02.03.1954
Efri deild: 55. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

12. mál, áfengislög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. um þetta mál hafði ég lagt fram yfir 20 brtt. á þskj. 50. Voru sumar hverjar af þessum till. samþ., en aðrar voru teknar aftur til 3. umr. Ég vil þá hefja mál mitt með því að lýsa því yfir, að allar þessar till., sem teknar voru aftur til 3. umr., eru hér með teknar aftur að fullu, en í stað þess hef ég borið fram hér á þskj. 405 þrjár brtt. ásamt hv. þm. Seyðf. Skal ég mæla nokkur orð fyrir þeim tillögum.

1. brtt. er við 12. gr. frv. og er í 4 stafliðum. Fyrsti stafliðurinn, a, er um, að stafliðurinn e falli niður úr 12. gr., en hann hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að eigi sé greitt þjórfé (þjónustugjald) af sölu áfengra drykkja né veitingahúsið launi starfsfólk sitt með hundraðsgjaldi af sölu þeirra.“

Við flm. leggjum til, að þessi málsgr. sé felld niður úr frv. Það er sýnilegt, að þó að þessi ákvæði verði lögfest, þá hafa þau ekki nein veruleg áhrif á þetta mál í framkvæmdinni. Það er sýnilegt, að það verður ómögulegt að fyrirbyggja með lögum, að þjónustufólk fái laun fyrir að bera fram þessar veitingar eins og hverjar aðrar, því að það er alveg víst, að þegar um er að ræða vöru, sem er ekki undir verðlagseftirliti, eins og hér um ræðir, þá er ekkert hægara fyrir veitingamanninn en að hækka verðið sem svarar þjónustugjaldinu, hækka það t.d. á hverri flösku eða hverju staupi, sem selt er. Kemur þá allt í sama stað niður að öðru leyti heldur en því, að með því að banna með lögum að leggja þjónustugjaldið á, þá kynni svo að fara, að ofan á þessa verðhækkun, sem að framan greinir, mundu þeir, sem kaupa veitingarnar, undir mörgum kringumstæðum einnig gefa þjórfé sjálfir einmitt vegna fyrirmæla laganna. Ég get ekki fallizt á, að það sé rökrétt hugsun að leyfa ekki þjónustugjald fyrir framreiðslu á veitingum, sem annars eru lögum samkvæmt leyfðar í veitingasölunum, hvort heldur um er að ræða áfenga drykki, óáfenga drykki eða mat. Væri hins vegar búið svo um hnútana, að veitingamaðurinn gæti á engan hátt hækkað verðið á veitingum þessum, mundi að sjálfsögðu við það skapast deila milli þessara tveggja aðila, sem væri ekki æskileg, og enda þá að sjálfsögðu með því, að þjónustugjaldið yrði stórkostlega hækkað á öðrum veitingum í sama veitingahúsi, svo sem mat og óáfengum drykkjum, og ekkert af þessu er æskilegt. Með tilvísun til þess, sem ég hef þegar skýrt frá, legg ég til ásamt hv. þm. Seyðf., að þessi liður úr 12. gr. verði felldur niður.

Tillagan undir b-lið er afleiðing af því, ef a-liður verður samþykktur, þar sem þá á ekki að vísa til e-liðar, sem þá þegar hefur verið felldur út úr greininni. Þarf ekki að ræða nánar um það.

C-liðurinn er einnig við 12. gr. og er um það, að orðin „svo og að ákveða, að dans megi ekki fara fram í þeim salarkynnum vínveitingahúsa, þar sem vín er veitt“ í 6. málsgr. falli niður. Ég sé engin frambærileg rök fyrir því, að fólki, sem kemur inn í 1. flokks veitingahús, en samkv. frv. eiga þau ein að fá vínveitingaleyfi, skuli bannað að stíga dans. Það væri sama sem, að ef öll 1. flokks veitingahús í bænum fengju vínveitingaleyfi, þá mætti enginn hafa dans um hönd á þeim stöðunum, þar sem þó eru bezt skilyrði til þess að halda uppi slíkum skemmtunum. Ég fæ ekki heldur skilið, að þetta hafi nokkur áhrif á vínveitingarnar út af fyrir sig. Menn drekka þó minna, á meðan þeir eru að dansa, heldur en er þeir sitja. Magnið, sem þeir drekka, getur því ekki aukizt við það að leyfa dans. Það er þess utan hægara að sjá á fólki, hvort það er ofurölvi, ef það hreyfir sig, heldur en ef það situr kyrrt, svo að mér sýnist einmitt, að þessi till stefni í öfuga átt. Þess vegna legg ég til ásamt hv. þm. Seyðf., að þetta verði fellt úr frv.

Þá er d-liðurinn. Sú till. er ný, þ.e., að á eftir fi. málsgr. komi ný málsgr., er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

Dómsmrh. skipar eftirlitsmann, einn eða fleiri, með öllum þeim veitingastöðum, er vinveitingaleyfi hafa, og skulu leyfishafar greiða laun eftirlitsmanns og allan kostnað af starfi hans eftir ákvörðun ráðherra. Eftirlitsmaðurinn skal gæta þess, að settum reglum sé í hvívetna fylgt um vínveitingar, og má stöðva þær, ef út af er brugðið, enda skal hann tafarlaust kæra öll brot, er hann verður áskynja um. Eftirlitsmaðurinn hefur heimild til aðgangs hvarvetna þar, sem vínveitingar fara fram samkv. þessari grein eða 20. gr. laga þessara.“

Þessi grein er tekin upp úr mínum till., orðuð nokkuð um úr fleiri en einni gr., þ.e., að fleiri en ein gr. úr mínum till. eru settar saman hér í eina nýja málsgr. Efnið er það sama, þ.e. að setja meira eftirlit en verið hefur með vínveitingum, og það tel ég eitt af höfuðatriðunum. Ég tel, að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá úr því skorið, hvort þær tilslakanir á veitingum í landinu, sem gerðar eru með samþykkt frv., bera hinn rétta árangur, þ.e. skapa meiri menningu í sambandi við víndrykkju en verið hefur. En til þess að svo megi verða, verður að fara saman það eftirlit, sem hér er lagt til að verði tekið upp annars vegar, og sú fræðsla, sem ákveðin er í frv. hins vegar. Þegar tímar liða fram, sést, hvort einmitt það að gefa fólkinu meira frelsi, upplýsa það betur og hafa samt eftirlit með því, að lögunum sé hlýtt, bæti ekki ástandið í áfengismáluhum frá því, sem nú er. Þá fæst úr því skorið, hvort það sé hin rétta stefna í þessum málum. Aðrar leiðir hafa þegar verið reyndar. Það hefur verið reynt hreint bann, sem hefur ekki náð þeim tilgangi, sem óskað hefur verið eftir. Það hafa verið reynd héraðsbönn. Það er almannarómur a.m.k., að það hafi ekki bætt um vínnautn á þeim stöðum, þar sem þau eru sett á, og því er lagt til, að farið verði hér inn á nýja braut, en til þess, eins og ég sagði áðan, að það sé hægt: að fá nokkurn verulegan árangur af því, þá er nauðsynlegt, að það fylgi hér bæði eftirlit og fræðsla. Þess utan er þetta eftirlit ekki á kostnað ríkissjóðs, heldur er það sett á kostnað þess veitingamanns, sem hefur fengið veitingaleyfi. Ég tel þá byrði ekki of þunga, því að það er, eins og ég hef tekið fram áður, ekkert hámarksverð, engin hámarksálagning á vini, veitingamaðurinn hefur leyfi til að setja á það hvaða verð sem honum sýnist, og honum ber þá og að sjálfsögðu skylda til, eftir að hafa fengið slík skilríki, að sjá um, að þeim lögum sé hlýtt, sem hann á að starfa undir í sambandi við þessi mál.

2. brtt. er við 28. gr. og er þannig, að við greinina bætist tvær nýjar málsgr., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Fræðslumálastjórninni skal skylt að sjá svo um, að skólarnir eigi þess jafnan kost að fá hentugar kennslubækur og kennslukvikmyndir, eftir því sem við á á hverju skólastigi.

Ráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fræðslu samkv. þessari gr., þ. á m. um fjölda kennslustunda í hverjum skóla.“

Þessar gr. báðar eru teknar upp úr mínum tili. á þskj. 50, nokkuð breyttar að orðalagi, en efnið er nákvæmlega það sama. Ég tel, að með þeim fyrirmælum, sem nú eru í frv. eins og það er á þskj. 402, og að viðbættum þeim fyrirmælum, sem hér eru í þessari 2. brtt. okkar á þskj. 405, séu ákvæði um fræðslu margfalt strangari og öruggari en þau eru í gildandi lögum. Með samþykkt þessara málsgr. er beinlínis fyrir mælt í lögunum, að það á að kenna þessar greinar í skólum landsins og það á að setja reglugerð um kennslubækur og kennslukvikmyndir og .um hve margar kennslustundir skuli vera í hverjum skóla, en þetta er ekki ákveðið nú í gildandi lögum. Þess er vænzt, að hæstv. menntmrh., sem að sjálfsögðu á að sjá um framkvæmd þessara mála, beiti til hins ýtrasta þeim fyrirmælum, sem hér eru sett inn í lögin, því að svo bezt verður varizt því böli, sem samfara er frjálsari drykkju í landinu, að þar sé gætt einnig þess hlutans að fræða fólkið og ekki hvað sízt unglingana í landinu. Það er mín bjargföst skoðun, að með nægilega róttækri fræðslu í skólum landsins, ekki einungis á lægsta skólastigi, heldur á öllum skólastigunum, allt upp til háskólans, um vínnautn almennt, ekki einungis um áhrif hennar á líkama mannsins og sál, heldur og um áhrif hennar á þjóðfélagið í heild, sé hægt að skapa það almenningsálit, sem þarf til þess, að hér geti orðið einhver breyting á til batnaðar.

Síðasta brtt. okkar er við 49. gr., þ.e., að lög þessi öðlist þegar gildi, en eins og frv. er nú, er ætlazt til þess, að lögin öðlist gildi 1. jan. 1954. Sá tími er liðinn, og þarf því að sjálfsögðu að breyta þessari grein.

Verði þessar brtt. samþykktar, sem ég þegar hef lýst, og frv. að öðru leyti óbreytt, þá mun ég fylgja þessu máli út úr þessari hv. deild í trausti þess, að það fáist þá úr því skorið, ef það verður einnig samþykkt þannig í hv. Nd., hvort hin nýja leið, sem mörkuð er með þessu frv., verður ekki heilladrýgri en hinar, sem reyndar hafa verið hingað til og allar hafa meira og minna brugðizt. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þessar till. nánar.