07.10.1952
Sameinað þing: 3. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

1. mál, fjárlög 1953

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Mér finnst hæstv. fjmrh. sífellt vera að lækka, en kannske er það bara sjónvilla í sambandi við fjárlagafrv., sem alltaf er að hækka. Stjórnarblöðin hafa verið að gera samanburð á þessu nýja fjárlagafrv. og fjárlögum yfirstandandi árs og þannig komizt að þeirri niðurstöðu, að ráðherrann telji fjárþörf ríkissjóðs vera um 10 millj. kr. meiri, en í fyrra og yrði þeirri fjárþörf fullnægt — telja þau — með hækkuðum sköttum og tollum. Vissulega væri það að bera í bakkafullan lækinn, þótt ríkisútgjöldin hækkuðu ekki nema um 10 millj. kr. á einu ári, en því miður er þessi samanburður rangur og villandi. Með réttum samanburði er hækkunin miklu meiri, og er þó minnst af henni séð enn þá. Fjárlagafrv. á ekki að bera saman við fjárlög þessa árs eins og Alþingi gekk frá þeim. Þau hækkuðu í meðförum þingsins um allt að 19 millj. kr., og sams konar hækkanir eiga vafalaust eftir að bætast við niðurstöðutölur fjárlagafrv. nú í meðförum þessa þings. Gæti jafnvel svo farið, að sú hækkun yrði miklu meiri nú, þar sem kosningar eru framundan á næsta sumri, eins og ýmsir hafa verið að minna á.

Það er miklu réttara, og við fáum miklu réttari mynd af þessu og sjáum betur, hvert fjmrh. stefnir með ríkisútgjöldin, með því að bera saman niðurstöðutölur fjárlagafrv. fyrir árið 1952, eins og hæstv. fjmrh. lagði það fyrir Alþingi í fyrrahaust, og niðurstöðutölur fjárlagafrv., sem hér er til umræðu. Og hvað kemur þá í ljós? Jú, þá sést það strax, að útgjöld ríkissjóðs samkv. rekstrarreikningi, sem í fyrrahaust voru áætluð rúmar 314 millj. kr., eru nú af sama hæstv. ráðh. áætluð 352 millj. kr. Hækkunin er sem sé ekki 10 millj., heldur fullar 38 millj. kr. Og sé litið á endanlegar niðurstöðutölur á sjóðsyfirliti, þá voru þær á frv. í fyrrahaust 363 millj., en eru núna 392 millj. Þar er hækkunin 29 millj., og er þess þó að geta, að hagstæður greiðslujöfnuður nú er ekki nema 1/2 millj. kr. á frv. móti 4 millj. kr. í fyrra. Það er svona að forminu og nafninu til stritazt við að koma saman endum á pappírnum á þessu fjárlagafrv. Annað og meira er það nú ekki, sem tekizt hefur.

Sé svo litið á skattana og tollana, sem reiknað var með að leggja á landslýðinn í fyrra og núna, þá er sá samanburður á þessa leið: Í fjárlagafrv. í fyrrahaust voru skattar og tollar áætlaðir 270.8 millj. eða milli 7 og 8 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. En á þessu fjárlagafrv. eru skattar og tollar áætlaðir 296 millj. og 800 þús. kr. Hækkun tolla og skatta á einu ári nemur þarna bara 26 millj. og 800 þús. kr. Þessa viðbótarpinkla á þrautpínd þjóð af atvinnuleysi og annarri stjórnleysisóáran að rogast með á því herrans ári 1953, og þá eru tollar og skattar líka orðnir um það bil 10 þús. kr. á hverja meðalfjölskyldu í landinu.

Það sést hvergi örla á nokkrum minnsta sparnaði á þessu fjárlagafrv. eða viðleitni í þá átt. Smátt og smátt er verið að smokka einum og einum stjórnargæðingi að ríkissjóðsjötunni, nú hér og svo þar, og það er eins og stóru skrifstofubáknin í Reykjavík haldi ekki virðingu sinni og áliti, nema kostnaðurinn við þau hvert um sig hækki svona um 100–200 þús. kr. á hverju einasta ári. 10. gr. fjárl., sem ber undirtitilinn: „til ríkisstjórnarinnar er veitt“ — hækkar um 1 millj. kr. og er komin upp í 8.11 millj. Fyrri hluti næstu greinar, A-liðurinn, sem heitir: „til dómgæzlu o g lögreglustjórnar o.fl.“ — hækkar um nærri því 4 millj., eða nánar tiltekið 3 millj. og 800 þús. C-liður sömu greinar, kostnaður vegna innheimtu tolla og skatta, hækkar um rúma milljón og nálgast nú milljónatuginn, eða er 9 millj. og 600 þús., og þannig mætti lengi telja.

Hæstv. ráðh. reynir að afsaka hækkanirnar með vísitöluhækkun þeirri, sem orðið hafi siðan seinustu fjárlög voru samin, en slíkt er vitanlega engin afsökun. Miklu fremur er síhækkandi dýrtið, eitt hið stærsta ásökunarefni á hendur þessari ríkisstj., sem í verðlagsmálunum berst eins og strá fyrir straumi, að svo miklu leyti sem hún hefur þá ekki beint gert stjórnarráðstafanir til aukinnar dýrtíðar, sbr. gengislækkun, bátagjaldeyrisfyrirkomulag og afnám alls verðlagseftirlits, sem vitanlega hefur verið tekið af mörgum sem bein heimild og tilboð um frjálst okur.

Þá er það önnur tilraun hæstv. ráðh. til þess að afsaka hækkanir ýmissa gjaldaliða, að um síðastliðin áramót hafi verð á rafmagninu í Reykjavík verið hækkað um 30% og taxtar hitaveitu Rvíkur hafi verið hækkaðir um 60%. Þetta eru vissulega gífurlegar hækkanir. En ætli það komi ekki nokkurn veginn jafnóþyrmilega við pyngju skattborgaranna, hvort sem hækkanirnar eiga rót sína að rekja til óstjórnar íhaldsins yfir Reykjavíkurbæ, eins og í þessu tilfelli, eða þær eru skilgetið afkvæmi þeirra stjórnarhátta, sem hæstv. ríkisstj. sjálf skapar? Að minnsta kosti geri ég þess engan mun, hvort heldur er, og mun svo fleirum fara.

Mér þótti það býsna gott hjá einu af aðalstuðningsblöðum stjórnarinnar, sem var að ræða um fjárlagafrv. núna á laugardaginn var. Það sagði orðrétt, með leyfi hæstvirts forseta: „Grundvöllurinn, sem fjárlagafrv. byggir á, er veikari en svo, að á honum verði reistar aðrar byggingar, en þær, sem eru í líkingu við skakka turninn í Pisa, sem stöðugt eykur halla sinn til hruns og falls.“ Já, grundvöllur hækkandi skatta er vissulega orðinn næsta hæpinn og veikur, þegar fjölmennustu stéttir þjóðarinnar búa orðið við sílækkandi tekjur og dvínandi atvinnu í bandóðu dýrtíðarflóði, sem aldrei ætlar að taka nokkurn enda. Það þarf víst enginn að efa, að ástandið er orðið alvarlegt, að maður ekki segi, að það sé orðið „svart“, þegar stjórnarherrarnir sjálfir og málgögn þeirra líkja fjárlagafrv. hæstv. stjórnar við hallan og skakkan og hrynjandi turn, sem enginn viti, hvenær velti til jarðar og verði rústir einar. Það er full ástæða til að biðja hlustendur að leggja sér það á minnið, að það er ekki stjórnarandstaðan, heldur stjórnarliðið sjálft, málgögn þess, sem í vaxandi ugg sínum og raunar vissu þess, að ríkisstj. riði til falls, hefur hitt naglann hnyttilega á höfuðið með því að líkja fjárlagafrv. Eysteins Jónssonar við skakka turninn í Písa.

Annars er frekar þýðingarlitið að ræða við ykkur, hlustendur góðir, um tolla þá og skatta, sem ykkur sé ætlað að bera samkvæmt áætlunartölum fjárlagafrv., því að það eru, eins og ég áðan sagði, kosningar í vor eða sumar, og fjárlagafrv. á vafalaust eftir að hækka um marga milljónatugi, áður en það verður að lögum. Um niðurskurð útgjalda verður sjálfsagt varla að ræða, og má þar með ganga út frá því sem gefnu, að skattarnir og tollarnir eigi eftir að hækka um svona 20–30, kannske 30–40 milljónir. Þetta þing er sem sé kosningaþing og fjárlögin, sem hér eru til 1. umr., kosningafjárlög.

Það er kunnugt af langri reynslu, að íhaldið ann ekki framförum og framkvæmdum framfaranna sjálfra vegna, en fyrir kosningar hefur því ávallt þótt heldur fýsilegt að geta víkið fyrir sig fjármagni ríkissjóðs með myndarlegum fjárveitingum, einkum í þau kjördæmi, þar sem það veit sig vera að tapa fylgi, eða þá í hin, þar sem það hefur gert sér veikar vonir um að geta unnið eitthvað á. Það eru því naumast öruggustu kjördæmi stjórnarflokkanna, sem geta gert sér vonir um riflegustu fjárveitingarnar á þessu þingi. Það þarf ekki neitt að vera að arta upp á þau rétt núna, ekki heldur þau, sem vonlaust er með öllu fyrir íhald og framsókn að vinna. Sömu lögmálum lúta fjárveitingar innan kjördæmanna, eins og hver getur gengið úr skugga um í sinni sveit, og ætla ég nú að leyfa mér að taka um þetta sláandi dæmi úr Norður-Ísafjarðarsýslu.

Íhaldið hefur löngum átt röktu fylgi að fagna í tveimur hreppum sýslunnar, Ögurhreppi og Reykjarfjarðarhreppi. Þessir hreppar skera sig líka úr að því leyti, að það hefur ekkert þurft að vera að spandera fjárveitingum til þeirra áratugum saman. Fyrir seinustu kosningar varð þó vart nokkurra óánægjuhræringa í Ögurhreppi með íhaldið, og viti menn, þá fengust fjárveitingar í fyrsta sinn í Íslandssögunni til ferjubryggju í Ögri og til þess að hálfgera vegarspotta, sem síðan hefur ekki verið hreyft við. Ég segi við ykkur þarna vestur frá: Látið í alvöru sjá á ykkur fararsnið frá íhaldinu, og þá verður vegurinn fullgerður.

Enn þá meira sláandi er þó dæmið um Reykjarfjarðarhrepp í sömu sýslu. Þar hefur nálega hver maður fylgt íhaldinu, og hefur svo verið gegnum öll tilverustig íhaldsins sem flokks, tímabil „þversum“ og „langsum“, „Sparnaðarbandalags“ og „Borgaraflokks“, einnig þegar flokkurinn hreinlega hét „Íhaldsflokkur“ og sömuleiðis síðan sjálfstæðisgríman var tekin til yfirbreiðslu. En þrátt fyrir alla þessa ódæma og ótrúlegu tryggð við íhaldið býr fólkið í þessu byggðarlagi við það enn í dag, að þar er enginn akvegarspotti til hreppsendanna á milli. Þar er engin brú, sem byggð hafi verið með aðstoð af ríkisfé. Þangað hafa sem sé engar fjárveitingar komið. — Jú, það var byggt ræsi s.l. sumar yfir vatnslaust gil, en heimamenn lögðu sjálfir fram fé til þess, af því að þeir vonuðust þá eftir, að ríkið mundi rétta höndina á móti og leyfa, að byrjað skyldi á vegarlagningu inn fyrir takmörk hreppsins, hvað ekki varð. Það hefur ekki verið talin nein þörf á að tryggja fylgið í þessum hreppi. Þar þurfti að engu að dytta, allt var þar öruggt og tryggt við hverjar kosningar, og þá var miklu hagkvæmara talið að láta skotsilfur stjórnmálanna fara á aðra staði, þar sem hættan var meiri um fylgistap eða viðbótarfylgis var fremur von. Ég býst við, að þið viðurkennið það með sjálfum ykkur, íbúar Reykjarfjarðarhrepps, sem nú kunnið einhverjir að sitja við hljóðnemann og hlýða á mál mitt, að ég hef á réttu að standa, þegar ég lýsi þessu svona, en ef ykkur einhverjum skyldi samt vera það dulið, að þetta er satt og rétt, þá lítið yfir þveran fjörð, yfir í Nauteyrarhrepp. Þar hafði fólkið almennt snúið baki við íhaldinu. Fylgi íhaldsins fór þar hrakandi. Tvö heimili eða svo stóðu föst í trúnni, og svo var fremur um von, en vissu að ræða viðast hvar annars staðar um fylgið. Þarna þurfti úr mörgu að bæta, það sáu stjórnmálaleiðtogar íhaldsins nærri því eins og aðrir. Ef ágætan grip, eins og t.d. AGA-eldavél, vantaði á heimili, var sjálfsagt að bæta úr því, helzt fyrir kosningar. — Þá var skilningurinn á nauðsynlegustu umbótum og framförum skarpastur. Og nú er svo komið, góðu heilli, að akvegur hefur verið lagður um allan þennan hrepp, margar brýr verið byggðar þar, tvær ferjubryggjur komnar þar, og þessa dagana er verið að fullgera fagra brú yfir foraðsvatnsfallið Selá. — Ég vil hér með nota tækifærið til þess að óska ykkur, íbúum Nauteyrarhrepps, til hamingju með þá langþráðu, en ágætu samgöngubót, sem Selárbrúin er og verður. Hennar var vissulega mikil þörf, og þið voruð búnir að bíða lengi eftir henni.

Á seinustu mánuðum hefur margur sagt við mig, að nú verði Ísafjörður settur hjá og hafður í banni eða svelti, meðan ég sé þingmaður kaupstaðarins. Þetta er komið frá hinum heiftræknari íhaldsmönnum, en ekki þeim greindari. Þeir greindari vita vel, að Ísfirðingar eru allra manna ólíklegastir til að láta hræða sig eða beygja eða kúga til fylgis við íhaldsstefnuna. Pólitísk sveltitilraun mundi fylla margan Ísfirðing viðbjóði á stefnu íbaldsins og vinnubrögðum og einungis valda því sjálfu fylgishruni. Þeir greindari sjálfstæðismenn sjá aftur, að á stað eins og Ísafirði, þar sem fylgi flokkanna stendur í járnum með örfárra atkvæða mun, er ekkert vit í neinu öðru, en að snúast vel við vinsælum málum og þýðingarmiklum fyrir héraðið. Ég trúi því t.d. ekki, að hæstv. ríkisstj. láti bönkunum haldast það uppi að knýja fram sölur á bátum úr Ísafjarðarbæ nú, þegar íbúarnir þar berjast við aflaleysi og þar af leiðandi atvinnuleysi. Ég trúi því ekki, að ríkisstjórn, þótt íhaldssöm sé, fremji það ranglætisverk að neita Ísafjarðarkaupstað um sjálfsagða og lofaða aðstoð til að koma fiskiðnaðarmálum sínum í viðunandi horf. Ég trúi því ekki, að Ísafjarðarbær verði settur hjá um nauðsynlegar fjárveitingar til sinna framfaramála. En verði reyndin önnur, sem ég trúi varla, þá er það eitt víst, að ekki mundi það hjálpa Ísfirðingum til að tileinka sér hugsjónir íhaldsstefnunnar, en það hefur íhaldinn sjálfu þótt þeim ganga heldur treglega hingað til.

Við skulum þá sleppa Ísafirði, en ég vil ekki fara svo héðan úr ræðustólnum að þessu sinni, að ég ekki minni á þá hryggilegu staðreynd, að Vestfirðingar og Austfirðingar alveg á sama hátt — hafa á hinn smánarlegasta hátt verið settir hjá í raforkuframkvæmdum seinustu ára. Fiskiðnaðurinn í þessum landshlutum báðum býr við rándýra og ótrygga raforku, framleidda með erlendri gjaldeyrisvöru, en á sama tíma er hundruðum milljóna varið til endurvirkjana í stórum stíl í öðrum landshlutum. Ef þetta höfuðmál Austfirðinga og Vestfirðinga, þ.e.a.s. Austfjarðavirkjun og Vestfjarðavirkjun, fær ekki fullnægjandi afgreiðslu á þessu þingi, þá hlýtur það að verða ævarandi áfellisdómur á báða núverandi stjórnarflokka. Ekki geta Sjálfstfl. og Framsfl. afsakað aðgerðaleysi sitt í þessum málum með aðstöðuleysi eða getuleysi á þingi til þess að leysa slíkt stórmál. Þeir hafa, svo sem kunnugt er, sterkan meiri hluta á Alþingi. Austfirðingum hlýtur að ganga illa að skilja það, hvers vegna fjmrh. þeirra með áhrifaríkan flokksbróður í sæti raforkumálaráðh. hefur sífellt getað gleymt þeim árum saman í raforkumálunum eða hvers vegna hann getur látið sér sæma að fara frá ráðherradómi án þess að leysa þetta mál málanna fyrir atvinnulíf Austfirðinga. Eða hvernig ætli Ísfirðingum, já, Vestfirðingum í heild gangi að skilja þýðingu þess að fela íhaldinu forustu sinna mála á Alþingi, þegar raforkumál þeirra hafa enga áheyrn fengið, engum skilningi mætt, engan fullnægjandi undirbúning hlotið, meðan milljónatugum var eytt í mál eins og Hæringshneykslið og aðrar slíkar „gagnlegar“ og „viturlegar“ atvinnumálahugsjónir íhaldsflokksins? Nú standa sakirnar þannig, að íhald og framsókn fara með umboð fjögurra af fimm kjördæmum Vestfjarða. Vestfirðingar eiga formann fjvn. á þingi, áhrifamikinn mann, þeir eiga forseta neðri deildar á þingi, báða í þeim stóra og máttuga Sjálfstfl. Þeir eiga nýkosinn þingmann V-Ísf., sem hefur áhuga á málinu, og síðast, en ekki sízt, er svo sjálfur raforkumálaráðherrann þm. í Vestfjarðakjördæmi. Það verður þannig aldrei skýrt eða skilið, að núverandi stjórnarflokka bresti getuna til að leysa raforkumál Vestfirðinga á þessu þingi, og ef þeir ekki leysa málið, þá liggur það ljóst fyrir, að viljann hefur vantað og ekkert annað, en það eitt er líka nógu bölvað, því að á því og því einu hefur málið strandað til þessa.

Góðir hlustendur. Ég hef að þessu sinni varið ræðutíma mínum til þess að glöggva ykkur á örfáum niðurstöðutölum hæsta fjárlfrv., sem nokkurn tíma hefur legið fyrir Alþingi og á þó eftir að hækka sjálfsagt um 30–40 millj. í viðbót, — fjárlagafrv., sem eitt af stjórnarblöðunum hefur líkt við skakka turninn í Písa. Ég hef og leitazt við að skýra, af hvaða rótum það sé runnið, þegar íhaldið fær framfara- og umbótaflog, einkanlega fyrir kosningar, og að síðustu hef ég brýnt það fyrir Austfirðingum og Vestfirðingum og eggjað þá lögeggjan um að ganga hart að íhaldinu og framsókn um lausn raforkumálanna í þessum vanræktu landshlutum. Ég hef beðið þá að minnast þess jafnvel í pólitískum bænum sínum á næsta ári, ef ekki verður neitt af framkvæmdum í þessu stórmáli á þessu þingi. — Hv. 3. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, mun svo nota síðari hluta ræðutíma míns flokks til þess að minna á afrek ríkisstj. í viðskipta- og efnahagsmálum og sérstaklega í atvinnumálum. — Verið þið sæl.