16.12.1952
Efri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (3599)

170. mál, menningarsjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls minntist ég á það, hvort hv. n. vildi ekki gera þá breytingu á þessu frv., að tekjurnar væru ekki bundnar við rekstrarhagnað Áfengisverzlunar ríkisins. Nú sé ég í nál., að hv. n. hefur ekki treyst sér til þess að koma fram með þá breytingu, sem ég minntist á, og þykir mér það miklu miður. Ég tók það fram þá og skal endurtaka það hér, að ég tel, að því fleiri aðilar sem eiga afkomu sína undir gróða Áfengisverzlunar ríkisins, því erfiðara verður að fá þeim málum kippt í það horf, sem nauðsynlegt er fyrir þjóðarheildina, enda er það ekki annað, en að fara í felur með þetta framlag að vera að taka það af ágóða Áfengisverzlunarinnar, sem annars rennur óskiptur til ríkisins, svo að það er í raun og veru að taka þetta úr ríkissjóði. Ég sé einnig, að hv. n. leggur til, að frv. verði samþykkt. Að vísu sagði hv. frsm. í ræðu sinni hér, að það yrði athugað fyrir 3. umr. Sé ég ekki, hvers vegna á að geyma að ákveða um svo stórt fjárframlag sem hér um ræðir, hvorki meira né minna en hálfa milljón króna, er á að fara til bókaútgáfu til Menningarsjóðs, og hefði ég haldið, að það þyrfti að ræða um þau atriði nokkru nánar í sambandi við afgreiðslu fjárl. Það hefur ekki þótt rúm fyrir hálfa milljón króna á fjárl. nú, þótt það hafi verið til nauðsynlegri þarfa, m. a. til heilbrigðismálanna.

Ég vil mjög vara hv. deild við að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir nú, m. a. vegna þess, hversu erfitt er að koma saman fjárl. eins og stendur. Ég hygg, að það séu margir menn, sem heldur vildu láta eitthvað af þessu fé til þess að bæta úr aðkallandi þörf í sambandi við líknarstarfsemi, en að keppa við frjálsa aðila um bókaútgáfu, jafnvel þótt það sé svo merk bókaútgáfa eins og hv. frsm. lýsti, en 500 þús. kr. árlega til slíkrar bókaútgáfu er ekkert lítið fé. Ég vil því leyfa mér að bera fram hér brtt., þrátt fyrir tilmæli hv. frsm., um að 2. málsgr. 1. gr. orðist svo:

„Ríkissjóður greiðir til Menningarsjóðs framlag eftir því, sem árlega er ákveðið í fjárlögum, enda sé það miðað við, að Menningarsjóður geti jafnan haldið áfram eðlilegri starfsemi.“

Ég viðurkenni það, að Menningarsjóður eins og margar aðrar stofnanir á að halda áfram starfsemi sinni, en það verður alltaf að vera undir mati Alþingis, hvort það sé nauðsynlegt að leggja í það hálfa milljón árlega eða hvort hægt sé að koma því öðruvísi og heppilegar fyrir. Ég vil því leyfa mér að leggja þessa brtt. fram til hæstv. forseta. Ef hv. frsm. n. óskar þess, að hún sé tekin aftur til 3. umr. og því fylgja einhver loforð frá n. um það, að greininni verði breytt eitthvað í þá átt, sem ég fer fram á, þá skal ég að sjálfsögðu verða við þeim tilmælum, en að öðru leyti óska ég eftir því, að efnislega gangi atkvæði um þetta mál hér við þessa umræðu.