25.11.1952
Neðri deild: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

31. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég ætla, að ég geti látið mér nægja að vísa að mestu leyti til nál. allshn. um þetta mál. Þar er drepið á þau helztu atriði, sem þessi lög eru á annan veg heldur en gildandi lög um ríkisborgararétt.

Þetta frv. er sniðið eftir löggjöf Norðurlandaþjóðanna í höfuðatriðum. Aðeins eru meiri hömlur á það lagðar hér hjá okkur eftir þessu frv. að öðlast ríkisborgararétt heldur en er hjá Norðurlandaþjóðunum hinum, og er það í alla staði eðlilegt. Það er enn meira samband milli þeirra þjóða heldur en okkar og nokkurrar þeirra. Þær eru að kalla álíka fjölmennar hver um sig, — það eru áhöld um það, — og þess vegna er ekki nema náttúrlegt, að þær geti haft svipuð ákvæði í sinni löggjöf um þetta efni, eins og líka er. Hér eru aftur meiri skorður settar við því, að menn geti öðlazt ríkisborgararéttinn á mjög einfaldan hátt, eftir ákvæðum þessa frv. um ríkisborgararétt.

Með sérstökum lögum samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar, 68. gr., er vitaskuld hægt að veita ríkisborgararétt. Það hefur verið svo, eins og stjórnarskráin veitir heimild til, og mun verða svo áfram. Í l. um ríkisborgararétt er nú gert ráð fyrir, að hafi um útlending verið að ræða, þá hefur það verið algenga reglan, að hann hafi orðið að eiga heima óslitið hér á landi í 10 ár. Þetta ákvæði er nú fellt niður úr þessu frv., og ég ætla, að slíkt skipti ekki máli. Það hefur verið nær undantekningarlaust, bara með sárafáum undantekningum, haft af hálfu þingsins sem lítt frávíkjanleg regla, að menn þyrftu að hafa hér átt lögheimili óslitið í 10 ár samfleytt. Og ég geng út frá því, að svipuð regla verði viðhöfð framvegis, þó að ekki sé hún lögfest í þessum lögum. Þess ber að gæta, að það hefur ekki út af fyrir sig neitt sérstakt að segja, þar sem með nýrri lagasetningu er ætíð hægt að víkja frá ákvæðinu hvort sem er.

Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja ákvæði hinna einstöku greina frv. N. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með lítils háttar orðabreytingu á síðustu málsgr. 11. gr. Það er ekki efnisbreyt., sem þar er um að ræða, heldur er það viðkunnanlegra orðalag.

Í nál. er að því vikið, að dómsmrh. sé ætlað að hafa gætur á framkvæmd þessara laga, — það er til þess ætlazt í þessu frv., — og hann á að skera úr ágreiningi, ef verður um réttindi manns til þess að öðlast ríkisborgararétt. Sá, er óskar eftir að fá ríkisborgararétt, á rétt á því, ef hann uppfyllir öll skilyrði þessa frv. til þess að öðlast hann. Og sú skylda er lögð á dómsmrh. í raun og veru, að það séu gefnar gætur að því, hvort sá, er óskar eftir ríkisborgararéttinum, uppfylli skilyrði laganna, og ef ágreiningur er, þá sker dómsmrh. úr. þeim ágreiningi. En sá maður, er óskar eftir ríkisborgararéttinum, á rétt á, ef hann er óánægður með þann úrskurð, að sækja sitt mál fyrir dómstóli.

Ég veit, að hv. þm. gefa því gætur um niðurlag 11. gr., einmitt þá málsgr., sem brtt. n. fjallar um, að það er til þess ætlazt, að varðandi þá, sem eiga rétt á því að fá ríkisborgararétt eftir ákvæðum þessa frv., ef þeir uppfylla öll þau skilyrði, sem sett eru fyrir því, að menn eigi rétt á að öðlast hann, þá verki þetta ákvæði l. aftur fyrir sig, þeir geti öðlazt hann, eins og þau hefðu gilt áður, en það er ekki nema um tiltekið árabil. Og þetta er ekki nýtt ákvæði í þessari löggjöf hér hjá okkur, því að í eldri l. um þetta efni er einmitt sams konar ákvæði, þó að það sé orðað á dálitið annan veg, en hér er gert.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið og vænti þess, að hv. d. greiði fyrir því, að það geti gengið áfram.