08.10.1952
Neðri deild: 5. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

13. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. álítur augsýnilega mjög auðvelt að fá það í gegnum hv. deild að framlengja söluskattinn eins og hann var og virðist nú treysta á það, að engrar óhlýðni gæti í stjórnarliðinu, eins og þó varð allmikið vart við á síðasta þingi, þegar verið var að koma söluskattinum í gegn þá, og virðist hann hafa mjög mikla trú á, að þeir verði nú hlýðnari við hann, hans hv. stjórnarstuðningsmenn, heldur en þeir þó voru um tíma á síðasta þingi. Hins vegar lítur þetta mál þannig út frá sjónarmiði alþýðu, að söluskatturinn er bókstaflega ekki bærilegur lengur í þeirri mynd, sem hann nú er, og það er engum efa bundið, að það eru til hjá þjóðfélaginu tekjustofnar, sem hægt er að taka á miklu réttlátari og léttbærari hátt en gert er með söluskattinum. M.a. hefur það greinilega komið fram einmitt í sambandi við bátaútvegsgjaldeyrinn, að þegar sá bátaútvegsgjaldeyrir er lagður á vöruna og heildsalarnir og aðrir, sem hafa þetta til sölu, taka sitt fé fyrir frá almenningi, þá er aukningin á því, sem þeir taka í álagningu fram yfir það, sem þeir tóku áður, eins mikil og öllum bátaútvegsgjaldeyrinum nemur, eða eins og það, sem fer ti1 bátaútvegsins. M.ö.ö., það er stétt í þjóðfélaginu, sem fær í sinn hlut þarna stórar fúlgur, sem ríkið gæti algerlega náð til sin. Það er þess vegna engum efa bundið, að þessa þungu skatta, sem nú eru lagðir á almenning í gegnum söluskattinn og aðra slíka, væri hægt að taka af auðmannastéttinni í landinu, svo framarlega sem ríkisstj. hefði nokkurn vilja til þess. Það er t.d. vitanlegt, að nú á sama tíma sem alþýða almennt er að kikna undan þunga dýrtíðarinnar og kaupgetan hefur farið þannig minnkandi hjá alþýðu manna, svo að meira að segja kaupmennirnir, kaupfélögin, handiðnaðarmennirnir og íslenzki iðnaðurinn kvarta yfir því, hvað kaupgeta almennings hafi minnkað, þá er kaupgetan hjá auðmannastéttinni í þjóðfélaginu svo mikil, að það er sama hvað fínar og dýrar vörur, sem sú stétt virkilega girnist, koma inn í landið, þær seljast upp undireins. M.ö.o., það verzlunarfrelsi, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að stæra sig af, að hafa skapað, hefur orðið verzlunarfrelsi einvörðungu fyrir þá ríkustu í þjóðfélaginu. En hæstv. ríkisstj. hyggst hins vegar skera þannig niður kaupgetuna hjá almenningi, að hann geti varla veitt sér málungi matar, og meira að segja af allra brýnustu lífsnauðsynjum, eins og mjólkinni, hafa menn ekki getað keypt eins mikið og þeir þurfa, þannig að það er farið að ganga út yfir bændur líka, hvernig kaupgetan hefur minnkað í bæjunum.

Þegar ástandið er þannig í þjóðfélaginu, þá virðist manni, að ríkið ætti þó að hafa einhvern vilja til þess að ganga á undan og lækka þær þungu byrðar, sem ríkið hefur lagt á alþýðu manna með sköttum eins og söluskattinum, en gera í staðinn ráðstafanir til þess að taka féð af gróða auðmannastéttarinnar í landinu. Hins vegar er gefið, þegar um svona mál er að ræða, að þá greinir á milli hagsmuna stéttanna. Núverandi hæstv. ríkisstj. er fulltrúi auðmannastéttarinnar í landinu og vill þess vegna ekki fara í vasa hennar til að sækja peningana þangað. Þvert á móti. Um leið og kaupgetan er skorin niður hjá almenningi, þá er gróðinn aukinn hjá öllum þeim aðilum, sem eru nægilega ríkir og voldugir og nægileg tök hafa á ríkisstj. Þess vegna er auðséð, að hæstv. ríkisstj. virðist treysta því, að hún hafi tökin eins og áður og geti fengið framlengda alla þessa þyngstu og verstu skatta. Þó vil ég minna á það að lokum, að söluskatturinn var upphaflega settur á til þess að borga fiskábyrgð. Núna er ekki aðeins búið að afnema fiskábyrgðina, heldur líka búið að setja í staðinn ólöglegt fyrirkomulag eins og bátaútvegsgjaldeyrinn og gera það fyrirkomulag þannig úr garði hvað innrukkun snertir, að það kostar eins mikið aukreitis fyrir þjóðfélagið að láta rukka það inn eins og bátaútvegurinn fær mikið upp úr því.

Svo að síðustu viðvíkjandi söluskattinum, það verða vafalaust skarpari deilur um hann við síðari umr. þessa máls, — þá vildi ég aðeins segja það, að það hefði nú raunverulega verið það minnsta; sem hæstv. ríkisstj. hefði getað gert fyrir þessar 100 millj. kr. eða upp undir það, — við skulum segja, þótt það yrði ekki nema 70–80 milljónir, sem hún fær fyrir söluskattinn, — að ganga þannig frá lögunum, að þau formlega séð væru ekki annað eins hrákasmíði og þau eru. Þetta var hæstv. ríkisstj. bent á, á síðasta þingi.

1. gr. í þessu frv. byrjar þannig: „Ákvæðin um tekjuöflun, sem sett eru í 3. kafla l. nr. 100.“ Meginið af þessum lögum er fallið úr gildi, en ríkisstj. hefur ekki einu sinni fyrir því að taka fram, að ákveðnar greinar skuli vera í gildi. Nei, það eru felldir úr lögum ákveðnir partar af ákveðnum greinum, án þess að það sé tiltekið, og upphafið á þessum kafla, sem bent er á, er um myndun sjóðs til þess að greiða niður verð á vörum. M.ö.o., frá lagalegu sjónarmiði séð er þessi tekjuöflun upp á 70–100 millj. kr. eitthvert það aumasta smíði, sem nokkurn tíma hefur komið fyrir Alþingi. Svona er þetta búið að ganga til núna í þrjú ár, án þess að hæstv. ríkisstj. hafi haft fyrir því að breyta þessum lögum þannig, að það sé raunverulega hægt að sýna þau. Ég vildi nú næstum því mega vonast til þess, að stjórnarmeirihlutinn í fjhn. sæi nú sóma sinn í því að ganga þannig frá þessum lögum, að það væri einhver mynd á þeim. Jafnvel þótt hæstv. ríkisstj. gerði það viðvíkjandi bátaútvegsgjaldeyrinum að taka tugi milljóna króna úr vasa þjóðarinnar án þess að hafa nokkurn rétt til þess og nokkurn lagabókstaf til þess að styðjast við, gerði það einvörðungu í krafti sins valds, þannig að þetta er beint rán, þá væri óviðkunnanlegt, að allur söluskatturinn væri tekinn án þess, að lögin, sem heimila það, séu sæmilega úr garði gerið.