07.11.1952
Efri deild: 22. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

131. mál, sala jarðeigna í opinberri eigu

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég sé nú, að komið er hér frv. fram um að selja þessi tvö prestssetur, Kollafjarðarnes og Stað í Steingrímsfirði, og hefur þá rætzt sú spá, sem var spáð hér við umr. um prestakallaskipunina, að aðaláhugamál hæstv. ráðh. hefði verið að koma prestakallaskipuninni á til þess að fá leyfi til þess að selja þessar jarðir. Ég skal nú ekki ræða um það frekar.

Eins og kunnugt er, þá er nú ekki heimilt að selja jarðir, sem ríkissjóður á, nema fyrir fasteignamat, nema með sérstökum l., og fylgir þá sú kvöð, að halda verður jörðunum sem ættaróðulum. Að öðru leyti á ríkissjóður kröfu á því aftur að fá jarðirnar keyptar fyrir fasteignamat. Nú minntist hæstv. ráðh. á það hér, að það væri sett inn í l., að mat skyldi fara fram á þessum jörðum, áður en þær yrðu seldar, og geri ég ráð fyrir, að hann eigi þar við, að það verði miðað við það verðgildi, sem nú er eða á þeim tíma, sem jarðirnar verða seldar, en ekki við fasteignamat, og er þá brugðið út af því, sem gildir um aðrar jarðir ríkisins. Út af þessu vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hugsar sér, að þessar jarðir verði seldar kvaðalausar, þannig að viðkomandi kaupendur megi ráðstafa þeim síðar eins og sinni eign, án þess að fylgi þeirri eign sömu kvaðir eins og fylgja öðrum opinberum jörðum, sem ríkið selur. Þá vildi ég einnig mega spyrja hæstv. ráðh., hvort ekki væri eðlilegt, ef þessi háttur er tekinn upp, að selja jarðirnar eftir peningamati nú, og ef þær verði seldar kvaðalaust, sem mér nú helzt skilst að muni vera ætlunin, að þetta fé sé þá látið ganga til þess að byggja upp prestssetrin í þessum sóknum. Ég hygg, að eftir öðrum l. eigi söluverð opinberra jarða að renna í Ræktunarsjóðinn eða a.m.k. í einhverja aðra ákveðna sjóði í sambandi við landbúnaðinn. Er ekki ástæða til þess að láta andvirði þessara jarða beinlínis ganga til þess að byggja upp þau prestssetur, sem verður að veita fé til úr ríkissjóði til þess að koma upp í staðinn fyrir þau prestssetur, sem hér er hugsað að selja? Mér þykir því eðlilegt, að þetta hvort tveggja verði tekið beint upp í lagafrv., og vil einnig beina því til þeirrar hv. n., sem málið fær til meðferðar. Nú hefur hæstv. ráðh. ekki lagt til neina sérstaka n., en eftir eðli málsins hygg ég að þetta muni að venju ganga til hv. landbn. Annars gerir hann sjálfsagt um það tillögu.