03.02.1953
Neðri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

135. mál, lánsfé til íbúðabygginga

Frsm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta mál er búið að vera nokkuð langan tíma hjá fjhn. þessarar hv. d., og endirinn hefur nú orðið sá, eins og fram kemur í nál. á þskj, 670, að nm. hafa orðið sammála um afgreiðslu þess í aðalatriðum, sem er þá þannig, að við leggjum til, með hliðsjón af því, hversu nú er mjög liðið á þingtímann, og einnig vegna þess, að málið hefur að vissu leyti fengið góðar undirtektir hjá einstökum ráðherrum og mér vitanlega innan ríkisstj., að því verði eins og nú er komið vísað til ríkisstj. Ég er sjálfur 1. flm. þessa máls og hefði að sjálfsögðu heldur kosið þann gang á, að málið hefði fengið afgreiðslu í þinginu og náð samþykki, enda þótt einhverjar breytingar hefðu kannske verið á því gerðar. En með hliðsjón af þeim aðstæðum, sem ég nú hef greint, þá hef ég verið með í því að leggja til, að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar.

Ég vil aðeins hafa þau orð um þetta nú til viðbótar því, sem ég hef sagt, að ég hygg, að af þeim viðræðum, sem fram hafa farið um lánsfjárskort til íbúðarhúsabygginga, bæði hér í hv. þd. og á öðrum vettvangi, í sambandi við flutning þessa máls og annars, þá sé það mjög orðið ofarlega í ráðamönnum, bæði innan og utan þings, að það sé nauðsynlegt að bæta hér úr.

Sannleikurinn er sá, að það eru eiginlega ótrúlega takmarkaðir möguleikar, sem menn hafa til þess að fá lán til íbúðabygginga hjá almennum lánsstofnunum, og sérstaklega er það áberandi, að bankarnir hafa verið algerlega lokaðir fyrir mönnum til slíkra lánveitinga síðari árin og þ. á m. hin almenna fasteignalánastofnun landsmanna, veðdeild Landsbankans, og það var einmitt gerð tilraun til þess með flutningi þessa máls að fá sérstaklega úr því bætt varðandi veðdeildina.

Ég vil til fróðleiks í þessu sambandi láta koma fram nokkrar tölur, sem ég hef frá fulltrúa fjárhagsráðs í byggingarmálum, en hann tók skýrslur af mönnum, sem fengu fyrirheit á sínum tíma eða höfðu vilyrði um fjárfestingarleyfi til bygginga í Reykjavík, það voru 59 manns. Þær eru nokkuð upplýsandi, og þó er á það að líta, að þar eru teknir þeir 59 af fleiri hundruðum umsækjenda, sem höfðu bezta fjárhagslega aðstöðu. Ég vil biðja menn að hafa það í huga. Og þá kom í ljós, að þessir viðkomandi menn höfðu yfir að ráða í eigin fé 6 millj. 610 þús. kr., eða sem svaraði 112 þús. kr. á mann. Í lánsfé hins vegar frá stofnunum, og það var þá eingöngu frá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, höfðu þessir menn fyrirheit um eða möguleika til að afla um 2 millj. 280 þús., eða 386.44 kr. á einstakling. Síðan höfðu þeir lánsfé eða von í lánsfé frá venzlamönnum og vinum að upphæð 3 millj. 646 þús. kr., eða 61.797 kr. á hvern einstakling. Á þennan hátt höfðu þeir samtals á hvern einstakling lánsfé, sem nam um 212 þús. kr., nánar tiltekið 212.475 kr., en enginn hafði von á neinu láni í bönkum til þessara framkvæmda. Það má ætla, að þessar byggingar viðkomandi manna hafi kannske að meðalverði verið um 300 þús. kr., svo að það vantar náttúrlega töluvert á þarna, til þess að það sé fullnægjandi, þegar saman er lagt það, sem þeir gerðu grein fyrir sem lánsfé, og eigið fé. Sumt af þessu vinna menn með eigin vinnu sinni, sem ekki er tíunduð, og þeim leggst þá einnig til viðbótar fé, vegna þess að byggingarnar taka yfir mjög langt árabil.

En það er sérstaklega áberandi, að það er verulegur hluti af þessu lánsfé, sem menn eiga að fá frá venzlamönnum og vinum, og hvernig skyldi nú það lánsfé vera fengið? Það er í langflestum tilfellum þannig að viðkomandi vinir og venzlamenn fara í bankana og taka út úr sparisjóðunum það fé, sem þeir hafa þar, og lána vinum sínum. Og það, sem svo á vantar og á skortir í þessari miklu lánsfjárkreppu, verður í mörgum tilfellum til þess að neyða menn til að fara út á hinn svo kallaða svarta markað og taka þar viðbótarlán með okurkjörum, sem að sjálfsögðu er í alla staði óviðunandi og vansæmandi í þjóðfélaginu að skuli eiga sér stað og Alþ. og ríkisstj. ber fullkomin skylda til að sporna við að eigi sér stað. Hún er alveg óeðlilega víðtæk þessi lánsfjárveiting hjá vinum og venzlamönnum, og menn sjá, að hún er í sjálfu sér óheilbrigð, og ef á það væri reynt, þá kæmi í ljós, hversu mikill hluti raunverulega af þessu fé er bara tekinn af sparifjáreign viðkomandi manna í bönkunum. En sannleikurinn er sá, að með nýju byggingarlagi, sérstaklega smáíbúðum og minni íbúðum, þá hafa menn komizt upp á lag með það síðari árin að bjargast með minna fé til bygginganna, sérstaklega hafa menn getað lagt fram meiri vinnu, bæði frá sjálfum sér og vinum sínum og venzlamönnum. Og ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að það væri mjög áberandi, að það væri hægt að liðsinna verulega miklum fjölda manna, sem nú standa í íbúðarbyggingum, með til þess að gera eða hlutfallslega litlum lánum, og það væri alveg óviðunandi, að menn, sem væru búnir með mikilli atorku og dugnaði að koma sér upp íbúðum, sem um það bil væri fulllokið, þyrftu jafnvel annaðhvort að missa íbúðirnar eða verða fyrir stórkastlegum fjárútlátum vegna svartamarkaðslána til þess að brúa það litla bil, sem á vantaði, að þeir gætu lokið þessum framkvæmdum sínum.

Þegar á þetta er litið, þá verða menn að gera sér það ljóst, að það er í raun og veru, þó að það yrði rýmkað eitthvað eðlilega til á lánsfjármarkaðinum til íbúðabygginga, hægt að koma ákaflega mörgum að liði án þess að stofna til nýrrar fjárfestingar. Húsin eru hvort eð er í smíðum, en hins vegar verða þau bæði dýrari þjóðfélagslega séð og fyrir einstaklingana við það, að byggingarframkvæmdirnar standa yfir miklu fleiri ár, en þyrfti. Það var í frv., sem hér liggur fyrir, gert ráð fyrir því, að ríkisstj. ætti frumkvæðið að því, að veðdeildin byrjaði nýja starfsemi með því að lána mönnum í reiðu fé kannske litlar upphæðir, sem gerðu mönnum kleift að ljúka íbúðunum, og með öðrum hætti, bæði út á 2. og 3. veðrétt, en fram til þessa hafði veðdeildin aðeins veitt lán út á 1. veðrétt.

Það hefur komið fram í öðru sambandi hér í þinginu, að ríkisstj. telur, að hún hafi þegar beðið sjálf um nokkuð miklar lánsheimildir og mundi því eiga erfitt með að uppfylla meira en það, sem hún hefur sjálf beðið um í þessu skyni. Það er hins vegar ljóst, að það er vel hægt að bjarga hér við eða koma hér mikið til hjálpar í þessu máli, án þess að það þurfi að taka til þess erlent lán, eins og ég vék einnig að í minni fyrstu framsöguræðu hér. Það mundi vera hægt með lánsfjárútvegun á innlendum markaði, og ég er sannfærður um það, að með góðu samstarfi og skilningi ríkisstj. og Landsbanka Íslands væri hægt án nýrrar löggjafar að koma fólki að verulega miklu liði þegar í stað. Og það er einmitt í trausti þess, sem ég hef orðið áskynja í viðræðum við ráðherra, og með vitneskju um viðræður, sem fram hafa farið innan ríkisstj., að ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði nú vísað til ríkisstj. og það fái á þann hátt afgreiðslu á þessu þingi, sem er vissulega, eins og nú er komið, betra en að málið dagi uppi eða nái ekki afgreiðslu vegna þess, hvað þinghaldinu er komið langt.

Ég þarf svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en það er sem sagt sameiginleg till. okkar nm. í fjhn., að þessu máli verði vísað til hæstv. ríkisstj.