04.12.1952
Neðri deild: 34. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

174. mál, jafnvirðiskaup og vöruskipti

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki nema gott um þetta frv. að segja. En það eru nokkur atriði í sambandi við það, sem ég vildi gera að umtalsefni og um leið beina til hæstv. ríkisstj.

Það er í fyrsta lagi viðvíkjandi því, að hér er lagt til að veita Landsbanka Íslands einum þessa heimild. Út af fyrir sig er það ekki nema eðlilegt, að þjóðbankinn hafi með viðskiptin að gera út á við gagnvart þjóðbönkum annarra landa. En þó er eðlilegt, að aðrir þeir bankar, sem hafa með höndum viðskipti á annað borð við útlönd, geti setið þarna við sama borð, og það teldi ég eðlilegt, að væri nokkuð athugað í fjhn., sem þetta mál fer nú til.

Þá er í öðru lagi viðvíkjandi því, sem hæstv. viðskmrh. alveg sérstaklega minntist á, að eitt af tilefnunum til þessara ákvæða væru viðskiptin við Austur-Þýzkaland. Það er rétt hjá honum, að það er nú loks svo komið, að verið er að hefja viðskipti við Austur-Þýzkaland. Hæstv. ríkisstj. rekur kannske minni til þess, að ég flutti hér á Alþ. fyrir meira en 2 árum, 1950, frv. um frjálsari verzlun við þessi lönd og lét fylgja þar með m.a. í grg. tilboð frá stjórn Austur-Þýzkalands um allmikla verzlun við Ísland, upp á 32 millj. kr. Hæstv. ríkisstj. fékkst aldrei til að sinna neinum af þeim möguleikum, sem þá voru opnaðir til að selja þangað bæði hraðfrystan fisk og annað. Og nú loksins, þegar allt er að komast hér í öngþveiti, þá fer hæstv. ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að opna þessi viðskipti. Þó að ríkisstj. hafi ekki lagt fram neinar upplýsingar hér fyrir Alþ. um það enn þá, sem þó hefði verið viðkunnanlegt, þá mun vera um að ræða 3.000 smál. af freðfiski, sem nú eigi að selja til Austur-Þýzkalands og fá vörur í staðinn. En ég vil um leið taka það fram, að möguleikarnir á viðskiptum við Austur-Þýzkaland eru miklu meiri, en þessir. Og ég vil leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessa ábyrgð ríkissjóðs, sem hér á að taka, hvernig meiningin sé að haga þessum viðskiptum t.d. við Austur-Þýzkaland. Það er kjörorð hæstv. ríkisstj., að það eigi að vera frjáls verzlun, m.ö.o., að Íslendingar eigi að hafa rétt til að selja sínar vörur frjálst og að þeir eigi að hafa rétt til þess að flytja vörur inn frjálst í staðinn. Það eru þrír aðilar, sem nú hafa sent fulltrúa til Austur-Þýzkalands og hafa samið þar: einn maður frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða hennar fyrirtækjum, annar maður frá Sambandi ísl. samvinnufélaga og þriðji maður frá Verzlunarráði Íslands. Og það hefur verið sagt, að nú væri í undirbúningi, að þessir þrír aðilar mynduðu sérstakt hlutafélag sín á milli og að þetta hlutafélag ætli síðan að kaupa allar vörurnar frá Austur-Þýzkalandi, en aðrir aðilar á Íslandi ættu ekki að hafa rétt til þess að kaupa þessar vörur beint, m.ö.o., að samvinnufélögin íslenzku, kaupfélögin, að iðnrekendur á Íslandi, að kaupmenn á Íslandi, sérstakir heildsalar, ættu að vera útilokaðir frá því að geta pantað þessar vörur beint og selt þær.

Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvort það sé meining hennar með þeirri ábyrgð, sem ríkissjóður tekur á hugsanlegum innstæðum Landsbanka Íslands, t.d. í Berlín, að þá sé Landsbanka Íslands gefin heimild til að koma á með samstarfi við svona félag einokun á innflutningnum í þessu tilfelli frá Austur-Þýzkalandi. Ég vil benda á, hvaða afleiðingar slík aðferð mundi hafa. Í dag er seldur hraðfrystur fiskur fyrir 18 millj. kr. til Austur-Þýzkalands. Fyrir þetta á að taka ýmsar nauðsynjavörur, sem Íslendingar geta notað. Ef ákveðið einokunarfélag, samanstandandi af þessum þrem aðilum, kaupir allar þessar vörur og fær um leið loforð frá Landsbankanum um það, að öðrum væri í fyrsta lagi ekki gert mögulegt að kaupa þessar vörur og að ekki heldur verði stutt að því, að hægt sé að selja meira til þessa lands og kaupa meira af vörum frá þessu landi, þá er verið að skapa það ástand, að þessir aðilar, sem kaupa vörur í þessu tilfelli frá Austur-Þýzkalandi fyrir 18 millj. kr., fái einokun á því hér á Íslandi að selja þessar vörur með því verði, sem þeim þóknast á þær að leggja. Og það er vitanlegt, að þessar vörur yrðu keyptar á verði, sem sambærilegt er við verð á frjálsum markaði, og þessir menn, sem kaupa þær, gætu ósköp vel selt þær með venjulegri álagningu, en mundu fá í gegnum þetta sérstakt tækifæri til þess að geta lagt á þær og sérstaka tryggingu fyrir að selja þær. Ef þetta væri gert svona, þá mundi það gerast, skulum við segja, að svo kæmu aðrir útflytjendur á freðfiski hér á Íslandi, gerðu samninga við stjórn Austur-Þýzkalands eða þá, sem kaupa og selja þar vörur, um að selja t.d. 7 þús. tonn í viðbót af freðfiski og kaupa vörur út á það hingað heim til Íslands. Mundi þá með þeirri aðstöðu, sem sköpuð væri, af hendi Landsbankans á grundvelli þessarar ábyrgðar vera beitt þeirri einokun að segja: Það fá ekki fleiri að selja freðfisk til þessa lands, og það fá ekki fleiri að kaupa vörur hingað heim til Íslands? — Ég vil vekja athygli á því, að ef svona háttur væri hafður á, þá er verið að skapa hér sérstaka einokun alveg utan við lög og rétt, í beinni mótsögn við þá stefnu, sem ríkisstj. segist hafa, og koma í veg fyrir, að freðfiskurinn verði seldur, sem sumir stuðningsmanna ríkisstj. segja, að möguleikar séu á. Ég vil taka fram, að þessu heldur m.a. fram sá maður, sem sjálfur er einn stærsti framleiðandi og útflytjandi á freðfiski á Íslandi, útgefandi að blaðinu Víði. Í þessu blaði upplýsir hann það, að það sé hægt að selja upp undir 10 þús. tonn af freðfiski í Austur-Þýzkalandi. Þessi maður er í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og byggir vafalaust að einhverju leyti sínar upplýsingar á því, sem fyrir liggur hjá Sölumiðstöðinni, enda veit ég það sjálfur persónulega, að markaðurinn fyrir freðfisk, ísfisk og aðrar afurðir Íslands í Austur-Þýzkalandi er gífurlegur, þó að hæstv. ríkisstj. hafi hingað til fundizt rétt að sleppa því að nota hann eins og fjöldann allan af öðrum mörkuðum, sem Íslandi standa opnir.

Ég álít þess vegna, að það sé í fyrsta lagi nauðsynlegt, að sú ábyrgðarheimild, sem hér er gert ráð fyrir, 50 millj. kr., sé aukin, vegna þess að ég veit, að það er hægt að selja miklu meira af vörum til þessara landa heldur en gert er ráð fyrir, að þessi ábyrgðarheimild ætti að nægja fyrir. Ég álít í öðru lagi, að það sé rétt að stilla þannig til, að þeir bankar, sem hafa rétt til að skipta sér af gjaldeyrisverzlun, hafi jafna möguleika til þess að geta greitt fyrir sölu íslenzkra afurða og greitt fyrir kaupum á vörum í staðinn. Og í þriðja lagi álít ég vera höfuðatriði, að það sé ekki að neinu leyti með þessum ráðstöfunum gefið undir fótinn með, að hægt sé að skapa einokun á aðstöðunni með að selja til þessara landa og kaupa vörur frá þessum löndum. Við vitum, að hér á Íslandi er yfirleitt nægilegt af vörum. Það er á áhættu hvers einstaks manns, hvort hann kaupir vörur frá útlöndum og liggur hér með þær. Það verður hann að gera upp við sjálfan sig. Það er ekki lengur það ástand, að það sé hægt að kaupa hvaða vörur sem er og menn séu vissir með að selja þær allar saman. Það er áhætta að leggja í það. Og sú áhætta ein er nóg aðhald um það, að það ætti að vera óhætt að gefa frjálsa sölu á íslenzkum afurðum og kaup á nauðsynjavörum í staðinn. Hins vegar vil ég í sambandi við þetta mál leggja áherzlu á og undirstrika, að það er hægt að framleiða nóg hér á Íslandi af vörum til útflutnings, hægt að framleiða miklu meira en undanfarið hefur verið gert. Í öðru lagi eru til markaðir fyrir miklu meira en það, sem undanfarið hefur veríð framleitt. Það er hægðarleikur að selja þó að það væru 60 þús. tonn af freðfiski út úr landinu, ef hæstv. ríkisstj. stæði ekki í veginum fyrir því með sinni einokun. En höfuðerfiðleikinn í sambandi við öll verzlunarmál Íslands nú er samt það, að kaupgeta almennings á Íslandi er of lítil.

Höfuðmeinið, sem við eigum við að stríða sem stendur í öllum okkar markaðsmálum, er, að almenningur á Íslandi, alþýðan sjálf, hefur allt of litla kaupgetu, allt of lítið fé á milli handanna til þess að kaupa fyrir þá útlendu vöru, sem hægt er að flytja inn í landið. Það eru allar búðir fullar af útlendri vöru, en almenning vantar fé til þess að kaupa hana. Það er hægt að selja allar þær íslenzku vörur, sem framleiddar eru til útflutnings, en með því móti auðvitað að taka vörur til Íslands í staðinn. M.ö.o., íslenzka alþýðan framleiðir nægilega mikið af vörum og getur framleitt enn þá meira, sem hægt er að selja út úr landinu og fá nauðsynjavörur í staðinn handa íslenzkri alþýðu. En það, sem stendur á fyrst og fremst, eins og nú er ástatt í þjóðfélaginu, er, að íslenzka alþýðan fái sjálf nægilega hátt kaupgjald, til þess að hún geti keypt þær vörur, sem fluttar eru inn til landsins í skiptum fyrir framleiðsluvörurnar, sem íslenzku vinnandi stéttirnar framleiða og flytja út. Svo framarlega sem íslenzk alþýða hefur nægilega mikla kaupgetu, svo framarlega sem kaupgjaldið á Íslandi er hækkað nógu rækilega frá því, sem nú er, þá getur íslenzk alþýða líka keypt þær vörur, sem fluttar eru inn í landið, og þá geta íslenzkir útflytjendur líka selt allar þær vörur, sem þeir nú liggja með og fylla þeirra vöruskemmur. Þetta vil ég undirstrika vegna þess, að hjá hæstv. ríkisstj. hafa fram að þessu viðskiptamálin staðið svo undarlega í hennar kolli, að meinið hér á Íslandi væri of mikil kaupgeta almennings. Það hefur verið til of mikil kaupgeta hér á Íslandi hjá íslenzku auðmannastéttinni, og hún hefur ekki minnkað undanfarið, heldur vaxið, þannig að krafan um innflutning hinna og þessara lúxusvara er ákaflega mikil og þær renna út jafnóðum og þær koma. En á sama tíma hefur kaupgeta almennings verið rýrð með stjórnarráðstöfunum á undanförnum árum, þannig að kaupgetuleysi almennings er núna erfiðasta vandamálið í markaðsmálum Íslendinga. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. skilji það, að til þess að við Íslendingar getum selt okkar vörur út úr landinu, okkar fisk og aðrar vörur, þá þurfum við að kaupa vörur í staðinn. Og til þess að geta keypt erlendar vörur í staðinn fyrir okkar fisk, þá þurfum við að geta selt þessar erlendu vörur hérna heima. Og til þess að geta selt þessar erlendu vörur hérna heima, þá þarf alþýða Íslands að hafa nægilega mikla kaupgetu til þess að geta keypt þær. Og það hefur hún ekki núna. Núna standa allar búðir fullar af útlendum vörum, sem alþýða Íslands hefur unnið fyrir með framleiðslu á útflutningsafurðunum. En alþýða Íslands hefur ekki möguleika á að kaupa þessar vörur, vegna þess að hún hefur fengið allt of lítið í sinn hlut af því verðmæti, sem hún hefur skapað. Hún hefur fengið allt of lítið kaupgjald, allt of lítinn hlut af því, sem flútt hefur verið út. Auðhringarnir hérna á Íslandi hafa ginið þarna yfir og tekið af atvinnurekendunum og verkamönnunum það, sem átti að koma í hlut verkamanna og atvinnurekenda af verðmætum framleiðslunnar. Olíuhringarnir, fiskhringarnir, bankarnir, Eimskipafélagið og aðrir slíkir aðilar hafa skattlagt atvinnureksturinn, rænt verkamenn stórum hluta kaupgjaldsins og valdið atvinnurekendunum og atvinnurekstrinum tapi, allt með tilstyrk og fyrir pólitík ríkisstj. Svo þegar ríkisstj., þrem árum eftir að búið var að benda henni á og sanna henni, hver markaður væri í Austur-Þýzkalandi fyrir okkar freðfisk, loksins fæst til þess að gera eitthvað í því að selja til þessa lands og kaupa vörur í staðinn, hvað kemur þá í ljós? Það, sem kemur í ljós, er það, að mennirnir, sem selja freðfiskinn og eiga að kaupa vörurnar í staðinn, segja við ríkisstj. og ráðherra: Ef við kaupum nauðsynjavörur handa Íslendingum fyrir 18 millj. kr., alls konar búsáhöld, vefnaðarvörur, rafmagnsvörur og annað slíkt, þá vitum við, að kaupgetan hjá almenningi á Íslandi er svo lítil, að við þorum ekki að kaupa þessa vöru inn í landið öðruvísi, en með því að fá einokun á henni og geta komið í veg fyrir, að selt sé meira af freðfiski til þessa lands og keypt meira af nauðsynjavörum handa almenningi í staðinn. — M.ö.o. vegna þess, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur minnkað kaupgetu Íslendinga og sérstaklega íslenzkrar alþýðu ár frá ári á undanförnum árum, þá þora þeir aðilar, sem hafa mest með höndum viðskipti Íslendinga við útlönd, ekki að kaupa nauðsynjavörur í útlöndum öðruvísi, en að fá einkaaðstöðu til þess að geta selt hana hérna heima. Eða ef t.d. heildsalar, sem verzla með skófatnað eða ákveðna vefnaðarvöru eða svoleiðis, eiga að kaupa, þá segja þeir: Ja, þá má ekki flytja inn meira af vefnaðarvöru. Þá má ekki vera frjáls verzlun á vefnaðarvöru. Þá má ekki allt í einu koma og fara að keppa við okkur, því að við erum á móti frjálsri samkeppni. — Og af hverju segja heildsalar þetta? Af því að þeir sjá, að sú hætta vofir yfir, að almenningur geti ekki keypt vörurnar, sem koma inn í landið í staðinn fyrir fiskinn, sem almenningur hefur framleitt. M.ö.o., það er verið að valda erfiðleikum í sölu á íslenzkum útflutningsafurðum sökum þess, hvernig kaupgeta almennings á Íslandi hefur verið minnkuð. Þetta vil ég, að komi skýrt og greinilega í ljós, vegna þess að það hefur undanfarið verið reynt að koma þeirri hugmynd inn, ekki sízt af hálfu ríkisstj. og hennar flokka, að kaupgetan á Íslandi væri of mikil og sérstaklega hefðu verkamenn of mikla kaupgetu. Þetta er sú vitlausasta kenning, sem nokkurn tíma hefur verið haldið fram, og á henni hefur öll vitleysa ríkisstj. í öllum hennar fjármálum byggzt.

Það, sem Ísland líður undir núna, er of lítil kaupgeta almennings. Í fyrsta lagi líða alþýðuheimilin sjálf undir því. Í öðru lagi liður þjóðin undir því, vegna þess að hún fær ekki að selja sínar vörur út úr landinu, af því að hún þarf auðvitað að taka aðrar vörur inn í landið í staðinn, nauðsynjavörur, en almenningur hefur ekki efni á því að kaupa þessar nauðsynjavörur. M.ö.o., íslenzk alþýða vinnur og framleiðir, framleiðir fyrir mörg hundruð millj. króna fiskafurðir. Fyrir þessar fiskafurðir, sem hún sendir út úr landinu, þarf hún að fá sínar nauðsynjar. Þegar þessar útlendu vörur koma inn í landið í staðinn, þá er hins vegar búið að klípa svo mikið af kaupgetunni, sem alþýðan átti að hafa, kaupinu, sem hún átti að fá fyrir að framleiða fiskinn, að hún hefur ekki efni á að kaupa vörurnar, sem hún hefur raunverulega verið að vinna sér fyrir, út af því, að auðmannastéttin í landinu og ríkisvaldið hefur tekið svo stóran hlut af almenningi, að hann hefur ekki nægilegt eftir til þess að geta keypt. Þetta er að vísu ekki neitt óþekkt fyrirbrigði í núverandi auðvaldsskipulagi. Þetta er það almenna fyrirbrigði í auðvaldsskipulaginu, sem skapar kreppur og veldur því, að framleiðslan dregst saman og framleiðslan hrynur. Með þeim kerfisbundnu, vísvitandi árásum, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir undanfarin ár á lífskjör almennings, er hún að rífa grundvöllinn undan útflutningsframleiðslu Íslendinga. Ég býst að vísu ekki við, að hæstv. ríkisstj. skilji þetta. Hún hefur aldrei skilið upp né niður í neinu, sem snertir efnahagsstarfsemi þjóðfélagsins. Hún hefur aldrei nokkurn tíma séð neitt nema ríkisreikningana. Ef hún getur fláð almenning með sköttum og tollum, þannig að ríkissjóðurinn ballanseri, þá heldur hún, að allt sé leyst. En þó að þjóðfélagið sitji uppi með hlut, sem það hefur skapað, eins og fiskinn annars vegar, útlendu vörurnar, sem keyptar eru inn, hins vegar, og geti ekki torgað þessu, á sama tíma sem almenningur býr við vaxandi fátækt, þá getur hún ekki skilið það ástand. Við því ástandi er aðeins ein lausn til: hækkað kaupgjald hjá almenningi, aukin kaupgeta alþýðu og minnkaður gróði hjá þeim aðilum, sem féfletta atvinnureksturinn og græða um 100 millj. kr. á ári, á sama tíma sem verkalýðurinn býr við lakari kjör, mikið af atvinnurekstrinum tapar og þjóðin í heild býr við rýrnandi lífskjör. Hins vegar er það núverandi ástand skiljanlegt hjá ríkisstj., sem vinnur eingöngu í þjónustu auðhringanna í landinu, ríkisstj., sem stuðlar að því, að olíuhringarnir taki tugmillj. kr. gróða af útveginum, á sama tíma sem útvegurinn tapar, að Landsbankinn taki 28 millj. kr. gróða af atvinnurekstri landsmanna, á sama tíma sem ríkisstj. segir, að atvinnureksturinn þoli ekki neitt. Það er gefið, að eigi að skapa viðunandi ástand í þjóðfélaginu, þá verður að verða þarna alger breyt. á. Gróði þessara auðhringa verður að minnka eða hverfa, gróði þessara aðila. Lífskjör almennings verða að batna, kaupgjald og kaupgeta almennings verður að vaxa. Við það getur framleiðslan til útflutnings vaxið, vegna þess að við það getum við keypt meira af vörum erlendis og selt þær hér innanlands.

Ég vildi leggja áherzlu á í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að þannig væri frá því gengið og búið svo um hnútana, að það fengi að koma alveg greinilega í ljós, hve mikill markaður er fyrir allar íslenzkar afurðir erlendis og hvaða aðila það er að kenna, að Íslendingar fá ekki að nota sér það. Það er ekki til neins að koma hér fram hvað eftir annað, eins og ríkisstj. og hennar blöð gera, og segja, að það sé ekki hægt að selja íslenzkar vörur, og undirbúa á sama tíma að skapa einokun til þess að hindra, að hægt sé að selja vörurnar út úr landinu og kaupa vörur í staðinn.

Þetta frv. fer nú til n., sem ég á sæti i, og ég mun þá undirbúa brtt. við það. En mér þætti mjög vænt um, ef annaðhvort fyrir n. eða nú lægju upplýsingar um það frá hæstv. ríkisstj., að hún hugsaði sér ekki, það væri ekki með hennar vilja, að sú ábyrgð, sem ríkissjóður þarna tæki, væri að neinu leyti notuð til þess að skapa einokun í okkar viðskiptalöndum fyrir neina einstaka aðila hérna heima. Hæstv. ríkisstj. veit, að það hafa komið mjög ákveðnar kröfur fram, a.m.k. út af þessum Austur-Þýzkalandsviðskiptum, sem hæstv. viðskmrh. minntist á, frá bæði innflytjendum og smákaupmönnum o.fl., um frjáls viðskipti. En ég býst við, að hæstv. ríkisstj. sé líka kunnugt um, að það eru á ferðinni samtök um að mynda einokunarhring til þess að hafa með þau að gera og til þess að hindra frekari sölu á íslenzkum afurðum. Ég vildi, að það kæmi greinilega fram, að með því frv., sem hérna er flutt, og með ábyrgð ríkissjóðs á hugsanlegum inneignum í Austur-Þýzkalandi eða öðrum þeim löndum, sem við höfum jafnan skipt við, þá væri ekki verið að stuðla að myndun slíkrar einokunar.