13.01.1953
Efri deild: 48. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (3619)

193. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, er útvarpið eitt af mestu áróðurstækjum allra landa. Engar aðrar stofnanir hafa slík skilyrði til þess á örskömmum tíma að hafa áhrif á fjölda manna til ills eða til góðs eftir því, hvernig starfseminni er hagað. Engin stofnun getur verið málum þjóðarinnar jafngagnleg og útvarpið, engin jafnhættuleg þjóðarheildinni, ef hún beitir áhrifum sínum til þess, sem miður skyldi. Allt þetta hefur Alþ. verið ljóst, þegar lögin um útvarpsrekstur ríkisins voru sett. Til þess að stjórna þessari stofnun eru samkv. lögum settir hvorki meira né minna en átta menn. Hefur þetta þótt nauðsynlegt til þess að tryggja fullt öryggi í rekstri stofnunarinnar, fullt hlutleysi, fulla sanngirni og fulla vizku í sambandi við rekstur þessarar valdamiklu stofnunar. Það verður ekki séð, að neinum af þessum aðilum hafi sérstaklega verið ætlað það starf að gæta hagsmuna ríkisins og þegnanna í rekstrinum, og sýnist þó, að það hefði ekki átt að vera neitt aukaatriði, og engan veginn óeðlilegt, að saman hefði farið fullkomin festa og heiðarleiki í meðferð á rekstrarfé og fullkomin festa og heiðarleiki í flutningi mála, hvort tveggja þetta verið fyrirmynd í stofnuninni, sem hafði slík áhrif á þjóðarheildina og hvern einstakling, sem útvarpið náði til. Það var sannarlega ekki einskis virði að geta jafnan bent á það í útvarpinu, hversu sú stofnun væri fyrirmynd annarra um alla starfsemi, bæði í hinum andlegu og veraldlegu málum, hvernig einmitt þar ríkti takmarkalaust réttlæti, frábær hagsýni, fyrirmyndar stjórnsemi, brennandi áhugi fyrir sifelldum umbótum, fórnfýsi og umfram allt samkomulag og friður um öll þau mál, sem stofnuninni komu við og aukið gátu hróður hennar og áhrif til góðs fyrir þjóðina alla.

Sjálfsagt hefur löggjafinn viljað tryggja þetta allt, er hann ákvað, að átta menn skyldu stjórna þessu fyrirtæki, en þeir eru sem hér segir:

1) Hæstv. menntmrh., sem samkv. lögum hefur yfirstjórn á stofnuninni og ber raunverulega meginþunga af ábyrgðinni á rekstrinum.

2) Útvarpsstjóri, sem annast hinn daglega rekstur, en ræður þó ekki yfir meginverkefni stofnunarinnar, þ. e. útvarpsefninu.

3) Skrifstofustjóri útvarpsráðs, sem einnig stjórnar hinum daglega rekstri og getur hagað honum á þann veg, eins og kunnugt er, að allverulegir og mjög afdrifaríkir árekstrar geta orðið við útvarpsstjóra, og það svo, að báðir verði óstarfhæfir við stofnunina og verði að víkja þaðan um óákveðinn og langan tíma, en hirði samt full laun, eins og kunnugt er.

4) Fimm útvarpsráðsmenn, sem eingöngu er ætlað það starf að ráða yfir því efni, sem flutt er í útvarpinu, en hafa þó engin völd til þess að ráða nokkru um aðra starfsemi útvarpsins. Þeir geta að vísu samið dagskrána og ráðið því, hve mikið fé er veitt til hennar, en fá hins vegar engu um það ráðið, hversu mikið fé það kostar að koma dagskránni til hlustenda eða yfirleitt að tryggt sé, að hún nál nokkru sinni eyrum þeirra óbreytt eða á réttum tíma, þar sem stjórnin á sjálfum rekstri stofnunarinnar er þeim alveg óviðkomandi.

Samkv. starfsmannaskrá ríkisútvarpsins er yfirstjórnin talin vera átta menn, en þar eru ekki meðtaldir hæstv. ráðh. og skrifstofustjóri útvarpsráðs, en hins vegar er þar talinn yfirverkfræðingur. Auk þess eru skrifstofustjóri aðalskrifstofunnar, fréttastjóri og auglýsingastjóri taldir með sem stjórnendur stofnunarinnar, og mætti því segja, að stjórnendurnir væru orðnir alis tólf menn.

Ég hygg, að þessar upplýsingar nægi til þess að sannfæra alla menn um það, að stofnuninni er þegar yfirstjórnað, ábyrgðinni er þegar dreift á of marga menn og árangurinn er óstjórn, eins og alls staðar og ávallt verður, þar sem slíkt fyrirkomulag er tekið upp. Frv. því, er ég hef hér borið fram á þskj. 513, er ætlað að bæta úr þessu, ef að lögum verður.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að útvarpsráð ráði útvarpsstjóra og segi honum upp og útvarpsráð ráði starfsmenn útvarpsins og segi þeim upp. Útvarpsstjóri og starfsmenn starfa því á ábyrgð útvarpsráðs, ef þessi breyt. nær fram að ganga. Ræki útvarpsstjóri og starfslið ekki störf sín á viðunandi hátt, getur útvarpsráð sagt þeim upp, ef ekki er unnt að koma á nauðsynlegum umbótum. Er þetta bezta tryggingin fyrir því, að menn leggi sig fram til þess að vinna verkin svo, að vel fari, enda alveg nauðsynlegt í slíkri stofnun sem hér um ræðir. Á þennan hátt er byrðin flutt yfir á útvarpsráð, sem í eðli sínu á að bera hana og bera ábyrgðina gagnvart Alþingi, sem kýs það og getur á vissu tímabili skipt um ráðið eða um einstaka menn í ráðinu, ef því þykir ástæða til, hafi það ekki í hvivetna gert skyldu sína í sambandi við rekstur stofnunarinnar, m. a. gætt þess, að útvarpsstjóri og starfslið leysti þannig sín störf af hendi, að ekki væri ástæða til gagnrýni, svo sem verið hefur.

Í 2. gr. frv. er lagt til, að fækkað sé í útvarpsráði frá því sem nú er um tvo menn, úr fimm í þrjá. Það er betra að hafa þrjá menn í útvarpsráði með fullri ábyrgð en fimm menn án ábyrgðar, og það verða engin frambærileg rök færð fyrir því, að útvarpsráð með þremur mönnum, sem valdir hafa verið til þess að ráða sér útvarpsstjóra, sé ekki nægilegt til þess að stjórna stofnuninni. Það er miklu frekar alveg víst, að stjórn stofnunarinnar verður öll öruggari og traustari með þessu fyrirkomulagi en með því fyrirkomulagi, sem nú ríkir.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að Alþ. ákveði árlega í fjárlögum upphæð afnotagjaldsins. Samkv. gildandi lögum er þetta nú ákveðið af hæstv. ráðh. eftir till. útvarpsstjóra og útvarpsráðs. En með því að afnotagjaldið er ekkert annað en skattur til þess að mæta útgjöldum í sambandi við ákveðna þjónustu, er eðlilegt og sjálfsagt, að þetta sé ákveðið af sjálfu Alþingi, en engum öðrum aðila sé gefin heimild til þess að ákveða það. Það er enginn eðlismunur á þessu gjaldi og t. d. póst- og símagjöldum, sem ákveðin eru af Alþ., en ekki af forstöðumönnum stofnananna eða ráðherra. Og svo mætti nefna fleiri dæmi svo sem skoðunargjöld skipa, bifreiða o. m. fl. Það hefur líka sýnt sig, að það fylgist jafnan að lítið aðhald í útgjöldum og takmarkalaus heimild til þess að hækka tekjur á móti gjöldum, og hefur þetta engu síður sannazt í rekstri útvarpsins en annars staðar, þar sem líkt stendur á.

Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að útvarpsstjóri og útvarpsráð semji fjárhagsáætlun og sendi hana ráðuneytinu svo snemma sem þörf þykir í sambandi við undirbúning fjárlaga. Er þetta sjálfsagt, þar sem til þess er ætlazt, að ráðið beri einnig fulla ábyrgð á fjárreiðum og rekstri stofnunarinnar.

Með því að ákvæði um einkasölu á viðtækjum eru nú í lögum um útvarpsrekstur ríkisins, þykir ekki ástæða til þess að fella þau niður og semja um þá einkasölu sérstakt frv. En með því að tekjur af þessari starfsemi fara nú ekki lengur til rekstrar útvarpsins og engar líkur eru til, að á því sviði verði breyting framvegis, þykir rétt, að sú breyt. sé gerð hér nú, sem felst í ákvæðum 5. og 6. gr. frv. Það var eðlilegt og sjálfsagt, að útvarpið fengi á sínum fyrstu árum þessar tekjur. Hlustendur voru þá fáir og byrjunarkostnaður margvíslegur. En allt er þetta breytt nú. Síðan hefur útvarpið t. d. fengið mjög stóran tekjulið, sem ávallt fer vaxandi, en það eru tekjur af auglýsingum, og mjög verulegur hluti þeirra er beinlínis frá ríki og ríkisstofnunum. Þurfi stofnunin hins vegar á einhverjum tíma sérstakt fjárframlag, t. d. til fjárfestingar, sem ekki tilheyrir daglegum rekstrarútgjöldum, er ekkert eðlilegra en að ríkissjóður leggi það fram beint, annaðhvort sem lán eða sem óafturkræft framlag, ef sýnt er, að ekki þyki rétt að hafa gjöldin svo há, að unnt sé að safna sjóðum til slíkra framkvæmda.

Með 7. gr. eru felld niður þau lög, sem nú gilda og koma í bága við þetta frv., ef að lögum verður.

Í bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir því, að þetta þing kjósi í fyrsta skipti útvarpsráð eftir fyrirmælum þessara laga og þá falli jafnframt niður umboð núverandi útvarpsráðsmanna.

Eins og kunnugt er, hefur útvarpsstjórastaðan nú verið auglýst, þar sem núverandi útvarpsstjóri lætur af störfum í lok þessa mánaðar. Það er því tilvalið tækifæri til þess að koma á þessari skipan á stjórn útvarpsins, sem er gert ráð fyrir í þessu frv., og verður að telja það miklu verr farið, ef sleppt yrði þessu tækifæri til að koma á breytingunum, eins og ég þegar hef lýst. Mætti þá svo fara, að það eitt, að búið væri að skipa nýjan útvarpsstjóra, yrði þröskuldur á vegi fyrir því að koma umbótunum á síðar. Það verður að vísu á þessu stigi ekkert sagt um það, hversu takast kann með skipun á þeim manni. Hún kann að takast vel, og hún kann að takast miður. Og þótt einhverra umbóta sé að vænta með nýjum manni, þá er engin trygging fyrir því, að þær verði á þann veg, sem helzt yrði kosíð. En hvað sem um það er og hver svo sem verður fyrir valinu, þá er hitt fullvíst, að með því að sameina störfin og ábyrgðina fæst miklu öruggari stjórn á stofnuninni, og að því ber að stefna.

Þótt ég hafi lagt hér til, að skipunarvaldið í þessa stöðu sé fært úr höndum hæstv. ráðh. og falið mönnum, sem Alþ. velur til þess að bera ábyrgð á stofnuninni, er engan veginn til þess ætlazt, að yfirstjórn stofnunarinnar verði ekki eftir sem áður í höndum hæstv. ráðherra. Hér er ekki heldur um að ræða neitt vantraust á viðkomandi hæstv. ráðh. til þess að skipa hæfan mann í stöðuna, heldur hitt, að ég er þess fullviss, að það fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, skapar miklu traustari stjórn á útvarpinu en það fyrirkomulag, sem nú er samkv. gildandi lögum og hefur verið nú um mörg ár.

Mér þætti ekki óviðeigandi, að hæstv. Alþ. vildi fá nokkur rök fyrir því, að stjórn útvarpsins hafi verið slík, að þörf sé þeirra breytinga á lögunum, sem hér um ræðir, eða að þær breyt. væru líklegar til þess að bæta úr því, sem ábótavant kann að vera í rekstrinum. Ég hef hér að framan sett fram nokkur skýr atriði máli mínu til sönnunar, en skal þó bæta hér nokkru við.

Samkv. fjárlögum frá 1952 voru tekjur útvarpsins áætlaðar 6175000.00 kr., en gjöldin kr. 5791891.00. Auk þess voru áætlaðar tekjur af rekstri viðgerðarstofu kr. 560000.00 og kostnaðurinn við rekstur þeirrar stofu kr. 554000.00. Og enn tekjur af viðtækjaverzlun 550 þús. kr., en kostnaður við þann rekstur 430 þús., og átti afgangurinn, 150 þús. kr., að fara til þjóðleikhússins, eins og ákveðið var með lögum á síðasta Alþingi.

Samkv. fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, fyrir árið 1953 hafa þessar tölur hækkað sem hér segir: Tekjur útvarpsins eru áætlaðar alls kr. 8900000.00 og kostnaðurinn við reksturinn kr. 7293000.00, tekjur viðgerðarstofunnar 852 þús. kr. og kostnaðurinn 831 þús. — og rekstur viðtækjaverzlunarinnar: tekjur 996 þús. kr. og kostnaðurinn 472 þús., eða rekstrarhagnaður rúmar 500 þús. kr., sem einnig er ætlazt til að fari til þjóðleikhússins.

Ég hygg, að það sé leitun í fjárlagafrv. að nokkurri stofnun, sem hefur hækkað svo mjög á einu ári eins og ríkisútvarpið. Ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að meginástæðan fyrir því sé sú, að ábyrgðinni um stjórn útvarpsins hefur verið skipt, eins og ég hef tekið fram hér að framan. Nú mætti spyrja um í sambandi við þetta hér, hvort hæstv. ríkisstj. hefði þá ekki átt að taka í taumana, hún hafi haft til þess vald samkv. lögunum og hennar hafi þá verið skyldan til þess að gera hér umbætur á. En það segir sig sjálft, að það er erfitt fyrir einstakan hæstv. ráðh. að ráða svo rekstri einnar stofnunar, hinum daglega rekstri, að hann fái þar nokkru verulegu um ráðið í sambandi við kostnað, nema því aðeins að skipta um stjórn í fyrirtækinu, en það er þeim örlögum háð, að þegar búið er að skipa slíkan embættismann, er ekki hægt að láta hann fara frá og setja annan inn, nema því aðeins að hann hafi gert frámunaleg afglöp, og eru fá dæmi til þess, að það hafi verið hægt að beita þessu valdi til þess að koma að nýjum mönnum eða nýrri skipan á, nema þá að breyta lögunum. En það er mjög athyglisvert, að rn. hefur nú með bréfi, sem það ritar 17. júlí, farið nokkrum orðum um bæði áætlunina og rekstur útvarpsins, og vil ég hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp nokkur atriði úr bréfinn. Þar segir svo:

„Það sem einkum vekur athygli í áætluninni, er, að dagskrárfé fer næstum að hálfu til hljóðfæraleiks, þ. e. 800 þús. kr., þar af 500 þús. kr. til sinfóníuhljómsveitarinnar. Þetta er mjög hár liður, því að dagleg hljómlist útvarpsins virðist flutt af plötum. Fjármál sinfóníuhljómsveitarinnar þarf að leysa þannig, að hvorki útvarpið eða þjóðleikhúsið gjaldi í því sambandi meira en störf í þágu stofnunarinnar koma á móti.“

Maður skyldi ætla af þessum ummælum, að hér væri verið að greiða eitthvað annað en fyrir þjónustu, því að það stendur beinlínis hér, að það ætti ekki að greiða nema fyrir starf, sem kæmi á móti, en einmitt sjálfu rn. finnst, að það sé hér einhver hængur á. Þá segir enn fremur:

„Innheimtukostnaðurinn á afnotagjaldi er allhár, eða 535 þús. kr. á s. l. ári. Í Danmörku er þessu þannig hagað, að menn verða að greiða afnotagjaldið á pósthúsunum og fá þá miða, sem líma ber á útvarpstækin. Síðan fer maður — eða menn — frá útvarpinu um og lítur eftir, hvort búið sé að greiða af tækjunum. Varðar það háum sektum, ef ekki er greitt fyrir tiltekinn gjalddaga, og eru þær sektir innheimtar án undanbragða. Ef til vill mætti draga eitthvað úr innheimtukostnaði hér með svipuðu fyrirkomulagi, þótt gera megi ráð fyrir, að menn mögli undan því og telji vafningasamt að minnsta kosti fyrst.“

Þá segir hér enn fremur:

„Auglýsingataxti útvarpsins er nýhækkaður og svo hár, að ekki virðist tiltækilegt að hækka hann að sinni. Afnotagjald er hins vegar og hefur lengi verið mjög lágt, þótt það sé nýhækkað í 125 kr. Miðað við annað verðlag, t. d. gjöld fyrir blöð, gæti ekki talizt ósanngjarnt, að afnotagjaldið hækkaði í 250 kr. Það mundi gefa kr. 8875000.00 á næsta ári.“

Þrátt fyrir það þó að rn. hafi ritað slíkt bréf, sem ég þegar hef hér lýst, þá hefur því ekki einu sinni tekizt að ráða bót á þeim misfellum, sem rætt er um í bréfinu. Og þegar fjvn. ræddi um þessi mál annars vegar við hæstv. ráðh. og hins vegar við útvarpsstjóra og útvarpsráð, þá kom langskýrast í ljós, hversu þessir aðilar allir saman dreifa ábyrgðinni og kenna hver öðrum um. Það er einmitt vegna þeirra samtala, sem ég sem formaður fjvn. hef átt við þessa menn árum saman, að ég hef nú komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé hið eina rétta í þessu máli að færa þessa ábyrgð saman, minnka yfirstjórnina á útvarpinu og gera þá menn meira ábyrga, sem raunverulega eiga að stjórna því. Það mundi sparast með því mjög mikið fé, auk þess sem hægt væri að fyrirbyggja margar aðrar misfellur, sem kunnugt er að þar hafa orðið.

Þá mætti segja: Hvers vegna tekur ekki fjvn. sig til og sker niður framlög til útvarpsins? Því er til að svara, að það er einmitt vegna þessa fyrirkomulags. Fjvn. ræður ekkert yfir afnotagjaldinu. Útvarpsstjóri, útvarpsráð og hæstv. ráðh. geta ákveðið það hátt eða lágt eins og þeim sýnist, og þeirri reglu hefur jafnan verið fylgt að láta það hækka, þegar á hefur þurft að halda til þess að mæta útgjöldum, án þess nokkru sinni að beita sér að hinni hliðinni, að spara í rekstrinum. Og þess vegna þýðir ekkert fyrir fjvn. að ræða um að skera niður, svo lengi sem hún og þingið einnig fær ekki leyfi til þess að ákveða gjaldið, hvað skuli koma á móti. Skal ég nú leyfa mér að lesa hér upp dæmi um það fjársukk, sem ríkt hefur hér í þessari stofnun, — og vil ég þó taka það fram, þó að ég ræði hér um þessa stofnun, að það er síður en svo, að hún sé nokkurt einsdæmi í sambandi við rekstur ríkisins. Þetta er að finna alls staðar meira og minna. En það er alveg sýnilegt, að það er vonlaust verk að fá nokkrar umbætur gerðar í heild á málunum, og er því eina ráðið að reyna að taka einhverjar ákveðnar stofnanir fyrir í hvert skipti. Og sem dæmi um það, hvernig hér er farið með málin, skal ég leyfa mér að lesa hér upp nokkur dæmi.

Útvarpsstjóri sjálfur situr á rúmlega 56 þús. kr. launum, og er það fulIkomlega samkv. launalögum. Það er fyrir áhrif frá fjvn., að launaviðbætur, sem voru settar og greiddar um allmörg ár, voru numdar í burtu og eru nú ekki lengur. Hins vegar eru fulltrúa á aðalskrifstofunni, Þorsteini Egilsyni að nafní, greiddar kr. 6360.50 í eftirvinnu og Sigríði Bjarnadóttur gjaldkera kr. 2398.96.

Á innheimtuskrifstofunni, þar sem annars sýnist ekki vanþörf á að gæta hagsýni, eru fulltrúa Sigurði Sigurðssyni greiddar kr. 12561.92 í eftirvinnu ofan á 47700.00 kr. laun.

Þegar svo haldið er áfram, þá kemur auglýsingastjóri, sem er sjálfur stjóri hér yfir einhverjum ákveðnum fjölda manna og hefur kr. 1845.00 í eftirvinnu fyrir utan sín 40700.00 kr. laun, og annar auglýsingastjóri með kr. 4151.00, Valgerður Tryggvadóttir, og þriðji ritari við sömu starfsemi með 1222 kr. fyrir utan full laun.

Á fréttastofunni kemur fréttastjóri, sem ekki hefur eingöngu það verk að vera fréttastjóri í útvarpinu, heldur höfum við orðið varir við það hér í fjvn., að hann hefur haft annars staðar laun fyrir önnur störf. Hann hefur nú 47764 kr. föst laun, en hefur þess utan kr. 6952.00 í eftirvinnu. Ja, það er nú ekki að furða, segi ég, þó að undirmennirnir verði nokkuð djarftækir til eftirvinnunnar, þegar sjálfir stjórarnir, sem eiga að stjórna þeim, sneiða sér slíkar sneiðar, enda er það svo, að Hendrik Ottósson fréttamaður, sem sjálfsagt starfar undir þessum ágæta fréttastjóra, hefur kr. 8200.00 í aukavinnu eftir að hafa haft 42700 kr. í laun. Og þá kemur presturinn Emil Björnsson, sem annars situr á launum hjá ágætum söfnuði hér í bænum, sem út af fyrir sig er ríkinu ekkert viðkomandi, og hefur ekki einasta kr. 42672.60 í föst laun fyrir að vinna hjá útvarpinu og á þá náttúrlega að skila þar fullum vinnudegi, en hann hefur líka kr. 8604.00 í eftirvinnu. Stefán Jónsson, sem einnig vinnur á sömu skrifstofu, hefur fyrir utan sín fullu laun, sem eru jafnhá, kr. 7867.00. Högni Torfason, sem einnig vinnur þar, hefur í eftirvinnu kr. 6805.00, og Margrét Indriðadóttir hefur fyrir utan sín fullu laun, kr. 37580.00, kr. 7806.98 í yfirvinnu, enda les hún prýðilega í útvarpið, eins og kunnugt er. Og Jónas Jónasson hefur fyrir utan sín laun einnig kr. 4291.00 í eftirvinnu.

Svo komum við að einum höfuðpaurnum, skrifstofustjóra útvarpsráðs, sem hefur nú gengið á föstum launum árið 1951, en allar þær upplýsingar hér um eftirvinnu, sem ég ræði um, eru miðaðar við það, sem hefur verið greitt árið 1951. Hann hefur nú, auk þess að ganga á fullum launum hjá útvarpinu, haft kr. 3500.00 í aukavinnu og þess utan ákveðið starf hjá Alþ. fyrir að lesa útvarpsfréttir, sem hann og gerir prýðilega. Baldur Pálmason hefur einnig kr. 6023.00 í aukavinnu.

Svo koma hinir smærri postular eins og Guðrún Reykholt, sem er hljómplötuvörður og passar upp á, að hægt sé að taka alltaf réttar plötur, þegar á að hella sinfóníuhljómleikum yfir þjóðina frá plötum, eins og sagt er í bréfi ráðherrans; hún hefur kr. 3321.00 í eftirvinnu fyrir utan sín föstu laun, og sama fær Sigríður Gísladóttir ritari. Þórarinn Guðmundsson hljómsveitarstjóri sem annars hefur kr. 42672.00 í laun, fær kr. 5535.00 í aukavinnu, og Weisshappel píanóleikari fær hvorki meira né minna en kr. 13284.00 í aukavinnu og er þá kominn allmiklu hærra í launum en starfsbróðir hans, Þórarinn Guðmundsson, sem kallaður er þó hljómsveitarstjóri.

Svo kemur okkar ágæti þulur, Pétur Pétursson, sem hefur einnig rúmar 42 þús. kr. í laun; hann er með 7286.00 í aukavinnu. Og hinn ágæti Jón frá Múla, þulur, sem hefur sömu laun, hefur kr. 13824.30 í aukavinnu.

Svo koma magnarar í magnarasal. Fulltrúi þar, sem hefur líka rúmar 42 þús. kr. í laun, er með kr. 16773.00 í aukavinnu. Haraldur Guðmundsson magnaravörður hefur kr. 9817.00 í aukavinnu. Henry Eyland, sem einnig er á fullum launum, hefur kr. 12476.00 í aukavinnu. Knútur Skeggjason, sem einnig er þar við sama starf, hefur kr. 13450.00 í aukavinnu fyrir utanföstu launin. Jón Sigurbjörnsson hefur kr. 12425.00 í aukavinnu við sama starf. Svo kemur aðstoðarmaður, sem er þar á fullum launum. en hann hefur þá líka auk þess kr. 11833.00 í aukavinnu.

Síðan koma aðrir starfsmenn, m. a. stöðvarstjóri við Vatnsendastöðina, sem er á rúmum 40 þús. kr. launum, en hefur kr. 16085.00 í aukavinnu, og Emil Sigurðsson, þar einnig, sem hefur kr. 8396.58 í aukavinnu. Á Eiðastöðinni er einn ágætur stöðvarstjóri, sem hefur kr. 4428.00 í aukavinnu fyrir utan sín föstu laun, eða hefur haft árið 1951.

Svo kemur hér tæknideild. Þar hefur fulltrúi aðalverkfræðings fyrir utan sín laun kr. 8104.80. Og aðrir minni spámenn eru hér þrír, með kr. 5222.00, 5875.00 og 2543.00 í eftirvinnu.

Samanlagt nemur þessi aukavinna hvorki meira né minna árið 1951 en um 300 þús. kr., og ég fullyrði, að langstærsti hlutinn af þessari aukavinnu er fyrir vanstjórn á stofnuninni. Það er ekki einasta, að þetta fyrirkomulag skapi útgjöld fyrir þessa stofnun sjálfa, heldur skapar það slíkt fordæmi í sambandi við launagreiðslur hjá öðrum stofnunum, að það er gersamlega ómögulegt að halda niðri launagreiðslunum samkv. ákvæðum launalaga, enda hefur það sýnt sig alls staðar, að í því hafa verið mestu erfiðleikarnir við að fá fólk til að sætta sig við launalögin, að við stjórn á slíkum fyrirtækjum eins og ég hér ræði um var farið langt út fyrir ákvæði launalaganna á þann hátt, sem ég þegar hef lýst.

Ég skal m. a. leyfa mér einnig að benda á, að í tónlistardeild eru ráðnir menn eins og t. d. hinn ágæti tónlistarfulltrúi, Jón Þórarinsson, með kr. 42672.00 launum. En á sama tíma er ekki heimtað meira .af viðkomandi aðila en svo, að hann getur með ágætum ráðið sig hjá annarri stofnun, sem einnig er haldið uppi af ríkisins fé allverulega og heitir tónlistarskóli, og þar hefur hinn sami ágæti maður kr. 39283.20 í laun. Annaðhvort er hér um framúrskarandi afkastamann að ræða eða það er heimtaður of lítill vinnutími hjá útvarpinu fyrir þau laun, sem honum eru greidd þar.

Ég hirði ekki að taka fram frekari dæmi til þess að sýna hverjum þeim, sem hlutlaust vill líta á þessi mál, að það er fullkomin ástæða til þess að bera fram frv. um endurbætur og endurskipulagningu á stjórn þessa fyrirtækis. Ég veit, að það er ekkert vel þakkað verk, en eftir að hafa setið inni með þann fróðleik, sem ég hef hér lesið upp, þá tel ég það þingskyldu mína að benda á þessar veilur og benda á möguleika til þess að laga þær. Og ég er þess fullviss, að ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður samþykkt og stjórnin skipuð á þann hátt, sem þar er fyrir mælt, þá má mjög mikið laga þær misfellur, sem hér eru á, og þá getur útvarpið orðið, eins og það á að vera, einnig fyrirmynd annarra stofnana í sambandi við fjárhagsrekstur, sem það því miður er ekki í dag.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leyfa mér að leggja það til við hæstv. forseta, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.