24.10.1952
Efri deild: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (3132)

86. mál, skemmtanaskattur

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. hefur tekið af mér það ómak að svara þeim aðfinnslum, sem komið hafa fram út af því, sem ég gat um, að ráðh. hefðu ekki tekið ákveðna afstöðu til einstakra atriða frv. Skal ég ekki fara frekar út í það. En ég vil benda á í því sambandi, að í þessu frv. eru tvö deiluatriði, sem ég gat um í framsöguræðu minni, og það eru þau atriði, sem hv. þm. Barð. m. a. hefur gert að umtalsefni. Það er, hvort eigi að færa markið frá 1.500 íbúum niður í 500 íbúa, og hitt, hvort eigi að skattleggja þau kvikmyndahús, sem eru í eigu bæjarfélaga. Þetta eru þau tvö aðaldeiluatriði. Að öðru leyti sé ég ekki, að það sé neitt í frv., sem veldur nokkrum verulegum ágreiningi. Það eru þessi tvö atriði, er ég nú nefndi, sem einstakir ráðh. meðal annars hafa ekki tekið afstöðu til, og ég get ekki séð, að það sé á nokkurn hátt ásökunarvert. Þetta er mál, sem hefur verið mikið rætt. Það hefur verið mikið kvartað undan því af þeim mönnum, sem kvikmyndarekstur hafa með höndum og verða að borga skattinn, að til eru á mörgum stöðum á landinu kvikmyndahús, sem þurfa engan skatt að greiða. Og það er ekki nema eðlilegt, að þessir menn kvarti undan þessari misjöfnu aðstöðu, og ég veit, að hv. þm. Barð. viðurkennir, að hér er ekki um sanngjarna atvinnulega aðstöðu að ræða. Hitt er svo annað mál, sem um má deila, hversu mikil nauðsyn þessum bæjarfélögum er að hafa þær tekjur, sem renna frá þessum rekstri. En ég ætla ekki að fara frekar inn á þessi tvö deiluatriði á þessu stigi málsins.

Hv. þm. gat þess, að ég vissi ekkert, hvað í frv. stæði, vegna þess að hagnaður viðtækjaverzlunar ríkisins hefði fallið burt sem tekjur til þjóðleikhússins. Ég veit ekki, hvað hv. þm. á við með þessum ummælum. Hér í bráðabirgðaákvæðinu, í 2. tölul., er rætt um tekjur viðtækjaverzlunarinnar. Á síðasta þingi, þegar breytt var þannig til, að ríkissjóður tók að sér að greiða byggingarskuldir leikhússins, var ákveðið, að þessar tekjur af viðtækjaverzluninni skyldu renna til ríkissjóðs upp í það, sem hann leggur út fyrir byggingarskuldum leikhússins. Hagnaður viðtækjaverzlunarinnar átti einmitt að ganga til greiðslu á þessum byggingarskuldum, svo að ég sé ekki, að hér sé um neitt nýmæli að ræða eða nokkuð, sem getur verið sérstök ástæða fyrir hv. þm. að ásaka mig fyrir eða sýna út af því sérstaka vandlætingu. Í bráðabirgðaákvæðinu er ekkert annað en það, sem er í gildandi l. Þar í er engin breyt. á ráðstöfun þeirra tekna, sem frá skattinum renna.

Ég geri ráð fyrir, að öllum komi saman um það, að þarflegt sé að sameina þær sundruðu breytingar, sem gerðar hafa verið á þessum l., á einn stað. Og þó að tvö megindeiluatriði séu í þessu frv., finnst mér ekki ástæða til þeirrar heilögu vandlætingar, sem komið hefur fram, sérstaklega hjá þm. Barð., í sambandi við frv.

Hv. þm. ræddi mikið um útvarpið í sambandi við þetta frv. Mér finnst langsótt að setja það í samband við þetta mál. Hann hlýtur að hafa nóg tækifæri til að koma með sínar athugasemdir og sínar ádeilur um útvarpið, þó að hann geri þær á réttum stað, en ekki þar, sem þær eiga ekki heima. Mér finnst, að hann ætti þá fyrst og fremst sem formaður fjvn. að ræða það og rannsaka á sínum vettvangi, áður en hann fer að koma með það hér í deildina sem deilu á mig eða aðra í sambandi við þetta frv., sem á ekkert skylt við það mál. Hann var m. a. að deila á hæstv. fjmrh. fyrir það, að Þjóðleikhúsið er ekki tekið í fjárlagafrv. Ég hélt, að hv. formanni fjvn. væri kunnugt, hvers vegna þetta er ekki tekið í fjárlagafrv. Það er vegna þess, að ríkissjóður telur þetta sjálfseignarstofnun, sem ekki á heima í fjárlögunum. — Já, hv. þm. getur vel hlegið að þessu. — Það hafa verið til fyrirtæki í þessu landi, sem þannig hefur verið ástatt með, eins og t. d. síldareinkasalan gamla, sem var á snærum ríkissjóðs að mestu leyti, en hann bar enga ábyrgð á. Og ég get ekki betur séð, ef þjóðleikhúsið væri tekið inn í fjárlögin sem ein stofnun ríkisins, en að þá mundi leiða af sjálfu sér, að ríkissjóður yrði að standa straum af þeim halla, sem af rekstri stofnunarinnar kynni að leiða. — Ég skal svo ekki lengja þessar umr., en ef hv. þm. vill við 2. umr. málsins fara enn frekar inn á þau óskyldu mál, sem hann gerði nú, þá skal ég vera viðbúinn að taka upp viðræður við hann.