26.01.1953
Sameinað þing: 32. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

1. mál, fjárlög 1953

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að þakka hv. fjvn. eða meiri hl. hennar enn fyrir hennar hlut í afgreiðslu fjárlaganna og lýsa því hér með yfir, að ég er samþykkur þeim till., sem hv. fjvn. ber fram, og það sama er að segja um þær till., sem hv. samvn. samgm. ber fram. Ég vil leyfa mér að mæla með þeim till.

Ég ber hér fram á þskj. 606 nokkrar till. og kem nánar að þeim síðar. Ég vil að sjálfsögðu vænta þess, að hv. alþm. sjái sér fært að samþ. þessar till. Ég vil benda á það, að ef till. fjvn. verða samþ. og till. frá samgmn. og till. þær, sem ég ber fram á þskj. 606, þá mundi niðurstaða fjárlaganna verða þannig, að tekjurnar mundu verða 423 millj., eða hækka um 201/2 millj. frá því að þær voru ákveðnar við 2. umr., en útgjöldin mundu verða tæpar 422 millj. og hækka um rúml. 21 millj. frá því við 2. umr., þannig að greiðsluafgangur á frv. mundi verða 1 millj. og 200 þús. kr. Þannig mundi afgreiðslan verða, ef farið yrði eftir þeim till., sem fyrir liggja frá mér, og þeim meðmælum, sem ég var að gefa rétt áðan með till. annarra.

Um afkomuna á árinu 1952 er það að segja, að hún verður ekki enn þá séð með fullrí vissu, en ég geri ráð fyrir, að tekjurnar á rekstrarreikningi fari eitthvað yfir 410 millj., eða verði a.m.k. 410, og svo einhverjar tekjur á eignayfirlitinu, 20. gr. Ég tel það nú fyrirsjáanlegt, að ríkisbúskapurinn á síðasta ári verður hallalaus, en enginn afgangur til ráðstöfunar fyrir hv. Alþingi. Ég vonast eftir, að það verði hægt að taka með á s.l. ári útgjöldin vegna uppbótanna í sambandi við stækkun landhelginnar, þ.e. útgjöldin til þess að bæta upp togbátum og dragnótabátum. Þó að sú fjárhæð sé heimiluð fyrst á frv. þessa árs, þá vonast ég eftir því fremur, eins og nú liggur fyrir, að það verði hægt að taka þetta fé af tekjum ársins 1952.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að einstökum till. mínum, en kem raunar nánar að því síðar. — Ég legg til, að tekju- og eignarskattsáætlunin verði hækkuð um 41/2 millj. og stríðsgróðaskattsáætlunin um 11/2 millj. Ég geri ráð fyrir, að á árinu 1952 verði tekjur af þessum sköttum nokkuð svipaðar því, sem áætlað er í fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir núna. En þeir menn, sem kunnugir eru þessu og ég hef rætt þetta við fram og aftur, gera sér vonir um, að það verði nokkru meiri tekju- og eignarskattur á þessu ári, sem nú er að byrja, heldur en í fyrra, og byggi ég þessa áætlunarhækkun á þeirri skoðun. Reynslan verður svo að skera úr um það, hvort reyndin verður þessi, sem hér er gert ráð fyrir nú. — Þá legg ég til, að þrír tollar verði hækkaðir, vörumagnstollur um 11/2 millj., verðtollur um 4 millj. og söluskattur um 6 millj. kr. Ef þessar áætlanir eru samþ., þá eru þessir skattar áætlaðir dálítið hærri, en þeir voru á árinu 1952, að því er mér sýnist, og mætti margur spyrja, hvort það væri ekki hæpin áætlun að áætla þá hærri í fjárlagafrv. fyrir 1953, en þeir voru 1952. Sú áætlun mundi réttlætast af því einu, að á árinu 1953, því sem nú er að byrja, eigum við von á allverulegum tolltekjum af vélum til þeirra þriggja stóru fyrirtækja, sem verið er að reisa. Það var gert ráð fyrir því, að verulegur hluti þessara tolltekna af vélunum kæmi á árið 1952, en nú er sýnt, að það verður ekki og að þeir koma að langmestu leyti á árið 1953.

Um aðrar till. til hækkunar á tekjunum er það að segja, að ég geri ráð fyrir að hækka tekjur af tóbakseinkasölunni um 3 millj., og er það nokkuð í samræmi við reynsluna af afkomu verzlunarinnar á því ári, sem var að liða, sem hefur verið góð og betri, en gera mátti ráð fyrir langt fram eftir árinu, og stafar það af því aðallega, að það hefur verið hægt að kaupa tóbaksvörur frá Ameríku, en það er miklu hagstæðara að verzla með vindlinga, sem keyptir eru frá Ameríku, en aðra vindlinga.

Um útgjaldatill. er það að segja, að þær, sem ég flyt á þessu umrædda þskj., eru allar í sambandi við lausn verkfallsins, og ég kem að þeim síðar, þar sem ég ræði nokkuð hér á eftir um lausn verkfallsins og afgreiðslu fjárlaganna.

En eina till., sem snertir tekjuhliðina, vil ég ræða alveg sérstaklega, og það er till. um það, hversu áætla skuli tekjur af Áfengisverzlun ríkisins á þessu ári, sem nú er að byrja. Ég legg til, að þær verði áætlaðar 52 millj. í staðinn fyrir 53, sem frv. gerir ráð fyrir. Menn hafa talað nokkuð um það sín á milli, hvort hægt mundi vera að afgreiða fjárlögin eins og ástatt væri um áfengismálin, þar sem hefur verið tekið alveg fyrir sölu áfengis á veitingastöðum og auglýst, að lög um héraðabönn skyldu taka gildi. Menn hafa gert ráð fyrir því, að ráðstafanir af þessu tagi hlytu að hafa stórfelld áhrif á tekjurnar af Áfengisverzlun ríkisins, og er það ekkert undarlegt. Hefur hver spurt annan: Hvernig ætla menn að afgreiða þessi mál? Stjórnin hefur lýst yfir því, að tollar og skattar skuli ekki hækka. Það er gert ráð fyrir því að hætta að veita áfengi á veitingastöðum, og héraðabönnin eru yfirvofandi. Hvernig ætla menn þá að afgreiða fjárlögin, þegar svona stendur á? — Mín till. er sú, að það verði gert á þann hátt, sem hér liggur fyrir, að tekjurnar af Áfengisverzlun ríkisins verði áætlaðar 52 millj. í staðinn fyrir 53, en jafnframt verði l. um héraðabönn framkvæmd þannig, að lokað sé 6 mánuðum eftir að með atkvgr. hefur verið ákveðið, að svo skuli gert. Ég skal færa fyrir þessari till. frekari rök.

Í áfengislögunum eru ákvæði um, að leggja skuli niður áfengisútsölu frá Áfengisverzlun ríkisins, ef það er samþ. við almenna atkvgr. í þeim kaupstað, þar sem áfengisútsalan er. Dómsmrn. hefur nú lýst yfir því, að lokun áfengisútsölu samkv. þessu lagaákvæði teljist ekki brot á neinum samningi við önnur ríki. Fram að þessu hefur á hinn bóginn sá skilningur verið ríkjandi, að svo væri og gæti þá ekki þetta lagaákvæði komið til framkvæmda þegar af þeirri ástæðu, að í áfengisl. segir, að ákvæðið öðlist ekki gildi nema því sé yfir lýst, að lokun áfengisútsölu brjóti ekki í bága við milliríkjasamninga.

Í fjárlagafrv. því, sem nú er verið að afgreiða á hv. Alþingi, er gert ráð fyrir 53 millj. kr. hreinum tekjum af rekstri Áfengisverzlunar ríkisins með útsölum, eins og ég gat um áðan. Þótt svo kynni að fara, að lagðar yrðu niður útsölur frá Áfengisverzlun ríkisins, þá eiga menn samt sem áður samkv. áfengisl. rétt á því að kaupa vín beint frá Áfengisverzlun ríkisins. M.ö.o., ef héraðsbann yrði samþ. í Reykjavík, þá mundi framkvæmd þessara mála verða þannig, að útsölunum yrði að sjálfsögðu lokað, en menn gætu pantað vín frá Áfengisverzlsun ríkisins, sem starfar í Reykjavík, og fengið það afgreitt til sín eftir pöntun. Úti á landi mundi þetta verða þannig, að það yrði að sjálfsögðu einnig lokað áfengisútsölunum, og menn yrðu þá til þess að geta fengið vín með löglegu móti að panta vínið frá aðalverzluninni í Reykjavík. Þannig mundu þessi viðskipti verða.

Ég skal ekki neinar getur að því leiða, hvaða áhrif héraðabönnin mundu hafa endanlega á tekjurnar af Áfengisverzlun ríkisins, en það er a.m.k. alveg augljóst mál, að í byrjun mundu þau hafa mjög veruleg áhrif á tekjur af Áfengisverzluninni, einkum þó lokun útsalanna utan Reykjavíkur, þar sem þá væri ekki hægt að fá vín keypt á staðnum með löglegu móti, heldur yrðu menn að fá það sent til sín frá aðalverzluninni í Reykjavík. Aftur á móti mundi miklu minni breyting eiga sér stað — ef hún yrði nokkur — í Reykjavík, þar sem menn þrátt fyrir lokun útsalanna mundu eiga rétt á því að fá vinið afgreitt frá verzlun, sem starfar í bænum. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að ef íbúar í kaupstöðum landsins hyrfu yfirleitt að því ráði að samþ. lokun áfengisútsalanna, leiddi af því verulegt tekjutap fyrir Áfengisverzlun ríkisins. Vitanlega er ekkert um það að segja í þessu sambandi annað en það, að eins og háttað er afgreiðslu fjárl., þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum greiðsluafgangi, heldur aðeins jöfnuði, þá bæri nauðsyn til, ef að slíkri lokun útsalanna yrði hnigið, að afla nýrra tekna á móti þeim tekjumissi, sem ríkissjóður yrði fyrir, eða að öðrum kosti að lækka ýmsar fjárveitingar á fjárl. Nú er ekkert vitað, hvað menn kunna að hyggjast fyrir um þetta mál í einstökum byggðarlögum, þar sem áfengisútsölur eru, og kemur að sjálfsögðu ekkert fram um þetta áður en frá fjárl. er gengið nú alveg næstu daga, jafnvel á morgun, fjárl. fyrir árið 1953. Það er ekki heldur hægt að geta sér neitt til um þetta, og þá er þess ekki heldur að vænta, að Alþ. fari nú að ganga í skrokk á fjárlagafrv. eða tekjuöflunarlöggjöf ríkisins með tilliti til lokunar á útsölum, sem fullkomin óvissa er um, hvort til greina muni koma eða hvenær muni koma til greina.

Nú er í áfengislöggjöfinni ekkert um það, hversu langan frest skuli hafa frá úrslitum atkvgr. og þangað til lokun útsölu á sér stað, en einhvern skynsamlegan frest verður vitanlega að hafa á þessu. Það þarf að segja upp því starfsfólki, sem starfar við útsölurnar. Það þarf að segja upp húsnæðinu, sem útsölurnar hafa, og dálitlar birgðir eru alltaf í þessum útsölum af vínföngum, og lítil glóra er í sjálfu sér í því að flytja þær birgðir fyrst til Reykjavíkur og senda mönnum þær síðan aftur eftir pöntunum, hverjum einstökum. Það er því augljóst mál, að einhver skynsamlegur frestur verður að vera á lokun, ef menn vilja ekki láta verða af þessu stórfellt tap og röskun. Ríkisstj. hefur því komizt að þeirri niðurstöðu, að skynsamlegast og eðlilegast mundi vera að framkvæma lokunarákvæði áfengislaganna þannig, að lokað sé skilyrðislaust 6 mánuðum eftir að úrslit atkvgr. liggja fyrir og samþykkt hefur verið, að loka skuli. Með því fæst frestur til þess að segja upp því fólki, sem vinnur hjá útsölunni, og því húsnæði, sem hún notar. Með því er forðað stórfelldu tjóni við framkvæmd löggjafarinnar, og með því móti fær hv. Alþingi yfirleitt hæfilegt svigrúm til þess að gera ráðstafanir til lækkunar gjöldum eða tekjuöflunar, ef lokun útsalanna er ákvörðuð svo víða, að ástæða þykir til slíks.

Vegna þess að þetta mál snertir beint afgreiðslu fjárl., þykir ríkisstj. rétt, að það komi fram í sambandi við afgreiðslu fjárl., hvort þingvilji er fyrir hendi til stuðnings þessari fyrirhuguðu framkvæmd laganna. Sýni það sig, að þingvilji sé fyrir þessari framkvæmd laganna, þá er fyrir því séð, að lokun útsalanna eftir atkvgr. verður þannig framkvæmd, að hún þarf ekki að hafa óeðlilega truflun í för með sér á afkomu ríkissjóðs, þar sem ríkisstj. og Alþ. er alveg vorkunnarlaust að forða frá tjóni með uppsögnum starfsfólks og húsnæðis og einnig vorkunnarlaust að nota frestinn, sem gefst, til þess að afla tekna á móti eða lækka ríkisútgjöld, ef hér verður um svo víðtækar útsölulokanir að ræða, að menn telji, að til þess þurfi að koma. Þess er nú að vænta, að um þessa aðferð við framkvæmdina geti orðið samkomulag, og þeir, sem áhuga hafa fyrir lokun útsalanna, ættu ekki síður en aðrir að styðja þessa framkvæmd, einmitt fyrir það, að hér er bent á leið til þess að koma lokuninni í framkvæmd, án þess að sú röksemd verði notuð á móti lokuninni á nokkurn hátt, að með henni sé verið að tefla í tvísýnu afkomu ríkissjóðs.

Lokun fyrir vínveitingar á veitingahúsum lækkar eitthvað tekjur af Áfengisverzluninni. Þess vegna leggur stjórnin til, að tekjurnar séu lækkaðar um eina milljón. Ég geri nú að vísu ráð fyrir því, að lokun fyrir þessar vínveitingar muni muna meiru í framkvæmdinni, en þó er ómögulegt um það að segja. Þessi áætlun, að áætla tekjurnar 52 millj. með því að hafa lokað fyrir vínveitingar á veitingastöðunum, er þess vegna nokkuð djarfleg og mundi að sjálfsögðu vera til muna of há, ef gera ætti ráð fyrir þeirri truflun á rekstri fyrirtækisins, þ.e.a.s. Áfengisverzlunar ríkisins, sem hljótast mundi af fyrirvaralausri lokun útsala í byrjun fjárhagsárs, að nýsamþykktum fjárlögum, ofan á það, að tekið er fyrir sölu áfengis á veitingastöðum. Ef þetta hvort tveggja færi saman, þá væri ekkert vit í þessari áætlun, en miðað við það, að sú aðferð sé viðhöfð um framkvæmd áfengislaganna, sem ég var að lýsa og stjórnin gerir að sinni till., þá sýnist þessi áætlun ekki vera mjög óvarleg. Væri þessi aðferð ekki viðhöfð, gæti svo farið, að Alþ. yrði að koma saman aftur á næstu mánuðum til þess að gera ráðstafanir í fjárhagsmálunum fyrir aðalútgjaldatímann, sem er sumarið, eða þá að menn ættu á hættu hallabúskap ríkissjóðs. Hvorugur sá kostur er góður, en úrræðið einfalt, til þess að menn geti tryggt sér lokun áfengisútsala, ef meiri hluti kjósenda í hverjum stað vill, án þess að eiga nokkuð á hættu um fjárhagslega erfiðleika ríkissjóðs af þeim sökum, því að það skapast ekkert fé við það út af fyrir sig að selja áfengið. Það þarf bara svigrúm til að finna aðrar leiðir til þess að afla þeirra tekna með öðru móti, sem af áfengisverzlun eru fengnar, og það er hv. Alþingi alveg vorkunnarlaust að gera, þegar það liggur fyrir, hversu viðtækar lokanirnar verða.

Þetta var um tekjurnar af Áfengisverzlun ríkisins og tillöguna, sem ég flyt um það atriði á þskj. 606.

Ég skal taka það fram, að ég á eftir að flytja eina till., og hún er um heimild fyrir ríkisstj. til þess að leggja fram fé til atvinnuaukningar, og mun hún væntanlega koma fram síðar í dag. Ég ræði hana ekki hér að öðru leyti, en því, sem fram kemur hér á eftir um verkfallið og afgreiðslu fjárlaganna.

Ég mun þá víkja nokkuð að verkfalli, sem hér var nýlega háð, og afgreiðslu fjárlaganna. Það er alveg eðlilegt, að fyrir þessu sé gerð sérstök grein einmitt nú við 3. umr. fjárlagafrv.

Það er nú hér nýlega afstaðið mikið verkfall. Eins og þjóðfélagsástæður eru hér nú hjá okkur, þá sýndist aðeins vera um tvær leiðir að ræða til lausnar á þessu verkfalli. Önnur leiðin var veruleg, almenn kauphækkun, sem þá hefði hlotið að leiða til gengislækkunar eftir mjög skamman tíma, eins og háttað er afkomu útflutningsframleiðslunnar. Hin leiðin var sú, að reynt yrði að gera ráðstafanir til þess að koma á einhverjum almennum verðlækkunum, enda yrðu þá litlar eða engar kauphækkanir. Ríkisstj. ákvað að gera það, sem í hennar valdi stæði til þess, að síðari leiðin yrði farin, þar sem mönnum blöskraði sú röskun á fjárhagskerfinu, sem hlyti að verða, ef veruleg, almenn kauphækkun ætti sér stað og gengislækkun strax á eftir, og þá ekki sízt með tilliti til þess, að verðlag yfirleitt er fremur á lækkunar- en hækkunarleið. Ríkisstj. beitti sér þess vegna fyrir því, að síðari leiðin væri farin, þótt svigrúm væri lítið til þess að fara þá leið vegna þeirrar áhættu, sem henni er samfara fyrir afkomu ríkisins, en það var ljóst frá öndverðu, að ef almenn verðlækkun ætti að verða, þá mundi hún að langmestu leyti verða að eiga sér stað með því móti, að ríkissjóður tæki á sig að greiða niður verð einhverra nauðsynjavara. Það virðist hafa mælzt allvel fyrir, að þessi leið var farin, fremur en leið almennrar kauphækkunar með gengislækkun í kjölfarinu, og við skulum vona, að það hafi verið rétt að tefla á tæpasta vaðið til þess að fara þá leið, sem fyrir valinu varð. Enda þótt ég væri á sínum tíma mikill talsmaður þess að fara fremur, eins og nú standa sakir, þá leið, sem ofan á varð, en hina, sem blasti við að öðrum kosti, þá var mér þó vel ljóst, hve þessi leið er hæpin í sjálfu sér, og var ég henni fylgjandi til þess að fyrirbyggja annað lakara. Er nú rétt að benda á það nánar, en áður hefur verið gert, einmitt í sambandi við afgreiðslu fjárl. á Alþ., hvað það var, sem raunverulega gerðist, þegar verkfallið var leyst.

Aðalatriðið var, að ríkisstj. tók að sér að greiða niður verð á nokkrum tegundum nauðsynjavara, þannig að vísitalan lækkaði um 5 stig, en raunverulega var hún lækkuð með þessum ráðstöfunum um rúmlega 4 stig, þar sem lækkun um nálega eitt stig var fyrirsjáanleg af öðrum ástæðum hvort sem var. Enn fremur ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir verulegri aukningu á fjölskyldubótum. Lækkun sú á verðlagi, sem færði vísitöluna niður, kostar ríkissjóð um 12–13 millj. kr. á ári og hækkun í fjölskyldubótum kostar ríkissjóð tæpar 5 millj. kr. Mun þurfa að hækka tekjuáætlun fjárl. um rúmlega 20 millj. kr., til þess að fjárlögin verði afgreidd greiðsluhallalaust, miðað við þær breytingar á þeim, sem leiðir af lausn verkfallsins, og hef ég þegar gert grein fyrir till. mínum í þessu sambandi.

Það er að sjálfsögðu alltaf mikið álitamál, hvað Alþ. og ríkisstj. eiga að leyfa sér að áætla tekjur þess fjárhagsárs, sem í hönd fer. Það þarf ekki að verða mikil breyting á framleiðslu og viðskiptalífi til þess, að tekjur ríkissjóðs breytist um 5% t.d. til hækkunar eða lækkunar, og 5% af ríkistekjunum eru um 20 millj. kr. Til þess að fjárlögin fái staðizt í framkvæmd, eftir að tekjuáætlunin hefur verið hækkuð um rúmlega 20 millj., þurfa tekjurnar næsta ár að verða eitthvað hærri, en þær urðu s.l. ár, eins og ég raunar gat um áðan líka í sambandi við till. sjálfar. Er ætlunin að hækka nú samt tekjuáætlunina um rúmlega 20 millj., og er það gert með sérstöku tilliti til þess, að allmikilla tolltekna er að vænta af vélum og efnivið til stóru fyrirtækjanna þriggja, og er nú sýnt, að þessar tekjur koma að langmestu leyti á yfirstandandi ár.

En þá kemur spurningin: Hvernig var ætlunin að afgreiða fjárlög, ef verkfallið hefði ekki til sögunnar komið og ríkisútgjöld þau, sem lausn þess fylgja nú? Ætlunin var að afgreiða fjárlögin varlegar, en nú verður gert og tefla ekki á tæpt vað, svo mikið sem þjóðin á undir því afkomu sína, að ekki verði halli á ríkisbúskapnum, eins og nú er ástatt hér um fjárhagsmálin. Fyrirhugað var einnig að fá allríflegar heimildir Alþ. til þess að leggja fram fé til atvinnuaukningar og til þess að stuðla að vaxandi framleiðslu víðs vegar um landið, annars vegar til þess að mæta atvinnuleysi, ef að kynni að steðja á ýmsum stöðum, og á hinn bóginn til þess að mynda nokkurt jafnvægi úti um land á móti mikilli vinnu við varnarframkvæmdir á Suðurnesjum, sem væntanlega verður á þessu ári. Ætlunin var sem sé að taka ekki verulega áhættu, ekki til þess að leggjast á fé, ef vel áraði um viðskipti og ríkistekjur, heldur til þess að hafa fremur en hitt fjárráð til stuðnings atvinnuframkvæmdum og mest aðkallandi nauðsynjamálum eftir heimild Alþ.

Lausn sú, sem ríkisstj. beitti sér fyrir á verkfallinu til þess að fyrirbyggja, að allsherjar verðhækkunaralda risi enn þá einu sinni og gengislækkun sigldi strax í kjölfarið, breytir afgreiðslu fjárlaganna. Við vonum fastlega, að hún reynist hallalaus afgreiðsla, en með henni eru úr sögunni öll veruleg fjárráð eða kannske öll fjárráð til stuðnings nauðsynjamála umfram það, sem búið var að ganga frá fyrir verkfallið. Þessi lausn þýðir auðvitað hærri skatta eða tolla í framtíðinni, en ella eða minna fé til verklegra framkvæmda og stuðnings framleiðslumálum og öðrum þjóðnytjamálum. Lausnin á verkfallinu þýðir það á þessu ári, að þjóðin tekur meira fé, en annars hefði orðið til neyzlu eða eyðslu og leggur minna til framkvæmda, því að hefði afgangur orðið á ríkisrekstrinum, hefði honum verið varið til framkvæmda og framleiðsluaukningar. Lausnin þýðir meiri neyzlu, en minni vinnu og minni framkvæmdir. Það fé er sem sé ekki tekið úr loftinu, sem fer til þess að borga niður verðlag á vörum. Menn skyldu varast að láta blekkja sig með því, að til séu einhver dularfull úrræði til þess að auka kaupgetuna. Það var hægt að lækka vísitöluna um 4 stig, um 21/2% eða svo, með því að leggja fram 12–13 millj. úr ríkissjóði, af því að það voru valdar úr þær vörur, sem tiltölulega ódýrast er að greiða niður, miðað við áhrif þeirra á vísitöluna, en ef halda ætti áfram á þeirri braut að taka fé af skatt- og tolltekjum ríkisins til þess, að landsmenn fái ódýrari vörur í búðunum, þá mundi vafalítið næst koma að vörum, þar sem það kostar 8 millj. eða svo að greiða niður verð, sem svarar einu vísitölustigi. Ef halda ætti áfram á þessari braut, yrði t.d. ekki lengi verið að nota í þess konar aukningu kaupgetunnar, sem auðvitað er engin aukning kaupgetunnar í raun og veru, þegar á heildina er litið, allt það fé, sem nú er varið til verklegra framkvæmda. Mér telst það vera rúml. 50 millj. kr., sem veittar verða til verklegra framkvæmda árið 1953. Ef allar fjárveitingar til verklegra framkvæmda væru þurrkaðar út og féð notað til þess að lækka verð í búðunum og auka kaupgetuna þannig, eins og það er kallað, þá væri hægt með því að lækka verðlag um 6–7 stig, eða um 3–4%, en auðvitað væri hér ekki um kaupgetuaukningu að ræða. Afleiðingin yrði sem sé atvinnuleysi og algerð kyrrstaða í opinberum framkvæmdum, og í þessu mundi víst engum finnast vera nein glóra. Að lokum fer þó svo, að ekkert verður eftir til verklegra framkvæmda, ef sífellt meira og meira af ríkistekjunum er látið ganga til þess að lækka verðlag í búðunum, nema skattar og tollar séu hækkaðir jafnóðum og niðurgreiðslurnar eru auknar.

Á fjárlagafrv. eru nú 28 millj. kr. til þess að greiða niður vöruverð. Verkfallslausnin bætir í raun réttri við 13 millj., og fer þá í þessa hringrás 41 millj. Horfur um lækkandi skatta og tolla batna ekki við svona ráðstafanir. Það held ég að sé hollt fyrir alla að gera sér ljóst. Það er ekki hægt að auka kaupgetu landsmanna almennt nema með aukinni framleiðslu, auknum afköstum eða bættu skipulagi í framleiðslu eða dreifingu. Það er mönnum hollt að hafa í huga, og þau orð, sem annað gefa í skyn, auðvitað til þess að reyna að afla sér vinsælda með þægilegum ósannindum, væru betur ósögð látin. Með slíku tali er grafið undan afkomu landsmanna. Þetta mál verður að ræða þannig, að menn skilji, hvað gerzt hefur, og menn verða að horfast í augu við veruleikann. Allt tal um, að hægt sé að lækka verðlag áfram eftir svona leiðum, er alveg út í bláinn, nema menn vilji hreinlega annaðhvort stórkostlegar tolla- og skattahækkanir eða stórfelldan niðurskurð verklegra framkvæmda og félagsmálalöggjafar og annarrar slíkrar þjónustu.

Þrátt fyrir þetta, sem ég nú hef sagt, tel ég, að réttara hafi verið í slíku öngþveiti sem málum hafði verið stefnt í að gera það, sem gert var, en að nú yrði almenn kauphækkun og gengislækkun strax á eftir.

Gagnlegasti þátturinn í lausn verkfallsmálsins er að mínum dómi hin nýja löggjöf um auknar fjölskyldubætur. Að sjálfsögðu er fjár til þeirra aflað með framlagi frá ríkinu, af skatta- og tolltekjum, og frá bæjarfélögum, atvinnurekendum og með iðgjöldum einstaklinga. En það þýðingarmikla við þetta atriði við lausn deilunnar er það, að fjölskyldubæturnar ganga til þeirra manna, sem mestan kostnað hafa við að framfleyta sér og sínum. Hér er um geysiþýðingarmikið mál að ræða, þegar þess er gætt t.d., hve atvinnurekstrinum gengur illa að standa undir því kaupi, sem menn þurfa að fá, ef þeir hafa fyrir fjölskyldu að sjá. Enn fremur er það vitað mál, að hafi menn atvinnu, þá er mönnum borgið með því kaupgjaldi og þeim tekjum, sem nú tíðkast, nema menn hafi fyrir börnum að sjá. Á barnaheimilum kreppir að, jafnvel þótt atvinnu vanti ekki. Þess vegna eru auknar fjölskyldubætur merkilegt nýmæli. Þessi þáttur í lausn deilunnar, sem þýðingarmestur mun reynast í framtíðinni, er alveg kominn frá ríkisstj. til lausnar málinu. Forustumenn verkfallsins minntust aldrei í sínum kröfum á þetta atriði sem nokkurt úrræði í þessu máli. Það er ástæða til þess að benda á í sambandi við fjölskyldubæturnar, að í hinni nýju löggjöf um þær verða ekkjum og ógiftum mæðrum ætlaðar fjölskyldubætur eins og öðrum, en hingað til hafa þær ekki fengið slíkar bætur, og er þar um réttlætismál að ræða.

Það er ekki laust við, að blöð stjórnarandstæðinga gefi í skyn, að hægt hefði verið að komast hjá verkfallinu, ef ríkisstj. hefði gert ofangreindar ráðstafanir s.l. sumar eða s.l. haust. En þetta er vitaskuld gert til þess að kenna ríkisstj. og þingmeirihlutanum, sem hana styður, um verkfallið. Það sjá hins vegar allir, að þetta fær með engu móti staðizt, heldur er þvert á móti augljóst af allri afstöðunni, að hefði ríkisstj. á s.l. hausti ákveðið að framkvæma verðlækkanir, sem numið hefðu 4 stigum til dæmis, með því að velja einstakar vísitöluvörur úr og borga þær niður með framlagi úr ríkissjóði, þá hefði slík framkvæmd, einhliða gerð af hendi ríkisstj., ekki verið þá að neinu metin af þeim, sem þá stóðu fyrir verkfallsundirbúningnum. Það hefði vitaskuld ekki heldur neinu breytt, þótt þar með hefði fylgt löggjöf um auknar fjölskyldubætur. Það sést vei á því, hvernig afstaðan var, að verkfallsforustan neitaði að fresta verkfallinu og taka upp sameiginlega athugun með ríkisstj. Það er augljóst mál, að það var ekki fyrr, en svo var komið, að forstöðumönnum verkfallsins var orðið það kappsmál að losna úr verkfallinu, koma vinnu af stað aftur, að niðurborgun um 4 vísitölustíg og fjölskyldubæturnar gat haft nokkra þýðingu í þessu máli, og þurfti þó að bæta við kauphækkunum, þ.e.a.s. hækkun á verðlagsuppbót, til þess að verkfallið leystist. En einmitt það, að verkfallið gat samt ekki orðið leyst nema með kauphækkunum, sýnir, að samningar á milli atvinnurekenda og verkamannasamtakanna þurftu að koma til og að ríkisstj. hafði því aldrei vald á þessu máli, þótt hún gæti haft þýðingarmikil áhrif á endalok deilunnar, þegar deiluaðilum var báðum orðið áhugamál að ráða málinu til lykta.

Ég hygg, að flestir hugsandi menn muni komast að þeirri niðurstöðu, að eina ráðið til þess að komast hjá bráðu fjárhagsöngþveiti hafi verið að halda á málinu í höfuðdráttum svo sem ríkisstj. gerði. Þá er það hugboð mitt, að þeir verði fáir, — eftir að glöggt sést, hvað var gert til þess að forðast annað verra, — sem liggja ríkisstj. á hálsi fyrir það að hafa ekki í sumar eða haust stigið fram og tekið á ríkissjóð 10–20 millj. kr. til þess að lækka vísitöluna um 4–5 stig og fá svo verkfallið samt sem áður í kaupbæti á eftir, verkfallið, sem þá óumflýjanlega hefði leitt til almennrar kauphækkunar með gengislækkun í kjölfarinu, blátt áfram af því, að þegar svo var komið, var ekkert svigrúm til þess að beina inn á aðrar brautir til lausnar verkfallinu.

Mér kæmi ekki á óvart, þótt þeir yrðu fleiri og fleiri, sem áhyggjur hefðu út af afleiðingum þess, að enn þá verða stóraukin útgjöld vegna dýrtíðarmála til þess að forðast annað verra, eins og það heitir og við köllum það, og fleiri og fleiri mundu spyrja sjálfa sig: Hvert er stéttapressan að leiða þjóðina?

Sumir tala um þetta allt eins og verkfallsvandamálið hafi verið leyst með himnabrauði, sem ríkisstj. hafi legið á og svikizt um að úthluta til þessa. Menn geta nú sannfærzt við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. um það, hver hæfa er í slíkum fullyrðingum.

Að lokum enn þá einu sinni: Aukin framleiðsla, aukin afköst og bætt skipulag í framleiðslu og dreifingu er eina leiðin til þess að bæta lífskjörin almennt og auka kaupgetuna almennt. Kaupgjaldið á og þarf að vera eins hátt og framleiðslan getur borið, en atvinna fyrir alla er það, sem mest á ríður til þess að skapa almenna velmegun.

Að lokum vil ég aðeins benda á eitt atriði, sem ekki snertir þetta beint, en þó í meira lagi. Ég hef reynt að leggja áherzlu á það í umræðum um fjárhagsmál undanfarið, hversu þýðingarmikið væri fyrir okkur að koma á jafnvægisbúskap, koma fjárhagsmálunum þannig fyrir, að verðlag gæti verið sem stöðugast og peningagengi sem stöðugast. Með því móti væri mest von um fjörmikið og öflugt atvinnulíf, mikla framleiðslu, batnandi lífskjör og aukinn sparnað, sem gæti verið grundvöllur mikilla framkvæmda og atvinnu handa öllum. Með þessu móti væri helzt von til þess, að úr rættist þeim vandræðum, sem við sífellt eigum við að búa vegna skorts á lánsfé t.d. Ég hef einnig bent á, að það er ekki að öllu leyti á valdi ríkisstj. eða Alþ. að koma jafnvægisbúskap á til nokkurrar frambúðar, þar sem ýmsir þættir í fjárhagsmálunum eru ekki ákvarðaðir af Alþ. eða ríkisstj., og má þar nefna í fremstu röð kaupgjaldsmálin, kaupgjaldið. Þótt Alþ. og ríkisstj. geri skynsamlegar ráðstafanir til þess að koma á jafnvægi í fjárhagsmálum, afgreiði greiðsluhallalaus fjárlög, útlán bankanna séu höfð heilbrigð og fjárfestingin miðuð við það fjármagn, sem raunverulega er til ráðstöfunar til þess að standa undir henni, þá mundu þessar ráðstafanir ekki nægja til þess að viðhalda stöðugu verðlagi og stöðugu gengi peninga, ef sterk almannasamtök, eins og t.d. samtök launafólksins, notuðu sitt mikla vald og sín miklu áhrif til þess að knýja fram hærri launagreiðslur, en framleiðslan gæti raunverulega borið. Væri það gert, þá hlyti þar af að leiða áframhaldandi verðbólgu, stöðugt hækkandi verðlag, hækkandi framleiðslukostnað og þar af leiðandi gengislækkanir. Á hinn bóginn mundi það ekki heldur nægja, þótt samtök launamanna miðuðu kaupgjaldsstefnu sína við að koma á og viðhalda jafnvægi í fjármálum, stöðugu verðlagi og stöðugu peningagengi, ef Alþ. og ríkisstj. fyrir sitt leyti gerðu ákvarðanir, sem kæmu alveg í bága við þá stefnu, t.d. með ábyrgðarlausri afgreiðslu fjárlaga og útlánapólitík, sem leiddi til verðþenslu og gengislækkunar. Af þessu sést glöggt, að hæpið er, svo að ekki sé meira sagt, að viðhaldið geti orðið jafnvægisbúskap, stöðugu verðiagi, stöðugu gengi peninga, nema því aðeins að bæði Alþ. og ríkisstj. og hin öflugu launamannasamtök miði ráðstafanir sínar við þetta markmið. Báðir eða allir þessir aðilar þurfa að sjá, að þetta mark verður að hafa fyrir augum, ef vel á að fara. Það er allra hagur, þjóðarnauðsyn, hvernig sem samstarfi þessara aðila að öðru leyti er háttað.