30.01.1953
Neðri deild: 60. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (932)

184. mál, framkvæmdabanki Íslands

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. á þskj. 678, eins og ég hét við 2. umr. þessa máls.

Fyrsta brtt. er við 7. gr. og gengur út á það, að á eftir 1. tölul. komi nýr tölul., svo hljóðandi: „Að stuðla að því, að upp sé komið stóriðju í ríkiseign.“

Mér er það ljóst, enda er því haldið fram af hálfu hæstv. ríkisstj. og þeirra, sem mæla með þessum banka, að hans hlutverk eigi alveg sérstaklega að vera að taka erlend lán til þess að veita þannig erlendu lánsfé inn í landíð. Ég álit, að Alþ. eigi að marka frá upphafi þá stefnu í þessu sambandi að, að svo miklu leyti sem það eigi að vera hlutverk þessa banka að vinna að því að koma upp stóriðju á Íslandi, þá sé sú stóriðja í ríkiseign. Og það er í samræmi við þá stefnu, sem hingað til hefur ríkt í þessum efnum, og í samræmi við allar þær hugmyndir, sem verið hafa uppi um stóriðju á Íslandi fram til þessa. Ég álít þess vegna, að svo framarlega sem ekki eru uppi hér allt aðrar hugmyndir af hálfu flutningsmanna þessa máls heldur en þeir hafa látið í veðri vaka við umræðurnar fram að þessu, þá beri hv. þd.samþ. þessa till. mína.

Í b-lið legg ég svo til, að 3. liður í 7. gr. sé felldur burt.

3. töluliðurinn í 7. gr. er um, að þessi banki megi kaupa ný hlutabréf í fyrirtækjum, sem séu gagnleg þjóðarbúskapnum og arðvænleg að dómi bankastjórnarinnar. Þennan rétt hefur enginn annar banki á Íslandi, heldur en þessi. Og með því að veita þessum banka rétt til þess að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum einstaklinga er verið að gera bankann sérstaklega interesseraðan í ákveðnum fyrirtækjum og afnema þannig það almenna hlutleysi, sem maður hefur gengið út frá að væri hjá bankastjórum og bönkum gagnvart einstökum fyrirtækjum, gera sem sé bankann alveg sérstaklega bundinn ákveðnum fyrirtækjum í landinu. Nú sem stendur er bönkunum bannað að eiga hlutabréf, og það er sett af löggjafanum með það fyrir augum að hindra, að bankarnir fari að binda sig alveg sérstaklega einstökum fyrirtækjum þannig. Ég álít, að þetta eigi þess vegna að fella burt, það sé skaðlegt að hafa þetta ákvæði, vegna þess að það þýðir að tengja ríkisbanka á þennan hátt við sérstök auðfyrirtæki einstaklinga í landinu.

Þá legg ég til í þriðja lagi viðvíkjandi 7. gr., að sú breyting sé gerð þar á 8. tölul., sem nú skal greina. Þar segir, að bankinn skuli hafa samvinnu við einkaaðila, sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir, og veita þeim stuðning. Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram við umr. þessa máls, að þetta orð, „einkaaðila“, þýddi ekki bara hlutafélög og einstaklinga, það gæti líka þýtt samvinnufélög, bæjar- og sveitarfélög o.s.frv. Þetta vil ég gera gleggra. Ég er margbúinn að skora á hæstv. fjmrh. að leggja fram enska frumtextann að þessum l., leggja fram fyrirskipanirnar um að setja þessi l., eins og þær komu á ensku frá þeim amerísku sérfræðingum, sem hingað voru sendir, og sjá, hvað þar stendur og hvaða enskt orð er notað yfir „einkaaðila“, því að það er sjáanlega þýtt á íslenzku í þessu frv. Hæstv. ráðh. hefur ekki fengizt til þess. — Ég legg þess vegna til, að í staðinn fyrir þetta, „einkaaðila“, þá komi — og þá verði greinin þannig: „Að hafa samvinnu við opinbera aðila, jafnt ríkisstofnanir sem bæjar- og sveitarfélög, svo og samvinnufélög, hlutafélög og einstaklinga“, — svo kemur hitt áfram eins og nú er — „sem ráðast í arðvænlegar framkvæmdir, og veita þeim fyrirgreiðslu.“

Með þessu er allur vafi tekinn af um það, við hverja þessi banki á að hafa samstarf, að hann á ekki að taka hlutafélög og einstaklinga fram yfir t.d. samvinnufélög, bæjar- og sveitarfélög og ríkisstofnanir. Og atkvgr. um þessa breytingu sker alveg hreint úr um það, hver hugmyndin er með þessum banka.

Þá legg ég til viðvíkjandi 9. gr., að hún sé felld niður.

Það er ekki aðeins álit okkar sósialista hér í þessari hv. deild, það er líka álit bankastjórnar Landsbankans, að það sé undarlegt tiltæki að fara að heimila ráðherra að ábyrgjast fyrir hönd ríkissjóðs lán, án þess að Alþ. hafi hugmynd um, til hvers þau lán séu tekin. Það hefur aldrei tíðkazt áður. Og það, að Alþ. afsali sér svona rétti, er einsdæmi, algert einsdæmi. Og eins og ég hef tekið fram áður, ætla ég ekki neinum ráðh. það að hafa komið með svona af sjálfsdáðum. Þetta er lagt upp í hendurnar á þeim, þetta er í till. frá Alþjóðabankanum og eitt af þeim skilyrðum, sem þar eru. Og svona skilyrðum á Ísland ekki að ganga að.

Þá geri ég þá brtt. viðvíkjandi 10. gr., að hún falli niður.

Við 2. umr. málsins skoraði ég á hv. 3. landsk., sem er sá eini þm. í þessari hv. deild, sem hefur haft tækifæri til að fjalla um þetta mál, áður en það kom fyrir deildina, sem meðlimur í bankamálan., að gefa sína skýringu á því, hvernig hann hugsar sér þessa 10. gr. framkvæmda. Mér þætti vænt um að heyra, hvernig bankamálanefndin hefur litið á, að hægt væri að framfylgja tveim peningakerfum hér á Íslandi á sama tíma.

Þegar gengislækkunarlögin voru sett, þá var það beinlínis bannað að menn lánuðu út fé hér á Íslandi með því skilyrði, að það yrði greitt aftur til baka í hlutfalli við það gengi, sem íslenzk króna á þeim tíma hefði gagnvart sterlingspundi eða dollar. Nú á að leiða það í lög, að einn banki, einn af öllum íslenzku ríkisbönkunum, hafi rétt til þess að lána fé hér innanlands með þessari klásúlu, með þessum skilyrðum.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir það, að þessi banki fær alveg sérstöðu, alveg einstök sérréttindi fram yfir alla aðra banka á landinu. Og það er skiljanlegt, af hverju þessi sérréttindi stafa. Þau stafa af því, að hann á að vera eini bankinn, sem verður milliliður milli útlends auðmagns, útlends fjármagns og íslenzks. En þetta þýðir um leið, að hvert það fyrirtæki, sem leggur hér t.d. í einhverja stóriðju og fær lán hjá svona banka, verður um leið að fá sérstaka samninga við ríkisstj. til þess að tryggja sig á eftir út af verðhækkunum, þannig að það verður margföld sérréttindakeðja fyrir þau fyrirtæki, sem grundvölluð eru af þessum banka, sem af þessu hlýst í íslenzku atvinnulífi. Þetta er til þess að opna dyrnar fyrir því að skapa sérréttindi handa einstökum hlutafélögum í íslenzku atvinnulífi. Ákveðin hlutafélög skulu fá þarna sérstakan rétt, sérstaka aðstöðu, og það er alveg gefið, að þegar sérstökum félögum er veitt þetta, að svo miklu leyti sem áhætta væri í því fyrir þau, þá verður um leið séð um, að önnur félög gætu ekki fengið t.d. betri kjör, við skulum segja t.d., að önnur félög væru firrt gengislækkunarhættu.

Það er þess vegna alveg gefið, að þetta er sniðið við, að útlend fyrirtæki lána bankanum erlent fé til þess að leggja í innlend leppfyrirtæki viðkomandi erlends lánveitanda hér á landi. Aðeins undir slíkum kringumstæðum eru þessir hagsmunir og það öryggi fyrir hendi fyrir þann útlenda lánveitanda og hans innlenda lántakanda að geta rekið hér fyrirtæki með þessu móti. Það er þannig verið að skapa tvenns konar peningakerfi í landinu með þessu móti. Meira að segja þegar gengislækkunarl. eru framkvæmd, þá þykir þetta óhæft, og þá er þeim íslenzku fyrirtækjum, sem lánuðu út upp á þennan máta, bannað að framfylgja þeim skuldbindingum, sem þau höfðu látið menn undirskrifa, bannað með l. frá Alþ. að framfylgja þeim. Og ég vil vekja eftirtekt á því, að ef hægt hefur verið að banna það með gengislækkunarl., eins og þá var átt við með Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, býst ég við, þá er alveg eins hægt að banna þetta seinna meir án nokkurrar skaðabótaskyldu ríkisins.

Þetta eru í stuttu máli mínar brtt. viðvíkjandi Framkvæmdabankanum. Ég er áður búinn að gera till. um að fella hann og er honum andstæður. En ég vildi aðeins með þessu móti, að það væri gengið úr skugga um, hvort nokkrir möguleikar væru enn þá á því að lagfæra þessa bankastofnun, sem nú á að píska í gegnum þingið landinu til óþurftar.