvo læknisbústaði á sama stað í héraði.

Ég skal svo ekki vera að tefja þessar umr., en ég vænti þess, að mín dagskrá verði samþ. Ég hygg, að það sé það bezta fyrir málið í heild.